19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (3087)

181. mál, vegáætlun 1969--1972

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Margt af því, sem ég hafði hugsað mér að segja hér, hefur hv. 1. þm. Vestf. bent á. Það, sem ég vildi vekja athygli á, er þetta: Hvert stefnir með því að telja bílafjölda, sem yfir sumarmánuðina fer um vegina og leggja það til grundvallar því, hvar vegir eru lagðir? Á að láta sunnudagsumferð bæjarbúanna ráða því, hvar eru lagðir vegir um landið, en taka ekki tillit til erindis vegfarandans? Jafnt er talið, hvort sem bíll er stór eða lítill, hvort sem ferðin er sportferð eða í lífsnauðsyn. Trukkarnir, sem fara langt yfir vegunum norður í Þingeyjarsýslu með mjólkina til Húsavíkur og sú mjólk þarf síðar að koma til Reykjavíkur, svo að börnin fái sína mjólk. Enginn segir, að þeir séu í erindisleysu. Þeir koma aldrei fram á vegatalningu. Hins vegar verða þeir að borga fullan benzínskatt af þeim 200–300 lítrum af benzíni, sem þeir nota í eina ferð, en þeir koma þó aldrei við vegina, því að þar er þykkt snjólag á milli og ekki kosta þær ferðir viðhald. Hins vegar kostar snjómoksturinn mikið. Þann snjómokstur borgar ríkið að vísu að miklu leyti, en bændur verða einnig að borga hann af mjólkinni. En það mætti líka benda á, að fyrir peningana, sem fara í snjómokstur, mætti á skömmum tíma byggja upp háa og góða vegi. Og það vil ég leggja áherzlu á, að það verður að koma vetrarfærum vegum um öll aðalhéruðin og þetta er hægt. Það er hægt að gera vetrarfæra vegi um öll héruðin.

Þar sem ég þekki bezt til, þ.e. í Suður–Þingeyjarsýslu, einu snjóþyngsta héraði landsins, þá vil ég taka dæmi þaðan. Búið er að byggja upp 27 km langan kafla suður frá Húsavík, háan og góðan veg. Þetta hefur verið drifið áfram með lánsfé úr héraði og oft hefur orðið að beita töluvert hörðu til að fá að nota heimanfengið lánsfé til að byggja upp smávegakafla. En þetta er þó svo komið og á þessum vegum hafa undanfarna snjóavetur, sem hafa verið mjög miklir snjóavetur, aldrei orðið vandræði með að komast áfram, þar sem vegirnir eru uppbyggðir. Ég hef það eftir vegaverkstjóra á Húsavík, að þessi vegakafli hefur aldrei orðið ófær í fyrstu stórhríðarlotu og aldrei verið dýrt að ryðja af honum snjó. Ég hef kynnzt þessu af eigin raun, bæði í vetur og undanfarna vetur, að þeir kaflar, sem þarna eru uppbyggðir, eru yfirleitt færir. Ég er ekki og taki enginn orð mín svo, að ég sé að mæla á móti því, að gerðir séu varanlegir vegir hér í þéttbýlinu. Þess er vissulega þörf. Það finnum við allir, sem hér erum, við finnum það allt of sárt beinlínis á líkama okkar, þegar við erum að reyna að fara yfir vegina. Þeir eru ekki of góðir. En ég vil leggja áherzlu á, að þetta ófremdarástand, sem hér er á aðalþjóðvegunum, má ekki koma niður á vegunum út um landið, þannig að ekki verði gerðir færir vegir þar, vegir sem eru færir allt árið um öll aðalbyggðarlögin til allra staða og um öll byggileg og byggð héruð. Þetta er hægt, það vil ég mega telja sannað með því dæmi, sem ég hef rakið hér úr einu snjóþyngsta héraði landsins.

Þá vil ég benda á, hvernig nýtingin er, þegar fjármagninu er varið í hraðbrautirnar, sem eru svo óheyrilega dýrar, en þó verður vitanlega að byggja og þegar verið að byggja upp, ég vildi segja lífsbjargarvegi út um héruðin. Nú á s.l. sumri var byggður vegur í Aðaldalshrauni, — hluti af þeim sem ég hef áður nefnt, — 8 km fyrir 1.7 millj. kr. Það er lægra en áætlanir og yfirleitt er talið hægt að gera. Jafnvel er sagt, að viðkomandi verkstjóri hafi frekar fengið bágt fyrir að hafa getað komið vegi þessum upp svo ódýrum. Það mælist ekki alltaf vel fyrir. Mér reiknast til, að þar sem verið er að byggja veg hér upp á Ártúnshöfða og sagt er, að hvert skref kosti 30 þúsund kr., — ég tek það fram, að ég hef kannske ekki glöggar heimildir fyrir því, en eitthvað mun það láta nærri, — að fyrir það, sem væri hægt að byggja 1 km upp fyrir norður í Aðaldalshrauni, væri hægt að byggja upp ca. 83 m hér á Ártúnshöfðanum.

Ég vil nefna að lokum eitt dæmi um það, hvernig þetta getur leitt menn í villu, ef því sjónarmiði er sleppt, hvar þörfin er virkilega brýnust fyrir fólkið að komast leiðar sinnar allan árstímann. Það dæmi er einnig að norðan. Nú er komið að því, að Vaðlaheiði kemur í hraðbrautaflokk og við getum kannske orðið glaðir yfir því, en hvað blasir þá við? Það er um fleiri leiðir að velja, t.d. Víkurskarð, en Vaðlaheiði er stytzt og hana fara menn gjarnan að sumarlagi í góðu veðri og eru þá fljótir. Nú mundi hraðbraut yfir Vaðlaheiði kosta ærna peninga og það er sennilegt, að áætlun yrði gerð, en hvenær mundi koma að framkvæmdinni? Hins vegar yrði það svo óheyrilega dýrt, af því að það er nokkrum km lengra að byggja veg í hraðbrautaflokki yfir Víkurskarð, en það er ábyggilega sá vegur, sem þarf að koma á næstunni og ekki aðeins fyrir héruðin þarna fyrir norðan. Ég hef rakið, að stundum þarf að flytja mjólkina til Reykjavíkur. Þetta er líka lífæðin fyrir allt Norðaustur– og Austurland og þetta er lífæð t.d. á hafístímum.