02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég tel, að það hafi ekki komið nein ný sannindi fram í þessari ræðu hv. þm., sem hann var að ljúka við að flytja hér. Það, sem ég sagði í sambandi við Fiskifélagið og afgreiðslu málsins á undanförnum árum, stendur eftir sem áður óhaggað, og það get ég upplýst, að mér er kunnugt um það og ég fylgdist með því á sínum tíma, að þegar var útrunninn tíminn og menn áttu að vera búnir að skila áliti sínu um það, hvort þeir vildu fá dragnótaveiðina eða ekki á yfirstandandi tímabili, þá varð niðurstaðan sú, að það voru fleiri á móti. Þá er farið út í það að framlengja og auglýsa meira og meira og leita til einstakra fyrirtækja. Þetta er staðreynd og hún verður ekki hrakin, hvað mörg bréf sem koma frá stjórn Fiskifélagsins í þeim efnum. Hv. þm. getur sótt fleiri bréf, en þetta er staðreyndin í þessum málum, og hún verður ekki hrakin, þó að slík bréf séu skrifuð. En um ungviðisdráp er það að segja, að það er öllum kunnugt, sem bara fylgjast með þessum veiðum, að það kemur ekki í land, og þess vegna verður það ekki, hvorki af fiskifræðingum né öðrum, rannsakað eða talið, hvað fer forgörðum á þennan hátt, en hér stendur fullyrðing á móti fullyrðingu í þessum efnum. Það eru sumir, sem álíta, að það sé allt í lagi með þetta veiðarfæri, það skaði ekkert uppeldisstöðvarnar og þess vegna sé allt í lagi að nota snurvoðina. Svo eru aðrir á öðru máli, og það heldur sjálfsagt hver sínu fram í þeim efnum.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál að þessu sinni, en vil endurtaka það, að ég tel ekki hafa komið neitt nýtt fram í málinu, sem breyti a. m. k. minni ákvörðun um afstöðu til málsins.