12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2938)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Hannibal Valdimarsson:

Ef við værum hér að ræða um það, hvort Ísland ætti á næstunni að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu, þá væri ástæða til mikilla umr., þá væri um stórt og örlagaríkt framtíðarmál að ræða. En svo er nú ekki. Ef við værum að taka endanlega afstöðu til þátttöku í Fríverzlunarsamtökum Evrópu, þá væri líka um all þýðingarmikið mál að ræða og væri ástæða til að kanna allar hliðar þess, áður en menn réttu upp hendurnar með eða á móti. En við erum ekki að taka ákvörðun um það að loknum þessum umr. Við erum að taka afstöðu til þess eins, hvort við í fyrsta lagi eigum að senda óformlega umsókn um upptöku í Fríverzlunarsamtök Evrópu til þess eins að kanna til fulls, hverra kosta við eigum völ, ef við að rannsókninni lokinni og fengnum öllum upplýsingum teldum það hagkvæmt fyrir Ísland. En um þetta eitt erum við hér að ræða og hyggjumst komast að niðurstöðu um það. En umr. allar virðast mér hafa snúizt um það, hvort við ættum að taka endanlega og bindandi afstöðu til fullrar aðildar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Það er máske eðlilegt út frá því, að í upphafi skuli endirinn skoða. En eins og mál standa nú, er það ekki á dagskrá. Áður en menn taka þá miklu ákvörðun, er ætlunin að afla sér upplýsinga með viðræðum við okkar grannþjóðir, Norðurlöndin, til þess að vita í fyrsta lagi, hvort við eigum þess kost að ganga í samtök þeirra og í annan stað þá með hvaða kjörum. Menn hafa haft góða aðstöðu til að kanna þetta mál og manna á meðal hefur málið verið rætt, jafnvel árum saman, en á vegum Alþ. og ríkisstj. hefur verið sérstök könnun í gangi á þessum málum og n. fjallað um það, mþn. skipuð fulltrúum allra flokka. Málið á því ekki að vera okkur ókunnugt, heldur alveg óvenjulega vel kannað svo langt sem sú könnun nær. Við höfum fengið mikið nál. allir alþm. og í þá bók er mikinn fróðleik að sækja um Fríverzlunarsamtök Evrópu og er ég þess fullviss, að hv. alþm. hafa lagt á sig það ómak að kynna sér þessa bók.

Í formála fyrir þessari bók gera nm. grein fyrir niðurstöðunum, sem þeir telja, að nú liggi fyrir, eftir að þeir hafa starfað frá því í des. 1967 fram í nóv. 1968 að könnun málsins og þeirra niðurstaða er þessi með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessari skýrslugerð og þeim viðræðum, sem n. hefur átt, hefur þeim áfanga verið náð, að hægt er að taka ákvörðun um, hvort sækja eigi um aðild að EFTA og fá úr því skorið, hvort og með hvaða kjörum Ísland gæti gerzt aðili að samtökunum. Endanleg afstaða til þessa máls verður ekki tekin, fyrr en niðurstöður af væntanlegum samningaviðræðum við EFTA liggja fyrir.

Reykjavík, 16. okt. 1968.

Gylfi Þ. Gíslason, Helgi Bergs,

Magnús Jónsson, Lúðvík Jósefsson,

Pétur Benediktsson.“

Eftir þessum niðurlagsorðum í formála fyrir bókinni um Fríverzlunarsamtök Evrópu fæ ég ekki annað séð, en þarna sé, að ársstarfi loknu, staðið þannig upp, að nm. séu sammála um, hvernig málin standa. Sem sé, að þeim áfanga sé nú náð, að hægt sé að taka ákvörðun um, hvort sækja eigi um aðild að EFTA og fá úr því skorið, hvort og með hvaða kjörum Ísland getur gerzt aðili að samtökunum. Þetta er niðurstaðan. Þarna örlar ekkert á því, að nm. séu ósammála, að þeir hafi klofnað um afstöðuna. Þeir eru allir sammála um, að þetta sé niðurstaðan, nú blasir málið þannig við. Og það gladdi mig að sjá, að n. var sammála um þetta.

Þegar ég hef lesið þessi orð, sækir sú spurning á mig varðandi þá þáltill., sem stjórnin hefur nú borið fram og hefur fengið þinglega meðferð í hv. utanrmn. með þeirri niðurstöðu, að þar hafa menn ekki orðið á eitt sáttir, ekki eins og í formála bókarinnar, heldur hefur hv. utanrmn. klofnað um málið. Meiri hl. leggur til, að till. verði samþ.till. um að óformleg aðildarumsókn verði send í könnunarskyni, — meiri hl. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt, en minni hl. stendur að frávísunartill., - leggur til, að málinu sé vísað frá og næsta mál á dagskrá tekið fyrir.

Ég held, að allt, sem kemur fram í nál. minni hl., sé byggt á endanlegri afstöðu til málsins. Þar er sagt, að Íslendingar þurfi, áður en þeir gerist aðilar að EFTA, að vita betur, hvernig iðnaðurinn standi, hvaða möguleika við höfum á því að afnema verndartolla og það þurfi að vera búið að móta þá stefnu í iðnaðarmálum, sem yrði grundvöllur hans, eftir að við værum orðnir meðlimir i EFTA. Þeir benda á, að nú sé allt í óvissu í efnahagsmálum. — Það er rétt, sannarlega rétt. Það er þó vonandi, að það óvissuástand verði ekki ævarandi, ekki langvarandi einu sinni. — Ennþá liggi fyrir ófullnægjandi athuganir á sumum undirstöðuatriðum málsins. Það er líka rétt, en það á, ef till. er samþykkt, að kanna þau óvissuatriði og fá úr þeim skorið og um stöðu iðnaðarins. Vissulega mundi margt upplýsast í viðræðum um það, hvernig við yrðum að móta stefnu iðnaðarins, ef við ættum að geta gerzt aðilar.

Þessar mótbárur, sem uppi eru hafðar gegn þessari till., eru allar miðaðar við það, sýnist mér, að við horfumst í augu við endanlega ákvörðun um inngöngu í EFTA eða ekki inngöngu. En það er bara ekki á dagskrá eins og stendur, heldur áframhaldandi könnun í framhaldi af þeirri rannsókn, sem fram hefur farið í mþn. Ég hygg, að einmitt þessar miklu umr. um framtíðarstöðu Íslands sem hugsanlegs aðila að Fríverzlunarsamtökum Evrópu byggist á því, að menn beri ugg í brjósti um, að Íslandi stafi ógagn meira, en gagn af slíkri inngöngu í samtökin og fæ ég þá ekki séð annað en það, ef könnunin, sem nú færi í gang, ef till. væri samþ., færi fram, einmitt þegar málin standa svo hjá okkur, að við værum vanbúnir til aðildar og ýmislegt það hafi gerzt úti í löndum, sem gerði það að verkum, að við yrðum meira hikandi um þátttöku, eins og t.d. ofríkiskennd tilraun Breta til að brjóta reglur samtakanna, þegar við værum einmitt að kanna málið. Þetta kynni allt saman heldur að stuðla að því, að við, — ef könnunin færi fram nú, — vöruðum okkur betur og það væru minni líkur til þess, að við tækjum jákvæða afstöðu til þess að fara inn í EFTA. Alveg fannst mér á sömu lund hníga meginrök hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, þegar hann var að lýsa því, að sér litist ekki álitlega á að fara í EFTA, af því að þau samtök væru nánast í upplausn. Ef rannsóknin færi fram – ég sé ekki betur einmitt þegar slíkt blasir við, – þá yrði það frekar til þess, að við flýttum ekki för okkar þangað inn. Ég sé því ekki annað en þessi rök, sem fram koma, hnígi heldur í þá átt, að við ættum ekki að vera að draga við okkur að láta þessa könnun fara fram, sem yrði framhald af því, ef till. yrði samþykkt, einmitt út frá sjónarmiðum þeirra, sem mikinn varhuga vilja gjalda við inngöngu í EFTA. Og ég er kannske einn á meðal þeirra. En ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun um andstöðu gegn því nú, af því að það liggur ekki fyrir og beint liggur fyrir að afla frekari vitneskju um stöðu okkar til þeirrar þátttöku. Tel ég ekki tímabært að taka endanlega afstöðu til þess máls, endanlegu niðurstöðunnar, fyrr en að könnun lokinni, sem ætti að vera framhald af því, að óformleg inntökubeiðni yrði send.

Annað atriði kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem ég var alveg sammála. Hann sagði, að við ættum að kosta kapps um að eiga sem nánasta samleið með þeim löndum, sem okkur væru skyldust og við ættum í flestum málum meiri samleið með en öðrum löndum, þ.e.a.s. Norðurlöndunum. En hvernig væri það nú, ef við værum að taka endanlega afstöðu til inngöngu eða ekki inngöngu í EFTA? Værum við þá að sigla upp að hlíðinni á Norðurlöndum? Nei, þá værum við einmitt að fjarlægjast öll Norðurlöndin, þau sem EFTA–þjóðir, við utan við, en við ættum samleið með annarri þjóð í Vestur-Evrópu, einræðisríkinu Spáni. Þá væru það Ísland og einræðisríkið Spánn, sem væru utan við EFTA og ættu kannske að eiga samleið, en við værum undir öllum kringumstæðum ekki að nálgast vinaþjóðir okkar og frændþjóðir á Norðurlöndum, við værum að fjarlægjast þær. Þar með segi ég ekki, að svo kunni ekki að fara, þegar málið er endanlega skoðað. Við yrðum jafnvel að meta málin svo, að við neyddumst til að taka þá afstöðu að fjarlægjast okkar vina– og frændaþjóðir, Norðurlandaþjóðirnar, en ekki fyrr en að fullkönnuðu máli og ekki væri mér það sársaukalaust, ef niðurstaðan yrði sú, að við sigldum með Spáni, en fjarlægðumst Norðurlandaþjóðir í þessum efnahagsmálum.

Ég tel, að hv. 7. landsk. þm., Sveinn Guðmundsson, sem talaði hér áðan og vék í lok ræðu sinnar að niðurstöðu samtaka iðnaðarins í landinu, sem væri sú, að þeir vildu, að till. yrði samþ. til þess að kanna, hvort Ísland ætti kost á aðild að EFTA og í annan stað með hvaða kjörum. Það vil ég undirstrika fyrst og síðast í mínu máli, að hér erum við enga endanlega ákvörðun að taka nú um það, hvort við eigum að gerast aðilar að EFTA eða ekki. Við erum hins vegar að velta því fyrir okkur, hvort við eigum að senda óformlega umsókn og biðja um allar upplýsingar um það, hvort Ísland fái aðgang að EFTA og með hvaða hætti það megi verða vegna margvíslegrar sérstöðu okkar litlu þjóðar. Og þá sækir spurningin á okkur: Er ástæða til að hraða þessari könnun á málinu, að svo miklu leyti, sem það ekki er kannað enn, eða er ástæða til að draga ennþá, að könnun fari fram? Þetta finnst mér vera málið og málið allt.

Einhverjir hafa sagt: „Við berum ekkert traust til ríkisstj., og þess vegna erum við á móti till.“ Ég er einn í þeirra hópi, sem ber ekkert traust til ríkisstj. í þessu máli fremur en öðrum stórmálum og tel mig heldur ekki vera að trúa henni fyrir því. Ég tel hana ekki vera nokkra framtíðarstjórn fyrir Ísland. Ég tel miklu fremur líklegt, að hún sé nú að syngja sitt síðasta vers og það sé alls ekki verið að fela henni þetta framtíðarmál, sem hér er um að ræða. Ég tel, að það hljóti að vera svo, að könnunin taki nokkurn tíma. Síðan komi að því að taka afstöðu til þess, hvaða ríkisstj. við eigum að trúa fyrir að ganga frá málinu endanlega. Ég tel mig a.m.k. ekki vera að fela þessari hæstv. ríkisstj. að ganga endanlega frá málinu, þó að ég yrði með því að könnun færi fram. Það, að vera með því, að Ísland kanni það, sem ókannað er í þessu máli, fái vitneskju um, hvort það fái aðgöngu og með hvaða kjörum, það tel ég á engan hátt vera traustsyfirlýsingu á hæstv. ríkisstj., allra sízt, þegar það liggur nú fyrir, að hún ætlar ekki að pukrazt með þetta mál. Það má hún eiga, að hún hefur ekki pukrazt með þetta mál. Hún hefur sett allra flokka fulltrúa í könnun á því í heilt ár. Og það liggur fyrir, skilst mér, — það verður leiðrétt, ef það er misskilningur, — að allir aðilar á Alþ., sem ólíkar skoðanir hafa á þessu máli, fái fulltrúa í n., sem annist þessa könnun. Það er ekki ætlunin, skilst mér, þó að það hafi oft verið venja hjá hæstv. ríkisstj., að láta fulltrúa sína, sína tilvöldu fulltrúa, flokksfulltrúa eingöngu, fjalla um málið og ég tel það mjög viturlegt af hæstv. stjórn að vekja enga óþarfa tortryggni í þessu máli með því að láta sína menn eina fara með það heldur hleypa þar allra flokka mönnum að, svo að þeir geti haft hönd í bagga með, hvernig þessi könnun verði framkvæmd á allan hátt. Það er því ekki um að ræða, að á nokkurn hátt sé verið að sýna hæstv. ríkisstj. sérstakt traust. Hún fer ekki fram á það, því að hún býður öllum flokkum að fylgjast með þessari rannsókn og eiga að henni hlut. En fyrir mér er það aðalatriði, að hér er enga endanlega ákvörðun verið að taka um aðild Íslands að EFTA. Spurningin, sem nú þarf að svara, er einungis sú, eins og ég hef margtekið fram, hvort ástæða sé til að bíða, þ.e.a.s. draga að fá fullnaðarkönnun í gang um það, hvort Ísland muni eiga kost á aðild að samtökunum og þá, ef svo væri, sem við vitum ekki, með hvaða kjörum. Og þar sem upplýst er, að fulltrúar allra flokka munu eiga sæti í n. þeirri, sem með könnunina fer, ef till. verður samþ., þá tel ég rétt, að óformleg umsókn verði send og aðstaðan notuð til þess að afla allra upplýsinga um, hverra kosta Ísland eigi völ, ef það kynni að gerast aðili að EFTA með einhverjum hætti, annaðhvort með fullri aðild eða aukaaðild. Mun ég því greiða atkv. með till. hv. meiri hl. utanrmn. í þessu máli. Ég hef umboð til þess að skýra einnig frá því, að sömu afstöðu og ég nú hef lýst, hafa tekið hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson og hv. 4. landsk. þm., Hjalti Haraldsson.