14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

149. mál, veðurathugunarstöðvar í grennd við landið

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka meðnm. mínum í allshn. góðar undirtektir undir þáltill. mína, sem hér er til umr. Ég kveð mér þó hljóðs við þessa umr. aðallega vegna þess, að ég tel ástæðu til að vekja athygli hv. alþm. á sérstökum atriðum, sem fram koma í umsögn veðurstofustjóra um þáltill.

Hér er um að ræða húsnæðisskort Veðurstofunnar og afleiðingar hans á veðurþjónustu fyrir íslenzka sjómenn. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa örstuttan kafla úr umsögn veðurstofustjóra, þar sem fjallað er um þetta atriði. Veðurstofustjóri segir:

„Mér þykir líklegt, að ef fýsilegt þykir að koma á fót þessu stöðvakerfi, verði leitað til Veðurstofunnar um hluta af viðhaldi þess, þ.e.a.s. viðgerðir og stillingar á veðurathugunartækjum stöðvanna. Ég sé ekki, að Veðurstofan geti við núverandi aðstæður orðið við slíkum óskum, aðallega vegna húsnæðisskorts. Af sömu ástæðu standa Íslendingar nú með tærnar, þar sem aðrar þjóðir hafa hælana, að því er varðar veðurþjónustu fyrir sjómenn.“

Þetta er lýsing þess manns, sem gerst ætti til að þekkja, á þeirri veðurþjónustu, sem Veðurstofunni er gert kleift að inna af hendi við íslenzka sjómenn, í samanburði við það, sem gert er fyrir stéttarbræður þeirra í öðrum löndum. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé vakin athygli á mjög alvarlegu máli og hef talið ástæðu til þess að tryggja með þessum orðum mínum, að þessar upplýsingar fari ekki fram hjá hv. alþm. Ég vek sérstaka athygli allra hv. þm. á þessu máli, þar sem ég býst við, að þeir hafi ekki almennt gert sér grein fyrir, að svo sé ástatt um þá veðurþjónustu, sem íslenzkir sjómenn njóta, að hún þoli engan samanburð við þá þjónustu, sem sjómönnum er tryggð meðal annarra þjóða.

Eins og kunnugt er, hagar svo veðurfari við Ísland og sjósókn er hér svo hörð og óvægin, að þjónusta við sjómenn í sambandi við allt, sem lýtur að veðri, hafís o.fl., má sízt af öllu vera minni, en um er að ræða meðal annarra fiskveiðiþjóða. Sízt af öllu er unnt að sætta sig við, að við Íslendingar höfum í þessu efni aðeins tærnar, þar sem aðrir hafa hælana, eins og veðurstofustjóri upplýsir sjálfur, að sé staðreynd málsins.

Í grg. með þeirri þáltill. minni, sem hér er til umr., segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo mikilvæg eru þjóðinni störf sjómanna, að um alla hugsanlega þjónustu við þá ber Íslendingum skylda til að standa framar því, sem þekkist meðal annarra þjóða.“

Það er sannfæring mín, að yfirleitt séu hv. alþm. sammála þessum orðum mínum. Nú er upplýst, að um veðurþjónustu, — svo geysimikilvæg, sem hún er íslenzkum sjómönnum, — stöndum við ekki framar öðrum þjóðum, ekki einu sinni jafnfætis, heldur höfum tærnar, þar sem aðrar þjóðir hafa hælana. Þetta má þjóðin ekki una við og ég vænti þess, að hv. alþm. láti þessar upplýsingar veðurstofustjóra verða til þess, að þeir geri sér betur ljóst, að nauðsynlegt er að gera þær ráðstafanir, sem duga til þess, að úr verði bætt.

Þá er komið að því, sem veðurstofustjóri telur ástæðuna til þess, hversu aftarlega við stöndum í samanburði við aðra um veðurþjónustu við sjómenn, en það er húsnæðisskortur Veðurstofunnar. Umsögn sinni lýkur veðurstofustjóri með þessum orðum, eftir að hann hefur greint frá því, eins og ég áðan las, að húsnæðisskortur Veðurstofunnar sé orsök þess, að við erum með tærnar, þar sem aðrar þjóðir eru með hælana í þjónustu við sjómenn, að því er varðar veðurspár og annað, er að veðri lýtur. Veðurstofustjóri segir í lok umsagnar sinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít, að hæstv. Alþ. beri nú skylda til að efna sem fyrst rúmlega fertugt fyrirheit sitt um byggingu handa Veðurstofu Íslands, enda hefur ýmsum yngri ríkisstofnunum verið fyrir löngu séð fyrir eigin húsnæði.“

Ég hygg, að hv. alþm. hafi áður heyrt svipaðar ábendingar og alvarlegar áminningar frá þeim, sem ábyrgð bera á veðurþjónustu hér á landi, um þær erfiðu aðstæður, sem þeim eru búnar vegna húsnæðisskorts og hversu mjög húsnæðisskorturinn er fjötur um fót öllum vilja og getu til bættrar veðurþjónustu jafnt við sjómenn sem aðra landsmenn. Ég held, að þegar við nú heyrum, hvar við stöndum í þessum efnum i samanburði við aðra, þá eigi alþm. ekki lengur og megi ekki lengur láta slíkar ábendingar og upplýsingar fara inn um annað eyrað og út um hitt, heldur verður nú að fara að taka á þessu máli og tryggja viðunandi lausn þess.

Íslenzkir veðurfræðingar standa erlendum starfsbræðrum sínum sízt að baki, og Íslendingar hafa margra hluta vegna aðstöðu til þess að vera í fararbroddi í veðurfræði og veðurþjónustu, ef fjárveitingavaldið stendur fyrir sínum hlut. Ég held, að vegna starfa sinna og hæfni eigi bæði íslenzkir sjómenn og íslenzkir veðurfræðingar meira en skilið, að þeim sé búin aðstaða a.m.k. til jafns við það, sem annars staðar þekkist, en á það skortir nú mjög eftir 40 ára starf Veðurstofunnar.

Svo mjög markar veðurfarið alla atvinnustarfsemi Íslendinga, að bætt þjónusta Veðurstofunnar er beinn stuðningur við framleiðsluatvinnuvegina og óútreiknanlegt, hversu mikil fjárhagsleg áhrif bætt veðurþjónusta getur haft jafnt í sjávarútvegi sem landbúnaði, að því ógleymdu að fullkomnun veðurþjónustunnar er afar mikilvægur þáttur í slysavörnum á sjó. Það er ástæðulaust að loka augum fyrir því, að tregða fjárveitingavaldsins á því að tryggja beztu hugsanlegu aðstöðu Veðurstofunnar bitnar á sjómönnum og getur kostað mannslíf og mikið eignatjón.

Vegna þess, hversu atvinnuhorfur í byggingariðnaði eru ískyggilegar, hefur nokkuð verið rætt um þörfina á því, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að hraða opinberum framkvæmdum og örva þannig byggingarstarfsemina með sérstökum fjárútvegunum til framkvæmda ríkisins. Verði af slíkum ráðstöfunum, tel ég, að minnast beri hinnar brýnu þarfar Veðurstofunnar á nýju húsnæði, til þess að unnt sé að veita sjómönnum og öðrum landsmönnum alla þá þjónustu, sem íslenzkir veðurfræðingar eru færir um að veita, ef þeim er búin fullnægjandi starfsaðstaða.

Ég vænti þess, að samstaða geti tekizt sem allra fyrst með þm., hvar í flokki, sem þeir standa, um að leysa húsnæðisvandamál Veðurstofunnar á þann hátt, sem forráðamenn hennar og aðrir starfsmenn telja fullnægjandi.