25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2860)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 5. landsk. hér áðan. Hann spurði um það, hvort við hefðum gert okkur grein fyrir því, hver hreyfingin hefði orðið á fiskveiðunum við Faxaflóa s. l. 3 ár. Það kom skýrt fram í framsöguræðu minni fyrir þessu frv., hver hreyfingin hefði orðið, t. d. í sambandi við veiðarnar í dragnótina. Og það var niðurstaða, hélt ég, sem talaði nokkuð skýru máli, þar sem ekki aðeins heildarmagnið, sem veiddist á dragnótabátunum, hafði stórminnkað eins og raun bar vitni, heldur hafði einingin á hvern bát, sem stundaði veiðarnar, dottið gersamlega niður, þannig að á seinasta ári var veiðin komin niður í rúmlega 70 tonn á bát. Það voru 8 bátar, sem stunduðu veiðarnar og fengu, eins og hér hefur verið bent á í þessum umr., samtals um 600 tonn. Og það sjá allir, hvernig þá er komið frá því að vera með töluvert á 3 hundrað tonn, þegar veiðin byrjaði. Það talar því skýru máli um, hvert stefnir, hver þróunin hefur einmitt verið í dragnótaveiðinni á undanförnum tveimur árum hér í flóanum.

Það er ekki rétt, álít ég, hjá hv. 5. landsk., að við séum að deila hér um það, hvort eigi að leyfa að veiða 600 tonn hér í Faxaflóa eða ekki, enda þótt niðurstaðan hafi verið sú hjá dragnótabátunum á s. l. ári, að þeir hafi fengið aðeins 600 tonn. Það er ekki það, sem við erum að deila um, og ég er honum sammála um það, sem hann sagði, að ef þessir 8 bátar hefðu ekki fengið að stunda dragnótaveiðar, þá hefðu þeir stundað aðrar fiskveiðar og drepið þannig fisk. Okkur dettur ekki í hug, að það eigi að koma í veg fyrir að veiða fisk hér við strendur landsins, bæði í Faxaflóa og annars staðar. En það er þetta drápstæki, sem notað er, sem við viljum láta banna. Í þessum umr. hefur verið vikið lítils háttar að þeim mæta manni, Þorsteini Gíslasyni, sem gerðist meðflm. að þessu frv. hér í d. á þeim tíma, sem hann sat hér, og það gerðist ekki aðeins vegna þess, að hann sé kunnur síldveiðimaður og skipstjóri, heldur hafði hann líka reynslu af dragnótinni, og það hefur hann upplýst. Hann stundaði þessar veiðar fyrst ungur maður með föður sínum hér í flóanum og honum blöskraði, hve þetta veiðarfæri var mikið rányrkjutæki og ungviðið svoleiðis miskunnarlaust drepið með þessu. Það var hans eigin reynsla, sem þar talaði og hefur mótað hans afstöðu til þessa veiðarfæris.

Það kom upp í þessari skýrslu frá Fiskifélaginu, sem hv. 5. landsk. gat um hérna, að t. d. bátur, sem stundaði dragnótaveiðar frá Hafnarfirði, fékk aðeins 3 lestir. Hvað getið þið nú ímyndað ykkur, að hafi verið arðbært í sambandi við þær veiðar? (JÁH: Landanir á þessum stöðum.) Já, það voru 3 tonn, sem var komið þarna með. Var það ekki bátur frá Hafnarfirði? Ég held, að það hafi einhver bátur frá Hafnarfirði stundað dragnótaveiðar, en það er nú ótrúlegt, eins og hv. þm. tekur hér fram, að heildarafli hans hafi verið 3 lestir, heldur er þetta einn hluti af hans litla afla, sem hann hefur lagt þarna á land. En hvort sem heldur er, þá sjáum við, að magnið er svo lítið, að þarna hlýtur að vera um mjög óarðbæra veiði að ræða, og þótt það séu ekki nema 8 bátar, þá á að forða þeim frá því að halda áfram við slíkan rekstur.

Það hefur verið vitnað til þess, að það hafi verið leitað umsagnar sveitarfélaga í þessu sambandi til að fá álit þeirra. Þetta hefur verið gert á hverju einasta ári og fleiri heldur en sveitarfélaga, því að þegar niðurstaðan frá sveitarfélögunum hefur verið óhagstæð fiskifræðingunum, þannig að það hafi verið fleiri, sem hafi viljað banna veiðarnar heldur en leyfa, þá hefur verið leitað til annarra aðila áfram og áfram og þegar útrunninn hefur verið tíminn, þá er mér kunnugt um það, því að ég hef fylgzt með því, að stundum hefur verið framlengdur fresturinn sýnilega í því augnamiði að reyna að smala einstaklingum og fyrirtækjum, sem hafa áhuga fyrir að fá þennan fisk, til þess að láta álit sitt í ljós. Og þetta er því miður ekki of fallegur leikur, sem leikinn hefur verið í þeim efnum, og enda þótt það hafi í sumum tilfellum verið fleiri, sem hafa mælt gegn veiðunum í Faxaflóa, þá hefur ekki verið tekið tillit til þess af fiskifræðingunum. Þeir hafa eftir sem áður lagt til, að veiðarnar væru stundaðar áfram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr., en vænti þess, að þessi hv. d. sýni skilning á þessu máli, eins og hún hefur áður gert, því að þetta frv. eða hliðstætt frv. hefur hlotið áður samþykkt í þessari hv. d. og vænti ég, að svo verði enn.