12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. um skuldasöfnun ríkisins, er ég hissa á því, að svo glöggur reikningsmaður og tölfróður skuli aldrei hafa litið á eignaaukninguna, sem er í hinum dálknum. Ef honum þykir mikið um skuldirnar, þá mundi honum þykja enn þá meira um eignirnar, ef hann hefur nokkurn tíma litið á þann dálkinn. Og það, að hann skuli þegja, hlýtur að vera vegna þess, að hann hefur ekki haft hugmyndaflug, eins og hann hefur greindina, en hugmyndaflug hans getur menn greint á um og víðsýnina til þess að skoða báðar hliðar málsins.

Varðandi þær umr., sem hér hafa farið fram um aðild að EFTA, þá tek ég undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér er auðvitað um fullkomlega þinglega meðferð að ræða og meira að segja svo, að hv. alþm. hafa haft lengri tíma til að kynna sér þetta mál, en gengur og gerist, eins og rakið hefur verið.

En það var út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. um afstöðu okkar til efnahagssamvinnu Norðurlanda og ríkisstj. hefði þar látið tækifæri sér úr greipum ganga, sem ég vildi segja nokkur orð. Hann ávítaði ríkisstj. fyrir að hafa ekki sett menn í þær undirn. eða vinnuhópa, sem nú starfa að því að kanna víðtækara efnahagssamstarf Norðurlandaríkjanna. Ég hygg, að það séu a.m.k. níu sérfræðingahópar, sem mánuðum saman hafa setið við þessa könnun og það þarf furðulegan ókunnugleika á starfsmannafjölda íslenzka ríkisins og hversu mörgum sérfræðingum við höfum á að skipa í þessum efnum, ef því er haldið fram í alvöru, að við hefðum getað látið menn til þessara starfa, eins og þau hafa verið unnin. Ég hygg og að það hefði verið gersamlega út í bláinn fyrir okkur að leggja þann mannafla fram, vegna þess að þessi rannsókn fjallar að langmestu leyti um atriði, sem okkur eru óviðkomandi. Hins vegar eigum við fullan kost á því að fylgjast með niðurstöðunum, sem af þessari rannsókn verða og fáum nægan tíma til þess. Okkar vandamál eru tiltölulega svo einföld, að auðvelt er að vekja athygli á þeim samtímis og annarri rannsókn er lokið. Þó að vandamálin séu einföld, er engan veginn þar með sagt, að þau séu auðleyst. En það er samt algerlega fráleitt, að það hefði verið Íslandi hagkvæmt að leggja fram þann mannafla, sem hv. 6. þm. Reykv. ávítaði ríkisstj. fyrir að hafa ekki gert. Því til viðbótar og aðeins til fróðleiks er rétt að geta þess, að ég átti tal um það við þá menn, sem fyrir þessari rannsókn standa, nú fyrir nokkrum vikum úti í Osló, hvernig þeir hygðu okkar viðbrögðum bezt fyrir komið okkur sjálfum til hags. Þeir voru sammála um, að langeðlilegast væri fyrir okkur að gera fyrst upp okkar hug um það, hvort við vildum gerast aðilar að EFTA, því að eins og jafnvel hv. 6. þm. Reykv. sjálfur sagði, þá er EFTA–samstarfið grundvöllur þess aukna samstarfs, sem Norðurlandaþjóðirnar eru nú að kanna, hvort þær eigi að leggja í. Og það var samróma álit þessara manna, að það væri langeðlilegast fyrir okkur að einbeita okkur fyrst að því, hvort við teldum okkur hag að því að gerast aðilar að EFTA og gætum orðið það með þeim hætti, sem við teldum viðunandi, og kanna síðan, hvort við vildum verða aðilar að því efnahagssamstarfi Norðurlandaþjóðanna, sem enginn veit enn, hvort úr verður í þeim ríka mæli, sem sumir menn hafa látið sér til hugar koma. Þetta var dómur þeirra manna, sem bezt eru að sér í þessum efnum, og einmitt þeirra, sem hv. þm. taldi eðlilegt, að við bærum mest traust til og legðum höfuðáherzlu á að ná nánu samstarfi við.

Hv. þm. ræddi jafnframt um það, að óvíst væri með öllu, hvaða iðnaðarvörur það væru, sem við gætum selt í EFTA–löndunum og af hverju við ættum frekar að leggja áherzlu á samstarf við EFTA–löndin en einhver önnur. Svarið við því síðarnefnda er auðvitað það, að í EFTA–löndunum eru frá fornu fari, ef svo má segja, okkar beztu markaðir. Það er því eðlilegt, að við a.m.k. reynum að tryggja okkur að útilokast ekki frá þeim mörkuðum, eins og vaxandi hætta hefur verið á og nú þegar er því miður of mikið orðið af í raun. En hv. þm., sem virðist bera ákaflega lítið traust til möguleika okkar í iðnaði og er raunar á móti því, að við notum þær auðsuppsprettur landsins, sem í framtíðinni munu verða til þess að gera hér jafnari og betri lífskjör, en ella kunna að verða, — hv. þm. ætti þó að gera sér ljóst, að hann, sem manna mest talar um, að við eigum að byggja á fiskveiðum, sem aðrir eru auðvitað ekki á móti, en telja, að fleira þurfi að koma til, til þess að skapa nægilegt jafnvægi, — hann ætti að gera sér ljóst, að höfuðannmarkinn á því að hafa frekari úrvinnslu úr okkar fiski innanlands, en enn er, er þessi að það er erfitt vegna tollmúranna. Við sleppum betur, ef við flytjum inn óunna vöru til annarra landa, því að tollmúrarnir gera það að verkum, að unnin vara hér á Íslandi á miklu örðugri aðgang að þessum mörkuðum en hin óunna. Og það má í raun og veru segja, að sé alger forsenda þess, að hægt sé að vinna hér verulega úr fiskafurðum, sem raunar má deila um, hvort menn geri sér ekki of miklar vonir um, en jafnvel þótt vel fari, er vonlaust, að það takist, nema því aðeins okkur heppnist að brjóta skarð í þessa tollmúra, sem eru mesta hindrunin á því, að hægt hafi verið á undanförnum árum að vinna verulega á í þessum efnum. Fram hjá þessum staðreyndum verður alls ekki komizt og hér er eitt höfuðviðfangsefni, sem menn hljóta að gera sér ljóst, ef þeir vilja, eins og þeir segja, gera okkar fiskframleiðslu fjölbreyttari, en verið befur. Einnig að þessu leyti er því ljóst, að okkur er mjög mikið hagræði að því að komast í EFTA. Hvort svo of miklir annmarkar eru því samfara að öðru leyti, er annað mál, sem sú könnun á að skera úr, sem menn nú vonast til, að skjótlega geti fram farið.