20.02.1969
Efri deild: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

144. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Á þskj. 268 flyt ég frv. ásamt hv. 4. þm. Sunnl. (BrB) um breyt. á l. nr. 39 frá 19. maí 1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Þessi breyt. er aðeins í einni gr. og fjallar um það, að í stað þess, að tillag til gæzluvistarsjóðs af ágóða Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins skuli vera 7.5 millj. árlega, eins og nú er ráðgert í l., verði tillagið hlutfallslegt árlega af sama tekjustofni, og er gert náð fyrir 2½% framlagi til gæzluvistarsjóðs í frv. Það er að sjálfsögðu ástæðulaust að hafa langa framsögu um þetta, málið er einfalt, en mig langar til þess, með tilliti til þeirra umræðna og blaðaskrifa, sem farið hafa fram nú að undanförnu um þessi mál, að rifja þau upp í stuttu máli. Að vísu hafa þessi mál ævinlega verið til umræðu og verið áhyggjuefni margra manna, en ég hygg, að nú s. l. hálfan mánuð hafi þessar umræður þó verið óvenjumiklar og blaðaskrif, og má vafalaust rekja þær til umræðna um vandamál heimilislausra einstaklinga í höfuðborginni, sem urðu í borgarstjórn Reykjavíkur þann 6. þ. m., eða fyrir réttum hálfum mánuði. Við þessar umræður kom það fram, að hér í Reykjavík eru um það bil 30–40 algjörlega heimilislausir menn. Tala þeirra hefur að vísu ekki verið nákvæmlega skráð, enda nokkuð breytileg frá einum árstíma til annars. Samkvæmt manntali Reykjavíkurborgar eru heimilislausir menn hér taldir 104, en þess er að gæta, að sumir þeirra eru vistmenn á hælum og stofnunum, bæði í borginni og utan hennar. Flest eru þetta karlmenn, þó að einnig séu í þessum hópi nokkrar konur.

Menn þessir eru flestir Reykvíkingar, sumir þó komnir frá öðrum stöðum á landinu, en af einhverjum ástæðum leita þeir hingað, og þó að tilraunir hafi verið gerðar til að flytja menn úr þessum hópum til sinnar heimabyggðar, hafa þeir jafnan leitað í gamla félagsskapinn aftur að stuttum tíma liðnum. Allt er þetta fólk óreglufólk, eins og sagt er, varðandi neyzlu áfengis, að öðru leyti meinhægt og friðsamt fólk, þannig að lögreglan þarf mjög sjaldan að hafa afskipti af því, þegar það er saman. Mjög margir af þessum 40 manna hópi, líklega flestir, eru algjörir sjúklingar, bæði líkamlega og andlega, vegna áfengisnautnar, kulda og vosbúðar, og flest ef ekki allt þetta fólk þyrfti að vera á hælum og komast undir hendur lækna og sérfræðinga. En því fer fjarri, að hægt sé að veita þessu fólki viðtöku á hælum, og ég ætla að leyfa mér að rifja það upp, sem Kristján Benediktsson borgarfulltrúi, sem var frsm. þessa máls í umræðum á borgarstjórnarfundi, sagði um þetta, með leyfi forseta:

„Samastaður þessa fólks á daginn hafur lengi yfir sumartímann verið Arnarhólstúnið, þangað til girðingin, sem þar var og skýldi fyrir norðannæðingnum, var rifin. Á veturna hefur þetta fólk haldið sig á daginn í Hafnarbúðum, eða a. m. k. til skamms tíma, en nú síðustu vikurnar, eftir að farið var að bægja því burtu frá Hafnarbúðum, hefur mátt sjá það á reiki um götur borgarinnar. Næturstaðir fólksins eru margir og breytilegir. Um langt skeið hefur stór hópur, um það bil 30–40, haft næturdvöl í gömlum togara í vesturhöfninni. Nokkur hluti þeirra hefur hafzt við í gömlu yfirgefnu húsi á Vesturgötunni. Stöku menn búa í skúrum, óupphituðum, hér og þar í úthverfum borgarinnar og stöku menn, þeir sem bezt hafa komið sér fyrir, fá að liggja í gömlum kyndiklefum og kjallarakompum í borginni, þar sem þeir þekkja einhvern velviljaðan mann. Mat hefur þetta fólk á snöpum. Þegar að kreppir, leitar það á náðir framfærsluskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem lætur í té matarmiða. En stundum verða frostin í Reykjavík og kuldinn svo nístandi á vetrum, að það er ekki líft, jafnvel fyrir hina hraustustu menn, að leggjast til svefns í gömlum fiskibátum eða togurum, eða óupphituðum húsum eða skúrum, og þá er það þrautaráð þessa fólks að leita inn á lögreglustöðina, og þá sezt það gjarnan undir kvöldið í stigaþrepin og nýtur hlýjunnar. Lögreglumennirnir hafa ekki önnur úrræði en að flytja þetta fólk í fangageymsluna í Síðumúla. Þar er notaleg gisting, og flestir eiga þar góða nótt og fá heita súpu að morgni, þegar þeim er sleppt. En ef frostið helzt lengi, endurtekur sagan sig á hverju kvöldi, og þannig getur þetta gengið vikum og jafnvel mánuðum saman. Það er heldur ekki eðlilegt, að milli 7000 og 8000 manns gisti fangahúsið í Síðumúla árlega, og dæmi eru til þess, að einn og sami maður hafi gist þar 280 nætur á einu ári. Eini staðurinn, sem þetta fólk er velkomið í, er lítil setustofa, sem Vernd hefur umráð yfir vestur í Grjótagötu. Þar er þessum mönnum leyft að koma inn á kvöldin, hlýja sér og horfa á sjónvarp.“ Þá lýkur þessari tilvitnun.

Sumt af þessu fólki hefur áður verið á hælum og vistheimilum, en sameinast gamla hópnum aftur, þegar það kemur af hælunum, enda ekki í annað hús að venda. Fyrir nokkrum árum var stofnaður félagsskapur áhugamanna hér í Reykjavík, sem kallar sig Vernd. Félagsskapur þessi er stofnaður að erlendri fyrirmynd. Markmið hans og tilgangur er að vera til endurhæfingar eða aðstoðar við fólk, sem kemur af hælum og úr fangelsum. Þetta hefur hins vegar þróazt í það, að Vernd hefur þurft að hafa meiri og meiri afskipti af heimilislausu óreglufólki, sem hér er í borginni. Þessi tvö verkefni eru algjörlega óskyld og eiga þar að auki illa saman. Einnig hefur það í vaxandi mæli lent á starfsliði Verndar að sjá farborða stúlkum og konum, sem þurft hefur að hafa afskipti af, en hér á landi er ekkert hæli fyrir drykkjukonur og það eru þó nokkur dæmi til þess, að þær hafa verið sendar til útlanda í þeim tilvikum, að nauðsynlegt og óhjákvæmilegt hefur reynzt að fá hælisvist fyrir þær. Til viðbótar má svo benda á það, að starfsemi Verndar er rekin af áhugamannafélagsskap, sem hefur lítil fjárráð og lítið og lélegt húsnæði til umráða. Það er að sjálfsögðu ákaflega virðingarvert, þegar áhugafólk tekur sig til og fórnar sér fyrir eitthvert málefni, eins og félagsmenn Verndar hafa gert í þessu tilviki. Hins vegar er það hættulegt, og það hefur oft borið á góma hér á hv. Alþ., ef opinberir aðilar treysta of mikið og næstum algerlega á slíka starfsemi. Það er tæpast hægt að ætlast til þess, að lítill hópur áhugamanna með takmörkuð fjárráð og stuðning leysi stórkostlegt þjóðfélagsvandamál eins og það, sem hér um ræðir. Nú er það vitað, að nokkur slík heimili eða hæli eru til, og það má þá segja, af hverju eru þessir menn ekki sendir þangað? Það er rekið hæli á Akurhóli, það er rekið heimili í Víðinesi og sjúkradeild er við Flókagötu, sem Kleppsspítali sér um, með 20 rúmum, sem eru sérstaklega ætluð fyrir drykkjusjúklinga. En svarið við því, hvers vegna fleiri eru ekki sendir þangað en raun ber vitni af þessum 40 mönnum, sem enn ganga úti hér í borginni, er ákaflega einfalt. Þessir staðir eru allir þegar yfirfullir, þó að sumir þeirra myndu hæfa þessu fólki til vistunar. Stundum hefur verið gripið til þess ráðs út úr hreinni neyð að ráðstafa einum og einum af þessum mönnum á Kvíabryggjuhælið og upp í Arnarholt jafnvel, þó að þessi hæli séu ætluð til allt annarra nota og henti engan veginn fyrir drykkjusjúklinga, þar eð þeir eiga enga samleið með því fólki, sem þar er. Það hefur, eins og ég sagði áðan, verið töluvert gert að því að senda konur til hælisvistar erlendis og kannske sýnir það okkur betur en nokkuð annað, hvað mál þetta er brýnt og alvarlegt.

Í þessum umræðum, sem urðu í borgarstjórn Reykjavíkur og ég leyfði mér að minna á í örstuttu máli í upphafi máls míns, tóku fleiri þátt heldur en 1. flm., þ. e. kennarinn Kristján Benediktsson. Auk hans tóku þátt í umræðunum einn læknir, Páll Sigurðsson, borgarfulltrúi Alþfl., einn sálfræðingur, Sigurjón Björnsson, borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins, og prófessor í guðfræði, Þórir Kr. Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstfl. Í frásögn í Morgunblaðinu þann 12. þ. m. eru ræður þessara manna nokkuð raktar, og ég skal ekki tefja tíma hv. d. með því að fara að lesa upp úr þeim ræðum, en það er óhætt að fullyrða það, að þeir tóku allir mjög fast í þann sama streng, að hér þyrfti úrbóta við og töldu mjög tímabært, að þessu máli skyldi nú hreyft og það krefðist aðkallandi aðgerða. Niðurstaða borgarstjórnar Reykjavíkur var svo sú, að samþ. var till., sem flutt var af þessum mönnum, sem ég áðan gat um, þess efnis að fela félagsmálaráði, sem er sú stofnun hér í borginni, sem hefur með þessi málefni að gera, að kanna málefni þessara heimilislausu manna og aðbúð og taka upp viðræður við ríkisstj. um leiðir til úrbóta í þessum efnum.

Að sjálfsögðu hljóta svipuð vandamál og ég hef gert hér að umtalsefni að vera fyrir hendi í öðrum byggðarlögum, þó að ég af eðlilegum ástæðum þekki þar minna til og þó að ætla megi og ég telji raunar víst, að ástandið sé verst í höfuðborginni, sem er eina stórborgin, sem við getum kallað því nafni. Nú er þess að geta, að fyrir 5 árum u. þ. b. voru að nýju sett hér lög, sem menn bundu miklar vonir við að mundu bæta úr þessu ástandi, og og er ekki að segja, að þau hafi ekki gert það, þó að ég telji, að betur þurfi að að vinna, eins og ég mun síðar koma að. Þessi lög eru lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og eru frá því í maí 1964. Í 1.–3. gr. þessara laga er mælt fyrir um það, hvað gera skuli, þegar lögreglan tekur höndum menn sakir ölvunar þeirra, og eru þar ákvæði, bæði um gæzlu og sjúkrahúsvist, eftir því sem við á og nánar er ákveðið þar, en í 4. gr. l. segir svo, að auka skuli svo sem verða má sjúkrahúskost til fullnægingar ákvæðum 1.–3. gr. og að kostnaður við byggingu slíkra sjúkrahúsa eða sjúkrahúsadeilda, sem telst nauðsynlegt að koma upp til úrbóta í þessu skyni, skuli greiðast úr gæzluvistarsjóði eftir nánari ákvörðun heilbrigðismálastj. Í 8. gr. l. er sagt, að meðferð drykkjusjúkra skuli vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem hlotið hafa sérstakt leyfi heilbrigðismálastj. og háðar eru eftirliti hennar. Og í 9. gr. er svo sérstaklega fjallað um geðsjúkrahús ríkisins og segir þar, með leyfi forseta :

„Á geðsjúkrahúsi ríkisins og síðar á móttökudeild þess, er byggð verður, skal vera unnt að veita drykkjusjúklingum meðferð og framkvæma á þeim nauðsynlegar rannsóknir. Í þessu skyni skal auka sjúkrarými stofnananna, svo að unnt verði að vista þar drykkjusjúklinga til skammrar sjúkrahúsmeðferðar. Í tengslum við geðsjúkrahúsið eða móttökudeild þess skal reka lækningastöð fyrir þá, sem ekki þarfnast innlagningar, svo og til eftirmeðferðar þeirra, sem innlagðir hafa verið. Í tengslum við geðsjúkrahúsið skal enn fremur reisa og reka sérstök hæli til meðferðar þeirra, sem ekki er talið að veitt verði viðhlítandi meðferð á annan hátt, hér með talin deild á sjúkrahúsinu fyrir þá, sem taldir eru haldnir sérstökum sjúkdómum. Til þess að mæta hinum auknu störfum,“ — segir enn fremur — „sem ákvæði þessarar gr. leggja á geðsjúkrahúsið, skal ráða sérstakan aðstoðaryfirlækni, er hafi m. a. með höndum meðferð drykkjusjúkra í sjúkrahúsinu og fyrir- og eftirmeðferð í lækningastöð. Annað starfslið, sem nauðsynlegt kann að þykja til að fullnægja þessum störfum, skal heimilt að ráða eftir þörfum.“

Og svo er hér að lokum í 10. gr. talað um það, að vilji bæjarfélag eða samtök, sem starfa að bindindis- eða líknarmálum og fengið hafa leyfi heilbrigðismálastj., reisa og reka á sinn kostnað lækningastöð eða hæli til aðhlynningar drykkjusjúku fólki, þá skuli vera heimilt að veita til þess styrk úr gæzluvistarsjóði, að því tilskildu, að heilbrigðismálastj. staðfesti reglugerð slíkra stofnana, enda séu þær háðar eftirliti hennar. Af þessum stutta upplestri úr l. nr. 39 1964 hygg ég, að ljóst verði, að lagaákvæði eru allítarleg um það, hvað gera skuli í þeim tilvikum, sem hér um ræðir. Hins vegar er það vitað, að framkvæmd l. hefur ekki tekizt sem skyldi, og er vafalaust því um að kenna, að fjármagn það, sem ætlað er að standa undir þessum aðgerðum, hefur ekki reynzt nægilegt, en samkv. 3. kafla l. um gæzluvistarsjóð er ákveðið, að undir þessum framkvæmdum öllum, sem ég hef nú minnt á, á gæzluvistarsjóður að standa. Samkv. 17. gr. l. á hann sérstaklega að notast til þess að auka og reisa þær stofnanir, sem um getur í 4. og 9. gr. l., þeirra sem ég áðan minntist á, en auk þess á að verja af tekjum hans árlega a. m. k. 2% til rannsókna á orsökum, eðli og meðferð drykkjusýki, og til viðbótar við þetta er svo heilbrigðismálastj. heimilt að ákveða til allt að 5 ára í senn, að verja megi nokkrum hluta af tekjum sjóðsins til að styrkja starfsemi félaga, sem reka á sinn kostnað hæli eða stofnanir til lækningar drykkjusjúku fólki, enda fari öll sú starfsemi fram samkvæmt reglugerðum, sem heilbrigðismálastj. staðfestir og sé háð eftirliti hennar.

Það er því sannarlega mikið og brýnt verkefni, sem gæzluvistarsjóði hefur verið falið með þessum l., og það má vel vera, að 1964, þegar þessi l. tóku gildi, hafi verið sæmilega ríflega séð fyrir fjármagni til þessara hluta. 7½ millj. kr. fyrir 5 árum var heilmikið fé samanborið við sömu upphæð í dag, en nú er þetta alveg áreiðanlega orðið lítið fé og mikils til ónógt, eins og verðbólguþróunin hefur verið hér og ég mun ekki rekja að þessu sinni. Þess vegna er það, að við höfum borið fram þetta frv. til þess að gera framlagið til gæzluvistarsjóðs háð eða hlutfallslega afmarkað af tekjustofninum, til þess að verðbólgan geri það ekki að engu á örstuttu tímabili. Þessar 7½ millj. kr., sem samkvæmt l. er veitt til gæzluvistarsjóðs, hafa að langmestu leyti farið til þess að standa undir rekstri drykkjumannahælisins að Akurhóli á Rangárvöllum, og það hefur sáralítið fjármagn verið aflögu, þegar því hefur sleppt, og vitanlega alls ónógt til að framkvæma þó ekki væri nema hluta af því verkefni, sem sjóðnum er ætlað. Þegar þessi ákvæði voru lögleidd, nam framlagið, 7½ millj., u. þ. b. 2.3% af gjaldstofninum. Sjóðurinn fær enn þá þessar 7½ millj., þótt tekjur áfengisverzlunarinnar hafi á tímabilinu hækkað úr 320 millj. í 680 millj. kr. á s. l. ári, og framlagið 1968 var ekki nema 1.3% af tekjum áfengisverzlunarinnar það ár fyrir selt áfengi. Hefði það verið hlutfallslega jafnhátt og 1964, þá hefði sjóðurinn fengið 13.3 millj. kr. á árinu 1968, ef ákvæði þessa frv. hefðu verið orðin að l. og sama hlutfall hefði átt að haldast milli framlagsins og tekjustofnsins eins og var, þegar l. voru upphaflega sett. Efni frv. er einfaldlega að gera þetta, að ákveða 2½% til gæzluvistarsjóðs, en 2½% af þessum tekjustafni mundi á árinu sem leið hafa verið um 15 millj. kr., og ég hygg, þegar verkefni sjóðsins er skoðað, að engum hv. alþm. blandist hugur um, að það sé nægilegt og yfirfljótandi verkefni fyrir það fjármagn og það sé í fullkomin nauðsyn að leggja það fram.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að hafa þessa framsöguræðu lengri. Ég vænti þess fastlega, miðað við þær umræður og blaðaskrif, sem orðið hafa um vandamál þessa fólks, sem hér um ræðir, að hv. Alþ. sýni þessu skilning og leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.