12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. hefur þungar áhyggjur af framtíð íslenzks iðnaðar, ef til aðildar að EFTA kæmi. Það er víðsfjarri mér að gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem afnám allra verndartolla, þó á löngum tíma væri, 10–15 árum, hefði fyrir ísl. iðnað og það hefur þegar komið ljóst fram í því, sem ég hef sagt og skrifað um þessi mál undanfarið. En mér finnst háttv. 1. þm. Austf. gera allt of lítið úr þeim vaxtarmöguleika, þeim nýju vaxtarskilyrðum, sem ísl. iðnaður hlyti, ef um aðild að EFTA væri að ræða, og það tel ég vera merg málsins. Sú niðurstaða, sem við höfum komizt að í þessu efni, aðilar í stjórnarflokkunum, sem hafa mest skoðað það, er sú, að vaxtarskilyrðin, — hin nýju vaxtarskilyrði, sem íslenzkur iðnaður hlyti, vegna aðildar að EFTA, — mundu verða mun miklu meiri, en það óhagræði fyrir ísl. iðnað, sem af því kynni að hljótast og skal ég þó engan veginn gera of lítið úr því. Þetta mál hefur verið þrautskoðað og það hefur verið þrautrætt einmitt við fulltrúa íslenzks iðnaðar. Við mundum aldrei hafa stigið það spor að leggja til, að kannað yrði með hvaða hætti Ísland gæti gerzt aðili að Fríverzlunarsamtökunum, nema það væri í samræmi við skoðanir og óskir íslenzkra iðnrekenda, en það er það.

Íslenzkir iðnrekendur líta því talsvert öðruvísi á málið en hv. 1. þm. Austf. gerir. Þeir líta á málið af meira raunsæi, að því er ég tel og þó umfram allt af meiri bjartsýni en hv. 1. þm. Austf. Hans málflutningur allur, hans skoðanir, byggjast, að því er ég tel, í of ríkum mæli á svartsýni, á bölsýni, mér liggur við að segja á vantrú á möguleikum og dugnaði íslenzks iðnaðar. Íslenzkur iðnaður hefur þegar sýnt það, t.d. á undanförnum 8 árum, — 7–8 árum eftir að viðskiptafrelsi var stóraukið, — að hann er þess megnugur að standast erlenda samkeppni. Íslenzkur iðnaður hefur getað eflzt, ef á er litið í heild, þrátt fyrir það innflutningsfrelsi, — það aukna innflutningsfrelsi, — sem átt hefur sér stað á undanförnum 7–8 árum. Það mundu margir hafa spáð því, þegar frílistinn var gefinn út á árunum eða innflutningsfrelsinu var komið á, á árunum 1960–61, að íslenzkur iðnaður mundi leggjast í rúst. Þær raddir heyrðust hér á hinu háa Alþ. og víða annars staðar, að hann mundi alls ekki þola í heild þá erlendu samkeppni, sem um er að ræða. Reynslan hefur orðið þveröfug. Innflutningsfrelsið hefur haft í för með sér vissa breytingu í iðnaðinum, erfiðleika fyrir einkum smáfyrirtæki, sem áður voru mjög tollvernduð á takmörkuðu sviði, en aðrar greinar iðnaðarins hafa eflzt þeim mun meir og í heild hefur iðnaðurinn eflzt mjög á þessum árum, þó nokkur áraskipti hafi verið að því, hve mikill vaxtarhraðinn hafi orðið. Hann hefur orðið mjög mikill á sumum árum, en um stöðnun hefur orðið að ræða á öðrum skeiðum, einkum og sér í lagi í kjölfar samninga um mikla kauphækkun, sem orðið hafa öðru hverju á þessu tímabili. En til þess að taka af öll tvímæli um skoðun íslenzkra iðnrekenda á þessu máli, þá ætla ég með leyfi hv. forseta að lesa bréf frá Fél. ísl. iðnrekenda til viðskrn., bréf, sem skrifað var í framhaldi af þeim umræðum, sem EFTA–nefndin átti við iðnrekendur og voru ýtarlegar og mjög málefnalegar. Ég óskaði eftir því, að niðurstaða þeirra viðræðna kæmi skriflega fram af hálfu Fél. ísl. iðnrekenda, þannig að ekki þyrfti að vera neinn vafi á því, hver skoðun íslenzkra iðnrekenda væri, þ.e.a.s., að ríkisstj. væri ekki að hlaupa fram fyrir skjöldu í óþökk iðnrekenda og ég taldi rétt, að iðnrekendur orðuðu þessa skoðun sína sjálfir í stað þess hún lægi eingöngu fyrir í bókuðum fundargerðum EFTA–nefndarinnar. Bréf ísl. iðnrekenda til viðskrn., dags. 30. okt., hljóðar svo, með leyfi hv. forseta:

„Með vísun til samtals við yður hinn 25. þ.m. varðandi þá athugun, sem fram fer á hugsanlegri aðild Íslands að EFTA og afstöðu samtaka vorra til umsóknar um aðild, skal eftirfarandi tekið fram. Á síðasta ársþingi iðnrekenda, sem haldið var í apríl s.l., var gerð ályktun, þar sem segir: „Ársþing iðnrekenda 1968 telur nauðsynlegt, að fram fari á því rækileg athugun, hvernig framtíðarhagsmunir íslenzks atvinnulífs verði bezt tryggðir með tilliti til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á sviði alþjóðaviðskipta og þá einkum við myndun markaðsbandalaga í Evrópu.“ Það verður að telja augljóst, að fullnaðarathugun á hugsanlegri inngöngu eða tengslum Íslands við EFTA verður eigi gerð, án þess að hafnar verði samningaviðræður við viðkomandi aðila þar að lútandi. Af þeirri ástæðu álítum vér rétt, að sótt verði um aðild, þannig að unnt sé að gera sér fullkomna grein fyrir því, hvað í henni felst. Að sjálfsögðu felst í því, sem hér segir, engin endanleg afstaða iðnaðarins til aðildar að EFTA. Afstöðu til hennar teljum vér eigi tímabæra, fyrr en séð verður, hvaða samningum tekst að ná varðandi ýmis veigamikil mál. Oss er það ljóst, að aðild Íslands að EFTA hlýtur að hafa í för með sér margvísleg vandkvæði fyrir iðnað á Íslandi, eins og hann er í dag. Aftur á móti álítum vér, að þegar horft er lengra fram á við, hljóti það í vaxandi mæli að falla í hlut iðnaðarins að vera sá meiður, sem nauðsynlegur hagvöxtur hlýtur að spretta af, ef tryggja á ört vaxandi þjóð bætt lífskjör. Vegna hins þrönga markaðar hér, álítum vér, að nauðsynlegur vöxtur iðnaðar verði í vaxandi mæli að byggjast á útflutningi. Í framtíðinni verður það því ekki síður áhugamál iðnaðarins, en sjávarútvegs og fiskvinnslu að eiga greiðan aðgang að erlendum mörkuðum. Að lokum þetta. Vér álítum rétt, að sótt verði um aðild Íslands að EFTA, til þess að kanna rækilega, hvers konar kjörum verði náð. Endanlega afstöðu til aðildar teljum vér oss þá fyrst geta tekið, þegar niðurstaða þeirra samningaviðræðna liggur fyrir og ríkisstj. Íslands hefur gert grein fyrir því, hverjum aðgerðum hún hyggst beita sér fyrir, til að leggja grundvöll að þeirri iðnþróun, sem hér verður að eiga sér stað í næstu framtíð.“

Svo mörg voru þau orð. Ég vona, að öllum hv. alþm. sé ljóst, að í þessu kemur fram nákvæmlega sama stefnan og liggur til grundvallar þeirri tillögu, sem hér er til umræðu og stjórnarfl. standa að og meiri hl. hv. utanrmn. hefur nú mælt með.