03.12.1968
Efri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru nú ekki mörg atriði, sem gefa tilefni til þess að fara sérstaklega út í ræður hv. stjórnarandstæðinga. Eitt hefur mér þó þótt merkilegt, að báðir hv. þm. gerðu mjög heiðarlega tilraun til þess að viðurkenna, að hér væri vandi á höndum — beinlínis tóku það fram báðir tveir, sem hingað til hefur verið dálítið erfitt að fá út úr hv. stjórnarandstæðingum, að við nokkra raunverulega erfiðleika væri að etja. Sú yfirlýsing liggur þó hér fyrir, að þessir erfiðleikar séu fyrir hendi. Það er staðreynd þessara umræðna. Það er einnig staðreynd, og því er ekki móti mælt, að fjárhagsvandinn, sem um er að ræða hjá íslenzkum sjávarútvegi, geti verið sem næst því, sem í þessu frv. greinir og verið er að reyna að leiðrétta með þessu frv. Ágreiningurinn er hins vegar um það, hvaðan það fé á að koma, sem til útgerðarinnar og hinna ýmsu þátta íslenzks sjávarútvegs á að renna, hvaðan það fé er fengið.

Því var lýst yfir hér í sambandi við umræður um gengislækkunarfrv. svo nefnda hér á dögunum, að gengislækkunin væri fyrst og fremst framkvæmd vegna sjávarútvegsins. Og vegna þess væri gengislækkunarleið valin, að hún gæfi meiri möguleika til að koma til móts við þann vanda og leysa þann vanda, sem við er að etja. Þess vegna hefði hún verið valin. Þetta er afleiðing þeirra ákvarðana, sem þá voru teknar með því frv. Nú tala menn eðlilega mikið um það, að þarna sé hreyft við þeim reglum, sem gilt hafa um hlutaskipti, og það er rétt. Á það dró ég enga dul í minni ræðu og gerði enga tilraun til þess að fela það. En mér finnst a.m.k. fulltrúar núverandi stjórnarandstöðuflokka leita svolítið langt yfir skammt, þegar þeir tala um sérstakar ávirðingar í þessu sambandi. Ég veit ekki betur en með lögunum um bátagjaldeyrinn 1956 hafi sú regla verið í gildi, sem að nokkru leyti er hér farið inn á líka. Það er raunverulega það, að það giltu tvö fiskverð. Það var annað fiskverð til útgerðarmanna og annað til sjómanna. Ég heyrði ekki á þessum flokkum þá - ég veit ekki, hvort þessir hv. þm. voru þá þm. — en ég minnist þess ekki, að mótmæli hafi komið frá þeim flokkum, enda var nú forystumaður þessara mála þá úr öðrum stjórnarandstöðuflokknum, sem fór þá með sjávarútvegsmál. Hér er því ekki verið að brydda upp á neinu, sem er algerlega nýtt. Þetta hefur sem sagt áður verið í gildi og þótti góð vísa þá.

Ég get gjarnan látið þá skoðun mína í ljós, að vitanlega hefði verið æskilegra að fá þessa peninga einhvers staðar annars staðar frá og þurfa ekki að hreyfa neitt við þessum skiptakjörum. En þrátt fyrir mikla vinnu, sem ríkisstj. hefur í þetta frv. lagt og m.a. sýnt þeim aðilum, sem hlut eiga þarna að máli, fyrir alllöngu síðan, svona a.m.k. allar útlínur þess, þó að endanlega væri ekki frá því gengið fyrr en nú um þessa síðustu helgi — það er ástæðan til þess, að frv. er ekki komið fram áður, en engar aðrar — þá voru það mörg atriði, sem erfitt var að fá niðurstöðu um, ég segi ekki, að það sé eitthvert samkomulag við hlutaðeigandi aðila, hvorki þolendur né þiggjendur í þessu máli. Um það voru þeir ekki beðnir, en þeir fengu að sjá málið eða efni þess fyrir alllöngu siðan, þannig að það hefur ekki að því leyti til verið farið með það sem neitt pukurmál gagnvart þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli. Ef hv. stjórnarandstæðingar hafa á hendinni einhver önnur ráð, sem leysa þann vanda, sem þeir viðurkenna, að sé fyrir hendi, þá verða þau ráð að sjálfsögðu mjög vel þegin, og væntanlega kemur það þá fram í meðferð þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar. Ríkisstj. er skylt að leggja fram sínar till. til lausnar þeim vanda, sem allir viðurkenna nú, að er fyrir hendi. Þessa skyldu sína hefur hún uppfyllt með framlagningu þessa frv. Ef aðrar betri og auðveldari lausnir eru til á þessum vanda heldur en ríkisstj. hefur hér lagt til, þá verða þær þakksamlega þegnar. En væntanlega koma þær lausnir fram, þegar málið fer til meðferðar í hv. n.

Ein spurning kom til mín — sem ég bað hér hv. þm. um að reyna að afla svara við fyrir mig, þar sem ég vildi ekki víkja frá meðan á umræðum stóð — og ég hygg, að ég hafi tekið rétt eftir því, að í fréttabréfi Seðlabankans frá því í októberlok eða í byrjun nóvember hafi verið talið, að um 1505 millj. kr. væru í birgðum. Birgðir væru metnar á 1505 millj., en í þessu frv. sé hins vegar talað um, að þær séu ekki nema 1000 millj. Davíð Ólafsson seðlabankastjóri upplýsir eftirfarandi núna fyrir 15 mínútum síðan:

Fiskifélag Íslands framkvæmdi fullkomna birgðatalningu í samráði við bankann, og samkv. þeirri niðurstöðu voru birgðir 15. nóv. þannig: Sjávarafurðir alls 1292.5 millj., mínus 217 millj. í skreið og 30.9 millj. í hvalafurðum eða 247.9 millj. Eftirstöðvar eru því nú 1045 millj., enda sagt í frv. „um 1000 millj.,“ að birgðirnar séu taldar nú 1045.6 millj. og samkv. fyrri reynslu er óvarlegt að ætla þetta mikið yfir 1000 millj. Skreiðin var áður metin á 360 millj., en nú á 217, ef allar útflutningsbirgðir eru taldar, þ. á m. landbúnaðurinn, sem á um 232 millj., þá kæmi út um 1500 millj. Þetta mun vera skýringin á þeim talnamismun, sem þarna hefur verið um að ræða.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í einstök atriði hv. stjórnarandstæðinga í þeirra ræðum. Þær voru að miklu leyti mjög almenns eðlis og knýja ekki á um sérstök svör.