26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

173. mál, Listasafn Íslands

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við flytjum fjórir þm. till. til þál. á þskj. 339 um Listasafn Íslands, og er tillgr. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að beita sér fyrir því, að sem fyrst verði teknar ákvarðanir um lóð handa Listasafni Íslands og hafinn undirbúningur að byggingum. Jafnframt skorar Alþingi á ríkisstjórnina að gera áætlanir og tillögur um nauðsynlega fjáröflun, til þess að framkvæmdir geti gengið sem greiðlegast.“

Till. þessi er flutt í áframhaldi af umr., sem hér urðu nýlega um ástandið í Listasafni Íslands, eftir að í ljós var komið, að húsakynni safnsins fullnægja engan veginn þeim skilyrðum, sem gera verður til listasafnsbyggingar. Þar sem þessi mál voru rædd svo ýtarlega við það tækifæri, sé ég ekki ástæðu til þess að rekja þau sérstaklega nú. Aðeins vil ég minna á þá staðreynd, að jafnvel þótt ekki kæmu til þeir annmarkar, sem í ljós hafa komið á byggingu þeirri, sem Listasafnið er til húsa í, er mikil þörf orðin á því að hefjast handa um endanlega listasafnsbyggingu, vegna þess að húsakynnin í þjóðminjasafnsbyggingunni eru orðin allt of lítil. Listaverkaeign safnsins er nú 1.700 listaverk og aðeins er hægt að sýna um 100 þeirra í senn, þannig að meginþorri listaverkanna er í geymslum, þar sem almenningur á ekki kost á að kynnast þeim.

Ég vil einnig minna á í þessu sambandi, að fyrir nokkrum árum barst íslenzku þjóðinni mesta listaverkagjöf, sem okkur hefur áskotnazt, með arfleiðsluskrá Ásgríms Jónssonar listmálara, en hann gaf íslenzku þjóðinni 400 málverk og fullgerðar vatnslitamyndir og enn fremur nokkur hundruð teikninga. Þessi gjöf var gefin með því skilyrði, að hún yrði varðveitt í húsi listamannsins, þangað til búið væri að koma upp endanlegri byggingu yfir Listasafn Íslands, þar sem hægt væri að sýna þessar myndir á verðugan hátt. Með því að veita þessari listaverkagjöf móttöku, hefur íslenzka þjóðin og Alþingi Íslendinga tekið á sig þá ábyrgð að koma upp slíkri safnbyggingu.

Ég vil einnig minna á í þessu sambandi, að fyrir 10 árum voru sett l. um byggingarsjóð Listasafnsins og síðan hefur árlega verið varið fjárhæð til hans á fjárl. Stofnféð var fjárhæð, sem gefin var af Jóhannesi Kjarval listmálara og hann hefur raunar gefið Listasafninu fleiri stórgjafir. Enn fremur hafa Listasafninu borizt fleiri verðmætar gjafir, þ.á.m. tvær húseignir, Austurstræti 12 og Sóleyjargata 31, þannig að eignir safnsins eru nú þegar það verulegar, að hægt er að ráðast í undirbúningsframkvæmdir, — þ.á.m. teikningar — fyrir þá fjármuni, sem Listasafnið ræður yfir, þannig að fjárveitinga, sem óhjákvæmilega munu þurfa að koma, mun ekki verða þörf alveg á næstunni.

Ég vil vænta þess, að þessi till. til þál. sé í samræmi við vilja alþm. Mér virðist sá vilji hafa komið mjög skýrt fram hér í umr. um þetta mál áður og ég vil vænta þess, að sú n., sem fær till. til meðferðar, flýti svo sem auðið er að fjalla um hana.

Ég vil að lokum geta þess að Sþ. hefur borizt svohljóðandi álitsgerð frá safnráði Listasafns Íslands:

„Safnráð Listasafns Íslands fagnar þeim velvilja hins háa Alþingis í garð Listasafns Íslands, sem tillaga þeirra alþm. Magnúsar Kjartanssonar, Birgis Kjaran, Benedikts Gröndal og Þórarins Þórarinssonar ber með sér og er það eindregið álit safnráðs, að höfuðmáli skipti fyrir myndlist í landinu og framtíð hennar, að listasafnsbygging rísi hið fyrsta.

Reykjavík, 20. marz 1969.

Selma Jónsdóttir,

Jóhannes Jóhannesson,

Ásmundur Sveinsson,

Þorvaldur Skúlason,

Gunnlaugur Þórðarson.“

Að svo mæltu legg ég til, að till. þessari verði vísað til allshn. og umr. frestað.