28.10.1968
Efri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

31. mál, ungmennahús

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj 31 hef ég leyft mér að flytja frv. um ungmennahús.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að byggt verði ungmennahús í Reykjavík fyrir skemmtanir æskufólks og haft verði samráð við Æskulýðsráð Reykjavíkur um stærð hússins og fyrirkomulag.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að þar megi aðeins fara fram skemmtanir, sem séu hollar og þroskavænlegar fyrir æskufólk, og skulu þær vera undanþegnar skemmtanaskatti.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því, að áfengisneyzla í slíku húsi sé algerlega bönnuð.

Í 4. gr. segir, að stofnkostnað hússins, svo og tæki og áhöld, sem þar þurfa að vera, greiði ríkissjóður að hálfu og Reykjavíkurborg að hálfu.

Í 5. gr. er svo gert ráð fyrir því, að ef um rekstrarhalla sé að ræða, skuli hann greiðast af sömu aðilum og byggðu húsið.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að stjórn ungmennahúss sé falin Æskulýðsráði Reykjavíkur.

Ég flutti sams konar frv. hér fyrir tveim árum, á þinginu 1966. Ég flutti þá allítarlega framsöguræðu fyrir þessu máli og ætla að leyfa mér að vísa að mestu leyti til hennar um þetta. Ég vil þó aðeins rifja það upp hér, að enn þá er svo ástatt hér í borginni, þrátt fyrir nokkrar breytingar, sem ég mun koma að síðar, að það er skortur á aðstöðu ungra manna og kvenna til hollra skemmtana og leika. Hins vegar er enginn skortur á vínveitingahúsum, eins og allir vita. Þau munu vera 12 hér í borginni og því sæmilega séð fyrir þeim þætti, en ekkert hús, eins og stendur, sem hentar því unga fólki, sem þetta frv. er sérstaklega flutt út af.

Það er gert ráð fyrir því, að stjórn þessa húss og ákvörðun um meðferð og fyrirkomulag verði tekin í samráði við Æskulýðsráð Reykjavíkur og einnig, að stjórn hússins verði undir þess höndum. Það hefur sýnt sig bæði hér og annars staðar, að það er heppilegasta fyrirkomulagið, að þetta unga fólk hafi sjálft sem mesta stjórn á þessum málum, og ég vil taka það sérstaklega fram hér, að í Æskulýðsráði Reykjavíkur er nú mikill þróttur. Það er unnið þar vel að þessum málum, og ég tel sjálfsagt, að ef af svona byggingu yrði í samvinnu ríkis og borgar, yrði það einn hlekkur í starfsemi og uppbyggingu Æskulýðsráðs. Það er vitanlegt, að margt fleira þarf að gera til að bæta aðstöðu ungs fólks til hollra skemmtana og tómstundaiðkana. Það hefur oft verið talað um, að hér þyrfti að reisa t. d. skautahöll í borginni. Það þarf að koma upp fleiri skautasvellum líka en til eru. Það þarf að bæta alla aðstöðu til íþróttaiðkana. Að þessu er náttúrlega verið að vinna, en það gengur hægt. Borgin vex ört og varla haldið í með þessa þætti.

Ég vil sérstaklega minnast á það hér, að ég held, að það hafi verið í fyrra, sem þessi mál voru talsvert rædd í borgarstjórn Reykjavíkur í sambandi við skýrslu, sem Æskulýðsráð birti þá um starfsemi sína, og þá kom það mjög glöggt fram, að það er mikill og samstæður vilji allra flokka í borgarstjórn fyrir því að ná samstarfi við ríkisvaldið um starfrækslu og byggingu slíkra húsa. Það er raunar kunnara en rekja þurfi, að það er ekki borgin og hennar yfirvöld ein, sem eiga mikið undir því, að uppeldi æskulýðsins takist vel. Það getur bakað ríkinu mjög mikinn kostnað, fé og fyrirhöfn, ef þessi mál takast illa og þau fara í þann ólestur, að slys leiði af. En því hef ég minnzt á samvinnu ríkisins og Reykjavíkurborgar sérstaklega og gert það eitt að efni þessa frv., að við verðum að átta okkur á því, að í Reykjavík einni er fyrsti vísirinn að stórborgarlífi, sem hér er fyrir hendi. Við erum stoltir, þegar við sýnum skýjakljúfana, háhýsin, fínu veitingastaðina, sem eru ætlaðir fullorðna fólkinu og gestunum, þá þykir okkur við vera menn með mönnum í stórri borg, en við verðum líka að gera okkur það ljóst, að þeirri vegsemd fylgir mikill vandi og þá ekki hvað sízt sá að ala upp heilbrigt og hamingjusamt æskufólk.

Ég minntist á það áðan, að viðhorfin væru nokkuð önnur nú heldur en þau voru, þegar ég gerði þetta mál hér síðast að umtalsefni. Það, sem fyrst og fremst veldur þeirri breyt., er það, að borgarsjóður Reykjavíkur fékk fyrir nokkru keypt veitingahúsið Lídó fyrir tæpar 12 millj. kr. í því skyni að afhenda það Æskulýðsráði Reykjavíkur til stjórnar og starfrækslu. Þessu húsi þarf nokkuð að breyta. Eins og kunnugt er, eru aðalhúsakynnin þarna einn stór salur um 400 m2. Þessu þarf að breyta. Það þarf að innrétta þarna, skipta þessu þannig, að það verði nothæft fyrir marga hópa, sem þar eiga að geta verið samtímis. Og ég hygg, að nú þegar hafi verið hafizt handa um nauðsynlegar breytingar þarna. Og eftir því, sem mér er tjáð, getur starfsemin í Lídó byrjað í des. eða í janúarmánuði n. k. Það er auðvitað augljóst, að hér er um mjög mikla breytingu til bóta á starfsemi Æskulýðsráðs að ræða, en hins vegar engin fullnaðarlausn. Þó að þessi húsakynni séu ekki til fullnustu og ekki eins vel til starfrækslunnar fallin og það hús, sem byggt væri til slíkrar starfsemi, þá hygg ég, að með lagfæringum geti þau orðið góð.

Annað, sem gerzt hefur í þessum málum, er svo það, að nú er búið að selja húsið Fríkirkjuveg 11, þar sem Æskulýðsráð hefur haft miðstöð starfsemi sinnar, en einhver dráttur mun nú verða á framkvæmdum þar hjá hinum nýja eiganda, og þess vegna liggur það fyrir, að a. m. k. í vetur getur farið fram starfræksla á vegum Æskulýðsráðs, eins og verið hefur að undanförnu, en þar hefur verið bækistöð ráðsins og allumfangsmikil og myndarleg starfsemi.

Í Tjarnargötu 10–12 eða gamla Tjarnarbæ eru ráðgerðar breytingar. Þessi lóð er ætluð Æskulýðsráði til að byggja þar nýtt hús, og borgarstjórn hefur farið inn á þá sjálfsögðu leið að mínum dómi að efna til samkeppni meðal arkitekta um þetta verkefni. Sú samkeppni stendur nú yfir, og henni mun ljúka í janúarmánuði n. k. Ætti því að verða hægt að fullteikna þetta hús á árinu 1969, hvernig svo sem gengur nú um fjármagn til þess að reisa húsið.

Þegar ég talaði síðast fyrir þessu máli, lagði ég sérstaka áherzlu á það, að ég væri ekki að hugsa um neina höll. Það var einu sinni mikið talað hér um æskulýðshöll í Reykjavík, en það er ekki sú hugmynd, sem hér er verið að koma á framfæri, heldur minna húsnæði til að dreifa starfseminni. Þetta fer alveg saman við hugmyndir, sem komu fram hjá formanni Æskulýðsráðs Reykjavíkur í samtali, sem ég átti við hann um daginn. Það er skoðun hans og ráðsins, eins og mín, að það sé ekki affarasælt að stefna alltof mörgum ungmennum saman í einn stað, við höfum svolitla reynslu af því, þegar hér var t. d. ein áramótabrenna o. s. frv. Með dreifingunni batnaði öll aðstaða til þess að fylgjast með þessum skemmtunum eða samkomum og þær fóru miklu betur fram. Það er einmitt liður í því, sem ég er hér að tala fyrir, að dreifa þessum æskulýðshúsum um borgina.

Það kom fram hjá formanni Æskulýðsráðs, að hann hafði hugsað sér, að fyrir utan Lídó og Tjarnarbæ, sem eru framtíðarheimili fyrir þessa starfsemi, þyrfti að reisa eitt tómstundaheimili í Breiðholti og tryggja æskulýðshreyfingunni meiri afnot af Laugardalshöllinni í samráði við íþróttafélögin.

Það er mjög sennilegt, að aðrir kaupstaðir en Reykjavík þurfi að koma upp einhverri aðstöðu hjá sér í þessu sama skyni. Þá gæti vissulega komið til greina, og ég vil undirstrika það hér, að breyta þessu frv. þannig, að það tæki til byggingar ungmennahúsa almennt í stað þess að fjalla aðeins um reykvískar aðstæður, eins og það gerir nú. Það mætti t. d. hugsa sér, að ríkið greiddi helming af stofnkostnaði slíkra húsa, en reksturinn hvíldi á bæjarfélögunum einum, svipað því, sem gildir um félagsheimilin utan þéttbýlisstaðanna. Þetta kæmi allt saman mjög til athugunar að mínum dómi. Því fer víðs fjarri, að ég telji mig hafa með frv. þessu fundið hina einu réttu leið. Ég er fyrir mitt leyti mjög opinn fyrir hverjum þeim breytingum, sem fram kunna að koma í nefnd, eða þá í formi brtt. Fyrir mér vakir það eitt að hreyfa þessu máli.

Ég tel rétt, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, að minna á það, að fleiri aðilar en Æskulýðsráð og borgaryfirvöld hafa hér nokkra tilburði til þess að greiða úr þessum málum. Templarar hafa t. d. komið upp myndarlegu húsi við Eiríksgötu. Þar hafa þeir í kjallaranum innréttað skemmtistað fyrir ungt fólk. En eftir því, sem mér var tjáð í samtali í morgun, gengur þessi rekstur fremur örðuglega vegna fjárskorts. Á 1. hæð í Templarahöllinni er óinnréttað húsnæði, og nú alveg nýverið eru hafnar viðræður milli Æskulýðsráðs og eiganda þessa húss um nýtt fyrirkomulag á starfseminni þarna með samræmingu á tómstundastarfi ungmenna í borginni fyrir augum. Þá hefur undanfarið verið haldið uppi nokkurri starfsemi fyrir ungt fólk, aðallega 18 ára og yngra, í Breiðfirðingabúð, og þar hafa verið skemmtanir án áfengis, sem hafa verið allvel sóttar, en vegna takmarkana í lögreglusamþykkt borgarinnar hefur ekki verið fært að hleypa þar inn yngra fólki en 16 ára, sem hefur orðið til þess, að margt yngra fólk hefur orðið þar frá að hverfa við mikla og vaxandi óánægju.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að tefja hv. dm. á lengri framsögu um þetta mál en orðið er. Mér er það vitanlega ljóst, að á erfiðleikatímum þarf nokkurt hugrekki, kannske kjark til þess að fara fram á fjárveitingar úr ríkissjóði til nýrra framkvæmda, en ég held, að hvort tveggja sé hér, að um mikið og brýnt mál sé að ræða og svo hitt, að Róm var ekki byggð á einum degi, og allt krefst þetta nokkurs undirbúnings, og þess vegna vona ég, að það sé, þrátt fyrir allt tímabært að hreyfa þessu máli.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.