03.12.1968
Efri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Jón Árnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umræðu, er, eins og fyrirsögn frv. bendir til, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzku krónunnar. Það hefur komið hér fram í þeim umræðum, sem átt hafa sér stað við þessa umræðu, að hér sé að ýmsu leyti farið inn á nýjar leiðir og gengið hér meira inn á rétt hlutarsjómanna, heldur en áður hafi átt sér stað, og farið að sumu leyti inn á nýjar leiðir. Um þetta tel ég, að geti verið um meiningarmun að ræða og að frv. feli nú að sumu leyti í sér nýjar leiðir í vissum tilfellum, en engan veginn að þar sé ekki um aðrar hliðstæður að ræða frá fyrri árum.

Frv. þetta er í þremur aðalköflum. I. kaflinn er um ákvörðun fiskverðs og Stofnfjársjóð. Það segir sig sjálft, að eftir að gengisbreytingin hefur átt sér stað og er orðin staðreynd, skapast nýtt viðhorf í sambandi við verðlagningu fisksins og einnig með hliðsjón af þeim öðrum ákvæðum, sem í frv. eru, um vissar ráðstafanir á andvirði fisksins, sem ganga á vissar leiðir, eins og þar er lagt til. Um Stofnfjársjóðinn má segja, að þar er raunverulega ekki um alveg nýja leið að ræða og sem heldur ekki breytir verulega frá því, sem átti sér stað á s.l. ári. Á s.l. ári voru 124 millj. greiddar raunverulega sem verðuppbætur á fiskinn til útgerðarinnar til þess að mæta þessum sömu þörfum, sem Stofnfjársjóðnum er ætlað nú að gera. Þess vegna má segja, að hér sé ekki um nýjar fjárupphæðir að ræða, sem raski frá því, sem var t.d. á s.l. ári. Það var í byrjun ársins áætlað, að þessar 124 millj. kr. mundu nema sem næst 8% af fiskandvirðinu í sambandi við bolfiskveiðarnar, en það, sem hér kemur fram, bendir hins vegar til þess, að það er ráðgert, að það verði 10% þar á móti.

Útflutningsgjald af sjávarafurðum er tekið hér upp og nokkrar breytingar eiga sér þar stað. Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi, að ekki mundi vera ástæða til þess að leggja meira á síldarútveginn núna heldur en á s.l. ári og það er heldur ekki gert í þessu frv. Það, sem þetta frv. felur í sér, er einmitt, að það er verið að færa á milli frá síldveiðinni, sem sýnt hefur verið, að ekki getur staðið undir þessum gjöldum í jafnríkum mæli og átt hefur sér stað, og yfir á bolfiskveiðarnar, því að það er alveg rétt eins og fram kom hjá hv. þm., að það er algerlega óraunhæft að ætla sér að ná jafnmiklum hluta af tekjum til vátryggingarsjóðsins og hefur átt sér stað í sambandi við fyrri lög, enda hefur það komið á daginn, að það hefur ekki skilað sér á neinn hátt og þess vegna stendur vátryggingarsjóðurinn svo höllum fæti sem raun ber vitni um í dag. Og það kemur einmitt fram hér í II. kafla þessara laga, að síldveiðunum er ætlað að standa undir a.m.k. rúmlega 20 millj. kr. minni upphæð heldur en ef það hefði verið óbreytt frá því, sem áður gilti. Hins vegar er ætlazt til þess, að bolfiskveiðarnar beri hér uppi verulega mikinn meiri hl. af tekjum sjóðsins eða 65 millj. kr. hærra heldur en ef um óbreyttan skala hefði verið að ræða.

III. kaflinn er um ráðstöfun á gengishagnaðinum. Þetta er í annað sinn núna í sambandi við gengislækkun, sem gengishagnaðurinn er látinn renna að öllu leyti til sjávarútvegsframleiðslunnar. Það hefur oft átt sér stað gengislækkun áður í þessu landi, en þá hefur það oft farið þannig, að meira og minna af gengishagnaðinum hefur runnið í ríkissjóð eða til annarra þarfa heldur en sjávarútvegsins sjálfs. Ég álít, að þetta sé rétt ráðstöfun og sanngjörn og sérstaklega, þegar tekið er tillit til þeirra erfiðleika, sem sjávarútvegurinn á við að búa t dag og viðurkenndir hafa verið hér af öllum ræðumönnum.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að hann teldi, að það hefði verið réttara að létta útflutningsgjaldinu af sjávarútveginum heldur en hækka það og þyngja, og það hefði vissulega komið sjávarútveginum betur. Það má segja það, að þetta út af fyrir sig gæti verið æskilegt frá sjónarmiði sjávarútvegsins að létta af slíku gjaldi eins og útflutningsgjaldinu, en þá verður líka í staðinn að benda á tekjur á móti, sem geta fyllt upp í það skarð. Og meðan ekki er bent á þær, þá er hér ekki um raunhæfar till. að ræða. Hins vegar kom það fram hjá hv. þm. einnig, að hann teldi, að það væri mjög mikið spursmál eða mjög mikil spurning, hvort þessi leið, að láta einn sjóð greiða vátryggingargjöldin, væri heppileg leið, og það gæti haft ýmsar óheppilegar afleiðingar í för með sér. Vissulega er þetta rétt, að ótakmörkuð greiðsla í einstökum tilfellum getur beint einmitt þessum málum inn á óheppilegar brautir, en ef væri horfið að því, sem hann benti á, að láta útgerðarmenn ekki greiða neitt af þessu, þá er ég hræddur um, að það væri ekki heppilegri niðurstaða í sambandi við tjónabæturnar eða tjónareynsluna hjá bátunum, þegar útgerðarmenn þyrftu ekkert að hugsa um, hvernig færi í þessum málum. Mér virðist nú þetta stangast nokkuð á hjá hv. þm. Hitt er svo annað mál, að tekjur af útflutningsgjaldinu koma allar til góða í sambandi við sjávarútveginn og að því leyti hefur það og reyndar verið upplýst áður, að þessi framkvæmd er gerð samkv. eindregnum óskum útgerðarmanna. Hér er um geysilega stórar fjárupphæðir að ræða í sambandi við útgerðarreksturinn, og það er miklu stefnt í tvísýnu hjá einstaka útgerðarmönnum, ef þeir ekki geta staðið í skilum með vátryggingagjöldin, þannig að af þeim ástæðum geta skipin í vissum tilfellum farið úr vátryggingu, og það sjá allir, hvert stefnir, ef slíkt á sér stað. Þess vegna hefur það verið álit útgerðarmanna, að þrátt fyrir það, að þetta komi að sjálfsögðu að einhverju leyti misjafnlega niður á einstaka útgerðarmenn, af því að þetta er miðað við aflamagn, greiðslan í sjóðinn, þá fer það ekki alltaf saman, að þeir, sem greiða mest í sjóðinn, fái sem mest úr honum aftur. En þrátt fyrir það hefur það verið álit útgerðarmanna, að það sé svo mikið öryggi í þessu, að þeir vilja í þessum tilfellum taka á sig vissar fórnir, sem þessu eru samfara.

Hv. 5. þm. Reykn. talaði um hlutaskiptafyrirkomulagið, það væri gamalt og þess vegna væri ekki heppilegt að raska því verulega frá því, sem átt hefði sér stað. Það er staðreynd, sem fyrir liggur í sambandi við hlutaskiptafyrirkomulagið, að það hefur meira og minna farið úr skorðum á undanförnum árum, t.d. eins og hér hefur verið bent á á árinu 1956, þegar bátagjaldeyrisfyrirkomulagið átti sér stað, þá var það ekkert annað heldur en að ganga fram hjá hlutaskiptunum, þannig að færa á milli frá sjómönnum yfir til útvegsmanna. Og sama má segja 3 sambandi við allar niðurgreiðslurnar, hundruð millj., sem hafa verið greiddar á hverju ári í uppbætur til útgerðarinnar. Þar er ekkert um annað að ræða heldur en að þar er verið að fara með stórar upphæðir fram hjá sjómönnum, upphæðir, sem ekki hafa komið til skipta. Og það, sem hér á sér stað, er raunverulega nákvæmlega það sama — hvort það eru jafnmörg hundruð millj., sem koma þarna, það skal ég ekki um segja og veit reyndar ekki, hvort það hefur verið reiknað út, en ég tel, að að efni til sé hér um hliðstæður að ræða.

Varðandi upphæð þá, sem hér kom til umræðu og sem rynni í gengishagnaðarsjóðinn, þar sem minnzt var á, að það væri um 1000 millj. kr., sem birgðirnar hefðu átt að vera samkv. upplýsingum í þessu frv., þá er það rétt, og af þessum 1000 millj. kr. er gert ráð fyrir 540 millj. Hins vegar kemur það líka skýrt fram í þessu frv., að um verulegar upphæðir er að ræða í birgðum, sem ekki eru í landinu, búið er að skipa út, en ekki búið að greiða og þess vegna eru þar þessar 200 millj. — þær koma beint í sambandi við það, enda segir svo um þetta í grg., sem frv. fylgir, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um birgðir sjávarafurða, mun mega áætla, að andvirði þeirra geti numið alls um 1000 millj. kr. Eru þá skreiðarbirgðir ekki með taldar, sbr. það, sem um það segir síðar. Gengismunur af þessum birgðum mundi nema 540 millj. kr. Við þetta bætist gengismunur af andvirði útfluttra en ógreiddra afurða.“

Þetta var alveg skýrt, og það er áætlað, að af þeirri upphæð muni það, sem búið var að flytja út og þess vegna ekki í birgðum í landinu, vera um 200 millj. Þannig ætla ég, að þetta sé skýringin á því atriði.

Aðalatriðið í sambandi við þetta mál og sem mér finnst, að skipti mestu máli, er það, að menn eru almennt sammála um, að hér sé við mikla erfiðleika að etja, og það er álit ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að réttasta leiðin til þess að firra þjóðina þeim vandræðum, sem við blasa, ef annað hefði ekki verið að gert, sé að fara gengislækkunarleiðina og þess vegna hefur hún verið farin og vegna þess, að hún var farin, hefur verið talið nauðsynlegt að gera jafnhliða þær ráðstafanir, sem þetta frv. felur í sér.

Herra forseti. Við þessa umræðu málsins sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið.