19.12.1968
Efri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

14. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur af nál. 220, er hv. samgmn. sammála um að mæla með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir. Aðalefnisbreytingin í frv. er sú, að svo kallað tryggingarfé í rekstri ferðaskrifstofa er hækkað úr 350 þús. í 1.5 millj. kr. Þetta er mjög eðlilegt, þegar litið er á það, að starfsemi í ferðamálum fer mjög vaxandi og ferðaskrifstofur taka að sér miklu stærri hópa og senda þá í langar ferðir, og það er vitað mál, að þegar allar greiðslur eru lagðar inn í gegnum ferðaskrifstofu, þá verður öll starfsemi hjá ferðaskrifstofunni að vera 100% trygg, annars getur illa farið, og því miður eru tvö dæmi þess hér, að miður hefur tekizt, sem bakað hefur Íslandi neikvætt álit út á við.

Til þess að koma í veg fyrir slíka þróun, er eðlilegt að setja nokkuð hærri upphæð í tryggingarfé en var, og ég tel þess vegna þetta spor í rétta átt að hækka úr 350 þús. upp í 1.5 millj. umrætt tryggingarfé.

Að öðru leyti þarf ekki að fara mörgum orðum um frv., það skýrir sig sjálft.