12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2941)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér sýnist muni verða ávinningur að sumu leyti af þeim umr., sem hér fara fram, þó að aðrir þættir séu dálítið einkennilegir og utan við efnið og mun ég ekkert víkja að þeim.

Mér finnst gæta hér hjá sumum misskilnings, en hann er sá, að með því að sækja um aðild að EFTA, eins og þáltill. gerir ráð fyrir, sé eingöngu verið að fara til þess að afla upplýsinga. Þetta er auðvitað grundvallar misskilningur, því að þetta þýðir, að það er farið af stað í umr., sem áður, en varir verða að samningum, sem svo geta endað í aðild eða þannig, að ekki náist það samkomulag, að úr aðild verði. En það er verið að leggja út í samninga og það er einmitt þess vegna, sem við í minni hl. drögum fram það sjónarmið, að Íslendingar þurfi að búa sig betur að heiman, áður en lagt er í viðtöl, sem verða í reyndinni samningar, þar sem skiptir höfuðmáli, hvernig á málum er haldið þegar frá byrjun, hvaða sjónarmið eru sett fram og hversu ákveðnir menn eru og þekkja vel sjálfa sig og hvað þeir vilja fá.

Það er einmitt í þessu tilliti, sem við álítum, að okkur íslenzkum sé mjög áfátt, eins og greinir í nál. og ég hélt fram í minni framsöguræðu, og skal ég ekki vera að þreyta þm. á því að taka það allt upp aftur, sem ég sagði þá því til stuðnings, enda gefa sannast að segja umr., sem fram hafa farið, ekki tilefni til þess. Ég mun því alveg sleppa því að leggja það á menn. En ég ætla að minnast hér á þrjú eða fjögur atriði, sem mér finnst, að gæti verið ávinningur að ræða nánar eða benda á.

Það er fyrst í sambandi við það, sem hæstv. viðskrh. sagði, þar sem hann dró mjög fram umsögn Félags ísl. iðnrekenda til stuðnings því, að einmitt núna þyrfti að gera gangskör að því að sækja um aðild. Það er rétt, að í þessari álitsgerð, sem frá þeim liggur fyrir eða bréfi, þar lýsa þeir því yfir, að þeir álíti rétt, að sótt verði um aðild, þannig að unnt sé að gera sér fullkomna grein fyrir því, hvað í henni felst. En á hinn bóginn er engin afstaða tekin til þess í bréfinu, svo að ég geti séð, hvort það sé endilega nauðsynlegt að taka þá ákvörðun þessa dagana eða eitthvað síðar. Ég bendi á, að einmitt í þessu bréfi eru mjög veigamikil rök fyrir því, að það þurfi að skoða málin betur en enn þá hefur verið gert og sérstaklega vitna ég í því sambandi til þess, að í bréfinu segir, að ársþing iðnrekenda 1968 telji nauðsynlegt, að fram fari á því rækileg athugun, hvernig framtíðarhagsmunir íslenzks atvinnulífs verði bezt tryggðir með tilliti til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á sviði alþjóðaviðskipta og þá einkum við myndun markaðsbandalaga í Evrópu. Þetta álítur aðalfundurinn mjög þýðingarmikið, að verði gert. En hafi slík athugun farið fram, hafa niðurstöður hennar algerlega farið framhjá mér og ég er iðnrekendasambandinu alveg sammála um, að slík skoðun þyrfti að verða nánari en ennþá hefur orðið og einmitt þetta höfum við í minni hl. lagt talsverða áherzlu á. Enn fremur vil ég benda á það, sem raunar ætti að vera óþarft, að í niðurlagi bréfsins segir iðnrekendasambandið, „að endanlega afstöðu til aðildar teljum vér oss þá fyrst geta tekið, þegar niðurstöður þeirra samningaviðræðna, liggja fyrir og ríkisstj. Íslands hefur gert grein fyrir því, hverjum aðgerðum hún hyggst beita sér fyrir til þess að leggja grundvöll að þeirri iðnþróun, sem hér verður að eiga sér stað í næstu framtíð.“ Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði og þetta sýnir, að málið er einmitt rekið með of miklum hraða. Segjum, að þessar viðræður hefjist nálega strax og miði nokkuð hratt áfram, ætli iðnrekendasambandið mundi þá í raun og veru gera ráð fyrir því, að ríkisstj. yrði tilbúin t.d. strax upp úr áramótunum til þess að gefa fullnægjandi skuldbindingar um þá stefnu í iðnaðarmálum, sem að dómi iðnrekendasambandsins sjálfs er alger forsenda fyrir því, að aðild komi til mála? Ég held, að hér sé þannig á málum haldið, að allar líkur séu á því, að fengi umsóknin greiðlegar undirtektir, stöndum við hreinlega eins og þvörur í því að gera grein fyrir, hvernig ætlunin er að gjörbreyta stefnunni, þannig að fái staðizt og þess vegna þurfi þetta allt betri skoðunar við.

Annars er engin ástæða til þess að vera að reyna að dýpka þann ágreining, sem hér liggur fyrir, en hann er sem sagt um þetta, að við álítum, að það muni koma að því, að Íslendingar þurfi að leita skynsamlegra tengsla við þetta bandalag, en við teljum, að okkur sé margt að vanbúnaði enn og ætti að leggja áherzlu á að bæta úr því, áður en út í þetta er farið. Ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á, að ég óttast, að við fáum mun óhagstæðari og verri samninga fyrir okkur, ef við skoðum ekki betur okkar gang, áður en við leggjum af stað.

Ég verð að segja, að það jók ekki traust mitt, sem hæstv. viðskrh. sagði, því að hann ræddi þetta mál, — að því er mér fannst — í ákafatón og fremur leiðinlegum, hálfgerðum skætingstón. Það var ekkert, sem gaf hæstv. ráðh. tilefni til þess að fara að tala um, að ég væri sérstaklega bölsýnn og leggja áherzlu á, hvað hann væri skemmtilega bjartsýnn. Íslenzku þjóðinni hefur gengið illa nú undanfarið að lifa á skýjaborgum hæstv. ráðh. og ég býst við, að það verði þannig áfram. En umr. af þessu tagi hafa í sjálfu sér enga þýðingu. Það getur verið gaman að orðaskiptum í þessum tón, en þau hafa enga þýðingu fyrir málið og ég hefði ekki farið að flytja neitt í þessum dúr, ef hæstv. ráðh. hefði ekki kastað boltanum.

Ég álít, að hæstv. ráðh. sé skylt að athuga mjög gaumgæfilega það, sem við höldum fram varðandi þessi mál og að taka tillit til þess eftir því, sem honum er fært og það er engin ástæða til þess fyrir hann að taka því illa, þó að það sé lögð alvara í að benda á allar hliðar þessa mjög svo vandasama máls. Ég ætla algerlega að leiða hjá mér að fara að lengja þessar umr. með því að fara að ræða við hæstv. ráðh. um þróun íslenzks iðnaðar síðustu árin, þó að hann gæfi tilefni til þess, vegna þess að ég legg miklu meira upp úr því að reyna að fá hér fram einhver atriði, sem skipta máli varðandi það, hvort eigi að sækja um aðild og ef menn sækja, þá varðandi heimanbúnað manna í samningana.

Hv. þm., Sveinn Guðmundsson, ræddi hér nokkuð um þetta mál og hann kom inn á ýmis mikilsverð atriði, sem ég vil leyfa mér að benda á og að sumu leyti gefa tilefni til fsp. Hann sagði, varðandi 16. gr., að enginn gæti sagt um það, hvaða skilyrði Ísland þyrfti að uppfylla og það ætti bæði við hana og ýmislegt annað, að hans dómi. Það er náttúrlega ekki vitað um allt til fulls. Við þekkjum þó almenna EFTA–samninginn, en við vitum ekki, hvaða undanþágur við getum fengið, og að því leyti er þetta rétt hjá hv. þm. Hann sagðist standa í þeirri meiningu, að það væri hægt að setja lög um, að það þyrfti leyfi til þess að setja upp fyrirtæki. Það hefði verið gert í Noregi og þannig mætti hafa vald á því, hvaða útlendingar kæmu hér atvinnurekstri á fót. En ég hef skilið það svo, að slík löggjöf mætti hvorki vera um það né framkvæmd þannig, að íslenzkum aðilum væri leyft að setja upp fyrirtæki í EFTA–greinum, en öðrum væri neitað. Ef ég skil þetta rétt, hefur löggjöf af þessu tagi ekki mikla þýðingu. Er þetta misskilningur hjá mér? Má setja löggjöf, sem er framkvæmd þannig án þess að hafa nokkrar sérstakar undanþágur frá EFTA–samningnum, að íslenzkum aðilum sé t.d.eyft að koma upp fyrirtæki í einhverri grein, en erlendum aðila úr EFTA–landi neitað? Samrýmist þetta EFTA–samningnum? Mundi ekki þurfa sérstök ákvæði um þetta fyrir Ísland, ef til kæmi? Það þýðir ekki að tala um þetta í þoku. Við verðum að tala þannig, að við skiljum hvern annan. Ég hef satt að segja skilið þau þokukenndu ummæli, sem eru um þetta í embættismannaskýrslunni, þannig, að ekki mætti mismuna, nema það væri sérsamningur varðandi það land, sem hlut ætti að máli. Kannske finnst mönnum óþarfi að vera að ræða um þetta áður en menn fara í þessa samninga, en ætli menn séu almennt þeirrar skoðunar, að það sé óþarfi að gera sér grein fyrir þessu? Ég dreg mjög í efa, að menn séu almennt þeirrar skoðunar.

Ég ber mikinn kvíðboga í sambandi við verndaða iðnaðinn. Þó að ég hafi mikla trú á því, að við getum komið hér upp mörgum myndarlegum iðngreinum, sem gætu spjarað sig, þá er verndaði iðnaðurinn gífurlegur þáttur í okkar búskap og verður framvegis, ef hann yxi áfram. Ég vil ekki segja með þessu, að við þurfum endilega að halda í allan hinn verndaða iðnað. Þetta er ekki annaðhvort svart eða hvítt, alveg opið eða alveg lokað o.s.frv. Það verður sjaldan mikið úr framkvæmdinni á þeirri speki, sem er byggð á þess konar hugsun. Hér verður venjulega að þræða bil beggja.

Það kemur í ljós við þessar umr. og það tel ég ekki með öllu gagnslaust, að það eru fleiri en ég, sem hafa áhyggjur af því, hvort iðnaður standist óverndaður og t.d. eru Bretar núna nýbúnir að setja 10% verndartoll á EFTA–fisk til þess að vernda þá iðngrein hjá sér. Jafnvel stórveldið Bretar, verandi í EFTA, er að setja verndartoll á þessa grein. Menn segja, að þetta sé þvert ofan í EFTA–samkomulagið. Mundum við geta gert svona fyrirvaralaust, litlir aðilar, eftir að við værum komnir í EFTA, jafnvel þó að Bretar geti gert það? Ég spyr. Er ekki ástæða til þess að ræða þetta atriði?

Það er líka upplýst hér af hendi hv. alþm., Sveins Guðmundssonar, að Bretar hafi innleitt hjá sér sérstakan stuðning við álbræðslur, en sérstakur stuðningur við einstakar greinar er bannaður eftir EFTA–samkomulaginu. Voru þeir að brjóta með þessu EFTA–samkomulagið? Má þá brjóta það eins og mönnum sýnist, eða eru það aðeins Bretar og þeir stóru, sem mega brjóta? Eru þetta ekki atriði, sem þarf að íhuga? Ég hygg það.

Þá komu fram hér mjög merkilegar upplýsingar frá hv. alþm., sem sé þær, að það væri átölulaust að Norðmenn vernduðu ýmis fyrirtæki sín, þó að þeir væru í EFTA, fyrir samkeppni erlendis frá, líka frá EFTA–félögum sínum væntanlega, þ.á.m. með því að taka innlendum tilboðum, þó að þau væru 10% hærri en erlend. Er þetta gert samkv. EFTA–samningnum, eða er verið að brjóta EFTA–samninginn? Eru Norðmenn að brjóta EFTA–samninginn með þessu? Eða er þetta gert samkv. EFTA–samningnum? Hafa þeir undanþágu í þessu efni? Og gætum við ekki, eins og ég sagði hér í minni frumræðu, en enginn hefur fengizt til að ræða, — gætum við ekki fengið eitthvað hliðstæða möguleika í þessu sambandi með okkar smáa þjóðarbúskap og okkar smáa iðnað? Ég verð að segja, að kvíði minn í sambandi við EFTA mundi minnka alveg gífurlega, ef það kæmi í ljós, að hægt væri að fá skynsamlegar undanþágur, — skynsamleg ákvæði kæmu til, — sem gerðu að verkum, að við lægjum ekki algerlega flatir fyrir öllum sjóum í sambandi við okkar verndaða iðnað. Það, sem hér hefur verið upplýst í umr., tel ég gagnlegt. Það sýnir, að í þessu tilliti er margt, sem þarf að skoða og það eru ýmsir fleiri en ég og það í stærri löndum, sem hafa áhyggjur af þessari hlið og hafa framkvæmt ýmislegt til þess að tryggja sig. Ég mundi segja, að einmitt þetta, að við skulum nú í dag fá þessar upplýsingar um afstöðu Norðmanna, eru ekki litlar fréttir fyrir mig. Ég sé hvergi vikið að þessu í embættismannaskýrslunni um EFTA og er hún þó rituð af mönnum, sem árum saman hafa kynnt sér EFTA–mál. En það er samt ekkert um þetta í skýrslunni. Er þetta ekki verkefni fyrir EFTA–nefndina að skoða, og er þetta ekki einn liðurinn í því að búa sig að heiman í þessa samninga að kynna sér allt það, sem að slíku getur lotið?

Ég skal ekki tefja þessar umr. Ég ætla mér ekki að fara að kýta hér um þessi efni fram og aftur eða skipta mér af öðrum málum, sem hér hafa borizt í tal. En mér finnst þetta athyglisvert, sem fram hefur komi, og styðja mjög okkar till. til rökstuddrar dagskrár.