18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

57. mál, störf unglinga á varðskipum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisverð till., sem ég vil á engan hátt draga úr, að nái fram að ganga, að uppfylltu því, að athuguð verði viss atriði, sem ég vil aðeins drepa á, til þess að hv. n., sem málið fær til meðferðar, taki þau til athugunar.

Hv. flm. skýrði frá því, að rætt hefði verið við forstjóra Landhelgisgæzlunnar og nokkra skipherra gæzlunnar um þetta mál og þeir hefðu ekki talið vandkvæði á því, að úr þessu gæti orðið. Ég held, að það sé hins vegar engum launung á, að í sambandi við okkar árferði til sjávar og lands, eru viss vandkvæði á vinnumarkaðinum og þ.á.m. á atvinnusviðinu og mín fyrsta ósk til n. er að athuga um það, hvort slík þjónusta við ungmenni eða unglinga gæti á nokkurn hátt orðið til þess, að fastamönnum á skipum Landhelgisgæzlunnar yrði fækkað. Í öðru lagi er ljóst, að nær helmingur launatekna þeirra, sem búa við samninga farmanna, — en það gera þeir undirmenn, sem vinna á skipum Landhelgisgæzlunnar, — er fenginn fyrir yfirvinnu. Ef einhver hópur unglinga kæmi um borð í slík skip og ætti að vinna þar þá vinnu, sem mjög æskilegt er, að þeir venjist og læri, sem sagt viðhald skipsins, mundi það þá ekki þýða um leið, að draga mundi úr þessum mjög lágu tekjum þeirra manna, sem þarna eru fyrir? Með þessum aths. er ég alls ekki að leggjast á móti því, að í slíkt verði ráðizt. Ég tel einmitt og tek undir það með flm., að það eru líklega fáir aðilar hér á landi í dag, sem gætu betur þroskað okkar unglinga, sem vildu ganga þá braut að leggja fyrir sig sjómennsku, að ég tali ekki um yfirmennsku á okkar flota, bæði verzlunarflota og fiskiskipaflota, að þeir fengju að stíga sín fyrstu spor í sinni sjómennsku á varðskipum ríkisins. Ég þekki það af eigin raun, að þar er bæði góður agi og góðir menn, sem stjórna til lands og sjós og ég mundi mjög mæla með því, að af slíku gæti orðið. En ég vil aðeins biðja hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hafa þessi tvö atriði, sem ég var hérna að drepa á, í huga, þegar málið kemur fyrir n.

Þar fyrir utan hefði ég haft mikinn áhuga á því, ef hæstv. menntmrh. hefði verið til staðar í hv. Sþ., að spyrja hann um, hvað liði framkvæmd síðari hluta þeirrar þáltill., sem ég flutti fyrir einum 7 eða 8 árum síðan, um endurskoðun l. um Stýrimannaskólann. Meðflm. minn að þessari till. var núverandi hæstv. sjútvrh., Eggert G. Þorsteinsson. Þessi till. var samþ. Hún var ekki eingöngu um endurskoðun l. Stýrimannaskólans, — það atriði till. hefur þegar komið til framkvæmda, — heldur var hún einnig um stofnun sjóvinnuskóla, athugun og till. um, hvernig honum yrði bezt fyrir komið. Mér er ekki betur kunnugt en sú n., sem falið var að endurskoða l. Stýrimannaskólans, hafi skilað bæði áliti og till. að frv. til l. um væntanlegan sjóvinnuskóla. Um leið og við tölum um till. um skólaskip, sem alveg er hárrétt, eins og þegar hefur komið fram á þessu þingi hér í Sþ. og reyndar oft fyrr á Alþ., þá er ekki síður þörf fyrir okkur að koma upp sjóvinnuskóla. Ég ætla ekki að fara að rekja öll þau rök, sem fyrir eru um það, að slíkum skóla verði komið á stofn, en ætla mér þá kannske síðar rétt til þess að spyrjast fyrir um þetta atriði hjá hæstv. menntmrh.