28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2887)

141. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., frv. til l. um heimild ríkisstj. til að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi í V.-Skaftafellssýslu, hefur landbn. haft til meðferðar nú nokkurn tíma og kynnt sér það eftir föngum. Ég vil taka fram, áður en lengra er haldið, að þetta frv., eða annað samhljóða því, hefur legið fyrir Alþ. áður, var lagt fram í Nd. á s. l. vetri, og var þá leitað umsagnar landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins um það. N. hefur kynnt sér þær umsagnir, sem þá lágu fyrir, og eru þær samhljóða að því leyti, að báðar þessar stofnanir telja, að sala þessarar ríkisjarðar sé andstæð hagsmunum ríkisins og leggja því til, að hún sé ekki leyfð. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er það frekar fátítt, að þessar stofnanir gefi líkar umsagnir þessum. Það lá þá fyrir hjá n. að líta betur til þessara tillagna og kynna sér málið lengra aftur. Með frv. var lögð fram yfirlýsing frá hreppsnefndinni í Dyrhólahreppi, þar sem meiri hl. hennar lagði til, að þessi sala yrði leyfð. Í öðru lagi höfum við orðið þess varir, að leitað hefur verið til sýslunefndar V.-Skaftafellssýslu um það að mæla með þessari sölu, en samkvæmt bókun sýslunefndarinnar hefur hún hliðrað sér hjá að taka afstöðu til málsins. Landbn. taldi, eftir þessar athuganir, að henni bæri að afla sér enn frekari upplýsinga og reyna að komast að því, hvers vegna heimamenn þar á staðnum tækju þessa afstöðu til málsins. Við öfluðum okkur því loftmyndar af þessu svæði, sem hér um ræðir, og þegar hún er skoðuð, kemur það berlega í ljós, að land jarðarinnar Holts er tiltölulega lítil sneið milli tveggja ríkisjarða, annars vegar Álftagrófar og hins vegar Fells. Það fleygar þær jarðir mjög í sundur og um þannig land, að það virðist vera mjög torvelt, ef ekki ætti að segja ómögulegt, að girða þessi lönd af. Þess vegna sýndist landbn., eða meiri hl. hennar, að eðlilegra væri að selja ekki þetta land, heldur væri miklu eðlilegra, að hér yrði um leiguafnot að ræða, því þá hefur eigandi jarðarinnar alltaf nokkur tök á því að hafa vald á því, á hvern hátt þessi jörð verður nýtt, þannig að sú nýting yrði ekki til óhagræðis fyrir þau 1önd, sem ríkið á þarna í næsta nágrenni. Niðurstaða meiri hl. n. er því sú, að við föllumst á það sjónarmið bæði jarðeignad. og eins landnámsstjóra, að samþ. þessa frv. sé andstætt hagsmunum ríkisins, og við leggjum til, að þessu frv. verði vísað frá á þeim forsendum og næsta mál tekið fyrir á dagskrá. Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, geta þess, að minni hl. landbn. leggur til, að frv. sé samþ., en vill þó gera brtt. í þá átt, að aftan við 1. gr. frv. bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

„Nú verður ekki af því, að heimild þessi verði notuð á yfirstandandi ári, og skal Jóhönnu Sæmundsdóttur þá gefinn kostur á ábúð jarðarinnar með erfðafestu.“

Ég hygg, að dm. sé það kunnugt, að það er naumast hægt að segja, að meira sé en stigmunur á sölu og leigu á erfðafestu, og ég tel því, að þessi breyting sé í raun og veru engin, þegar til notanna kemur á þessu landi, og sýnist miklu eðlilegra, vegna þeirra aðstæðna, sem þarna eru fyrir hendi, að þar verði miðað við áframhaldandi leiguafnot með venjulegum hætti, en þessu frv. vísað frá og brtt. minni hl. verði þess vegna ekki tekin til greina.