12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Ég ætlaði ekki, herra forseti, að blanda mér inn í þessar umr., en ég vil aðeins nota tækifærið, vegna síendurtekinna ummæla hv. síðasta ræðumanns — bæði hér og annars staðar í tíma og ótíma, — að íslenzka ríkisstj. vanmeti og vantreysti íslenzkum atvinnuvegum og sjái ekki nokkra framtíð í öðru en því, sem erlent er og segja aðeins nokkur orð. Hann hefur oftar en einu sinni vikið að því hér, að ég sem iðnrh. hafi farið í septembermánuði til Sviss til viðræðna þar við fulltrúa frá Alusuisse. Ég gerði grein fyrir því, þegar ég kom heim, að meginefni þeirra viðræðna var að halda áfram viðræðum, sem áður höfðu verið teknar upp við þessa aðila, að í stað þess, að lokið væri við álbræðsluna í Straumsvík í tveimur áföngum frá 1969, væntanlega frá 1. sept. 1969 og þar af leiðandi, að henni yrði fulllokið 1975 og einnig Búrfellsvirkjun, þeim áfanga, sem til þarf, yrði lokið á 6 árum, yrði stefnt að því að ljúka þessu á þremur árum. Það var og er augljóst hagsmunamál, eins og aðstæður eru í okkar þjóðfélagi, að geta hraðað þessum framkvæmdum. Eftir að mér varð einnig ljóst, — eftir margar umr. um það við fyrirsvarsmenn Landsvirkjunar, — að það væri miklu hagkvæmara fyrir Landsvirkjunina okkar, að þessu verki yrði lokið á 3 árum í staðinn fyrir 6, — það yrði hagfelldara fyrir hana, skapaði meiri atvinnu og meiri möguleika hér til atvinnuöryggis á þessu tímabili, — þá hélt ég sannast að segja, að hvorki þessi hv. þm. né aðrir mundu koma hér hvað eftir annað upp í ræðustól til að fjargviðrast yfir því, að þessum árangri hefur í aðalatriðum verið náð, eins og skýrt var frá, með þeim fyrirvara þó, að endanlega verður ekki frá þessu gengið, fyrr en Landsvirkjun gerir samning um þennan aukna hraða verksins við ÍSAL, eins og gert er ráð fyrir í aðalsamningnum, sem gerður var eða samþykktur hér í þinginu, en það eru allar horfur á því, að þetta mál geti þannig náð fram að ganga. Það eru svo síendurtekin ósannindi og blekkingar hjá þessum hv. þm. o.fl., að í nokkrum af aðgerðum ríkisstj. á undanförnum árum, hvorki í sambandi við álsamningana né síðar, hafi aðgerðir hennar nokkuð mótazt af vantrú á hinum þjóðlegu atvinnuvegum, eins og það er nú orðað, sjávarútvegi, iðnaði og öðrum atvinnugreinum, líklega landbúnaði líka. Og þegar hv. þm. er að tala hér um, að ríkisstj. hafi ekkert gert í sambandi við íslenzkan útveg á undanförnum árum, þá er eins og þessir menn séu staurblindir og viti ekkert hvað er að gerast í kringum þá. Nei, mér finnst vera komið nóg af því, að menn leiki sér í alvöruleysi hér í sölum þingsins að slíku sem þessu að bera ríkisstj. eða öðrum á brýn vantrú á öðrum atvinnugreinum, því að ekkert, sem gert hefur verið í sambandi við álsamningana, hefur á nokkurn hátt dregið úr vaxtarmöguleikum annarra atvinnugreina á Íslandi, — heldur ekki íslenzks sjávarútvegs, — en þvert á móti skapað grundvöll til traustara þjóðfélags, sem mun verða til þess að styrkja þessa atvinnuvegi um leið og atvinnulíf þjóðarinnar í heild eflist.

Ég þarf í raun og veru ekki að hafa um þetta fleiri orð, en mér er alveg ljóst, að þessi hv. þm., Magnús Kjartansson, hv. 6. þm. Reykv., má svo sem mín vegna halda áfram þessu óráðshjali sínu hér, í blaði sínu og annars staðar, því að sannleikurinn er sá, að íslenzkur almenningur skilur fullvel og miklu betur, heldur en þessi kommúnisti hér, hvers eðlis það mál er, sem hér er um að ræða.