11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

88. mál, samningur um fiskveiðar í Norður-Atlantshafi

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur hér lagt fyrir Sþ. till. til þál. um heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um reglur til fiskveiða í Norður–Atlantshafi. Samningur þessi var gerður í London 1. júní 1967 og er það meginmarkmið hans að tryggja góða reglu og eftirlit með því, að alþjóðlegum siglingareglum sé fylgt um fiskveiðar í Norður-Atlantshafi.

Þátt tóku í ráðstefnu þessari, sem samninginn gerði, alls 16 helztu fiskveiðiþjóðir Evrópu, auk Bandaríkjanna og Kanada. Samningurinn tekur gildi á 90. degi eftir þann dag, sem 10. fullgildingarskjalið hefur verið afhent. Hefur samningur þessi ekki enn tekið gildi, en flest ríki, sem veiðar stunda á Norður–Atlantshafi, hafa undirritað hann og búa sig nú undir að fullgilda hann. Fyrir Íslands hönd var samningur þessi undirritaður í London 1. ágúst 1967 og telur ríkisstj. nauðsynlegt og æskilegt, að hann verði fullgiltur af okkar hálfu sem fyrst.

Forsaga þessa máls er sú, að ráðstefna fiskveiðiríkjanna við Norður–Atlantshaf var haldin í London í apríl 1965 og öðru og þriðja sinni á árunum 1966 og 1967. Á ráðstefnunni í marz var gengið endanlega frá alþjóðasamningi þessum til undirritunar. Þátt tóku í ráðstefnum þessum eftirtalin lönd, auk Íslands: Belgía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Sambandslýðveldið Þýzkaland, Írland, Ítalía, Luxemburg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Bandaríkin, Sovétríkin, Stóra–Bretland og Norður–Írland. Í sendinefnd Íslands á ráðstefnum þessum áttu sæti þeir Níels P. Sigurðsson, nú ambassador í Brüssel, Davíð Ólafsson, bankastjóri, þá fiskimálastjóri og Pétur Sigurðsson, forstöðumaður Landhelgisgæzlunnar.

Tildrögin til þess, að ráðstefnur þessar voru haldnar og samningurinn gerður, sem hér liggur fyrir Alþ., voru þau, að um langt árabil hefur verið í gildi samningur um eftirlit með fiskveiðum á Norðursjó, sem er frá 1882. Sá samningur var fyrir löngu orðinn úreltur og gildissvið hans þar að auki takmarkað við Norðursjó. Var talið, að nauðsynlegt væri að gera nýjan samning, sem tæki til fiskimiða alls Norður–Atlantshafsins, bæði austur– og vesturhluta þess og þar sem Evrópuríkin væru ekki aðeins aðilar, heldur einnig Bandaríkin og Kanada.

Markmið hins nýja samnings er, eins og ég hef sagt, í stuttu máli að tryggja góða reglu og eftirlit með fiskveiðum, sem fara fram á Norður–Atlantshafi. Er í samningnum ýtarlegar reglur um það að finna, að fiskiskip skulu fylgja alþjóðlegum siglingareglum við veiðar og fara eftir alþjóðlegum reglum um ljósmerki og skrásetningarmerki. Sérstakir eftirlitsmenn eiga að fylgjast með því, að samningnum sé framfylgt og felast í honum ákvæði um gerðardóm milli ríkja, ef ágreiningur verður um framkvæmd greina hans.

Sex viðaukar fylgja samningnum og er þar að finna ýtarleg fyrirmæli tæknilegs eðlis, um eftirtalin atriði: Um gildissvæði samningsins, um auðkenni og merkingu fiskiskipa og veiðarfæra, viðbótarmerki til notkunar á fiskiskipum, merkingu veiðarfæra, reglur um athafnir skipa og loks um hina opinberu eftirlitsmenn, sem gæta eiga þess, að ákvæðum samningsins sé framfylgt.

Sérstök ástæða er til þess að nefna, að í viðaukum þessum eru ýtarleg ákvæði um það, hvernig skuli merkja veiðarfæri, sem í sjó liggja, til þess að hindra spjöll á þeim, en það hefur verið alvarlegt vandamál hér við land, eins og kunnugt er. Má ætla, að með gildistöku samnings þessa verði auðveldara að koma í veg fyrir spjöll á veiðarfærum íslenzkra skipa og hægara að koma fram ábyrgð á hendur þeim skipum annarra þjóða, sem spjöllunum valda.

Að lokum skal tekið fram, að samningur þessi gildir fyrst og fremst utan fiskveiðilögsögunnar, en strandríkin sjálf skulu ráða framkvæmdinni innan fiskveiðilögsögu sinnar. Var það ákvæði tekið í samninginn samkv. till. íslenzku sendinefndarinnar á Lundúnaráðstefnunum þremur, sem undirbjuggu samninginn.

Þáltill. fylgir, eins og ég sagði, samningurinn bæði á ensku og íslenzku, en ég vil taka það fram, að þýðingin á svona sérhæfðu máli er ærið erfið og þess vegna getur komið fyrir, að sumt í íslenzku þýðingunni eða einstaka atriði vil ég segja, geti orkað tvímælis, þó að til þýðingarinnar hafi verið fengnir hinir færustu menn. Hefur t.d. verið bent á eitt atriði í þýðingunni, sem sjálfsagt er að breyta, þegar þar að kemur. Ég geri ráð fyrir því, að málið fari til n. og þá mun ég koma þeirri brtt. á framfæri við hv. n., sem ég geri ráð fyrir, að verði utanrmn.

Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.