12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2940)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar að gera nokkrar aths. við ræður manna, sem vikið hafa að bollaleggingum mínum hér áðan.

Hæstv. iðnrh sýndi okkur í verki, að enda þótt hann sé búinn að gegna ráðherradómi um býsna langan tíma, kann hann ennþá svolítið til þeirrar ræðumennsku, sem hann tamdi sér í Heimdalli forðum tíð og tel ég það fagnaðarefni, að ráðh. sökkvi ekki allt of djúpt niður í þann virðuleik, sem talið er, að fylgi embætti þeirra. Hitt kom mér nokkuð á óvart, að þessi hæstv. ráðh. skyldi ekki geta áttað sig á því, hvað ég ætti við, þegar ég sagði, að ríkisstj. hefði vanrækt þjóðlega atvinnuvegi. Þessum hæstv. ráðh. hlýtur að vera ljóst, að togarafloti Íslendinga hefur dregizt saman um meira en helming á þessum áratug, að enginn nýr togari hefur bætzt við á þessu tímabili, þannig að þeir togarar, sem þó eru eftir, eru orðnir illa færir til notkunar. Við höfum forustu á þessu sviði lengi vel, en nú erum við orðnir eftirbátar allra þeirra, sem stunda togveiðar á Norður–Atlantshafi. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að vita. Hæstv. ráðh. hlýtur einnig að vita, að sá hluti bátaflotans, sem aflar hráefnis handa frystihúsunum, hefur dregizt stórlega saman á undanförnum árum. Á þetta hefur verið minnzt hér á Alþ. ár eftir ár og fluttar till. um þau efni, en þeim hefur öllum verið hafnað. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft nokkurn áhuga á því að efla þennan þátt. Ein af afleiðingum þessarar þróunar er sú, að freðfiskframleiðsla Íslendinga, hefur dregizt saman, um meira en þriðjung í tíð þessarar ríkisstj. Þar höfðum við áður forustu, en á sama tíma og þessi framleiðsla hefur dregizt svona saman hjá okkur, hafa aðrar þjóðir aukið hana stórlega, tvöfaldað hana og þrefaldað hana. Einnig þetta hefur oft verið rætt án þess að hæstv. ríkisstj. hafi nokkuð um það sinnt. Og maður skyldi ætla, að þessi hæstv. ráðh. hefði hugmyndir um ýmsa þætti iðnaðarins, sem honum er sérstaklega falið að rækja. Þar hafa gerzt mjög hrapallegir atburðir á sumum sviðum, eins og allir vita. Ýmsar greinar neyzluvöru iðnaðar hafa gefizt upp vegna innflutnings, og mjög veigamiklar greinar, eins og járniðnaður, hafa átt mjög í vök að verjast. Meira að segja ýmsar þær greinar, sem þessi hæstv. ráðh. hefur verið að hæla sér af, hafa átt í miklum erfiðleikum. Nýlega skýrði forstjóri einnar stálskipasmíðastöðvarinnar frá því, að hann hefði ekki getað hagnýtt skipasmíðastöð sína nema svo sem svarar þriðjungi af afkastagetu. Og hann benti á, að ekki væri hægt að starfrækja fyrirtæki á þennan hátt. Og ástæðan fyrir þessu er einnig stefna hæstv. ríkisstj. Þessi stefna er ein af meginástæðunum fyrir þeim ófarnaði í atvinnumálum, sem nú blasir við. Gjaldeyristekjur okkar eru þeim mun minni, sem þessi undirstaða er nú veikari og af þessum ástæðum er hætta á stórfelldu atvinnuleysi, svo að mér fannst það ekki sæma hæstv. ráðh. að tala af nokkurri léttúð um þetta mál. Ábyrgð ríkisstj. er mikil og alvarleg og hún hvílir ekki sízt á þessum hæstv. ráðh. Hann hefur oft hælt sér af því, að mikið fé hafi verið lagt í iðnað á undanförnum árum og birt um það miklar tölur. En þær tölur segja aðeins hálfa sögu, því að mikið af þessum fjármunum hefur verið lagt í fyrirtæki, sem síðan hafa ekki verið starfrækt, nema að litlu leyti og sum að engu leyti. Menn muna, hvernig fór með síldarverksmiðjuna í Hafnarfirði, sem var byggð upp með miklum tilkostnaði og miklar vonir voru við bundnar, en síðan var hún lokuð og framleiddi ekki neitt í tvö ár. Hliðstæð verksmiðja á Akureyri er nú lokuð.

Hv. 12. þm. Reykv. flutti áðan býsna skemmtilega ræðu um ástandið hér á haftatímunum. Hann rakti dæmi um það, að framkvæmd hafta hefði oft verið mörkuð af spillingu og stundum ákaflega skopleg. Ég veit, að þessi hv. þm. talar um þetta af ærnum kunnugleik, því að sá flokkur, sem hann er í, hafði lengst af fullkomna forustu um þessi höft. Hann beitti sér meira að segja fyrir því, að menn væru settir í tugthúsið fyrir að byggja garða í kringum húsin sín. En þegar skortur er í þjóðfélagi, leiðir hann alltaf til þess, að úthluta verður á einhvern hátt. Það er hægt að gera með n. og einhverjum slíkum reglum, eins og hv. þm. lýsti og á því eru margfaldir annmarkar, en það er líka til annar skömmtunarstjóri, skorturinn. Hann er sá skömmtunarstjóri, sem hæstv. ríkisstj. og þessi hv. þm. meta mest. En þeirri skömmtun er þannig háttað, að um hana verða ekki sagðar skemmtisögur. Annars þætti mér fróðlegt að heyra frá þessum hv. þm., sem er mjög fróður maður um hagfræðileg mál, hvort hann viti nokkur dæmi þess, að vanþróuð þjóð hafi byggt upp hjá sér iðnað án þess að beita til þess svokallaðri haftastefnu. Það er auðvelt að tala um frjálsræði og benda til háþróaðra iðnaðarríkja, eins og þau eru í dag. En áður, en þessi ríki urðu svona háþróuð, urðu þau að grípa til ýmissa harkalegra ráðstafana og þetta hafa allar þær þjóðir orðið að gera, sem reynt hafa að byggja upp öflugt atvinnulíf af eigin rammleik. Undan þessu verður ekki komizt. Það er mikill misskilningur hjá þessum hv. þm., að ef við göngum í EFTA, komumst við sjálfkrafa á eitthvert svipað stig og háþróaðar iðnaðarþjóðir, sem þar eru. Þetta er alger misskilningur. Á það stig komumst við aðeins með því að hafa sjálfir frumkvæði og forustu og leggja á okkur þá erfiðleika, sem því fylgja, með því að marka okkur stefnu og fylgja henni sjálfir. Við komumst ekki áleiðis á nokkurn annan hátt. Hitt þótti mér fróðlegt hjá þessum hv. þm., að hann viðurkenndi algerlega það sjónarmið, sem ég vék að í ræðu minni, að ein meginástæða fyrir því, að hæstv. ríkisstj. leggur þvílíkt ofurkapp á, að við göngum í EFTA, sé sú, að við séum þá að gera alþjóðlegan samning um stefnu sjálfra okkar í innanlandsmálum. Hv. þm. sagði, að ef við gengjum í EFTA, yrðum við að velja raunhæfa stefnu í efnahagsmálum okkar, Það er þetta, sem er keppikeflið, að við bindum okkur með alþjóðlegum samningi til að fylgja tiltekinni stefnu á Íslandi, þeirri stefnu, sem við þekkjum frá valdatíð viðreisnarstjórnarinnar. Það er e.t.v. ekki ástæðulaust að minna menn á, að ekki þarf nokkra einangrunarafstöðu til þess, að smáþjóð hugsi ráð sitt, áður en hún tengist stærri heild. Við þekkjum allir lítil samfélög í nágrenni við okkur, t.d. eyjar í nánd við Bretland, þar sem mannlífi var forðum lifað á svipaðan hátt og hér á Íslandi. Þessar eyjar eru nú orðnar tengdar stærri heild og hvernig hefur farið? Þar er allt dautt og staðnað. Þetta eru útkjálkaþjóðfélög. Þar hefst naumast nokkur maður við. Þar er ekki lifað lifandi nútímalífi. Þetta verðum við að vita, þó að við verðum líka að varast ótímabæra tortryggni. En við skulum ekki flana út í neitt.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði sýnt furðulegan ókunnugleika í tali mínu um, að hæstv. ríkisstj. hefði vanrækt að fylgjast nægilega vel með þeim athugunum, sem gerðar hefðu verið á Norðurlöndum á þessu ári og sagði, að þar hefðu verið starfandi níu undirnefndir og ríkisstj. hefði ekki tiltæka embættismenn í allar slíkar nefndir. Ég hafði ekki hugsað mér, að hæstv. ríkisstj. setti menn í allar þessar nefndir. En vafalaust hefði verið auðvelt fyrir hana að velja úr verkefni, sem eru sérstaklega tengd hagsmunum okkar, t.a.m. í sambandi við fiskveiðar, fiskiðnað og fjárfestingarathuganir, sem þar er verið að ræða um. Mér sýnist það ekkert vafamál, að hæstv. ríkisstj. hefur sýnt þessu máli allt of mikið tómlæti og nánast furðulegt tómlæti.

Hæstv. forsrh. sagði einnig, að ég hefði lítið traust á getu okkar í iðnaði og væri andvígur því, að við hagnýttum auðlindir okkar til iðnaðarframkvæmda. Þetta er algert öfugmæli. Ég hef mikla trú á getu okkar í iðnaði, en því aðeins að við tökum upp allt önnur vinnubrögð í hagstjórn heldur en við höfum viðhaft að undanförnu. Við náum aldrei nokkrum tökum á iðnaði, nema við sameinum krafta okkar með áætlunarbúskap. Ef þessi örsmáu fyrirtæki, sem hér eru, eiga að basla hvert fyrir sig, munum við aldrei ná nokkrum árangri, sem heitir. Ef við ætlum að vinna ný lönd á þessu sviði, verðum við að taka upp áætlunargerð, sem miðast við aðstæður okkar og áætlunarstjórn. Ef við gerum það, tel ég, að við höfum mikla möguleika. Það hrapallegasta, sem við gerum, er hins vegar að halda áfram á þeirri braut að framleiða aðeins hráefni og hráorku. Samningurinn við „alúmínhringinn“ snýst aðeins um það, að við tökum að okkur að framleiða raforku og seljum „alúminhringnum“ hana fyrir verð, sem er mjög nálægt kostnaðarverði. Þetta er alveg sams konar og hráefnisframleiðsla. Hringurinn hagnýtir sér þessa hráorku, sem við seljum honum. Hann hirðir arðinn af henni og flytur arðinn úr landi. Þetta er ekki iðnvæðing, sem verður Íslandi að gagni. Gagnrýni okkar á þennan samning er sú, að við teljum, að við eigum sjálfir að efla þann iðnað, sem við getum stofnað í landinu. Mér er fullljóst, að til þess þurfum við samvinnu á ýmsum sviðum við erlenda aðila. En þar tel ég, að við ættum sérstaklega að beina athygli okkar að Norðurlöndum. Þar þekkja menn til hliðstæðra vandamála og hér eru og þar mundi verða litið af vinsemd á vandamál okkar.

Það eru engin ný tíðindi, sem hæstv. forsrh. sagði, að erfitt væri að selja fullunnar fiskafurðir, — það yrði að brjótast gegnum tollmúra. Ég lagði mikla áherzlu á þetta í minni ræðu áðan. En við verðum að vita í gegnum hvaða múra við viljum brjótast. Við verðum að vita, hvaða markaði við viljum hagnýta okkur. Og eins og ástatt er nú, vitum við þetta ekki, vegna þess að algerlega vantar heildaráætlanir um þróun iðnaðar á Íslandi. Vitneskju vantar um, hvað það er, sem menn hugsa sér, að við eigum að framleiða á svo hagkvæman hátt, að það standist samkeppni á erlendum mörkuðum.

Hv. 9. þm. Reykv. og ýmsir aðrir hafa vikið að því, að þessi till. feli ekki í sér nokkra endanlega ákvörðun um aðild að EFTA. Það er alveg rétt. Till. gerir það ekki að forminu til. En ég hygg samt, að hér sé um að ræða þá ákvörðun, sem skiptir máli í raun. Við þekkjum dálítið orðið til hliðstæðrar samningsgerðar á undanförnum árum. Raunin vill verða sú, að trúnaðarmenn vinna að slíkum samningum, en að lokum eru þeir lagðir fyrir í því formi, að ekki megi breyta einum einasta stafkrók. Jafnvel þótt Alþ. vilji gera breytingu, þá er því lýst yfir, að þetta sé ekki hægt. Annaðhvort verða menn að samþykkja eða fella. Dæmin um þetta eru mýmörg, nú síðast í sambandi við „alúmínsamningana.“ Einnig þar fékk stjórnarandstaðan að fylgjast með allt til loka. En síðasta stigið var, að málið var lagt fyrir hér til svokallaðrar formlegrar afgreiðslu, en hún var aðeins þessi: Þm. máttu segja já eða nei, annað ekki. Ég tel allar líkur á því, að meðferð þessa máls verði hin sama. Þess vegna held ég, að það sé alveg ótvírætt, að núna erum við að taka ákvörðunina, einmitt á þessari stundu, en síðar verður um formið að ræða.

Ég er alveg sammála hv. 9. þm. Reykv. um það, að þessi ríkisstj. verður vonandi ekki langlíf. Hitt skulum við muna, að hún hefur meiri hl. hér á þingi og kjörtímabili hennar lýkur ekki fyrr en 1971. Það er vel hugsanlegt, að fyrir þann tíma komi lokaákvörðunin fyrir á þingi. Ég ber ekki það traust til þessarar ríkisstj., að ég telji málinu vel borgið í hennar höndum.