08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2922)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja að vísa til þeirra almennu röksemda, sem hafa verið færðar fram fyrir því, að rétt sé að samþykkja þessa till. Ég get ekki fallizt á, að allir þeir efnahagsörðugleikar, sem við nú óneitanlega eigum í eða sá ágreiningur um aukinn toll á frystum fiski, sem Bretland hefur ákveðið einhliða, eigi að verða til þess, að við nú frestum okkar ákvörðun. Það er vitað mál, að greiður aðgangur að góðum mörkuðum hlýtur að verða höfuðforsenda fyrir sæmilegum lífskjörum hér á landi, og nú þegar eru löndin innan EFTA höfuðmarkaðslönd okkar. Og eins og fram hefur komið í umr., m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni, talsmanni Alþb., þá mundi aðild að EFTA ekki eingöngu greiða fyrir sölu á sumum okkar gömlu útflutningsvörum, heldur einnig skapa nýja möguleika, þó að þeir séu óvissir enn. En einmitt þvílíka möguleika verðum við nú mjög að hafa í huga og reyna að efla eftir föngum. Eins er það, að ágreiningur, sem nú er kominn upp um þessa nýju ákvörðun Breta um toll af innflutningi á frystum fiski, hlýtur að verða samningsatriði á milli EFTA–landanna. Það er ljóst, að niðurstaða þeirra samninga hlýtur að hafa mjög rík áhrif á það, hvort við höfum mikla eða litla hagsmuni af því að gerast þarna aðilar. Ef þessi tollur helzt og verður á okkar frysta fiski til Bretlands, þá er ljóst, að hagsmunir okkar af inngöngu í EFTA verða mun minni en ella. Þess vegna hygg ég, að það sé mjög óhyggilegt af okkur, ef við reynum ekki eftir föngum að minna á hagsmuni okkar í þessu sambandi og gæta þess í þeim samningum, sem óhjákvæmilega verða teknir upp um þetta atriði, að okkur verði ekki gleymt, þannig að búið verði af öðrum aðilum að gera samninga, sem geri það enn erfiðara fyrir okkur, en ella að njóta þeirrar tollívilnunar, sem við höfum talið, að við mundum verða aðnjótandi á vissu magni af hraðfrystum fiski, ef við gerðumst aðilar að EFTA.

Ég held þess vegna, að einmitt þessi tvö atriði — bæði núverandi efnahagsörðugleikar og 10% nýi tollurinn í Bretlandi — eigi að sýna okkur fram á, að það má ekki dragast, að það sé kannað, hvort við getum fengið aðild að þessum samtökum með aðgengilegum kjörum. Um það erum við allir sammála, eins og fram hefur komið, að þótt vissir hagsmunir séu af því að ganga í EFTA og það viðurkenna allir, þá geta skilyrðin orðið slík, að ógerlegt sé fyrir okkur að ganga undir þau og þess vegna verðum við nauðugir viljugir að verða utan samtakanna. Úr þessu fæst ekki skorið nema við könnun. Það má auðvitað segja, að æskilegast væri, að sú könnun væri fullkomin. En enginn hlutur í veröldinni er nú fullkominn og alltaf verður að taka einhverja áhættu. Æskilegt er, að við getum þarna sett skilyrði og allir erum við sammála, að án vissra lágmarksskilyrða er fráleitt fyrir okkur að gerast aðilar. Hins vegar skulum við þá líka muna, að við ræðumst ekki einir við og það verður að kanna, með hvaða kjörum aðrir vilja fallast á, að aðild okkar verði veitt. Án slíkrar könnunar er þetta allt í óvissu. Þá verður þetta tal fram og aftur öllum til óþurftar. Ég hygg, að það sé langbezt, að úr þessu fáist skorið sem fyrst.

Það gleður mig, að það hefur komið fram, bæði hjá talsmönnum Framsfl. og Alþb., að þeir eru því samþykkir, að því er mér skilst, að gerast aðilar, ef kjörin verða aðgengileg. Þá er að kanna, hvort aðgengileg kjör fáist eða ekki. Við vitum það fyrirfram, að áhugi aðildarríkjanna er misjafnlega mikill fyrir því, að við gerumst þarna aðilar. En við verðum þá einnig að ganga á það lag og vekja skilning á okkar sérstöðu hjá þeim, sem nú hafa e.t.v. á henni minni skilning, en sumir aðrir. Ég tel sjálfsagt, að í þeirri könnun, sem þannig fari fram, verði haft samráð við hv. stjórnarandstæðinga, hvernig sem fer um afstöðu flokka að öðru leyti, og vitanlega er nú ekki um það að ræða að taka ákvörðun um, hvort við eigum að verða þarna aðilar, heldur einungis, hvort þetta eigi að kanna. Og ég tel, að það sé hætta á ferðum, ef við drögum ákvörðunina um þá könnun. Jafnframt er rétt að gera sér það ljóst, að ætíð verða einhverjir annmarkar samfara aðild að slíkum samtökum og þá er að meta það, þegar þar að kemur, hvort annmarkarnir sýnast meiri en kostirnir. En vissulega er það athyglisvert, einnig fyrir okkur, að reynsla allra EFTA–þjóðanna hefur verið sú, að þær hafa talið, að annmarkarnir hafi reynzt minni, en í upphafi var gert ráð fyrir og kostirnir meiri. Og það er einnig athyglisvert, að Norðurlöndin, sem áratugum saman, má segja, höfðu leitazt við að koma á nánu efnahagssamstarfi sín á milli og helzt tollabandalagi, fundu í raun og veru fyrst hvert annað innan EFTA. Það var í samstarfinu innan EFTA, sem skapaðist það samstarf milli jafnvel Norðurlandanna innbyrðis, sem þau höfðu verið að leitast endalaust við að koma á, en ekki tekizt með sérsamningum sín á milli og það getur enginn fylgzt með norrænni samvinnu, umr. í Norðurlandaráði eða á fundum í undirn. þess, þar sem þessi mál ber á góma, án þess að veita því athygli, hversu mjög ríka áherzlu allar þessar fjórar þjóðir leggja á þann hagnað, sem þær hafa haft af því að vera í EFTA. Nú játa ég, að það stendur öðruvísi á með þessar þjóðir og þess vegna höfum við hingað til ekki treyst okkur til þess að gerast þarna aðilar. En við höfum séð svo mikið og lært af þeirra fordæmi, að það er ljóst, að það má ekki gera of mikið úr annmörkunum, ekki gefast upp fyrir fram, um að þeir verði leystir, heldur skoða málið til hlítar og kanna, hvort við munum geta fengið jafnmikinn hag af því að gerast þarna aðilar eins og aðrar þjóðir. Og fyrir fram sé ég ekki ástæðu til þess að ætla annað, heldur þvert á móti, að okkar mjög einhlíða efnahagslíf geti hagnazt verulega á því að taka þátt í þessu samstarfi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Ég vísa til þeirra almennu umr., sem fram hafa farið, en vildi sérstaklega vekja athygli á því, að ég tel ekki, að núverandi örðugleikar eða þessi skyndi ákvörðun Breta eigi að verða til þess, að við frestum málinu, heldur ýti þau atvik undir það, að við eigum að kanna, hvort við getum fengið aðgengileg kjör, annars sé hætta á því, að drátturinn verði okkur til tjóns.