14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

23. mál, námskostnaður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. allshn. hefur nú skilað nál. um þá þáltill., sem hér er til umr., en n. leggur til, að till. sé allverulega breytt. Í stað þess, sem í henni segir, að mþn. geri till. um fjárhagslegan stuðning við skólanemendur, er verða að vista sig utan heimilis við nám, leggur n. hins vegar til, að ríkisstj. láti kanna m.a. aðstöðumun nemenda, annars vegar þeirra, sem stunda nám fjarri heimilum sínum og hins vegar hinna, sem þurfa þess ekki með. Mér er tjáð, að sumir nm. hafi óskað eftir, að till. yrði samþ. efnislega, eins og hún var flutt, en sætti sig þó við þá breytingu, sem hér er lagt til að gera á henni. Þessi könnun, sem gert er ráð fyrir í brtt. n., er að sjálfsögðu nauðsynleg, en hún hefði orðið að fara fram, þó að till. hefði verið samþ. óbreytt, því að það er ekki hægt að gera rökstuddar till. um fjárhagslegan stuðning við nemendurna, nema slík könnun fari fram fyrst.

Það, sem ég er hins vegar óánánægður með í þessari breyttu till. er, að ekki er í henni nokkurt fyrirheit um, að skólanemendum verði veittur fjárhagslegur stuðningur og það felst í henni engin viðurkenning á því, að þörf sé á þessum stuðningi, þó að svo sé mælt fyrir, að könnun á aðstöðumun fari fram. Ég held þó, að mönnum ætti ekki að vera það ókunnugt, hversu gífurlegur fjárhagslegur aðstöðumunur er hjá skólanemendum landsins, annars vegar þeim, sem verða að fara að heiman og dvelja langdvölum að heiman við nám, og hins vegar hinna, sem geta sótt skóla daglega heiman frá sér. Auðvitað eru aðal kostnaðarliðirnir fyrir þá, sem eru fjarri heimilum, fæðiskostnaður, húsnæðiskostnaður, ferðakostnaður og annað þess háttar.

Ég hef leitazt við að gera mér nokkra grein fyrir þessum fjárhagslega mun og leitaði ég í því efni aðstoðar hjá forstöðumanni skólaeftirlits ríkisins, Aðalsteini Eiríkssyni og bað hann að reyna að afla nokkurra upplýsinga um þetta. Hann kvaðst ekki geta látið fara fram neina nákvæma rannsókn eða könnun á þessum hlutum, allra sízt á stuttum tíma, en kvaðst þó mundu geta gefið mér nokkrar upplýsingar í þessum efnum, sem hann og líka gerði eftir tiltölulega skamman tíma. Þessi könnun Aðalsteins náði til 29 skóla, en í þeim voru samtals um 4.300 nemendur. Fjórir skólanna voru í Reykjavík, einn á Akureyri og 24 í dreifbýli víðs vegar um landið. Skólarnir eru þessir: Það eru 4 menntaskólar, 11 héraðsskólar og skyldir skólar, 2 bændaskólar, 9 húsmæðraskólar utan Reykjavíkur og auk þessa Kennaraskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Stýrimannaskólinn.

Þeir kostnaðarliðir skólanemenda, sem Aðalsteinn gerði athugun á, voru fæðið, húsnæðið, þjónusta og ferðakostnaður. Flestir þessara kostnaðarliða hvíla á dvalarnemendum, sem ég vil svo kalla, umfram það, sem heimangöngunemendur þurfa að greiða. Það má segja, að það sé aðallega fæðið, sem kostar að sjálfsögðu nokkuð, þó nemendur borði heima hjá foreldrum sínum. En það kostar hins vegar miklu meira, ef þarf að kaupa það sérstaklega. Niðurstöður Aðalsteins Eiríkssonar eru í fáum orðum þessar, hvað snertir þessa fyrrnefndu kostnaðarliði, að kostnaðurinn verði á hvern nemanda yfir skólaárið, þ.e.a.s. aðallega 7–8 mánaða skólaár, — í skólum í Reykjavík 45—52 þús. kr., í Menntaskólanum á Akureyri um 38 þús., ef nemandinn er ekki í heimavist, en annars um 27 þús. kr. Í Menntaskólanum á Laugarvatni um 30 þús. kr., í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni um 30–34 þús. krónur, en hann mun standa eitthvað lengur árlega, í bændaskólunum 23–24 þús. krónur, í héraðsskólum, húsmæðraskólum og öðrum heimavistarskólum 23–27 þús. krónur. Ég þarf varla að taka fram, að þetta er ekki allur námskostnaðurinn og fjarri því, þetta eru aðeins þessir kostnaðarliðir, sem ég. nefndi og Aðalsteinn Eiríksson hefur gert athugun á.

Af þessari bráðabirgðakönnun Aðalsteins má ráða, að dvalarkostnaður skólanemenda er langsamlega mestur í Reykjavík. T.d. er hann mun lægri á Akureyri í alveg sams konar skólum, eins og menntaskólum þessara tveggja staða. Þá er í þessum niðurstöðum mjög athyglisvert, hvað heimavistir skólanna gera nemendum námið ódýrara, þó dýrt sé. Og ég ætla, að þar ráði mestu húsnæðið og sameiginlegt mötuneyti. Ég leitaði einnig upplýsinga um það hjá Aðalsteini, hvernig nemendur nokkurra skóla skiptust á milli dvalarnemenda annars vegar og heimangöngunemenda hins vegar, þ.e.a.s. milli þeirra, sem verða að dvelja fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur og hinna, sem geta sótt skólana daglega heiman frá sér. Ég lít svo á, að af þeim upplýsingum megi ráða nokkuð, hvaða áhrif námskostnaður hefur á skólasóknina. Hér er um tvenns konar nemendahópa að ræða, hvað námskostnað snertir og það munar mjög miklu, hvað dvalarnemendur eiga við harðari kosti að búa en hinir. Þessi athugun Aðalsteins leiddi eftirfarandi í ljós. Í menntaskólunum 2 í Reykjavík eru nú samtals 1.470 nem. Af þeim eru um 1.310 eða 89% úr Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði, þ.e.a.s. af því svæði, sem hægt er að sækja skólann heiman frá sér daglega. Aðeins 11% af þessum menntaskólanemendum eru úr öðrum landshlutum. Þetta segir sína sögu um það, hverjir sækja fyrst og fremst skólana og hverjir geta ekki sótt skólana. Í Menntaskólanum á Akureyri eru nú samtals 501 nemandi, en af þeim eru 369 eða 74% úr Akureyrarbæ eða svo nærri Akureyri, að þeir geta sótt skólann daglega að heiman. Í Menntaskólanum á Laugarvatni eru að sjálfsögðu svo að segja allir nemendurnir að komnir eða dvalarnemendur sem ég kalla. Samkvæmt manntali fyrir hálfu öðru ári síðan bjuggu um 52% þjóðarinnar á Reykjavíkursvæðinu, sem ég nefndi áðan, að viðbættri Akureyri. En 79% af menntaskólanemendum í landinu eru af þessu sama landssvæði, eru heimangöngunemendur. Þessi hlutföll eru þó á nokkuð annan veg, hvað snertir Kennaraskólann og Stýrimannaskólann. Í Kennaraskólanum eru 61% utan Reykjavíkursvæðisins og í Stýrimannaskólanum eru það 48%, en þess ber að gæta, að þeir, sem stunda vilja nám í þessum skólum, eiga ekki í annað hús að venda, því að það eru ekki aðrir skólar þessarar tegundar til í landinu, að undanteknum sjómannaskóla, sem hefur nýlega hafið störf í Vestmannaeyjum. Nemendur verða því að sækja þessa skóla, ef þeir ætla að læra það, sem þar er kennt.

Ég held, að þessi bráðabirgðakönnun Aðalsteins Eiríkssonar bendi mjög í þá átt, að þeir skólanemendur í landinu, sem ekki búa í heimahögum skólanna, ef svo mætti kalla það, verða að sæta svo hörðum kostum fjárhagslega, samanborið við hina nemendurna, að það er ekki við þetta unandi lengur. Þjóðfélaginu ber skylda til að veita æskufólki landsins sem jafnastan rétt til menntunar, hvar sem það er búsett. En þessi fjárhagslegi aðstöðumunur, sem ég hef nú bent á, er orðinn svo mikill, að um hróplegt misrétti er að ræða í þessum efnum. Og úr þessu misrétti verður að bæta.

Því miður er hæstv. menntmrh. ekki viðstaddur, en ég ætlaði mér að beina þeirri ósk til hans, að þrátt fyrir þetta orðalag á till., sem n. leggur til að verði, hlutist hann til um, að leitað verði eftir till. manna, á hvern hátt verði bætt úr þessum aðstöðumun, svo að slíkar till. gætu legið fyrir næsta þingi, enda þótt till. verði samþ. með því orðalagi, sem n. leggur til.