02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (2866)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Það getur vel verið, að menn hafi ekki trúað því, sem fiskimálastjóri undirritaði og er sent til alþm., en sé svo, er ekki til of mikils mælzt, að það verði gert hlé á framgangi þessa máls hér, svo að hæstv. sjútvn. rannsaki ásakanir á hendur Fiskifélaginu. Það hlýtur að vera alvarleg ásökun, þegar jafnmikilvæg stofnun er ásökuð um það að það sé ekkert að marka, sem hún sendir til hv. Alþ. í rituðu bréfi. Ég get ekki annað séð, en komi eitthvað annað í ljós, þá er auðvitað sjálfsagt að taka tillit til þess. Stofnun, sem er falið að framkvæma jafnmikilvæg lög og hér um ræðir og sætir jafnharðri gagnrýni, á fullan rétt á því, að sjútvn. gangi á fund stjórnar félagsins og tali um þessi mál við fiskimálastjóra og fái hið sanna í ljós. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa.