23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3036)

23. mál, námskostnaður

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er óhætt að segja, að tiltölulega skammt sé síðan umr. um almenn skólamál hófust að marki hér í þinginu, þannig að rökstuddrar gagnrýni gætti á framkvæmd fræðslulaganna í heild, einkum þess að jafna aðstöðumun í skólamálum. Ég hef átt nokkurn þátt í því, ásamt áhugasömum samflokksmönnum mínum hér á þingi, að flytja ýmsar till., sem miða til úrbóta á því ranglæti, sem ríkir í íslenzkum skólamálum. Með ranglæti á ég ekki sízt við þá staðreynd, að dregizt hefur langt úr hófi og langt fram yfir það, sem fræðslulög ákveða, að framkvæma skólaskyldu í sveitum. Fræðslulögin gerðu ráð fyrir, að farskólafyrirkomulaginu yrði útrýmt á 6–7 árum, þannig að fastir skólar á barna– og unglingastigi áttu að vera komnir til sögunnar um allt land þegar árið 1953. Nú er komið árið 1968 og stutt í árið 1969 og enn hefur farskólakerfinu ekki verið útrýmt. Það eru sem sé liðin 15–16 ár síðan því átti að vera lokið. Hlýtur hver maður að sjá, að hér er meira en lítið sleifarlag á ferð. Ég hygg, að það sé allt að því einsdæmi, að lagaframkvæmd hafi verið dregin með þessum hætti og þetta hljóta að teljast bein svik í lagaframkvæmd, alger brigð á þingvilja og settum lögum. Ég vil leggja áherzlu á þessa staðreynd. Það er fyllilega kominn tími til, að ríkisstj. og Alþ. geri sér ljóst, hvernig staðið hefur verið að þessum málum og hverjar afleiðingarnar eru. Afleiðingarnar eru þær, að sveitabörn og unglingar fara á mis við skólagöngu í stórum stíl. Þau búa ekki aðeins við styttri skólagöngu ár hvert, en gerist almennt í bæjunum, heldur hefja þau skólanám síðar á ævi sinni og ljúka því fyrr, en lög gera ráð fyrir og tíðkast í Reykjavík og stærri kaupstöðum a.m.k. Þannig blasir ranglætið við að þessu leyti. Þegar á barnafræðslustigi og unglingastigi er kastað til höndunum fræðslu unglinga og barna. Í þessum efnum er haldið dauðahaldi í algera forneskju, sem nú orðið á engan rétt á sér. Það á alls engan rétt á sér lengur að gera mun á skólafræðslu eftir því, hvort er í sveit eða kaupstað. Hafi slíkur munur einhvern tíma verið réttlætanlegur, sem vel má vera, er það löngu liðin tíð, enda gerðu fræðslulögin ráð fyrir, að þessum mun yrði eytt á vissu árabili, eða 6–7 árum, en þetta hefur ekki verið framkvæmt. Sveitirnar hafa orðið svo stórlega aftur úr í skólamálum, að óhæfa er, hvernig sem á málið er litið. Hér er fyrst og fremst verið að fremja lögbrot, því að andi og bókstafur fræðslulöggjafarinnar hefur verið þverbrotinn. Það er einnig verið að fremja beint ranglætisverk á sveitaæskunni og yfirleitt á því fólki, sem í sveitunum býr. Þess vegna verður nú að breyta um stefnu í þessum málum. Það verður að bæta úr vanrækslu síðustu ára, — ég vil segja 10–20 ára vanrækslu, — sem við blasir í skóla– og fræðslumálum sveitanna. Það verður auðvitað fyrst og fremst gert með byggingu nútímaskólahúsnæðis af hæfilegri stærð og með þeim tækjum og útbúnaði, sem hentar þeim og krafizt er.

Ég vil minnast á það, sem ég hef oft minnzt á áður og margsinnis flutt um frv. og till., að skólamál sveitanna verða ekki leyst með úrbótum á barna- og unglingafræðslu einni saman. Sveitirnar, þorpin í dreifbýlinu og landsbyggðina yfirleitt vantar gagnfræðaskóla. Og ekki er síður þörf á úrbótum á því sviði. Heilir landshlutar og héruð hafa verið þannig sett, að unglingar hafa átt lélegan kost barnafræðslunnar og annarrar skyldufræðslu og alls engan kost á framhaldsmenntun. Það hefur orðið alger stöðnun á framhaldsskólamálum sveitanna. Það, sem reynt hefur verið að gera, er oftast nær kák eitt án allrar heildaryfirsýnar. Till. okkar framsóknarmanna um að gera ráðstafanir til að fá slíka heildaryfirsýn, m.a. með því að gera raunhæfa áætlun um framhaldsskólabyggingar í sveitum, hafa verið drepnar niður. Sjálfsögðum réttlætiskröfum hefur ekki verið sinnt. En hversu lengi er hægt að slá slíku á frest? Hversu lengi er hægt að slá því á frest að fullnægja lögbundnum skyldum ríkisins til þess að koma á jöfnuði í skólamálum eða a.m.k. draga úr sívaxandi ójöfnuði?

Slíkur frestur má ekki verða ótakmarkaður. Það verður að hefjast handa með raunhæfum aðgerðum og eyða þessum mun á sem allra skemmstum tíma. Það verður m.a. gert með raunverulegri sókn í skólabyggingamálum, með því að hraða framkvæmdum í sambandi við skóla, sem þegar er ákveðið að reisa og gera nánari áætlun um skólabyggingar í heild. Slík skólabyggingaáætlun fyrir dreifbýlið er áreiðanlega miklu vandaminna verk en flestar aðrar áætlanir vegna þess m. a., að íbúatalan er ekki neinum stórsveiflum háð.

En fleira kemur til, þegar rætt er um að jafna aðstöðumun í skólamálum. Þar vil ég einkum benda á þá leið, sem um er rætt í þáltill. þeirri, sem hér er til umr. og ég vil leyfa mér að lesa:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa milliþinganefnd, er geri tillögur um fjárhagslegan stuðning við nemendur á skyldunáms– og framhaldsskólastigum, sem óhjákvæmilega verða að vista sig til langs tíma utan heimila sinna vegna skólagöngu. Nefndin skal skipuð 5 mönnum og tilnefni þingflokkarnir sinn manninn hver, en menntmrh. skipi fimmta manninn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefndin skili áliti fyrir næsta reglulegt Alþingi. Kostnaður við nefndarstörfin greiðist úr ríkissjóði.“

Hér er um mikilsvert hagsmunamál að ræða, eins og aðstæður eru í okkar landi, þar sem útilokað er, að heiman göngu verði við komið í skólana. Það er augljóst, að alltaf verður verulegur hluti skólanemenda háður því að sækja skóla utan heimasveitar. Slíkt getur átt við um nemendur á öllum skólastigum, bókstaflega öllum skólastigum, allt frá barnaskóla og upp í æðstu skóla. Það getur átt við nemendur í héraðs– og gagnfræðaskólum, nemendur í verzlunarskólum, menntaskólum, háskólanum og öllum sérskólum yfirleitt, þ.á.m. iðnskólum, sem stefnt er að, að verði færri og stærri, en nú gerist. Það er gífurlegur kostnaðarauki af því að þurfa að sækja skóla langa vegu og verða að vista sig til langs tíma utan heimilis af þeim sökum. Þessi kostnaðarauki er svo mikill, að hann getur riðið baggamuninn um það, hvort unglingum er kleift að sækja skóla og afla sér nauðsynlegrar menntunar.

Hér kemur greinilega fram hinn mikli aðstöðumunur í skólamálum eftir búsetu. Þessum aðstöðumun má að nokkru eyða með því, að hið opinbera styrki slíka nemendur sérstaklega með því að greiða bein fjárútlát, sem rekja má til hinnar ójöfnu skólagönguaðstöðu. Nú er það svo að vísu, að flestum skólanemendum, sem náð hafa vissum aldri, ætti í eðlilegu árferði að vera kleift að vinna fyrir námskostnaði sínum að nokkru leyti og kannske að verulegu leyti í mörgum tilvikum og það munu flestir reyna að gera. Ég þekki þess engin dæmi, að nemendur slái að því leyti til slöku við lífsbjörg sína. En því fer fjarri, að öruggt sé, að allur skóladvalarkostnaður verði uppi borinn með sjálfsaflafé nemendanna sjálfra. Það er m.a. útilokað, að nemendur á gagnfræðastigi, — þeir, sem stunda nám í miðskóla, héraðsskóla eða gagnfræðaskóla — séu þess umkomnir að vinna fyrir skóladvöl sinni utan heimila. Hér er um að ræða nemendur á aldrinum 15–16 ára, e.t.v. 17 ára. Unglingar á þessum aldri eru í reynd á framfæri foreldra sinna og skólaganga þessara unglinga leiðir að sjálfsögðu af sér útgjaldabyrði fyrir heimilin. Með þeirri till., sem hér er flutt, er því hreyft miklu hagsmunamáli fyrir alþýðu manna í landinu, einkum það fólk, sem býr í sveitum og hinum fámennari kauptúnum og þorpum, þar sem skólaaðstaðan er verst og óhjákvæmilegt er að senda unglingana og oft börnin að heiman, til þess að öðlast þótt ekki sé nema lágmarksskólafræðslu. Hér er um mjög tilfinnanleg útgjöld að ræða á hundruðum, kannske þúsundum alþýðuheimila í landinu. Sérstaklega er þetta þung byrði fyrir barnmargar fjölskyldur. Þessu máli er hreyft hér til þess að nokkur lausn verði fundin á því að jafna aðstöðumun í skólamálum. Hér er um réttlætismál að ræða, sem ekki er hægt að loka augum fyrir.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, enda hélt ég allýtarlega ræðu um þessa till. í fyrra og skal láta máli mínu lokið nú. En það munu vera ákveðnar um þessa till. tvær umr. Þetta er sú fyrri, og ég legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umr.