06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

20. mál, starfshættir Alþingis

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram, að þessi þáltill. er einkafyrirtæki mitt og þau sjónarmið, sem koma fram af minni hendi í sambandi við flutning hennar, eru mín persónulegu viðhorf. Segi ég þetta til að fyrirbyggja í upphafi allan misskilning að þessu leyti.

Ég lít á þessa þáltill. sem eins konar framhald af þeim umr., sem hér urðu í fyrravetur um starfshætti Alþ., bæði í sambandi við frv., sem flutt var um breytingu á þingsköpum Alþ. og þær umr., sem urðu um kosningalaga breytinguna, sem þá var til meðferðar. Setti ég þá m.a. fram nokkur af þeim atriðum, sem ég mun koma að í samb. við þetta mál, sem ég flyt nú. Þessi málefni hafa verið rædd af miklu kappi utan Alþ. Farið hafa fram miklar umr. um þjóðmálastarf, stjórnmálaflokka og störf Alþ. og stöðu þess. M.a. hefur æðimargt af ungu fólki látið til sín heyra.

Því hefur verið haldið fram stundum undanfarið, að ekki sé ýkja miklum pólitískum áhuga fyrir að fara með þjóðinni, en ég er ekki sömu skoðunar og ýmsir aðrir að þessu leyti og tel einmitt, að þessar umr. beri vott um verulegan pólitískan áhuga með þjóðinni og raunar mikla umhyggju fyrir Alþ. sérstaklega. Þessar umr. hafa verið háðar af miklu kappi og áhuga og það er auðséð, að mönnum er alls ekki sama, hvernig til tekst um þessi efni, heldur þvert á móti.

Ýmsir segja, að umr., sem átt hafa sér stað utan Alþ. um þessi málefni, séu ekki nógu jákvæðar og það má vera. En getum við búizt við, að því kornunga fólki, sem þar hefur tekið til máls, liggi í augum uppi einfaldar aðferðir til þess að bæta úr í þessum efnum, þegar það hefur vafizt fyrir þeim, þ.á.m. okkur, sem eldri erum, að finna nógu góðar starfsaðferðir og heppileg úrræði? Við eigum sem sé að mínu viti að viðurkenna, að ástandið er ekki nógu gott og snúa okkur að því að íhuga allt okkar ráð í þessu tilliti frá rótum og m.a. taka upp samstarf við unga fólkið og aðra utan Alþ., sem áhuga hafa í þessum efnum, reyna að hafa gagn af þeim áhuga, sem þarna kemur fram og notfæra okkur t.d., að margt af unga fólkinu, sér betur en við sumt, sem áfátt er, þótt því að sjálfsögðu kunni að missýnast um annað. Hreinskilnislegar umr. eiga að vera undirstaða endurbóta bæði utan þings og ekki síður á Alþ. sjálfu um þessi efni, en Alþ. er að sjálfsögðu miðdepill allra þessara mála, æðsta stofnun þjóðarinnar og sú, sem á að hafa forystu um framkvæmd lýðræðis og þingræðis.

Stundum hefur verið sagt, að virðing Alþ. fari þverrandi og sé minni en áður. Þetta er raunar gamalt viðkvæði, sem ævinlega, að ég hygg, hefur borið nokkuð á. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. Og því finnst mönnum meira um það, sem þeir sjá í blámóðu fjarskans. Þetta er eðlilegt og mannlegt. En við skulum ekki halda, þó að þessu sé þannig varið, að málið sé svo einfalt, að það megi afgreiða það með því að hugga sig við þetta spakmæli.

Það mætti ýmislegt segja um það, hvernig Alþ. starfaði fyrir 35 árum t.d. og hvernig það starfar nú, en ég tala um 35 ár, vegna þess að það er sá tími, sem ég hef kynnzt náið störfum þessarar stofnunar. En ég ætla ekki að leggja út í nokkurn allsherjar samanburð á því í þetta sinn. Í ýmsu tilliti er að mínum dómi um framfarir að ræða. Umr. eru hógværari og málefnalegri en áður var og minna ofstæki, um það er ekkert að villast. En þá eru umr. máske í sumra eyrum ekki eins skemmtilegar og þær voru. Pex er að mínum dómi minna nú en þá, þó sumir vilji telja það gagnstæða, sem ég tel, að muni stafa af ókunnugleika. Sumt af þeirri gagnrýni, sem kemur fram um flóknar stjórnmálaumr. nú á dögum og leiðindapex stjórnmálamanna, er að sjálfsögðu komið frá sumum þeirra, sem ekki vilja sjálfir leggja á sig að vera málefnalegir og fá sig ekki til að hlusta nógu vel, hvað þá kryfja það til mergjar, sem sagt er. Þetta á þó aðeins við suma, sem gagnrýna, en alls ekki við aðra. En talsvert er vafalaust um það og það á hér áreiðanlega nokkra sök, að menn falla fyrir þeirri freistingu að taka helzt til alvarlega á stundum þá dóma, sem við sem svonefndir stjórnmálamenn, fellum hver um annars málflutning. Margir gefast áreiðanlega upp við að leita kjarnans, sem er þó að mínum dómi nálega alltaf auðfundinn, ef menn vilja hafa fyrir því að hlusta og fylgjast með. En það er þó fjarri mér að halda því fram, að stjórnmálamenn á Íslandi séu yfirleitt nógu skýrir og skemmtilegir. Ættum við allir, sem erum að fúska í pólitík, að reyna að gera betur og er það þýðingarmikill þáttur, sem bæta má. Unga fólkið ætti umfram allt að reyna að gera betur, en við hinir eldri í þessu tilliti.

Ýmislegt hefur að minum dómi breytzt til bóta og gengið í rétta átt á Alþ. og í þjóðmálastarfinu. En það raskar ekki því, sem mestu máli skiptir og það er þetta: Alþ. hefur ekki nú öll þau áhrif í þjóðlífinu, sem vera ber. Alþ. er æðsta stofnun landsins og hefur með höndum framkvæmd lýðræðisins, eins og ég sagði áðan, með þeirri starfsaðferð, sem við köllum þingræði. Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþ. bæði að formi og efni og ríkisstj. eiga að bera ábyrgð fyrir Alþ. og vera Alþ. háðar, en ekki stýra því. Í gegnum Alþ. eiga og verða áhrif fólksins á löggjöfina og stjórn landsins að koma til.

Í flóknu þjóðfélagi nútímans koma til önnur öfl í sjálfu stjórnkerfinu en Alþ., sem látlaust láta meira að sér kveða. Það er embættis– og sérfræðingakerfið m.a., sem ráðh. eru daglega hnýttir við vegna starfa sinna. Ég álít, að það sé veruleg hætta á því, að Alþ. tapi löggjafarvaldinu yfir til ríkisstj. og embættis– og sérfræðingavaldsins. Sumir vilja e.t.v. segja, að slíkt komi aldrei til, því auk löggjafarvaldsins ráði meiri hl. Alþ. ríkisstj., og því séu völd þess og áhrif ævinlega tryggð, hvernig sem að er farið. En málið er ekki svona einfalt. Alþ. gæti í reynd orðið lítið annað en kjörmannasamkoma til þess að velja ríkisstj. og eins konar færiband fyrir löggjöf, sem nálega að öllu leyti væri mótuð af ríkisstj. og þó að verulegu leyti embættis– og sérfræðingakerfinu. Og það er ekkert í sjálfri stjskr. eða í lögunum, sem dugar til þess að hindra, að svo illa gæti farið.

Ég er ekki að segja, að svona sé komið. Menn mega ekki misskilja mig að því leyti. En fyrir þessu verður að hafa opin augun og það er Alþingis að gera skyldu sína og halda sínum hlut og þjóðin treystir því áreiðanlega, að svo verði gert. Ég held því fram, að veruleg hætta sé á ferðum í þessu tilliti og hún sé ekki ný. Ég vil ekki bera mér í munn, að hún sé til komin á síðustu árum. Ég álít, að þessi hætta hafi verið að smáaukast síðustu áratugina.

Það er mín skoðun, að starfshættir Alþ. séu úreltir orðnir og bjóði hættunni heim. Það er mitt álit, að starfshættir Alþ. hafi ekki tekið nauðsynlegum breytingum undanfarna áratugi miðað við gjörbreytta þjóðfélagshagi. Svo rammt kveður að þessu, að í starfsháttum Alþ. eru leifar frá þeim tíma, er menn urðu að fara ríðandi til þings og urðu því að búa þannig í haginn um þinghaldið, að þeir þyrftu helzt ekki að fara nema einu sinni á ári heiman frá sér til þingsetu. Ég tel, að endurskoða verði alla starfshætti Alþ., og um það segir í grg. þál., að flm. telji eðlilegt að skoða nánar, en gert hefur verið, alla stöðu Alþ., eins og nú er komið málum, afstöðu þess til annarra þátta í stjórnkerfinu, vinnuaðferðir þess, m.a. aðstöðu stjórnmálaflokkanna og alþm. til málefnalegrar vinnu og annað það, sem mestu máli skiptir. Ég skal nú lýsa nokkuð nánar við hvað ég á.

Í fyrsta lagi vil ég benda á, að samkvæmt þeirri venju, sem skapazt hefur undanfarið, situr Alþ. að meðaltali u.þ.b. sex mánuði á ári svo að segja í einni lotu og er jólaleyfið talið með. Alþ. er því óvirk stofnun hálft árið, sex mánuði í senn, en þjóðlífið gengur sinn gang. Það stöðvast ekki, þó að Alþ. haldi að sér höndum. Það þarf sífellt að taka stórar ákvarðanir, eins og hraðinn er nú orðinn í þjóðlífinu, nýjar, stórar, pólitískar ákvarðanir. Þessi starfstilhögun Alþ., að gera sig óvirkt hálft árið í einni lotu, hlýtur að leiða til þess, að fjöldi pólitískra ákvarðana, þ.á.m. um löggjöfina, er tekinn, án þess að Alþ. sé til kvatt. Alþ. lætur valdatauma sína liggja slaka sex mánuði á ári og þar sem valdataumar liggja slakir, tekur einhver í þá. Þróunina sjáum við í sívaxandi útgáfu brbl. um sífellt stærri málefni og mörg af þessum brbl. eru um hin stærstu þjóðmál og án þess að blanda nokkuð inn í þessar umr. deilum um efni einstakra brbl., þá tel ég líklegt, að sum þessara brbl. hefðu tæpast hlotið lagagildi, ef þau hefðu komið fyrir Alþ. sem frv. venjulega leið.

Ég tel auðsætt orðið, að eins og nú er komið málum, getur Alþ. ekki haft löggjafarvaldið að fullu í sínum höndum með því að þinghaldinu sé hagað á þann hátt, sem nú er gert. Mest er hættan vegna þess, að Alþ. setur sig úr leik hálft árið, en fleira kemur til Alþ. ræður ekki við þau verkefni, sem að því berast, eins og þingtíminn er nú. Það sýnir m.a. frumvarpaflóðið, sem ævinlega ber að í þinglokin, og er þá alls ekki mögulegt að láta frv. fá þinglega meðferð. Ég fullyrði, að meðferð frv. í þingn. hjá okkur er orðin mjög miklu ófullkomnari, en meðferð lagafrv í þingum Norðurlandanna. Ég tel mig vita, að það sé miklu meiri vinna lögð í lagafrv. í þingn. Norðurlandaþinganna yfirleitt, en hjá okkur og veldur þar m.a., hvernig þinghaldinu hér er háttað. Með núverandi lagi verður þetta þannig, að lítið af löggjöfinni mótast frá grunni í sjálfu þinginu blátt áfram fyrir það, að þm. hafa ekki tök á að vinna eins og þarf, til þess að svo gæti orðið. Frumkvæðið að þeirri löggjöf, sem samþykkt er, verður nálega allt hjá ríkisstj. og í embættis– og sérfræðingakerfinu. Stjórnarandstæðingar flytja að vísu talsvert af málum, en þau hljóta ekki framgang, fyrr en þeir koma til valda, þó að flutningur þeirra hafi að sjálfsögðu veruleg áhrif, þegar til lengdar lætur. Með þessari þróun verður þetta því þannig smátt og smátt, að mjög lítið af löggjöfinni mótast frá rótum í sjálfu þinginu.

Eins og búið er að Alþ. og alþm., verður þinghaldið mjög mótað af þessari eilífu tímaþröng, sem Alþ. er í. Mál komast ekki að langtímum saman í Sþ. t.d., þrátt fyrir góða viðleitni forsetanna til að koma málum áfram. Ég held því fram, að með þessu móti hljóti löggjafarvaldið að dragast í vaxandi mæli úr höndum Alþ. Mín till. til bóta er sú m.a., að Alþ. starfi sem næst 8 mánuði á ári og þingtímanum verði tvískipt og þá þannig, að Alþ. felli aldrei niður störf lengur en 2 mánuði í senn. Ennfremur legg ég til, að þingfundir verði yfirleitt ekki hafðir nema 4 daga vikunnar, en meira gripið til kvöldfunda, en nú er til þess að reyna að rista fram úr þeirri sjálfheldu, sem málin komast í með köflum. Ég álít, að þá þrjá daga í hverri viku, þegar ekki eru þingfundir, ættu þm. að nota sem mest til þess að fara í kjördæmi sín og það er mín till., að alþm. fái frítt flugfar, eins oft og þeir þurfa á að halda í kjördæmi sín eða til heimila sinna, því að alþm. þurfa fyrst og fremst að ferðast sem mest, auk þingstarfanna og hafa sem tíðast samband við kjósendur sína. Ég held, að bezt sé með þessu móti hægt að sameina, að Alþ. nái tökum á störfum sínum, verði áfram í reynd æðsta stofnun landsins, nái fullum tökum á löggjafarstarfinu og alþm. geti samt sem áður haft samband við kjördæmi sín og heimili.

Að óbreyttum árlegum þingtíma sýnist mér augljóst, að málefnamótun, t.d. í flokkunum, færist óðfluga í hendur þingmanna búsettra í Reykjavík og utanþingsmanna starfandi í flokkunum, þ.e.a.s. í hendur þeirra manna, sem eru í höfuðstöðvunum í Reykjavík og geta náð saman þann helming ársins, sem Alþ. er tekið úr umferð, ef svo mætti segja. Þetta á bæði við stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka og þarna kemur enn ein mjög rík ástæða til þess að lengja starfstíma Alþ. árlega. Fylgi menn í kjördæmum landsins, að óbreyttum starfstíma Alþ., fast fram þeirri stefnu að hafa þm. sína búsetta í kjördæmunum og því heima hjá sér 6 mánuði ársins, þá sjáum við í hendi okkar, hvernig fer um áhrif þm. utan af landi annars vegar og annarra þm. hins vegar, enda færast málin óðfluga í þessa stefnu og það er mjög hættuleg þróun.

Þá er fleira, sem þarf að breyta og endurskoða. Nefni ég næst til aðbúnað þm. og þingflokka. Langflestir alþm. eru þm. fyrir mjög viðlend kjördæmi, — í flestum kjördæmunum eru margir tugir hreppa og fleiri en einn kaupstaður — og þeir, sem eru þm. hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, eru umboðsmenn fyrir mikinn mannfjölda. Það er óhemju starf að hafa það samband við fólk í þessum byggðarlögum, sem raunverulega er þörf fyrir. Þetta starf er áreiðanlega ekki nægilega rækt af þm. og vegna þess m.a., hvernig að þeim er búið. Þá kemur þingsetan sjálf. Þá verður að telja ótal fundi og ráðstefnur, sem alþm. verða að sinna, ferðalög með mál á milli þinga með erindi úr kjördæmum sínum í ríkisstofnanir, til stjórnarvaldanna og margs konar önnur erindi. Þá þurfa alþm., ef vel á að vera, að búa sig undir þingför sína málefnalega, því að enginn þm. getur rækt þingstörf sín með sæmilegum hætti, ef hann ekki sinnir því. Nú er þannig búið að þm., — laun þeirra eru þannig, — að þeir þurfa allir að afla sér verulegra tekna umfram þingmannslaunin, ef þeir eiga að hafa nokkra von um sæmilega afkomu. Það er óhugsandi að lifa af þingfararkaupinu með þeim kostnaði, sem þingmennsku fylgir. Sumir eru að reyna að hafa atvinnurekstur með höndum og má nærri geta, hvernig þau vinnubrögð verða miðað við það, sem þeir þurfa að sinna af öðrum störfum. Aðrir eru að reyna að sinna föstum störfum, þó einkum á vegum ríkisins, því að það mun vera leitun á einkaatvinnurekenda, sem telur sér fært að hafa alþm. í sinni þjónustu, eins og nærri má geta þegar miðað er við það, sem þeir þurfa að standa í. Enn eru þeir, sem reyna að lifa á þingfararkaupinu og greiðslum, sem þeir fá fyrir störf sín í n. og stjórnum stofnana, þótt slíkt sé illkleift. Ég tel, að bæta þurfi verulega kjör alþm., enda má telja það fulla vinnu að sinna svo vel þingmannsstarfi, að Alþ. haldi sínum hlut, eins og komið er málum.

Lítum svo þessu næst til þeirra manna, sem ætlazt er til, að hafi sérstaka forustu í stjórnmálalífi landsins, þeirra sem kosnir eru til forustustarfa í flokkunum. Þá tekur fyrst steininn úr. Sumir eru ráðh. og þeir eru sæmilega settir, skulum við segja. En aðrir leiðtogar stjórnmálaflokka, þ.e.a.s. leiðtogar stjórnarandstöðunnar, búa við sömu kjör og aðrir þm. Auk þess að sinna sínum kjördæmum, kemur til sú forusta, sem af þeim er krafizt og þeirra vinna er látlaus allan ársins hring, hvað sem þingsetu líður. Þeir hafa engu starfsliði á að skipa sér til stuðnings og þeir verða að afla sér tekna á hliðstæðan hátt og aðrir þm.

Ég álít, að það hefði átt að vera búið fyrir löngu að taka upp þann hátt að ætla formönnum stjórnmálaflokka, sem ekki eiga ráðh. í ríkisstj., sömu kjör og ráðh., enda veit ég ekki betur en sá háttur sé hafður á annars staðar, þar sem þingræði er í heiðri haft.

Menn hafa oft rætt um að bæta kjör þm. og nokkuð hafa þau verið bætt upp á síðkastið, þó ekki nægilega að mínum dómi og þeir, sem eiga að vera forustumenn í flokkum, verða að hafa sæmilega aðstöðu að þessu leyti til. Þetta hefur ekki komizt í framkvæmd, sumpart vafalaust vegna þess, að þeir, sem eru í stjórnaraðstöðu þá og þá, telja yfirleitt, að ekki þurfi að mylja undir stjórnarandstöðuna. Ég tek hiklaust á mig meðsök í þessu. Það er landlægt sjónarmið og alveg sama, hvaða flokkar fara með völdin, – það er landlægt sjónarmið í stjórnarherbúðum, að ekki þurfi að mylja undir stjórnarandstöðuna og m.a. þess vegna ferst fyrir, að skynsamlegar endurbætur í þessu efni séu gerðar. Ennfremur hafa nauðsynlegar endurbætur á aðstöðu alþm. og Alþ. ekki komizt í framkvæmd vegna þess, að það er alltaf eitthvað af þm., sem telja sig sérstaka sparnaðarmenn og eru það oft og hafa haft áhrif í þá átt að halda niðri tilraunum til að koma þessum málefnum í nýtt horf. Þetta sjónarmið er vitanlega hægt að skilja og hægt að virða, að menn fari varlega í þessu, en það getur haft hættulegar afleiðingar í för með sér, ef of langt er gengið í því.

Ég vil þá minna næst á aðstöðu þingflokkanna, en þingflokkarnir eru í raun og veru hluti af sjálfu Alþ. og liður í stjórnkerfi landsins. Það er þannig búið að þingflokkunum, að þeir hafa enga möguleika til þess að láta fara fram á sínum vegum nokkrar sjálfstæðar málefnarannsóknir. Þeir hafa ekki á sínum snærum nokkra sérfræðinga til leiðbeiningar við undirbúning mála né annað starfslið og mun þetta algert einsdæmi og enga hliðstæðu eiga á nokkru þjóðþingi veraldar. Þetta háir því stórkostlega, að úr þingflokkunum geti komið það frumkvæði í löggjafarstarfinu, sem raunverulega þarf að verða og þetta á bæði við um stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuflokkana, einnig við stjórnarflokkana, vegna þess að það er alveg lífsnauðsynlegt, að úr þingflokkum stjórnarflokkanna komi áhrif og í þeim sé lögð fram málefnaleg vinna til mótvægis þeim áhrifum, sem embættis– og sérfræðingakerfið hefur á ríkisstj. hverju sinni og það fer illa, ef jafnvægi þessara afla raskast, en það hefur að mínu viti stórlega raskazt smátt og smátt á undanförnum áratugum. Ég álít, að úr þessu eigi að bæta m.a. með því að láta þingflokkunum í té nokkra aðstoð. Þeir ættu að fá á sína vegu 1–2 starfsmenn hver, sem þeir gætu ráðið sjálfir og mundi það verða nokkuð til stuðnings í því starfi, sem þarf að leggja fram, ef vel á að fara.

Alþ. hefur að mínum dómi ekki nógu sjálfstæða stöðu, eins og komið er málum, gagnvart framkvæmdavaldinu og leiðir það af líkum, þegar það er athugað, sem ég hef upplýst. En ég tel, að það mætti bæta úr þessu með þeim ráðum, sem ég hef bent á og einnig með því, að aðalforsetar Alþ. væru ekki allir kosnir úr stjórnarflokkunum, heldur ættu allir þingflokkar einhvern fulltrúa í forsetasæti. Það fyrirkomulag varðandi þetta, sem hér hefur verið haft á undanförnum áratugum, er að mínu viti orðið gamaldags og úrelt. Ástæðuna til þess, að stjórnarflokkar hafa haldið dauðahaldi í að hafa forsetana alla úr sínum hópi, tel ég að verulegu leyti vera þau vinnubrögð, sem áður tíðkuðust á Alþ. Þá reyndi stjórnarandstaðan nálega allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að tefja fyrir þeim málum, sem hún var á móti. Það voru þau vinnubrögð, sem tíðkuðust hér á Alþ., þegar ég kom hér fyrst. Þá skeði t.d. stundum, að sæju stjórnarandstæðingar, að of fáir menn úr stuðningsliði stjórnarinnar voru staddir á þingfundi til þess að koma málum áfram, þá gengu þeir út til þess að gera fundinn ólögmætan. Slíkt er með öllu óþekkt nú orðið og langt síðan þetta tíðkaðist. Ennfremur reyndu menn þá með málþófi að koma í veg fyrir framgang mála og gekk stundum út í fáránlegustu öfgar. Slíkt þekkist ekki lengur, enda hafa verið sett í þingsköpin fullnægjandi ákvæði til þess að koma í veg fyrir málþóf.

Ég hygg, að nú séu komnar hér á Alþ. það skynsamlegar starfsvenjur að þessu leyti, að það sé engin ástæða til þess lengur fyrir stjórnarflokka, hverjir sem þeir eru, að vantreysta mönnum úr stjórnarandstöðuflokkum til þess að fara með forsetavald til jafns við þm. úr stjórnarflokkunum. Ég held, að það mundi auka sjálfstæði Alþ. gagnvart framkvæmdavaldinu að skipta forsetastörfunum, þannig að aðalforsetar og varaforsetar væru úr öllum flokkum.

Á hinn bóginn vil ég vara við því að reyna að auka sjálfstæði Alþ. gagnvart framkvæmdavaldinu með því að innleiða hér þá reglu, að ráðh. eigi ekki sæti á Alþ. Ég teldi hættulegt að fara út á þá braut. Ég sé ekki betur, en þannig hafi þróazt í þeim löndum, þar sem slíkur háttur hefur verið upp tekinn til þess að skilja betur á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds, að í ráðherrastólana hafi þá í vaxandi mæli komið menn úr embættis– og sérfræðingakerfinu. Fer þá þannig, að í sjálfum ráðherrastólunum úir og grúir af mönnum, sem aldrei hafa verið kosnir almennri kosningu til eins eða neins. Það teldi ég stórkostlega afturför, ef sá háttur yrði upp tekinn hér. Við ættum að halda þingræðinu, en reyna með ýmsum ráðstöfunum að styrkja Alþ. og koma með því á betra jafnvægi, í þessu tilliti, en nú er orðið.

Þá álít ég mjög þýðingarmikið að koma á jafnvægi í pólitískum fréttaflutningi og að það snerti einnig mjög þann grundvöll, sem liggur að starfi Alþ., en ég mun ekki fara langt út í þá sálma nú, því að það hefur nýlega verið ýtarlega rætt. Ég álít, að til þess að svo megi verða, þurfi að styrkja þingflokkana með þeim ráðstöfunum, sem ég hef stungið upp á hér að framan eða einhverjum hliðstæðum. Menn verða í þessu sambandi að athuga varðandi stjórnarandstöðuflokkana, að ef vel væri, þyrftu þeir að gefa út stöðugt flóð af tilkynningum, um afstöðu sína í mörgum málum, einnig utan þingtímans. Það er óhemju vinna að gefa út slíkar tilkynningar og taka þannig látlaust afstöðu til þess, sem gerist og ætlunin er að gera og slíka vinnu er tæpast hægt að ætlast til, að stjórnarandstöðuflokkarnir geti leyst af hendi svo fullnægjandi sé, við þau skilyrði, sem þeir búa nú. Til þess þurfa þeir að fá starfslið. Til þess þurfa leiðtogar þessara flokka að fá betri aðstöðu og geta helgað sig stjórnmálastarfinu að öllu leyti og aðrir þingmenn þurfa að fá aðstöðu til þess að helga sig þingmennskunni og stjórnmálastarfinu í ríkara mæli, en hugsanlegt er með núverandi fyrirkomulagi. Þetta bindur því að mínu viti nokkuð hvað annað, en allt, sem gengur til endurbóta í þessu efni mun verða til þess að styrkja Alþ. Grundvöllurinn að starfi Alþ. er mjög svo starfsemi stjórnmálaflokkanna, en hún stendur of veikum fótum. Alþ. þurfum við að efla og styrkja og til þess verður að breyta mörgu í starfsháttum þess í þá átt, sem ég hef bent, lengja þingtímann, bæta kjör alþm., viðurkenna hlutverk stjórnmálaleiðtoganna, hvort sem þeir eru ráðh. eða kosnir til forustu í flokkum sínum og búa stjórnmálaflokkunum sæmilega starfsaðstöðu, eins og öðrum nauðsynlegum liðum í stjórnarkerfinu.

Nú vil ég taka það alveg greinilega fram til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að með því, sem ég er að segja, er ég ekki að deila á núv. ríkisstj. eða núv. þingmeirihluta. Ég set mig í sama bát og ríkisstj. í þessu efni, því að ég hef löngum gegnt ráðherrastörfum og verið í meirihlutanum á undanförnum áratugum. Ég get því ekki dregið mig undan hlutdeild í ábyrgð á þeim venjum eða óvenjum, sem skapazt hafa varðandi meðferð framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Ég get heldur ekki dregið mig undan samsekt í því, hve Alþ. hefur verið veikt með því að vanrækja að endurskoða og breyta starfsaðstöðu þingflokkanna og breyta starfstilhögun Alþ. En auðvitað verður nauðsynlegum breytingum ekki komið í framkvæmd, nema ráðandi þingmeirihluti vilji fallast á að gangast fyrir slíkum breytingum ásamt stjórnarandstöðunni. Hér þurfa allir að takast í hendur.

Mér er ljóst, að nú má með fullum rétti spyrja: Hvers vegna hefur þú þagað um þessi mál í 35 ár? Ég svara því til, að sumpart hefur mér ekki orðið fullkomlega ljóst, hvernig ástatt var, fyrr en ég fór að starfa að ráði í stjórnarandstöðu og ekki fyrr en smátt og smátt með þeirri reynslu, sem ég hef fengið á Alþ. með því að vera ýmist í meirihlutanum eða minnihlutanum. Þá viðurkenni ég alveg, að eftir að mér fór að verða þetta fullkomlega ljóst í hvert óefni stefndi, þá dró það úr mér að taka þessi mál upp, að ég var formaður í stjórnarandstöðuflokki og það mátti líta svo á, að ég væri með því að fara fram á eitthvað fyrir mig. En nú er ég ekki formaður í stjórnarandstöðuflokki lengur og mér finnst, að ég hafi fengið betri aðstöðu til þess að hreyfa þessum lífsnauðsynlegu málum, en ég hafði áður. Og mér finnst ég hafi enga afsökun lengur fyrir því að þegja um það, sem mér sýnist brýn nauðsyn að gera í þessu efni. Það getur enginn vænt mig um það nú, að ég sé að sækjast eftir hlunnindum fyrir mig í þessu sambandi.

Ég geri ráð fyrir, að það sé fáum ljósara en mér, að ríkisstj. búa við allmiklar freistingar í sambúð sinni við Alþ. og ríkisstj. ráða hér mestu um þinghaldið. Ríkisstj. ráða, hvenær Alþ. er kvatt saman og hvenær því er lokið. Ríkisstj. hættir til að finnast Alþ. þreyta sig og nánast stundum helzt vera þröskuldur, sem þær þurfi að leggja mikið á sig til þess að komast yfir með það, sem þær telja sig þurfa að koma í lög. Stundum var ég spurður, þegar ég átti sæti í ríkisstj.: Ertu ekki feginn að vera laus við þingið? Og sjálfsagt hef ég oft þreyttur svarað þessari spurningu játandi og svo munu margir ráðh. hafa gert fyrr og síðar og meint það, þegar orðin féllu. En þarna er samt freistarinn á ferð og þarna er veila í þingræðiskerfinu, sem getur reynzt örlagarík þessu kerfi, ef menn hafa ekki opin augu fyrir þessari hættu og vanrækja að ræða þetta nógu hispurslaust og hreinskilnislega, hvort sem menn eru í stjórnaraðstöðu eða stjórnarandstöðu. Mótvægi gegn þessum háska, að ráðh. vilja yfirleitt — af mannlegum ástæðum — vera lausir við þingið, er harla léttvægt, því að gagnrýni stjórnarandstæðinga um þetta hafa ráðh. æðimikla tilhneigingu til að láta sem vind um eyru þjóta og sannast sagna er það oft fremur stjórnarandstaðan, sem ráðh. eru fegnir að vera lausir við en Alþ. að öðru leyti. Forsetar Alþ. veita hér ekki nægilegt mótvægi, hversu vel sem þeir vilja. Þeir eru eingöngu úr stjórnarflokkunum og þykir, eins og eðlilegt er, vænt um stjórnina sína og hafa mjög óhæga aðstöðu til þess að halda fram hlut þingsins, því að oftast eru flokksleiðtogar úr þeirra eigin flokkum í ráðherrastólunum.

Þá hefur það veikt Alþ., hve þjóðinni þótti og þykir vænt um stutt þinghald og við höfum iðulega sumir stært okkur af stuttu þinghaldi. Það hefur verið talið til afreka með þjóðinni, að þinghaldið væri stutt. En hafa menn gert sér fulla grein fyrir því, hvað verið er að gera með stuttu þinghaldi? Höfum við gert okkur grein fyrir því, hvað við erum að gera með því að telja það íþrótt að hafa stutt þinghald? Ég hygg, að í því máli séu allalvarlegir þættir, sem ég tel mig hafa bent á í því, sem ég hef þegar sagt, því að ein till. mín er einmitt sú að lengja talsvert þinghaldið og hafa það tvískipt og með engu öðru móti tel ég, að Alþ. haldi sínum hlut. Eða kemur til tals, að stofnun, sem dregur sig í hlé hálft árið í einni lotu, geti verið æðsta stofnun þjóðarinnar, eins og nú er komið þjóðlífinu? Það tel ég óhugsandi. Starfshættir Alþ. eru að mínum dómi að verulegu leyti eins konar leifar frá hestaöldinni, þegar það mátti kallast afrek að ferðast til þings og heim aftur og menn þurftu að gera að þessu eina ferðina.

Ég hef nú talað aftur og aftur um embættis– og sérfræðingavald, en mér er mikið áhugamál, að enginn misskilji mig í því sambandi. Leiðin er ekki sú að forðast sérfræðinga eða minnka þeirra þjónustu. Við höfum ekki ráð á því né hinu að bæla embættismennina niður. Leiðin er sú að styrkja Alþ., bæta starfsskilyrði Alþ. og alþm., þannig að Alþ. geti skipað þann sess í þjóðlífinu, sem því ber, haldið sínu, svo að jafnvægi ekki raskist og hægt sé að notfæra sér á farsælan hátt vinnu þýðingarmikilla sérfræðinga, sem ómissandi eru hverju menningarríki. Það er hlutur Alþ., sem við þurfum að stækka til þess að jafnvægi náist.

Ég get ekki stillt mig um að taka inn í þetta að lokum örlítinn kafla um stjórnmálaflokkana vegna þess, hve þeir eru tengdir Alþ. Ég hef rætt nokkuð um þingflokkana og vinnuaðstöðu þeirra, sem er fyrir neðan allar hellur og verður að batna og er þá komið að annarri starfsemi stjórnmálaflokkanna. Að ýmsu leyti hafa farið fram að undanförnu athyglisverðar umr. um stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn. En að sumu leyti eru þessar umr. og skýringar á því, að ekki gengur allt sem bezt, ekki fullnægjandi að mínu viti og ekki alveg hreinskilnislegar. Það er t.d. ekki hægt að afgreiða þessi mál með því einu að segja, að stjórnmálaleiðtogar séu leiðinlegir, dáðlausir og valdasjúkir. Í gamni sagt mætti kannske koma mér til að trúa þessu um andstæðingana, en lengra ekki. Og þá fer ég að halda, að málið sé ekki svona einfalt. En þó að þetta sé tekið til greina, er síður en svo ástæða til þess að skella skollaeyrum við þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið. En áður en ég kem að einstökum atriðum í þessu, vil ég minna á, að það er ekki hægt að framkvæma lýðræðið öðruvísi, en að hafa stjórnmálaflokka og ef stjórnmálaflokkarnir eru tættir í sundur, þá er skammt að endalokum lýðræðisins.

Enginn vafi leikur á, að stjórnmálaflokkar hjá okkur eru yfirleitt gallaðir ekki síður en önnur mannanna verk. Sumir segja, að stjórnmálaflokkarnir séu meingallaðir og þannig upp byggðir, að valdið safnist í hendur leiðtogunum með öllum þeim göllum, sem alræði eins eða fárra manna fylgir, enda sölsi leiðtogarnir valdið undir sig. Sumir segja, að flokkarnir séu of lokaðir og þátttaka í þeim ekki nógu almenn. Sagt er, að breytingar í trúnaðarstöðum, svo sem í framboðum og þar af leiðandi í þingliði flokkanna, séu allt of litlar og minni en áður var. Sumir telja, að ástandið í þessu tilliti hafi stórversnað frá því, sem áður var. Mig skortir kunnugleika til þess að dæma um þetta til fulls, hvernig þetta var áður og kannske get ég heldur ekki dæmt um þetta, vegna þess að mér sé málið of skylt, en það gerir ekkert til, þó að ég ræði þetta ofurlítið samt. Ég álít, að vald stjórnmálaleiðtoga sé sízt meira en áður var eftir því, sem ég bezt þekki til. Það má vel vera, að sumum finnist það samt of mikið. Sannast að segja er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir því í hópum og flokkum, hvernig ákvarðanir verða til og hvar valdið liggur. Það er mjög flókið mál að gera sér grein fyrir því, en ég skal ekki fara út í vangaveltur í því efni, en ég held, að vald leiðtoga sé sízt meira, en áður var, t.d. fyrst þegar ég þekkti til. Ég tel, að félagsskapur og félagsvinna sé miklu meiri nú en áður var í flokkunum. Mér finnst t.d., að mest af mínu lífi hafi gengið í að ráðgast við aðra menn, um hvað gera skyldi í málefnum flokks og þjóðar og alltaf er verið að bæta við í okkar flokki nýjum félagsstigum. Það eru almenn flokksfélög, yngri manna félög og kvenfélög. Þá eru málefnahópar úr stéttunum, kjördæmaþing, fjölmenn miðstjórn, framkvæmdastjórn og þá flokksþing, þar sem mæta mörg hundruð manns og mjög fjölmennir hópar, sem vinna að undirbúningi að stefnumótun í einstökum málaflokkum. Þetta virðist vera þó nokkuð. Nánast virðist mér, — svona í léttum tón sagt, — að ég hafi t.d. aldrei fengið að ráða nokkru, svo miklar ráðagerðir fara fram. En kannske er ég bara talandi vottur þess, hvað menn geta orðið hættulegir, svo ég þori ekki að fella neinn dóm um þetta, þegar til kemur! En sleppum öllu gamni og tökum eftir því, að félagskerfið vantar ekki hjá flokkunum og óhemju vinna er lögð í það, einmitt af forustumönnunum, að koma upp félögum, byggja þau upp og fá sem flesta til þátttöku i félagsstarfi. Það er mikil vinna lögð í þetta og m.a. með þeim árangri, sem ég benti á áðan og ég býst við, að sé eitthvað hlíðstætt í öllum flokkum, að félagsstigum fjölgar og þeim fjölgar, sem kvaddir eru til ráða.

Ég held, að þessi efni séu ekki enn rædd af alveg nógu mikilli hreinskilni og því þurfi að ræða það atriði betur og nánar, að safnist völd á hendur örfáum mönnum við þessi eða þessu lík félagsskilyrði í flokkunum, stafi það ekki eingöngu af frekju eða yfirgangi einstakra manna, sem óneitanlega getur valdið miklum skaða og ruglað eðlilegt félagsstarf, heldur hljóti það einnig blátt áfram að stafa af því, að það séu of fáir, sem vilja fórna því, sem fórna þarf til þess að beita áhrifum sínum í félagsstarfi, hvað þá leggja verulega að sér í baráttunni. Það getur kveðið svo rammt að þessu, að sumir sitji uppi með meira vald en þeir kæra sig um eða telja eðlilegt.

Vandamálið í þessu öllu saman, sem óneitanlega er ekkert smávaxið, er mest það, að þrátt fyrir öll þessi félög taka menn ekki svo almennt þátt í félagslegu flokksstarfi, pólitísku, að allt þetta mikla félagskerfi, sem byggt hefur verið upp í flokkunum, verði annað og meira, þrátt fyrir allt, en vettvangur tiltölulega fárra manna í hverju byggðarlagi. Það er sannleikurinn, að þrátt fyrir alla þá feikilegu vinnu, sem lögð er í það einmitt af forustumönnunum að reyna að koma fleirum og fleirum inn í starfið og allir flokkar séu opnir upp á gátt, er ástandið samt sem áður svona og þannig hefur þetta alltaf verið og það er áreiðanlega sízt verra í þessu tilliti en áður. Það hafa alltaf verið allt of fáir, sorglega fáir, sem hafa viljað leggja á sig það erfiði, sem þarf, til þess að pólitískt félagsstarf sé í nógu góðu lagi og skoðanamyndun eigi sér stað á nægilega viðtækri undirstöðu. Þess vegna verður að leggja aðal áherzluna á að finna nýjar aðferðir, til þess að fólk vilji taka meiri þátt í pólitísku félagsstarfi, en nú tíðkast. Hin almenna þátttaka er ekki nógu mikil, það er veiki punkturinn.

Vitaskuld er sú gagnrýni réttmæt, að of lítil endurnýjun er í trúnaðarstöðum. Það eru margar ástæður fyrir því, sem mér mun ekki takast að rekja í fáum orðum. Það er t.d. land kunningsskaparins, sem við lifum í. Það eru hlutfallskosningar margra manna í senn á listum, þegar um alþingiskjör er að ræða, sem setja þetta mjög í sjálfheldu. Þær leyna því t.d. hverjir hafa fylgi. Ótalmargt fleira kemur hér til greina. Það lítur út fyrir, að kjördæmaþingin og kjördæmaráðin í kjördæmunum nýju, sem hafa fengið aukið vald, í sumum flokkum a.m.k., frá miðstjórnum flokkanna, ætli að reynast íhaldssamar stofnanir að því er varðar endurnýjun á mönnum í trúnaðarstöðum og ástandið í því efni virðist sízt betra en áður var. Ég held, að menn verði að veita þessu athygli.

Mitt álit er, að þrátt fyrir hið mikla félagsstarf, sem tekið hefur verið upp í flokkunum á undanförnum áratugum og orðið hefur til verulegra bóta frá því, sem áður var, — þegar nokkrir leiðtogar mörkuðu málin mikið á hné sér, — þá sé ástandið alls ekki nógu gott og meira að segja að sumu leyti mjög alvarlegt. Höfuðmeinið er, að allt of fáir eru raunverulega starfandi að félagsmálum í flokkunum og því ríður mest á, eins og ég sagði áðan, að finna nýjar og heppilegar leiðir í stjórnmálastarfinu og þá skiptir auðvitað langmestu að finna leiðir, sem unga fólkið vill fara og helzt þarf unga fólkið að finna sjálft nýjar starfsaðferðir, sem eru betri en þær, sem við höfum fundið, sem nú erum ekki lengur ung. Ég tel mikilvægt, að við þau eldri, sem þekkjum vissa þætti, tökum hreinskilnislega og opinskátt þátt í umr. um þessi efni. Auðvitað erum við tortryggðir sumir, kannske meira en dálítið, af unga fólkinu og þurfum við ekkert að vera hissa á því. Það er jafnvel talin lævísi af okkur, ef við tökum gagnrýninni vel, en náttúrlega fyrir neðan allar hellur, ef við tökum henni illa. Það er sem sé svipað ástatt fyrir okkur og „Nasreddin“, þegar hann var á ferð forðum með drenginn sinn og asnann. En við megum ekki láta það verða til þess, að við leggjum árar í bát í stað þess að reyna að hafa sem mest gagn af þeirri hreyfingu, sem á hefur komizt og leiða að nýjum leiðum. Það væri líka eitthvað meira, en lítið skrítið og horfði satt að segja ekki vel, ef ungu fólki fyndist allt vera eins og það ætti að vera með stjórnmálastarfið.

En hvað á þá að gera? Á hvað vil ég benda? Ég ætla að reyna að ljúka þessari ræðu fyrir kl. 5 og skal því fara fljótt yfir sögu. Í fyrsta lagi bendi ég á að breyta aldurstakmarki í félagsskap ungra manna í öllum flokkum og færa það niður í 25 ár, ef ekki 21 ár. Flokksfélögin almennu eiga að mínum dómi að vera samtök unga fólksins ekki síður en hinna eldri. Það er stórfelld yfirsjón af unga fólkinu að halda sig í hálfgerðum æfingabúðum til 35 ára aldurs, eins og unga fólkið í flokkunum hefur gert undanfarið og vera einungis tengt með sérstökum fulltrúum við flokkana. Þetta álít ég mjög þýðingarmikið atriði. Þá álít ég, að konurnar ættu að koma inn í hin almennu stjórnmálafélög og starfa þar með körlum. Þótt kvenfélögin séu góð, væri þetta enn betra. Ég tel, að taka ætti upp prófkjör eða skoðanakannanir innan flokkanna um framboð og binda slíkar skoðanakannanir eða prófkjör við þá, sem í stjórnmálafélögunum eru. Menn fengju réttindi til þess að taka þátt í þessum prófkjörum eða skoðanakönnunum með því að vera í félögunum, taka þátt í pólitísku félagsstarfi. Mér finnst að taka ætti upp þann sið, að allir gengju ævinlega undir skoðanakönnun til undirbúnings framboðum, einnig þeir, sem þingsæti skipa og engan mannamun ætti að gera í þessu tilliti.

Alþm. ættu að taka upp aftur þingmálafundi eða leiðarþing, að sumu leyti með gamla sniðinu, en þó með nýjum hætti. Ég veit, að sumir alþm. hafa aldrei hætt við leiðarþing eða þingmálafundi, þó að þau hafi ekki ætíð verið vel sótt, sem aldrei hefur raunar verið. Allir alþm. ættu að taka upp þennan hátt, einnig í þéttbýlinu og ég fagna því, að þm. Framsfl. í Reykjavík hafa tekið upp þennan sið. Þeir byrjuðu á honum hér og halda fundi, sem opnir eru fyrir alla og ætlaðir til þess að skiptast á skoðunum um þingmál og fleira. Þeir hafa fundina eftir bæjarhverfum og þessi háttur ætti að verða á alls staðar í þéttbýlinu, en það hefur vafizt fyrir mönnum að finna þar heppilegt fundarsnið. Ég hygg, að þarna sé það fundið. Það hefur gefizt allvel hjá okkur á Austurlandi að reyna að fá þessa fundi skemmtilegri og fjölbreyttari en áður hefur verið, með því að hafa annaðhvort engar eða nálega engar framsöguræður, en viðtalssnið. Með því móti er hægt að fá margfalt meira að vita um það, hvað fundarmenn raunverulega vilja, heldur en með gamla laginu.

Það ætti að taka upp sérstaka stjórnmálafræðslu í sjónvarpi og útvarpi. Þau samtöl, sem nú eiga sér stað í þessum fjölmiðlunartækjum um pólitísk efni eru mjög til bóta að mínu viti, en það ætti einnig að taka upp stjórnmálafræðslu, sem þessar stofnanir settu á fót í samráði við stjórnmálaflokkana.

Það þyrfti að finna leiðir til þess að gera Alþingiskosningar persónulegri. Ef menn vilja ekki einmenningskjördæmi, þá með því að hafa persónuleg framboð í kjördæmum samt og persónulegar kosningar, en slíkt er mögulegt. Hef ég ekki tíma til að útskýra það nánar, en vísa í því efni m.a. til þess fyrirkomulags, sem er viðhaft í Danmörku. Þetta mundi verða til verulegra bóta frá því, sem nú er.

Loks vil ég leggja áherzlu á, að ég tel það höfuðnauðsyn, að þeir, sem áhuga hafa fyrir endurbótum á pólitísku starfi, vinni að því innan stjórnmálaflokkanna, því að það getur aldrei orðið nema til ills að fjölga stjórnmálaflokkunum.

Í þessari þáltill. er lagt til að fela forsetum Alþ. og fulltrúum frá þingflokkunum að annast endurskoðun á starfsháttum Alþingis. Sumum þykir e.t.v. dálítið skrítið, að ég skuli leggja til, að forsetarnir komi þar inn, allir þrír aðalforsetarnir úr stjórnarflokkunum. En í þessu sambandi lít ég ekki á forsetana fyrst og fremst sem fulltrúa stjórnarflokkanna. Ég lít á þá sem fulltrúa Alþ. og ég treysti því, að þeir vinni þannig að þessari endurskoðun.

Það er í því víss stefna af minni hendi að stinga upp á því, að þessi endurskoðun fari ekki fram á vegum fulltrúa stjórnmálaflokkanna eingöngu eða fulltrúa frá þeim, heldur fari hún fram á vegum aðalforsetanna ásamt fulltrúum frá hverjum þingflokki. Ég vil með þessu sýna traust mitt á hæstv. forsetum, að þeir líti á sig sem forsvarsmenn Alþ. og ég veit, að þeir hafa áhuga fyrir því að endurskoða þessi efni.

Sjálfsagt mun einhver segja, að þessar endurbætur, sem ég sting upp á, muni kosta eitthvað og auðvitað munu þær auka kostnaðinn við þinghaldið. Ég mun ekki ræða það mikið hér. En um það vil ég segja þetta og það munu verða mín lokaorð: Ég tel, að þjóðin hafi blátt áfram ekki ráð á öðru, en kosta meiru til Alþ. og búa betur að því, en gert hefur verið, undanfarna áratugi. Það er hreinlega þjóðarnauðsyn að kosta meiru til Alþ. en gert hefur verið til þess að koma endurbótum á. Því erfiðar sem horfir í málefnum landsins þeim mun verr hefur þjóðin ráð á að vanrækja umbætur í þessu efni. Nokkrar milljónir í auknum alþingiskostnaði eru smámunir samanborið við það, sem í húfi er og smámunir samanborið við almenna kostnaðarþenslu í ríkiskerfinu, en sterk tök sjálfs Alþ. og áhrif þess og aukin vinna þm., einmitt aukin vinna þm. og bætt aðstaða þeirra, er líklegri til að stuðla að aukinni ráðdeild í þjóðarbúskapnum en nokkuð annað.