08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2927)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það er aðeins ein lítil fsp. til hæstv. viðskrh. Það hefur komið fram í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir um umsókn Íslands að EFTA, að til þess að fá úr því skorið með hvaða kjörum Íslendingar gætu fengið aðild að EFTA, þurfi að senda beina umsókn um inngöngu. Það fáist engar upplýsingar nema bein umsókn liggi fyrir. Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á, að á bls. 18 í þeirri skýrslu, sem þm. hafa fengið, er getið um könnunarviðræður Júgóslava um tengsl við bandalagið. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Önnur dæmi slíks samstarfs eru aukaaðildarsamningar Finna við EFTA, könnunarviðræður Júgóslava um tengsl að bandalaginu“ o.s.frv. Vegna þessarar setningar, sem hér stendur á bls. 18, langar mig að biðja hæstv. viðskrh. um nánari upplýsingar um þessar könnunarviðræður, t.d. um það, hvort Júgóslavar sendu beina umsókn um inngöngu í EFTA og ef ekki, er þá hugsanlegt, að Íslendingar geti fengið könnunarviðræður án umsóknar og jafnvel tengsl án inngöngu? Þetta vildi ég biðja hæstv. viðskrh. að upplýsa.