18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2981)

57. mál, störf unglinga á varðskipum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég tel, að þær hugmyndir séu mjög góðra gjalda verðar, sem fram koma í þessari þáltill. Hins vegar finnst mér orðalag hennar nokkuð fortakslaust og ég hygg, að eðlilegt væri, að það væri athugað nokkuð nánar í n. og þá beinlínis í framhaldi af þeim aths., sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni. Hér er talað um, að Alþ. skori á ríkisstj. að gefa allt að 30 unglingum á aldrinum 15— 17 ára tækifæri til þess að vinna um borð í skipum Landhelgisgæzlunnar um þriggja mánaða skeið á hverju sumri. Ef þetta er samþ. svona, þá er það bein ályktun Alþ. að skora á stjórnina að gera þetta. Mér finnst, að það ætti að nota tækifærið undir meðferð málsins í þinginu til þess að athuga nokkuð nánar í þingnefnd, með hverjum hætti væri hægt að koma slíku við og áður en endanlega er gengið frá samþykkt till. Þarna kemur það til álita, sem hv. 10. þm. Reykv. benti á, hvaða áhrif slíkt kynni að hafa á kjör þeirra, sem fyrir eru á varðskipunum eða vakir það fyrir mönnum, að hreinlega yrði þarna um eins konar þátt af starfrækslu skólaskips að ræða, því að það gæti einnig komið til álita? Ef við treystum okkur til að reka einhvers konar skólaskip í þeirri veru, að unglingar væru á varðskipunum, sem óhjákvæmilega hefði beinan kostnað í för með sér, eru alveg á sama hátt uppi hugmyndir um sjóvinnuskóla.

Gert er ráð fyrir, að þeir hafi einhver laun fyrir þetta. Það getur vel komið til álita, en það fer náttúrlega mjög mikið eftir því, hvernig fyrirkomulag starfsins er hugsað. Í fyrsta lagi mætti athuga þetta, eins og ég segi, undir meðferð málsins í n. hér í þinginu. En auk þess geri ég ráð fyrir, að fyrir hv. flm. hafi einnig vakað, að kæmi þessi hugmynd til afgreiðslu hjá þinginu eða áskorun til stjórnarinnar, — að hann hefði þá e.t.v. hugsað sér, að þegar hún lægi fyrir, þá yrði gengið í að athuga, með hverjum hætti slíkt yrði framkvæmt. En það er nú ráðlegra, að mínum dómi, að huga nokkuð að því, áður en endanlega er gengið frá samþykkt till.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er ég efnislega mjög meðmæltur till. og tel mikilvægar þær hugmyndir, sem hér er um að ræða, en þær eru sennilega nokkuð vandasamar í framkvæmd og þarf að huga vel að því.