12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv., sem er einn af prófessorum við Háskólann, flutti hér allmikinn fyrirlestur áðan um höft, sem hér hefðu verið á fyrri tímum. Hann talaði um bíla og jeppa o.m.fl. þess konar. Þetta var nú fróðlegt að heyra frá vísindamanninum, en honum láðist að geta þess, að þeim ströngustu og víðtækustu höftum, sem hér hefur verið haldið uppi á viðskiptasviðinu, var stjórnað af hans flokki, Sjálfstæðisfl. og formaður í þeirri stjórn var einn af merkustu þm. Sjálfstfl. sem nú er löngu látinn. Það hefði ekkert sakað, þó að prófessorinn hefði nefnt þetta. En nú hefur það skeð alveg nýlega, að samstarfsflokkur hans, Alþfl., hefur haldið flokksþing og ég hygg, að þar hafi verið gerð samþykkt um ný höft. Þetta bendir til þess, að hv. 12. þm. Reykv. hafi hér ekki staðið nógu vel á verði, — hann hefði átt að vera búinn að leiða þessa samstarfsmenn í allan sannleika um það, að höftum mætti aldrei beita, — til þess að afstýra því, ef hann hefði getað, að þeir gerðu sig seka um slíka glópsku, að hans áliti, að gera svona ályktun á sínu flokksþingi. En þó að eitthvað kunni nú að vanta í þetta, — þessar upplýsingar og þessa fræðilegu fyrirlestra hjá hv. þm. og prófessornum, — þá væri æskilegt að fá meira af slíku. Það væri gott, ef hann vildi innan skamms flytja hér fyrirlestur að undangenginni vísindalegri rannsókn, sem hann gerði á því, hvernig hans flokkur og samstarfsflokkur hans hafa farið að því að sökkva þjóðinni í botnlausar skuldir erlendis á undanförnum tíu árum, en mörg þeirra hafa verið beztu ár, sem komið hafa yfir þjóðina, — hvernig þeir hafa farið að þessu og þá einnig áætlanir um það, hvernig þeir ætla að losa þjóðina úr þessum skuldum. Sem sagt, það væri gaman að fá fyrirlestur um þetta. Mættum við fá meira að heyra, hv. 12. þm. Reykv.

Það er fróðlegt að lesa skýrslur Hagstofunnar bæði Hagtíðindin og einnig Verzlunarskýrslur. Það eru nýlega komnar út Verzlunarskýrslur fyrir árið 1967. Þar kemur fram það sama, eins og áður í Hagtíðindunum, að vöruskiptajöfnuður okkar við aðrar þjóðir á þessu ári hefur verið ákaflega óhagstæður. En það er fleira, sem má lesa í Verzlunarskýrslunum. Þar má lesa um innflutning á einstökum vörum og útflutning á einstökum vörum héðan frá okkur. Þar sést það t.d., að á árinu 1967 hafa Íslendingar flutt inn hús tilhöggvin úr trjáviði fyrir 22 millj. 852 þús. kr., þar af frá Danmörku fyrir 8 millj. 375 þús. og frá Noregi fyrir 9 millj. 615 þús. Á sama ári hafa Íslendingar keypt til þeirra frá öðrum löndum hurðir, glugga og karma úr trjáviði fyrir 6 millj. 44 þús. kr., þar af frá Danmörku fyrir 1 millj. 274 þús. og frá Noregi fyrir 2 millj. 638 þús. Þá hafa einnig verið flutt inn húsgögn frá útlöndum, þ.e.a.s. stólar og önnur sæti og hlutar til þeirra, fyrir 11 millj. 700 þús. kr., — ja, einhver getur tyllt sér niður — þar af slík sæti frá Danmörku fyrir 4 millj. 760 þús. og frá Noregi 3 millj. 55 þús. Enn voru fluttar inn innréttingar, í svigum húsgögn í skýrslunum, fyrir alls 10 millj. 297 þús. kr., þar af frá Danmörku fyrir 1 millj. 520 þús. og Noregi fyrir 931 þús. Það hefur þannig meiri hlutinn af þessu verið frá öðrum löndum, en þessum grönnum okkar. Og svo er enn: Önnur húsgögn og hlutar til þeirra fyrir 13 millj. 427 þús., þar af frá Danmörku fyrir 3 millj. 105 þús. og frá Noregi fyrir 4 millj. og 10 þús. kr. Samtals nemur þessi innflutningur á árinu á tilhöggnum húsum, hurðum og gluggum, innréttingum, stólum og öðrum húsgögnum 64 millj. 320 þús. kr., þar af frá Danmörku fyrir 19 millj. 34 þús. og frá Noregi fyrir 20 millj. 249 þús. Þannig kemur fram, að meginhlutinn af þessum innflutningi er frá okkar nágrönnum Dönum og Norðmönnum. Það er ýmislegt fleira af góðum hlutum, sem er keypt frá þessum þjóðum. Nýlega var sagt frá því í blöðum, að opnuð hafi verið nýtízkuleg sölubúð við Laugaveginn og þar mætti sjá mjög fagra skrautmuni úr silfri smíðaða í Danmörku og þar var líka danskt postulín. Ég hélt sannast að segja, að það væri nóg af góðum silfursmiðum hér hjá okkur og væri þess vegna ekki brýn þörf á því að flytja slíkar vörur inn í stórum stíl frá öðrum þjóðum. Þetta er varningur, sem við höfum lagt á og leggjum á allmikla tolla. Verðtollur af húsgögnum er 90% og af skrautmunum og góðmálmum 100%. En hæstv. ríkisstj. okkar virðist líta svo á, að það sé ódrengilegt að heimta svona háa tolla af framleiðsluvörum Dana og annarra útlendinga. Þeir segja það, hæstv. ráðh. og m.a. sagði hæstv. viðskrh. við fyrri umr. þessa máls, að það væri óhemju mikill vandi, sem nú steðjaði að okkar þjóð. En þá telur hann og aðrir ráðh. brýnasta viðfangsefnið að taka upp samninga við EFTA um að fella niður tolla á innfluttum iðnaðarvörum, m.a. húsgögnum frá Norðmönnum og Dönum og silfurskrautmunum frá Dönum. Það stendur í gamalli, frægri bók, að Danir séu drengir góðir og vinfastir og nú virðist ríkisstj. vilja reyna þeirra drengskap, grennslast um það, hvort þeir vilja vera svo vinsamlegir að taka okkur í félagsskapinn og leyfa okkur að fella niður tollana á nokkrum vörum, sem við höfum keypt frá þeim og gefa okkur þá fyrirheit um einhverjar svipaðar tollaívilnanir í staðinn einhvern tíma í framtíðinni. Stjórnin virðist líta svo á, að það sé útláta lítið fyrir okkur að fella niður þessa tolla. Það getur verið, að Danir og aðrir EFTA–menn verði svo góðir að leyfa okkur að dreifa þessu á fáein ár og þá telur stjórnin, að þetta sé ekki svo útlátamikið fyrir okkur, því að alltaf sé hægt að bæta ríkissjóði upp tekjutapið með því að hækka söluskattinn á nauðsynjavörum almennings, svo þetta ætti að koma nokkuð sama út fyrir hæstv. fjmrh. og þann sjóð, sem hann á að passa.

Það hefur komið fram nýlega, að Bretar hafa lagt innflutningstoll á freðfisk, þrátt fyrir aðild að EFTA og er erfitt að skilja, hvernig það má verða og hæstv. viðskrh. taldi í sinni ræðu við fyrri umr. þessa máls, að það m.a. gerði það ákaflega nauðsynlegt fyrir Íslendinga að fara suður til Vínarborgar á fund, sem þar á að vera eftir rúma viku, til að kynnast því, hvernig á þessu getur staðið og hvers eðlis þessi tollur er, sem sagt að fá upplýsingar um allar hans náttúrur. En hvernig er þetta, þurfa menn suður til Vínarborgar til þess að kynnast þessu athæfi Breta? Höfum við ekki sendiherra í Bretlandi hjá hennar hátign drottningunni og hennar ríkisstj.? Ég held, að þeir séu kunningjar og dús, hæstv. viðskrh. og sendiherra okkar í Lundúnaborg. Væri ekki hægt að tala við hann og biðja hann að fá upplýsingar um, hvernig standi á þessu tiltæki Breta, sem getur haft hinar verstu afleiðingar fyrir ýmsar viðskiptaþjóðir þeirra? E.t.v. hugsar hæstv. ráðh. sem svo, að sjálfs sé höndin hollust og treystir sjálfum sér betur til þess að komast að hinu rétta í þessu máli en sendiherra okkar þar ytra í Bretlandi. En ratar hann ekki til Lundúnaborgar? Hefur hann ekki komið þar einhvern tíma? Ég hygg, að hann hafi komið þangað og hann ætti að geta komizt þangað, án þess að fara í gegnum einhverja samkomu suður í Vínarborg. Hitt er annað mál, að hann fær náttúrlega meira ferðalag út úr því að fara til Vínarborgar, en hann er, sem kunnugt er, ferðaglaður og ötull ferðamaður.

Ég held, að það geti orðið ákaflega erfitt fyrir íslenzkan iðnað að taka á sig þær kvaðir, sem fylgja því að ganga í EFTA. Ég vil nefna t.d. skipasmíðarnar. Það var nýlega samið af því opinbera við iðnaðarmenn á Akureyri um að smíða strandferðaskip fyrir íslenzka ríkið. Ég vil benda á, að ef við hefðum verið komnir í EFTA, þá væri enginn möguleiki til þess, — e.t.v. einhver fyrstu árin, ef við fengjum einhverjar undanþágur til að byrja með, en ef við hefðum verið orðnir þar fullgildir aðilar, þá var enginn möguleiki til þess að semja við Akureyringa um að smíða skipið, því að EFTA–samningurinn mælir fyrir um það, að ekki má láta innlend fyrirtæki í einu aðildarríkjanna hafa neinn forgangsrétt fram yfir fyrirtæki í öðrum EFTA–löndum.

Það er dýrt að búa við óhæfa ríkisstj., eins og þá, sem nú situr hér. Það er mesta áfall, sem þjóðin hefur orðið fyrir á síðustu árum að hafa hana öll þessi ár, sem hún er búin að sitja. Þetta kemur harkalega niður á einstaklingum þjóðarinnar og atvinnufyrirtækjum, — jafnt iðnaðinum sem öðrum atvinnuvegum, — og ástandið mun fara versnandi. Það versnar því meir, sem þessi stjórn situr lengur og það mun fyrst verða alvarlegt, ef henni tekst á næstu misserum að þvæla okkur inn í þessi Fríverzlunarsamtök.