09.12.1968
Efri deild: 23. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

8. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar mál það, sem hér liggur fyrir, og eins og nál. á þskj. 129 ber með sér, leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt.

Þetta frv., sem er allmikið að vöxtum, er mjög tæknilegs eðlis. Þær breytingar, sem gerðar eru á tollstigum, eru sárafáar og litlar, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir frv., og það er eingöngu sprottið af tæknilegum rótum, að slíkar breyt. eru gerðar.

Það verður nú varðandi störf n. að málinu að segja hverja sögu, eins og hún gengur. Þetta frv. er mjög tæknilegt, þannig að n. hefur ekki haft nema litinn tíma til þess að kryfja það til mergjar, enda finnst mér, að varla verði til þess ætlazt af sanngirni, þegar slík mál liggja fyrir, að venjulegar þingnefndir, eins og þessi, geti lagt í það mjög mikla vinnu að rannsaka slík mál. Þar höfum við orðið að fara þá leið, sem ef til vill er nú of almenn hér á hv. Alþingi, að treysta á þá sérfræðinga, sem þetta frv. hafa samið. Ég tel rétt, að þetta komi fram.

En það eru tvö smáatriði í síðustu og 9. gr. frv., sem ég vildi aðeins vekja athygli hv. þdm. á. Hvað annað atriðið snertir sýnist mér, að þar sé um augljósa prentvillu að ræða, þannig að það mætti leiðrétta hana sem slíka, en það er, þegar talað er um breytingu á þeim lögum og þessum, sem í gildi kunna að vera 1. janúar 1968. Það er auðsætt af því, sem á undan kemur, að þetta á að vera 1. jan. 1969, og vænti ég, að þetta megi leiðrétta sem prentvillu.

Annað atriðið er það, að 9. gr. gerir ráð fyrir því, að lög þessi öðlist þegar gildi. En í aths. við þessa gr. er þess getið, að hagstofustjóri hafi óskað eftir því vegna verzlunarskýrslna og annarra hagskýrslna um innflutninginn, sem miðast við áraskipti, að gildistaka laganna sé bundin við áramót. Má því segja, að þetta komi nokkuð í bága við ósk hagstofustjóra. En þetta frv. mun nú varla verða afgreitt hér á hv. Alþingi fyrr en undir jól, og væri þá ef til vill möguleiki á því að fresta staðfestingu laganna þannig, að þau taki ekki gildi fyrr en um áramót, en ég mun athuga það fyrir 3. umr., hvort ástæða er til að flytja sérstaka brtt. vegna þessara smáatriða, sem ég nú hef vakið athygli á.

Herra forseti. Samkv. því, sem ég hef sagt, leggur fjhn. til, að frv. verði samþ. án breytinga.