12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2942)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Hér er búið að segja mörg orð um þessa till. og get ég víst sparað mér langa ræðu, því að hv. andstæðingum till. hefur verið svarað af fjöldamörgum öðrum um ýmis atriði. En hitt verð ég að segja, að það má vera aum ævi að vera fulltrúi fyrir hv. 1. þm. Austf. og hv. 6. þm. Reykv. í n. eins og þeirri, sem starfað hefur að þessu máli undanfarið ár. Þar hafa setið ágætir menn, sem hafa unnið saman algerlega „loyalt“, að því er ég hef getað sé á fundum, að athugun þessa máls. Það hefur aldrei staðið á því að reyna að útvega þær upplýsingar, sem starfsmenn n. gátu útvegað okkur og við báðum um. Vitanlega eru ekki allar þær upplýsingar í þeirri grg., sem lögð var fyrir þm. Sumar n. hafa þann sið að senda frá sér þykka doðranta, þegar þær hafa starfað, til þess að sýna, hvað þær hafa verið duglegar. Árangurinn er sá einn, að enginn maður les þetta. Það er lagt á skrifborð, hillur og í skúffur og enginn er nokkru nær. Þarna hefur einmitt verið farið hin leiðin — að semja aðgengilega grg. um ýmis aðalatriði. Að sjálfsögðu var ekki hægt að koma inn á hvert einasta atriði, sem á góma hefur borið. En það er auðséð t.d. af síðustu ræðu hv. 1. þm. Austf., að hann hefur ekki verið að hlusta eftir þeim upplýsingum, sem fram komu á fundum, hvernig ýmis ákvæði EFTA– samningsins hafa verið framkvæmd, t.d. á Norðurlöndum og raunar víðar, en um það höfum við fengið upplýsingar á fundunum frá mætum mönnum frá þessum löndum, sem hér hafa verið á ferð og einnig hefur gagna verið aflað bæði skriflega og í viðtölum frá þeim aðilum, sem kunnastir voru málum í hverju landi. Ef hv. þm. hefði gert sér það ómak að fylgjast með því jafnóðum, sem í n. gerðist og ég tel víst, að hans ágætu fulltrúar hefðu verið fúsir til að fræða hann um, ef eyru hans hefðu verið opin, þá hefði hann ekki spurt svo fávíslega sem hann hefur gert hér á þessum fundi í vissum atriðum.

Þótt „hinir þjóðlegu, íslenzku atvinnuvegir“ séu fjarri því að vera á eins mikilli niðurleið eða í eins mikilli niðurlægingu og hv. 6. þm. Reykv. vill vera láta, verður hinu ekki leynt, að það er samhljóða álit allra, sem skyn bera á slíka hluti, að engar líkur séu til þess, að þeir verði þess megnugir að taka á næstu árum við þeirri fjölgun af vinnandi fólki, sem gera má ráð fyrir hjá íslenzku þjóðinni. Hvert er þá að leita? Jú, það er hægt að leita til haftastefnunnar: Setja þetta fólk í að prenta umsóknareyðublöð, vera dyraverði á innflutningsskrifstofum, sitja í n., úthluta, vera „agentar“ til að tala við þm. og ganga á milli stjórnarvalda og biðja um leyfi. Það er hægt að útvega allmörgum mönnum atvinnu með þessu móti og það er líka hægt að útvega vaxandi fjölda fólks atvinnu við verndaðan iðnað, en verndaður iðnaður þýðir aumari lífskjör. Það þýðir lægri lífskjör. Það þýðir, að mönnum verður minna úr þeim tekjum, sem þeir fá, heldur en verða mundi, ef búið er við frjálsræði þjóða á milli í viðskiptum, því að þá nýtast manni peningarnir betur. Þess vegna er það álit manna, að við þurfum einmitt að búa okkur undir að koma hér upp öflugum útflutningsiðnaði.

Þarna er vissulega við ramman reip að draga, m. a., eins og hv. 1. þm. Austf. minntist á, vegna fjarlægðarinnar. Það getur verið aukinn kostnaður við að flytja hluti héðan til útlanda, en flutningskostnaðurinn er þó ekki nema eitt af mörgum atriðum, sem þarf að athuga. Miklu erfiðara atriði eru tollarnir, að komast gegnum tollmúrana erlendis. Ef við eigum að byggja upp útflutningsiðnað, verðum við að standa jafnfætis öðrum, — hafa jafnrétti á við aðra á þeim mörkuðum, sem við ætlum að komast inn á. En það þarf enginn að ímynda sér, að við getum fengið slíkt jafnrétti án þess að leggja eitthvað í sölurnar á móti, — án þess að það verði á gagnkvæmis grundvelli. Spurningin er aðeins, hvort við kynnum að geta fengið vissan frest til aðgerða. Það hefur verið talað um 10–15 ár, eins og t.d. Portúgal hefur fengið, til að mynda þennan gagnkvæmis grundvöll. Okkur yrði hugsanlega hleypt inn strax með það, sem við höfum mestan áhuga á að ná, en við þyrftum að fá langan biðtíma til að koma okkar hlutum í lag. En að hugsa okkur, að heimurinn sé að verða svo góður, að við getum búizt við að fá að flytja frjálst inn til allra landa í jafnréttisaðstöðu við öll önnur lönd, án þess að láta nokkuð á móti, er að lifa í vímu og það er fullkominn skortur á raunsæi.

Hv. 6. þm. Reykv. vill byrja á því að endurskipuleggja iðnaðinn, áður en við aðhyllumst einhver fríverzlunarsamtök úti í álfu, en þetta er að hafa endaskipti á hlutunum. Við þurfum að byrja á því að sjá við hvaða aðstæður við eigum að vinna á næstunni, hvaða möguleika við höfum til þess að njóta jafnréttis við aðra og eingöngu með raunsæju mati á því, hvar við stöndum, — hvar íslenzki iðnaðurinn stendur í samkeppninni. Getum við hafnað og valið, hvaða greinar við eigum að leggja áherzlu á öðrum fremur?

Og þetta er einmitt ein af ástæðunum til þess, að það má ekki bíða. Það má ekki bíða og hika og velta vöngum að eilífu yfir því, hvaða leið við ætlum að fara. Þetta er ein af ástæðunum. Önnur ástæðan fyrir því að flýta málinu er sú, að það gæti í vanda dagsins í dag orðið okkur til hjálpar að geta gengið í EFTA. Ég segi það gæti, — ég nota viðtengingarháttinn, — því að það er ekkert víst, að við eigum kost á slíkum kjörum, að það verði ómaksins vert að ganga í EFTA. Það er ekki víst í fyrsta lagi, að við eigum yfirleitt nokkurn kost á að ganga í EFTA og í öðru lagi er ekki víst, að við getum borgað aðgöngumiðann, en þetta verður ekki rannsakað. Það verður ekki komizt að þessu tvennu með öðru móti, en láta reyna á það, tala við þessa menn og komast að því, hvað til þarf. Síðan veljum við eða höfnum.

Skelfing 1. þm. Austf. yfir því, ef ætti að ganga í EFTA fyrirvaralaust, var ekki lítil, en þegar hann fór að ræða um leiðir, minntist hann þó á það, — sem hann sagði; að kannske væri fjarstæða — að athuga, hvort mætti taka þetta í áföngum. Ég skal fullvissa hv. 1. þm. Austf. um, að það er fjarri því að vera fjarstæða að athuga þetta. Þetta er akkúrat það, sem við erum að athuga. Það stendur til að taka á okkur byrðarnar í áföngum, það er einmitt það. Ef hv. 1. þm. Austf. hefði gert sér það ómak að fylgjast með því, sem hefur gerzt í málinu, hefði hann tekið eftir því og reyndar kom nokkrum sinnum fram í ræðu hans, að honum var ljóst, að það stendur til að reyna að taka málið í áföngum.

Það stendur heldur ekki til að ganga í EFTA fyrirvaralaust. Við getum ekki gengið í EFTA fyrirvaralaust. Það er einmitt annað af því, sem við ætlum að fá skorið úr, ef þessi till. verður samþykkt. Það er, hvaða fyrirvara af okkar hálfu vilja þessir menn sætta sig við. Svona liggur það mál fyrir. En það kom nú raunar í ljós, hvar fiskur lá undir steini hjá hv. þm., þegar hann minntist á draumsýn sína um innflutnings– og gjaldeyrishöft, sem hann heldur, að séu nú á næsta leiti. Hann hefur sjálfsagt oft dreymt það fyrr, að það væri ekki langt í blessuð innflutningshöftin aftur. Þessu máli hafa nú verið gerð ýtarleg skil af hv. 12. þm. Reykv. og mér liggur við að segja við minn lærða vin, 12. þm. Reykv., að það var nú á takmörkunum, að það væri fallegt af honum að vera svona fjálgur í lýsingu sinni á hinni fornu haftaparadís, sem hinn gamli Adam Framsfl. hefur verið hrakinn úr. Þetta verður örugglega ekki til þess að styrkja hann í því, að við eigum að ganga í EFTA, heldur þvert á móti, eins og raunar kom greinilega fram hjá vopnabróður hans, hv. 1. þm. Norðurl. v., hinum hrausta víkingi úr nágrenni Grettis, þegar hann skók hér brandinn fyrir haftastefnuna. Niðurstaðan af þessu verður sú, að ég hygg, að þessir herrar sannfærast en betur en áður um það, að Fríverzlunarsamtökin séu ein allsherjar Gilitrutt, sem við eigum að forðast samneyti við, svo að ég noti hina fögru og kurteislegu líkingu hv. 1. þm. Austf. um þessa alþjóðastofnun. Mótbáran er sem sagt sú gegn því að samþykkja þessa till., að það geti orðið erfiðara að koma á höftum, ef við göngum í EFTA. Þetta kom einnig fram hjá hv. 6. þm. Reykv. [Þegar hér var komið, dundi grjót á veggjum og gluggum Alþingishússins.] Vill ekki hv. 6. þm. Reykv. hasta á börnin sín, sem eru að kasta grjóti á húsið? — Það kom fram, að skelfing þessara manna er mest við það, að þá hefðum við tekið fasta stefnu. Hugsið ykkur! Hvílík skelfing, ef Íslendingar tækju nú fasta stefnu í einhverju máli! Hv. 1. þm. Austf. sagði: „Þorið þið að lofa þessu? Þorið þið að lofa, að þið ætlið ekki að aðhyllast verndartolla og þið ætlið ekki að leggja á höft?“ Hann þorir ekki að lofa því í dag. Er nokkuð meiri ástæða til að ætla að hann þori að lofa því síðar? Ég veit það ekki. Ég þori að lofa því, ef ég fæ næga hagsmuni á móti, — ef ég álít, að mér sé betur borgið, eftir að hafa gefið þetta loforð og með því að efna það, heldur en væri, ef ég hefði frjálsar hendur um höft og verndartolla. Þarna er nú munurinn á afstöðu hans og minni.

Það hefur nokkrum sinnum verið minnzt á freðfisktollinn, sem Bretar hafa komið á. Ég held, að þar hafi verið talað af nokkurri vanþekkingu. Ég hef ekki samninginn handbæran, en ef ég man rétt, er þarna um að ræða sérstakt ákvæði í sérsamningi milli Noregs og Bretlands, og þar er um tollfrelsi að ræða fyrir aðeins 24 þús. smálestir af freðfiski. Hugsun Breta skilst mér vera sú að takmarka tollfrelsið og innflutninginn við það magn, en vegna þess að Norðmenn hafa flutt inn töluvert meira magn en þetta, hafa þeir talið sig lausa allra mála. Norðmenn vilja skýra þessa texta öðru vísi, og þarna er deila um skilning á samningi, en ég held, að það sé misskilningur að tala þarna um bersýnilegt brot af Breta hálfu á samningnum og segja, að þetta sé enn eitt dæmi um það, að þeir túlki hann eins og þeim sjálfum sýnist.

Hv. 6. þm. Reykv. hefur nú í seinni tíð stundum gert sér til dundurs að gerast postuli þingræðislegra aðferða. Hann er gamansamur maður og það er ekki svo margt skemmtilegt, sem gerist hér á þinginu, að í sjálfu sér er ákaflega mikil dægradvöl að því, þegar hann tekur á sig þetta gervi. En hann má ekki vera svona óvarfærinn í tali, eins og þegar hann segir, að venjuleg þingræðisleg meðferð á þessu máli hefði verið sú að setja það í n. Hún hefði kallað fyrir sig ýmsa menn og síðan hefði hún samið nál. og það verið tekið til umræðu. Málið var sett í n. í fyrra. Flokkur hv. þm. setti mann í n. og varamann. Það var ekki öðrum um að kenna en þeim þingflokki sjálfum, að varamaðurinn var ekki þm., en þetta var mjög hæfur og dugandi maður, sem sat suma fundina fyrir hv. aðalmann. Sama var um Framsfl. Þar kusu þeir mann sem aðalmann, sem ekki á sæti á þingi og það er ekki við aðra að sakast en kjósendur, að hann er ekki þm. sá góði og mæti maður. Og þeir höfðu líka ágætan varamann og svo er varaþingmannakerfinu fyrir að þakka, að sá ágæti maður sést þó öðru hvoru hér á þingi. Málið hefur fengið þingræðislega meðferð í þessari góðu n., sem hefur kallað fyrir sig tugi af mönnum, rætt við þá, haldið fjölda funda, rætt við, — held ég — öll hagsmunasamtök í landinu, sem þarna komu til greina, rætt við marga erlenda sérfræðinga, sem gátu gefið okkur upplýsingar, svo að það hefði verið hægt að velja heppilegra dæmi, þegar þingræðisgæran var sett á herðarnar. En það er eins og hv. þm. nægi ekki ein gæra, því að ofan á þingræðisgæruna hefur hann breitt nýja gæru, Norðurlandagæruna. Hann er farinn að láta eins og hans flokki sé sérstök þökk í náinni samvinnu við Norðurlöndin, þess vegna eigum við að athuga allt um viðskiptabandalag Norðurlanda. Nú er búið að benda á það áður, að viðskiptabandalag Norðurlanda byggir einmitt á EFTA. Hann segir, að það sé klofningur frá EFTA. Það fer svo fjarri því. Maður flytur ekki búferlum, þótt hann byggi hæð ofan á hús, sem fyrir er. Grunnurinn er ekki farinn undan húsinu, sem fyrir var, heldur er aðeins verið að stækka sama bústaðinn. En það fer alltaf þannig, að hvað margar gærur, sem hv. 6. þm. Reykv. breiðir yfir sig, þá hverfa aldrei rauðu úlfshárin, við sjáum þau alltaf. Hann kemst ekki hjá því, að við komum alltaf auga á þau.

Ég geri nú ráð fyrir, að það fari að síga á seinni hlutann á þessum umræðum og við verðum að horfast í augu við það og taka þá stórkostlegu áhættu að taka ákvörðun um að kanna leiðina og síðar verðum við líka að þora að taka afstöðu til þess, hvaða leið er fær til þess að sjá hinni uppvaxandi æsku og ófæddum sonum og dætrum þessa lands fyrir viðurværi. Annars verður hv. 1. þm. Austf., ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur, að segja hverjum nýgiftum hjónum og reyndar hverri konu og hverjum karli í þessu landi að bíða, þangað til hann hefur skipað n. og fengið rökstutt álit á því, hvernig eigi að sjá uppvaxandi fólki og hinum ófæddu, en komandi íbúum þessa lands fyrir atvinnu.