10.12.1968
Efri deild: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

102. mál, heilsuverndarlög

Flm. (Björgvin Salómonsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 44 18. maí 1955, um heilsuvernd.

Í heilsuverndarlögunum er kveðið á um stofnkostnað og rekstur heilsuverndarstöðva og einnig hvaða þættir almennrar heilsugæzlu falla undir þá starfsemi. Samkv. lögunum er gert ráð fyrir byggingu og rekstri sérstakra heilsuverndarstöðva í þessu skyni, og er það fyrirkomulag vissulega æskilegast, þar sem því verður við komið. Það er hins vegar nokkuð augljóst mál, að fullkomnar heilsuverndarstöðvar verða einungis starfræktar í stærstu kaupstöðum landsins, eins og raunin hefur á orðið. Engum mun hins vegar koma til hugar, að þessi þjónusta sé ekki einnig brýn nauðsyn úti á landsbyggðinni, jafnt í bæjum og sveitum. Þar hlýtur heilsuverndin, — að svo miklu leyti, sem um hana getur verið að ræða samkv. skilningi heilsuverndarlaganna, hins vegar að koma í verkahring héraðslækna, enda er það ekki óeðlilegt og raunar óhjákvæmilegt vegna allra aðstæðna.

Í heilsuverndarlögunum er kveðið svo á, að einn þáttur heilsugæzlunnar skuli vera tannvernd, og tel ég ekki ástæðu til að rekja nánar, hversu mikilvæg hún er í almennri heilsugæzlu nú á dögum. En til þess að unnt sé að framkvæma tannvernd, þarf að vera fyrir hendi aðstaða, bæði húsnæði og tannlækningatæki. Slík aðstaða mun þó yfirleitt ekki fyrirfinnast á aðsetrum héraðslækna, og er þeim því með öllu ókleift að annast þennan þátt heilsugæzlunnar af þeim orsökum. Og í annan stað er sérþekking nauðsynleg til þessa starfs, sem héraðslæknar yfirleitt hafa ekki af eðlilegum ástæðum. Þeirra starf á þessu sviði verður því einungis fólgið í því að ráðleggja fólki að leita til tannlæknis, en til þess þurfa tannsjúklingar utan af landi þá, auk sjúkrakostnaðar, að taka á sig kostnað við ferðalög og oft og tíðum vinnutap, sem því fylgir. Hér er því mikill aðstöðumunur fólks úti á landsbyggðinni og þess, sem býr á þeim stöðum, þar sem þessi þjónusta er fyrir hendi, bæði að því er varðar heilsugæzlu almennt á þessu sviði og einnig í efnahagslegu tilliti. Auk þess vill oft verða á því óhæfilegur undandráttur, að fólk leiti til tannlæknis. Það á kannske líka við hér í þéttbýlinu, en þó þeim mun fremur utan af landi, svo að oft er í algert óefni komið, þegar sjúklingurinn kemur til tannlæknis og eina lækningin, sem þá kemur til greina, er eftir þeirri gömlu og alkunnu reglu, sem segir: „Ef auga þitt hneykslar þig“ — þó að sjálfsögðu með þeirri breytingu í framkvæmd, að það er tönn sjúklingsins, sem dregin er úr, en ekki auga læknisins, sem „stungið er út“. En vissulega munu margir tannlæknar hneykslast á því, hve seint er leitað til þeirra, eins og ég sagði hér áðan.

Ég er þeirrar skoðunar, að með því að gera sveitar- eða sýslufélögum unnt að koma upp aðstöðu til tannlækninga, að sjálfsögðu í samráði við heilbrigðisyfirvöld, mætti ráða hér á verulega bót, því að ég er þess fullviss, að unnt myndi að fá tannlækna til að starfa þar einhvern hluta ársins til að annast þennan þátt heilsugæzlunnar, og hef ég þá alveg sérstaklega í huga tannvernd barna og unglinga á skólaskyldualdri. Sem skólastjóri við skyldunámsskóla úti á landi er ég nokkuð kunnugur ástandinu í þessum efnum og tel mig geta fullyrt, að þar er vissulega úrbóta þörf. En jafnframt gæti þá um leið skapazt aðstaða til að sinna öðrum tannsjúklingum.

Í tryggingalögunum eru ákvæði um, að tryggingarnar greiði kostnað við skólatannlækningar, og a. m. k. í nokkrum skólum hér í Reykjavík og stærstu kaupstöðum munu vera tannlækningastofur, þar sem þessi þjónusta getur farið fram. Ég efast hins vegar um, að nokkur skóli úti á landi hafi þá aðstöðu, að unnt sé að inna þar af höndum þessa þjónustu. Sumir skólar hafa reynt að bæta úr þessu með því að fá tannlækna til að koma í skólana, en á því eru augljóslega allmikil vandkvæði, bæði vegna flutnings tækja, og eins hlýtur það að valda allmikilli röskun á starfi skólans. Hér ber því allt að sama brunni. Aðstaða til þess að inna af hendi þessa mikilvægu þjónustu er ekki fyrir hendi úti á landsbyggðinni, enda ekki hægt að ætlast til þess, að slík aðstaða sé byggð upp í hverjum skóla, stórum og smáum. Ein tannlækningastofa ætti hins vegar að geta þjónað skólum skyldufræðslunnar á allstóru svæði og almennum sjúklingum líka, a. m. k. að verulegu leyti, jafnvel þótt hún væri ekki starfrækt nema hluta úr árinu. Ég hef átt nokkrar viðræður um þessi mál við tannlækna hér, m. a. við menn, sem farið hafa í ferðalög um vissa landshluta til þess að veita tannlæknishjálp. Þeir eru ekki í neinum vafa um, að tannlæknar fengjust til þessara starfa, en mikilvægasta atriðið telja þeir, að komið sé upp aðstöðu til þessara hluta og þá alveg sérstaklega hvað húsnæði snertir, þ. e. tannlækningastofum, og einnig aðstöðu til hvíldar bæði fyrir sjúklinga og lækni, því að tannlæknishjálp getur verið alltímafrek, eins og alkunna er, og reynt á þrek jafnt sjúklings sem læknis, og á það ekki sízt við um skólatannlækningar.

Ég hef hér að framan rætt fyrst og fremst um þá þætti þessa máls, er snerta aðstöðu fólks til að njóta læknishjálpar á þessu sviði. Hins vegar er þetta engan veginn í fyrsta skiptið, sem þessu máli er hreyft hér á hinu háa Alþingi. Ákvæði um að tannlæknishjálp skyldi vera meðal þeirra réttinda, er sjúkrasamlög veita meðlimum sínum, var t. d. að finna í l. um almannatryggingar frá 1946, en síðar var horfið frá framkvæmd þessa ákvæðis, en kostnaður þó greiddur af tryggingunum, að því er tekur til skólatannlækninga, eins og ég hef áður drepið á. Þá lagði Alfreð Gíslason læknir fram frv. um breyt. á almannatryggingalögunum 1966, þess efnis, að upp yrði tekið að nýju ákvæðið um, að almenn tannlæknishjálp skyldi greiðast af tryggingunum að 3/4 hlutum, þegar um beina heilsufarslega nauðsyn er að ræða. — Í grg. með frv. Alfreðs segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Löggjöf um sjúkratryggingar er áfátt að verulegu leyti, ef í hana vantar skylduákvæði um tannlækningar, svo veigamikill þáttur er tannvernd og tannlæknishjálp í almennri heilsugæzlu nútímans. Um þetta verður vart deilt, enda hafa þær þjóðir, sem við hvað fullkomnast tryggingakerfi búa, þegar fyrir löngu tekið tannlækningar inn í sjúkralöggjöf sína. Fyrir 20 árum bentu tveir tryggingafróðir menn, þeir Jón Blöndal og Jóhann Sæmundsson á nauðsyn þess, að tryggingarnar sæju hinum tryggðu fyrir tannlæknishjálp. Þetta er enn ekki orðið að veruleika hér, og er þó nauðsynin ekki minni en fyrir 20 árum og raunar hverjum manni auðsærri nú. Ástæðan til þess seinlætis er að öllum líkindum fjárhagslegs eðlis eingöngu, og ef svo er, er afsökunin harla léttvæg, því að sannarlega verður heilsan aldrei virt til fjár.

Það er alkunna, að efnahagur ræður nokkru um, hve fljótt menn leita til tannlæknis. Fátækt fólk gengur lengur með tannskemmdir án þess að leita læknis en þeir, sem betur eru efnum búnir. Slíkt er ekki í anda almannatrygginga og ber að leiðrétta það með viðeigandi ákvæðum í sjúkralöggjöf.“

Þetta lagafrv. náði ekki fram að ganga, og lagðist Tryggingastofnun ríkisins gegn því, m. a. á þeirri forsendu, að það mundi mjög auka á fjárhagsleg vandræði sjúkrasamlaganna. Af því hefði einnig leitt viðkvæma og vandasama samninga milli tannlækna og sjúkrasamlaganna um greiðslur fyrir tannlækningar. Nú er það mín skoðun, að ekki sé annað sæmandi en að við fylgjum fordæmi þeirra þjóða, sem við hvað fullkomnastar tryggingar búa, eins og Alfreð Gíslason læknir benti á í grg. sinni, og hlýtur að því að koma fyrr eða síðar. En eins og málum er háttað í dag, taldi ég litlar líkur á, að slíkar breytingar næðu fram að ganga. Hins vegar tel ég mig hafa bent á það með nokkrum rökum, að aðstaðan er frumskilyrði þess, að unnt sé að inna af hendi þennan mikilvæga þátt heilsugæzlunnar úti á landsbyggðinni.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, tel ég opnast leið til nokkurra úrbóta á þessu sviði án þess að þar dragist inn í þau viðkvæm vandamál, er snerta aðra þætti þessa máls. Krafan um, að tannlæknishjálp sé tekin inn í tryggingakerfið á fyllsta rétt á sér að mínum dómi, en ég tel þó enn mikilvægara, að landsmönnum sé sköpuð sem jöfnust aðstaða til þess að njóta þessa mikilvæga þáttar í almennri heilsugæzlu, þó svo að sjúklingar greiði þjónustuna sjálfa úr eigin vasa.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. og leyfi mér einnig að fara þess á leit við n., að hún leiti álits heilbrigðisyfirvalda og Tannlæknafélagsins um þetta mál.