29.10.1968
Efri deild: 7. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

33. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að starfsemi banka er nauðsynleg og óhjákvæmileg í nútímaþjóðfélagi, og þegar erfiðleikar steðja að atvinnuvegum landsmanna, er það eitt af því, sem þykir miklu skipta, að þeir geti átt kost á hagkvæmum lánum.

Á undanförnum árum hefur verið keppt að því, að hver atvinnuvegur um sig ætti sem greiðasta leið að lánastarfsemi, og nú er svo komið, að allir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar hafa hver sinn banka, auk Landsbankans, sem meira og minna styður alla aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. samkv. opinberum skýrslum er talið, að heildarútlán banka og sparisjóða hafi numið á miðju þessu ári rúmum 11 milljörðum króna, og almenningur sér, að bankarnir hafa haft tök á að færast allmikið í fang á undanförnum árum, fjárfesting þeirra er mikil. mörgum útibúum hefur verið komið á fót o. s. frv.

Búnaðarbankinn er ein þeirra stofnana, sem hefur tekið örum vexti á undanförnum árum. Í riti, sem Búnaðarbankinn gefur út og hefur að geyma reikninga og skýrslu um starfsemi Búnaðarbankans á árinu 1967, er sýnt bæði í máli og myndum, hvað þróun Búnaðarbankans hefur verið ör. En Búnaðarbankanum er skipt í deildir og þó að vöxtur og velgengni bankastofnunarinnar í heild hafi verið allmikil, er þar mjög misskipt um hinar einstöku deildir bankans. Veðdeild Búnaðarbankans er jafngömul stofnuninni sjálfri, því að ákvæðið um veðdeild bankans mun hafa verið sett í fyrstu löggjöfina, sem um Búnaðarbankann gilti. Í lögunum segir, að hlutverk veðdeildar Búnaðarbankans sé m. a. þetta :

1. Að veita lán gegn veði í jörðum og hvers konar fasteignum, sem ætlaðar eru til framleiðslu landbúnaðarafurða eða til almenningsnota í sveitum landsins.

2. Aðveita lán bæjar-, sýslu- eða sveitarfélögum eða lán tryggð með ábyrgð þeirra, að áskildu samþykki æðri stjórnarvalda, enda sé lánið ætlað til jarðræktar, búrekstrar eða til einhvers fyrirtækis til almenningsheilla í sveitum.

Skv. skýrslu Búnaðarbankans fyrir s. l. ár námu tekjur viðskiptabankans með öllum útibúum samtals 173.8 millj. kr. 1967 á móti 148.5 millj. kr. 1966 og höfðu hækkað um 25.3 millj. eða 17%. Tekjuafgangur varð á s. l. ári hjá bankastofnuninni í heild 10.1 millj. kr., en 8.7 millj. 1966 og hafði hann hækkað um 1,4 millj. Heildarinnlán allra bankanna voru í árslok 1967 samkv. þessari skýrslu 8011.7 millj. kr., og höfðu aukizt samtals um 385.7 millj. kr. Þar af var aukning Búnaðarbankans 190.2 millj. eða um 49.3% af heildaraukningunni.

Heildarútlán Búnaðarbankans með öllum útibúum, þar með taldir endurseldir afurðavíxlar og lán til framkvæmdaáætlunar ríkisstj., námu 1 milljarði og 500 millj. í árslok 1967, en voru 1 milljarður 267;5 millj. í árslok 1966, og höfðu því hækkað á árinu um 233.2 millj. eða 18.4%.

Af þessu er auðsætt, að þegar lítið er á Búnaðarbankann í heild, er velgengni hans sem betur fer allmikil og verulegur vöxtur á heildarstarfseminni. En ef litið er svo á einstakar deildir bankans, er það að segja um stofnlánadeildina, að lánveitingar stofnlánadeildar landbúnaðarins námu samtals 134.2 millj. kr. á árinu 1967, en höfðu verið 146.7 millj. á árinu 1966. Það varð lítils háttar lækkun á útlánum stofnlánadeildarinnar á árinu 1967. En lítum nú á veðdeildina. Lánveitingar veðdeildar námu samtals á árinu 1967 12.5 millj. kr., en einungis 3.1 millj. árið 1966, höfðu að vísu hækkað um 9.4 millj. á árinu 1967, en komust samt sem áður ekki nema í 12:5 millj., eins og ég áðan sagði. En þessu fé var miðlað þannig, að veitt lán til bænda voru 111 úr veðdeild 1967, en höfðu verið aðeins 40 á árinu 1966. Hér segir enn fremur, að heildarlán veðdeildar frá því að hún hóf starfsemi námu í árslok 1967 121.4 millj. kr. Rekstrarhalli veðdeildarinnar á árinu 1967 var 1.2 millj. kr. á móti 1.4 millj. 1966. Varasjóður var 7,8 millj. í árslok 1967 á móti 9 millj. kr. við árslak 1966 og hafði því lækkað um rekstrarhallann, en þessi halli stafar af miklum og vaxtaháum skuldum veðdeildarinnar.

Ég ætla, að þessi stuttorða grg., þessar fáu staðreyndir, sem ég hef bent á og eru samkv. skýrslu Búnaðarbankans sjálfs, sýni nokkuð athyglisverða mynd af þessu máli. Þrátt fyrir hin takmörkuðu útlán veðdeildarinnar, er samt rekstrarhalli á reikningum deildarinnar, og það er sérstaklega tekið fram, að þessi rekstrarhalli stafi af miklum og vaxtaháum skuldum. Það er eftirtektarvert, þegar skýrsla bankans er athuguð, að það er mjög mikill munur á lánveitingum stofnlánadeildar annars vegar og veðdeildar hins vegar. Svo kann að virðast í fljótu bragði, að þessar deildir bankans gegni svo misjöfnum hlutverkum, að þetta sé í sjálfu sér eðlilegt. En ég vil leyfa mér að benda á það, að nokkurt samhengi hlýtur að vera þarna á milli. Lánum úr stofnlánadeild er varið til þess að greiða að nokkrum hluta framkvæmdir á bújörðum í sveitum og eftir því, sem meira er lagt í framkvæmdir á hverri jörð, eftir því vex það verðmæti — hið raunverulega verðmæti, sem í fasteigninni er fólgið. Nú eru lán úr stofnlánadeildinni þó ekki nema nokkur hluti af hinni raunverulegu fjármunamyndun, því að framlag bóndans er mjög mikið í þessu sambandi, eins og við allir þekkjum. En Búnaðarbankinn hefur nú starfað hátt á fjórða áratug, og það er ekki hægt fremur í landbúnaði en í öðrum atvinnugreinum að miða löggjöfina við það, að það sé ein og sama kynslóðin, sem alltaf stundar framleiðslustörf. Löggjöfin verður að taka tillit til þess, að það er óhjákvæmilegt, að nokkur eignahreyfing eigi sér stað í hverri atvinnugrein, og þannig hlýtur það að vera meðal bændastéttarinnar, eins og í öðrum þjóðfélagsstéttum, og sú kynslóð, sem hóf störf eftir að Búnaðarbankinn var stofnaður og naut þeirra lánakjara til bygginga og ræktunar í sveitum, sem sú löggjöf ákvað, sú kynslóð er vitanlega komin á efri ár, og það er ekki hægt að búast við öðru en að aðrir yngri menn verði að taka við fasteignunum og framleiðslustarfseminni, ef ekki á að verða stöðnun í atvinnugreininni í heild. En þegar að því kemur, að fasteignir í sveitum gangi kaupum og sölum, er það hlutverk veðdeildar Búnaðarbankans að koma til aðstoðar með lánveitingar, en eins og ég hef bent á samkv. skýrslu Búnaðarbankans, skortir veðdeild Búnaðarbankans gjörsamlega fjárráð til þess að annast þetta, eins og nú er.

Það kemur fram í þessari skýrslu, að hinu mjög takmarkaða fé veðdeildarinnar var þó miðlað til 111 lána á árinu 1967, en einungis 40 lán veitt úr veðdeildinni 1966. Þessi tala sýnir, að eftirspurn eftir veðdeildarlánum er veruleg, og þegar annars vegar er lítið á fjölda lánanna, sem veitt voru, og hins vegar fjárráðin, sem til ráðstöfunar voru hjá veðdeildinni, er það augljóst, að lánshæð hvers lántakanda hefur verið mjög lág, enda var það svo til skamms tíma, að hámark lána úr veðdeild Búnaðarbankans voru einar 100 þús. kr. Stéttarsamband bænda átti hlut að því í samningum við ríkisstjórnina fyrir nokkru, að þetta hámark yrði hækkað upp í 200 þús. kr., og ég ætla, að það sé svo ákveðið nú, að hámarkslán úr veðdeild út á eina fasteign í sveit, hversu verðmikil, sem hún er, megi nema 200 þús. kr. Þetta er í engu samræmi við hæð lána á ýmsum öðrum sviðum, hvort sem við lítum til sjávarútvegsins um lán til skipakaupa eða lánveitingar til íbúðabygginga, hvort sem er í sveit eða í þéttbýli. Þó að þau lán þyki enn af skornum skammti, eru þau þó miklum mun ríflegri heldur en það, sem kostur er á að fá úr veðdeild Búnaðarbankans.

Áhrifin af þessu hljóta að verða þau, að þótt efnalitlir menn óski þess að geta hafið framleiðslustörf í sveitum og keypt þær fasteignir, sem í boði eru, eiga þeir ekki kost á fjármagni til stuðnings því. Þetta getur bitnað mjög harkalega á öldruðu fólki, sem búið er að verja ævistarfi sínu við framleiðslu í sveitum landsins, en þarf annaðhvort að hverfa frá erfiðisvinnu eða breyta um atvinnu og þarf að koma fasteignum sínum í verð. Þetta getur leitt til þess, að fasteignir í sveitum, sem í sjálfu sér eru mikils virði og ættu að vera eftirsóknarverðar, gangi alls ekki kaupum og sölum, og jafnvel að, jarðir fari í eyði, en um leið er að því mikill hnekkir fyrir þau sveitarfélög, sem í hlut eiga. Það, sem er því aðalatriði þessa máls, er að finna leiðir til þess að auka að mjög miklum mun fjárráð veðdeildar Búnaðarbankans þannig, að hún geti gegnt því hlutverki, sem henni er með lögum falið, og hlaupið undir bagga á því sviði, sem hér um ræðir. Vitanlega geta ýmsar leiðir komið til greina til þess að ná því marki að auka fjárráð veðdeildarinnar, en við flm. þessa frv. gerum um þetta ákveðnar till. í frv. Við leggjum til að veðdeildin fái árlegt framlag frá ríkissjóði, 20 millj. kr. Enn fremur, að stofnlánadeild landbúnaðarins greiði til veðdeildarinnar árlegt framlag. Það er heimild til þess í 13. gr. l. um stofnlánadeild, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, en eins og þetta ákvæði er orðað í frv. okkar, yrði það ekki lengur heimild, heldur skylda.

Þá tökum við það upp, að framlag samkv. lögum um skatta á stóreignir renni til veðdeildarinnar, svo og vaxtatekjur. Til viðbótar þessu leggjum við til í frv., að Seðlabanka Íslands sé skylt, ef ríkisstj. óskar þess, að lána veðdeild Búnaðarbankans nauðsynlega fjárupphæð vegna starfsemi hennar, allt að 100 millj. kr. gegn 6% vöxtum. Veðdeildin skal endurgreiða Seðlabankanum lán þetta með jöfnum afborgunum á 20 árum, en ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar veðdeildarinnar gagnvart Seðlabankanum.

Í sambandi við þetta ákvæði vildi ég geta þess, að það eru fordæmi fyrir lagaákvæði sem þessu frá liðnum tíma. Ég skal ekki segja, hvað það var mikið notað, en alveg hliðstætt ákvæði og þetta stóð í lögum um nokkurt árabil. Og í þessu sambandi vil ég enn fremur taka fram, að með þeirri bindingu sparifjár, sem Seðlabankinn hefur framkvæmt á undanförnum árum, á þessi fjárhæð ekki að vera ofraun fyrir Seðlabankann. Það kemur fram í skýrslu Búnaðarbankans, sem ég vitnaði til um ýmis atriði hér fyrr í minni ræðu, að bundin innstæða Búnaðarbankans í Seðlabankanum var við árslok 1967 300.3 millj. kr. Jafnframt því, að þessir tekjustofnar eru lagðir veðdeildinni til, gerum við ráð fyrir, að veðdeild Búnaðarbankans verði heimilt að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa og að bankavaxtabréf þessi verði notuð til þess að greiða fyrir lánveitingum vegna jarðakaupa, ef annað fé veðdeildarinnar nægir ekki til þess að fullnægja eftirspurn lána. Hér er gert ráð fyrir í frv., að lán vegna jarðakaupa megi nema allt að 70% virðingarverðs fasteignar, og lánstími verði allt að 40 ár. Lán vegna jarðakaupa verði afborgunarlaus fyrstu 2 árin og vextir eigi hærri en 4%. En það er tekið fram í grg., að hugsun okkar flm. er sú, að í framkvæmd verði miðað við það, að tekið verði tillit til lána úr stofnlánadeild Búnaðarbankans, sem á hlutaðeigandi jörð hvíla og veitt hafa verið til bygginga eða ræktunar, þannig að lán úr veðdeild megi lækka miðað við það hlutfall virðingarverðs, sem ég áðan greindi frá, sem stofnlánadeildarlánunum nemur.

Ég hef nú með þessum fáu orðum sýnt fram á, að veðdeildin er ekki sökum fjárskorts fær um að gegna því hlutverki sómasamlega, sem henni er ætlað samkv. lögum, að þetta veldur mörgum einstaklingum miklum erfiðleikum og er að vissu leyti hnekkir fyrir ýmis sveitarfélög, að veðdeildin þarf að fá stórauknar tekjur. Þó að þau ákvæði, sem í frv. greinir, myndu valda mikilli breytingu á þessu takmarkaða sviði, ei að lögum yrðu, er hér ekki um vandasamt eða mjög stórt fjárhagsmál að ræða, ef litið er til þjóðarbúskaparins í heild, og það ætti þess vegna að vera tiltölulega auðvelt úrlausnar. Þetta eru allt saman staðreyndir, sem eiga að liggja alveg ljóst fyrir öllum hv. þdm. Í þessu frv., sem við þm. Framsfl. hér í þessari hv. d. erum flutningsmenn að, felast, eins og ég sagði, ákveðnar till. um að koma breytingu til bóta á í þessu máli. Það er vitanlega sjálfsagt í sambandi við þetta mál, eins og öll önnur mál. að taka tillit til brtt., sem fram kynnu að koma. Í þessum till. felast engir úrslitakostir af okkar hálfu, þó að við vekjum með þeim sérstaka athygli á þessu vandamáli, en hér er um bankamál að ræða, og ég tel, að eftir eðli málsins eigi hv. fjhn. að fá það til athugunar. En ég get ekki komizt hjá að minna á, að reynsla okkar af hv. fjhn. þessarar d., einmitt í sambandi við þetta mál, er því miður ekki góð. Við höfum sýnt sams konar eða mjög svipaðar till. hér oftar í þessari hv. d. þær hafa legið til athugunar hjá hv. fjhn. vikum og mánuðum saman og n. annaðhvort ekki unnizt tími til eða þó líklega fremur ekki kært sig um að skila um málið nál., hvað þá að það kæmist lengra. Þetta eru alveg óhæf vinnubrögð, því að þn. eru til þess settar, að þær íhugi þau málefni, sem fram eru borin og til þeirra er vísað, hvort svo sem þau ná að fá lögfestingu eða ekki. Það kemur aftur undir valdsvið þingdeildanna í heild. En það má segja, að það sé aldrei örvænt um bata enginn örvænta skyldi, að þn. kunni að bæta ráð sitt, svo að mér finnst nú enn eftir eðli málsins, að það sé rétt að leggja það til, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.