14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (3043)

23. mál, námskostnaður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka allshn. fyrir að hafa litið með vinsemd og nokkrum skilningi á þetta mál. Það hefur að vísu verið gerð breyting á till. frá því, sem hún var flutt af okkar hálfu, en ég ætla ekki að setja mig neitt upp á móti því. Ég er samþykkur breytingunni í þeirri trú, að með henni náist sami tilgangur og fyrir okkur flm. vakti með flutningi málsins. Við flm. erum mjög ákveðið þeirrar skoðunar, að aðstöðumunur til náms eftir búsetu sé orðinn óviðunandi. Það er óhjákvæmilegt nauðsynjamál að jafna þennan aðstöðumun. Það má raunar telja eitt hið brýnasta verkefni í skólamálum íslenzku þjóðarinnar nú að jafna þennan aðstöðumun. Ég er að vísu oft búinn að tala um þetta mál hér á hv. Alþ. og oft fyrir daufum eyrum. Og það gleður mig sannarlega nú, að skilningur er að vakna á því, að þetta þurfi að gera, m.a. eftir þeirri leið, sem bent er á í þáltill. okkar.

Ég lít á afgreiðslu allshn. sem viðurkenningu á, að þetta mál sé þess vert, að því sé gaumur gefinn og það þurfi að rannsaka. Ég efa ekki, hvað sú rannsókn muni leiða í Ijós. Það mun sýna sig, að á því er reginmunur fjárhagslega að stunda nám fjarri heimili sínu og á hinu að sækja skóla beint að heiman frá sér. Þennan mun er ekki að fullu hægt að minnka með því að reisa fleiri skóla, sem þó má auðvitað ekki lát á verða, t.d. héraðsskóla, menntaskóla, hvað þá heldur barnaskólana. Það verður aldrei hægt í svo stóru og strjálbýlu landi sem Íslandi að tryggja öllum nemendum aðstöðu til að sækja skóla frá heimili sínu. Slíkt er auðvitað útilokað og það þarf ekkert að útskýra það frekar. Engum hefur t.d. dottið í hug, að menntaskólar verði í náinni framtíð fleiri, en sem svarar einum í hverjum fjórðungi. Gagnfræðaskólar verða heldur ekki öllu fleiri, en einn í hverju héraði. Sú stefna er uppi að reisa barna– og unglingaskóla fyrir marga hreppa saman. Ýmsir sérskólar verða um sinn einungis á mjög fáum stöðum. Það er því ljóst, að framvegis sem hingað til þarf ótalinn fjöldi nemenda að sækja skóla í fjarlægar sveitir, fjarlæg héruð og jafnvel í fjarlæga landsfjórðunga. Þess vegna myndast sú kvöð á hið opinbera að finna leið til þess að jafna þann aðstöðumun, sem af þessu leiðir fyrir skólanemendur í landinu eða foreldra þeirra og heimili, sem rísa verða undir kostnaði af námsdvöl á fjarlægum stöðum um lengri eða skemmri tíma. Þennan mun má jafna með fjárhagslegri aðstoð af hálfu hins opinbera og það er réttlætismál, að, að því verði stefnt.

Ég treysti því, að ef þessi till. verður samþ., eins og allshn. leggur nú til, þá leiði það til þess, að þetta mál verði tekið til gagngerðrar athugunar og innan ekki of langs tíma þyki það sjálfsagður og nauðsynlegur þáttur í skólakostnaði hins opinbera að styrkja að nokkru námsdvöl þeirra, sem nauðsynlega verða að vista sig til náms utan heimila sinna. Í framsöguræðum mínum fyrir þessu máli hef ég oft áður rakið með tölum, hver óhjákvæmilegur aukakostnaður fylgir því fyrir nemendur að sækja skóla utan heimilissveita sinna. Og ég hef leyft mér að halda því fram, að þessi aukakostnaður geti verkað sem haft á fátækari ungmenni, sem vilja stunda skólanám. Ég ætla ekki að þessu sinni að rökstyðja þetta mál með mörgum tölum, en ég vil benda á, að þeir kostnaðarliðir, sem sérstaklega verður að taka tillit til í þessu sambandi, eru fæði, húsnæði og ferðakostnaður. Þetta eru yfirleitt mikilvægustu kostnaðarliðirnir, kostnaður, sem krefst beinna fjárútláta fyrir nemendur eða foreldra þeirra.

Ég hef hér eitt ákveðið dæmi, sem mig langar til að nefna, sem er kostnaður eins nemanda í MA nemanda sem kemur úr fjarlægum landshluta. Fæðiskostnaður þessa nemanda er yfir tímabilið, yfir veturinn 27.600.—kr. húsaleiga 8.000.– kr. og lágmarksferðakostnaður 3.000.– kr. samtals 38.600.– kr. Við þetta má einnig bæta sem aukakostnaði ferð heim í jólaleyfi og í páskaleyfi, samtals 6.000.– kr. Þá er kostnaðurinn orðinn 44.600.– kr.

Við flm. þessa máls höfum borið það fram hér í þinginu a.m.k. þrisvar sinnum, á þremur þingum. Okkur er það fagnaðarefni, að hv. allshn. hefur nú lagt til, að það verði samþ., þótt í nokkuð breyttu formi sé. Við treystum því, að upphaflegu markmiði okkar verði um síðir náð þrátt fyrir brtt. allshn. og erum því brtt. samþykkir.