30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

151. mál, rannsóknir á loðnugöngum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja. Ég hafði leyft mér að flytja brtt. við þessa þáltill. um rannsókn á loðnugöngum, sem prentuð er á þingskjali 490.

Þessi till., sem hérna er til meðferðar, var flutt nokkru fyrr í vetur í byrjun loðnuvertíðarinnar. Mér finnst, að það hafi gerzt síðan í þessu máli, sem réttlæti fyllilega, að Alþ. leggi aukna áherzlu á þau atriði, sem í till. felast, með því að samþykkja heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka skip á leigu til rannsóknastarfa. Það hefur á sannazt mjög greinilega við loðnuveiðarnar í vetur, hversu mikið þjóðhagslegt gildi loðnuveiðar geta haft. Það hefur líka á þessum síðustu mánuðum komið mjög greinilega fram álit fiskifræðinga um, að loðnuveiðarnar sé hægt að færa út, bæði hvað veiðisvæði snertir og veiðitíma. Og það fer ekki á milli mála, að Rannsóknastofnun sjávarútvegsins hefur alveg nóg verkefni fyrir þau skip, sem þegar hefur verið ákveðið að nota til leitar í sumar, þó að ekki bætist við sérstök verkefni vegna loðnunnar.

Allshn. tók ekki afstöðu til þessarar till., en ég greindi frá henni um leið og ég talaði fyrir þessu máli, og skal ekki endurtaka mín rök nú. Mér finnst rétt og sjálfsagt, að Alþ. leggi aukna áherzlu á afgreiðslu málsins með því að samþykkja þessa brtt. og ég vænti þess, að hv. þm. geti orðið mér sammála um það.

Ég hafði hugsað mér að grípa nú tækifæri, sem ekki gafst, þegar ég talaði fyrir þessu máli og leggja eina eða tvær spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. En mér sýnist hann hafi vikið af fundi. Það er ákaflega ömurlegt að eiga þess yfirleitt ekki kost hér á hv. þingi að ræða mikilsverð mál við viðkomandi ráðh.

Það, sem ég sérstaklega ætlaði að spyrja hv. sjútvrh. um, var um rannsóknir á tilteknum tegundum fiskjar, sem líklegt er talið, að hér sé hægt að veiða í ríkum mæli sem hráefni fyrir síldarverksmiðjurnar. Ég get varla búizt við því, að till. til þál. um sérstakar ráðstafanir vegna hráefnaskorts síldarverksmiðjanna, er ég, ásamt sjö öðrum þingmönnum, flutti í Sþ. fyrir nokkru, sigli svo hratt í gegnum þingið, að hún fái afgreiðslu. Það hefði þó verið að mínum dómi mjög mikil ástæða til þess. Það er staðreynd, að afköst íslenzku síldarverksmiðjanna allra saman eru eitthvað nálægt 20 þús. tonnum á sólarhring. Þetta feiknarlega bákn atvinnutækja stendur ónotað mest allan ársins hring. Og það er vissulega stórkostlegt mál, ef það er rétt, sem virðist vera samdóma álit fiskifræðinga, að í hafinu umhverfis landið séu til viðbótar við síld og loðnu ekki færri en 3 aðrar tegundir fiskjar, sem einnig mætti veiða sem bræðslufisk og skapa stórkostlega mikinn gjaldeyri og um leið vinnu fyrir þessi afkastamiklu atvinnutæki, sem nú standa ónotuð mestan hluta ársins víðs vegar um landið. Þetta er svo stórkostlegt hagsmunamál, að mér finnst það nánast furðulegt, að stjórnarvöld skuli ekki hafa nú þegar a.m.k. hafið undirbúning að því að nýta þessar auðlindir.

Það er, eins og ég tók fram hér um daginn, þegar ég mælti fyrir þessum till., — það er allt öðruvísi ástand með þær 3 tegundir fiskjar, sem ég nefndi áðan, heldur en um loðnuna. Það er svo mikið vitað um loðnuna, að hægt er að skipuleggja nú þegar leit og rannsóknir, sem að gagni mættu koma. En varðandi hinar tegundirnar, spærling, kolmunna og sandsíli, þá eru þær svo lítt þekktar og þeirra lifnaðarhættir, að ég veit, að það þarf töluverðan undirbúning að því, að hægt sé að hefja raunverulegar rannsóknir og byrja veiðarfæratilraunir. Og það er það, sem manni finnst svo ömurlegt, að lítið skuli vera um þessi mál hugsað og ekkert byrjað að undirbúa skipulegar aðgerðir á því sviði. En þetta er önnur saga.

En ég vildi sem sagt vænta þess, að hv. þm. skoðuðu vel brtt. á þskj. 490 og gætu fallizt á, að hún yrði samþ.