25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Það er öllum þingheimi kunnugt, að veiði með dragnót hefur valdið miklum ágreiningi hér við land og menn skipzt mjög í flokka um nytsemi þess veiðarfæris. Nytsemi frá sumra sjónarmiði, en hættuna af því frá annarra sjónarmiði. Í l. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti nr. 40 1960 hefur löggjafinn tekið þann kostinn að láta það vera undir óskum og umsögnum vissra tiltekinna aðila komið, hvernig að skuli farið á hverjum stað á landinu. Nú er það ekki óeðlilegt að heimila dragnótaveiðarnar á þeim stöðum, þar sem íbúarnir telja þær ráðlegar og hvetja til þeirra og vísindamennirnir vara ekki við þeim, en á sumum stöðum er um svo mörg sveitarfélög að ræða, sem hagsmuna eiga að gæta, að ekki er hægt að tala um neina einingu í því efni. Þarna á ég fyrst og fremst við Faxaflóasvæðið af öllum veiðisvæðum. Faxaflóasvæðið er viðurkennt merkasta uppeldisstöðin fyrir ungfisk í kringum allt land og hér eru mörg bæjar- og sveitarfélög, sem lifa að meira og minna leyti á fiskveiðum. Hjá sumum þeirra og einmitt sumum af þeim, sem eiga mest undir fiskveiðunum, hefur alla tíð verið mjög öflug andstaða gegn dragnótinni, en innan sama svæðis hafa verið önnur kannske fjölmennari byggðarlög, sem ekki áttu eins mikið af afkomu sinni undir fiskveiðunum eins og hin, og hafa óskað eftir möguleikanum til að stunda dragnótaveiðar. Þessir síðarnefndu aðilar hafa ævinlega notið stuðnings okkar ágætu vísindamanna í þessum efnum. Eins og í nál. segir, ætlar meiri hl. sjútvn. ekki að fara að kappræða við þá ágætu menn um vísindalegar niðurstöður, en hversu góðir sem menn eru, sem að þessum niðurstöðum standa, þá hefur þó engum þeirra tekizt að komast fram hjá því skeri, sem er deginum ljósara, að ætíð, þegar dragnótaveiði er leyfð á nýju svæði, þar sem aðstæður eru haganlegar, þá er örstutt árabil, sem hún gefur mikið í aðra hönd, en síðan fer aflinn niður og niður, eins og hefur átt sér stað hér á Faxaflóasvæðinu, þangað til það munar engu, að alger ördeyða sé komin. Þannig var háttað s. l. sumar á þessu svæði, þar sem aðeins 8 bátar stunduðu veiðarnar og komu með vænan skipsfarm samtals eftir allt úthaldið. Það þarf ekki að segja nokkrum manni með fullu viti, að þetta stafi ekki af ofveiði, að ástæðan til þess, að í byrjun hafi verið gnótt af fiski og nú svo til enginn, þar sem er veitt með þessu veiðarfæri, getur ekki verið önnur en sú, að ungviðið hefur verið drepið og að það er minna um fisk þarna en áður. Og þess vegna er það, sem nokkrir hv. þm. þessarar d. fluttu frv. á þskj. 336 um að banna með öllu dragnótaveiðar á Faxaflóa, þ. e. a. s. að undantaka Faxaflóa þeim svæðum, þar sem leyfilegt sé að veita undanþágur frá hinu almenna banni gegn þessu veiðarfæri. Þetta atriði virðist mér og mörgum öðrum mönnum vera það, sem máli skiptir í þessu sambandi. Meiri hl. sjútvn., 6 af 7 þm., virðist þetta liggja svo ljóst fyrir, að við erum sammála um að mæla með samþykkt frv., þó með þeirri breyt., að við teljum rétt að skilgreina þar, við hvað sé átt með orðinu Faxaflóa, en það er svæðið innan línu, sem dregin er frá punkti réttvísandi í vestur 4 mílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif. Þetta er sama línan, sem notuð er í frv., sem útbýtt var í d. í dag um fiskveiðilandhelgina.

Í nál. hv. minni hl. er látið að því liggja eða spurt að því, hvort enn séu innan Alþ. margir „á spákonustiginu“. Þar með er verið að reyna að gefa í skyn, að við séum ekki að fara eftir öðru heldur en kerlingabókum í till. okkar, en þetta er svo fjarri því að satt sé, að þeir sem reynsluna hafa og þekkinguna á þessu svæði, fiskikóngarnir, og þ. á m. ekki lakari spákonur heldur en Þorsteinn Gíslason, sem hér sat á þingi og var einn af flm. eru meðal okkar eindregnustu fylgismanna. Ég held, með allri virðingu fyrir mínum ágæta samþm., hv. 5. landsk., að þótt við legðumst báðir á eitt, yrðum við fyrirferðarlitlir um þekkinguna á fiskveiðum miðað við þann ágæta mann. Ég vil því beina því til hv. d., að hún samþykki frv. með þeirri brtt., sem meiri hl. hefur borið fram, og vísi því síðan til 3. umr.