04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Ég hef ásamt þremur öðrum hv. alþm. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Samkv. 1. gr. frv. segir á eftir orðunum „að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði eða svæðum“ í 2. mgr. 1. gr. laganna komi: annars staðar en í Faxaflóa.

Fyrir tveimur árum var frv. shlj. þessu frv. flutt á Alþ., en náði þá eigi að verða útrætt eða hljóta fullnaðarafgreiðslu. Við, sem erum flm. að þessu sinni, teljum því rétt, að málið sé nú endurflutt og þá ekki sízt með tilliti til þeirra gerbreytinga, sem Alþ. hefur nú samþykkt um veiðiheimildir til handa togbátum allt að 200 smálestum að stærð á stórum veiðisvæðum innan fiskveiðilandhelginnar og er svo langt gengið í sumum tilfellum, að svo má heita, að togveiðar séu leyfðar allt upp í landsteina.

Á undanförnum áratugum hefur það verið íslenzku þjóðinni mikið fagnaðarefni hvað áunnizt hefur með útfærslu fiskveiðilandhelginnar. Sá var og tíminn, að Íslendingar horfðu með ugg á aðfarir erlendra togara, sem skófu fiskimiðin allt upp í landsteina með þeim afleiðingum, að allir töldu, að um algera rányrkju væri að ræða, sem hlyti að leiða til þess, að fiskimiðin eyddust. Engum var það ljósara en Íslendingum sjálfum, að hverju stefndi, ef ekki tækist að hefta þessa óheillaþróun. Það var því notað hvert tækifæri, sem gafst á erlendum fiskveiðiráðatefnum og hvar sem því varð við komið, að gera kröfur um útfærslu fiskveiðilandhelginnar og þá sérstaklega með það fyrir augum, að bannaðar væru allar botnvörpuveiðar. Í þessari baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar hefur það verið eitt beittasta vopnið, að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju á grunnmiðum og þá sérstaklega með þeim veiðarfærum, sem vitað er, að valda mestri skaðsemd á uppfæðingnum. Nú er svo komið samkv. upplýsingum fiskifræðinga, að þeir telja, að alvarlega horfi með fiskstofnana í Norður-Atlantshafi. Er þar m. a. kennt um stóraukinni og vaxandi sókn fiskveiðiþjóðanna með þeim afleiðingum, að meira sé tekið úr íslenzka þorskstofninum en hann virðist þola. Hitt er einnig mikið áhyggjuefni, hve mikið af heildarveiðinni er ókynþroska fiskur. Í því sambandi má benda á veiðar Englendinga hér við land, en samkv. opinberum skýrslum er stór hluti af þorskafla brezku togaranna ókynþroska fiskur. Þar mun aðallega vera um að ræða veiði togaranna fyrir norðan og norðaustan landið.

Hér er um veiðisvæði að ræða, sem liggur enn sem komið er utan fiskveiðilandhelginnar og því ekki á okkar valdi einna að koma við nauðsynlegum vörnum. Á meðan svo er, þyrftu Íslendingar að taka upp samninga við aðrar fiskveiðiþjóðir, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta. Til þess að forðast þessa augljósu rányrkju, hafa fiskifræðingar lagt til, að möskvastærð botnvörpunnar væri stækkuð, svo að ungviðið kæmist í gegn. Hefur nokkuð áunnizt í þessum efnum, en þó ekki svo, að viðunandi sé.

Hvað Faxaflóa við kemur, sem þessu frv. er ætlað að ná sérstaklega til og koma á algerri friðun fyrir hvers konar dragnót og botnvörpu, þá er hér um að ræða þá uppeldisstöð fyrir ungfisk, sem er ein allra þýðingarmesta uppeldisstöð, sem við eigum við strendur Íslands. Kemur þar til m. a., hve Faxaflói liggur nærri aðalhrygningarstöðvunum við suðurströnd landsins, og vegna legu sinnar er þessi flói einkar hagstæður til þess að veita ungviðinu nauðsynlegt skjól á fyrsta vaxtarstigi ungfisksins. Um Faxaflóa er annars það að segja, að hann er það hafsvæði við strendur Íslands, sem hefur verið hvað mest rannsakað af fiskifræðingum. Því hefur verið lýst yfir, að þar séu hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir ungfiskinn og það gegnir því furðu, að þeir skuli ekki hafa lagt á það sérstaka áherzlu, að þessi klakstöð sé með öllu friðuð fyrir þeim veiðarfærum, sem sjómenn viðurkenna að séu ungfiskinum hættulegust. Það hefur jafnan verið svo, þegar Faxaflói hefur verið friðaður fyrir botnvörpu og dragnót, að þá hefur fiskmagnið stóraukizt. Hefur það leitt til þess, að fjöldi smábáta hefur stundað veiðar í flóanum með góðum árangri yfir vor- og sumartímann, en nú er t. d. að mestu tekið fyrir það. Við þurfum ekki að fara langt til baka til þess að gera okkur grein fyrir, hvert stefnir nú í þessum efnum. Ég hef fengið frá Fiskifélagi Íslands yfirlitsskýrslu um afla dragnótabátanna hér á Faxaflóasvæðinu s. l. 3 ár. Sú skýrsla talar sínu máli og sýnir, hvernig getur farið, þegar eyðileggingin á sér stað eftir vísindalegu eftirliti.

Árið 1966 stunda 36 bátar dragnótaveiðar hér á Faxaflóasvæðinu. Þá er heildarafli bátanna 7304 tonn. Skiptist aflinn þá þannig, að þorskur er 1902 tonn, ýsa 3537 tonn, steinbítur 85 tonn og skarkoli, þykkvalúra og annar flatfiskur 1711 tonn, og er þá meðalafli á hvern bát, sem stundar þessar veiðar hér á Faxaflóasvæðinu, um 202 lestir.

Árið 1967 stunda hins vegar 23 bátar dragnótaveiðar hér á Faxaflóasvæðinu. Þá er heildarmagnið ekki nema 4250 tonn eða um 40% minna en árið áður. Aflinn skiptist þá þannig, að þorskur er nær helmingi minni, 1046 tonn, ýsa sömuleiðis nær helmingi minni eða 1987 tonn, steinbítur og annar fiskur 195 tonn, en skarkoli, þykkvalúra og annar flatfiskur þá aðeins 1003 tonn. Og þá er meðalafli á hvern bát kominn niður í 185 tonn á bát. Þessi lélegi árangur fiskibátanna leiðir svo til þess, að þeir smátt og smátt gefast upp við veiðarnar og á síðasta ári er svo komið, að aðeins 8 bátar stunda dragnótaveiðar hér í Faxaflóa. Maður skyldi halda að vegna þess, að bátarnir voru svo fáir, hefðu þeir betra næði á miðunum og þá um leið betri árangur við veiðarnar. Niðurstaðan er þó í aðra átt. Þessir 8 dragnótabátar öfluðu samtals aðeins 697 tonn, og er þá meðalafli á bát ekki nema 87 smálestir. Um það, hvernig aflinn skiptist á milli hinna einstöku fisktegunda, liggja ekki enn fyrir upplýsingar, enda skiptir það engu máli, þar sem hér er um svo óverulegt og lítið magn að ræða.

Ég tel, að þessar tölur ættu að nægja til þess, að hv. alþm. sé nú ljóst, að lítið hald er í vísindalegu eftirliti, þegar slík gereyðing fiskistofna getur átt sér stað og það á þeim veiðisvæðum, sem margir af okkar beztu mönnum hafa lagt þrotlausa baráttu í að fá friðuð fyrir ágangi erlendra fiskiskipa til þess að vernda fiskistofnana, þá skuli sú staðreynd liggja fyrir, að vér Íslendingar sjálfir kunnum okkur ekkert hóf í rányrkjunni.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.