17.05.1969
Sameinað þing: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

181. mál, vegáætlun 1969--1972

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1969–1972 var vísað til fjvn. þann 20. marz s.l. og hefur n. síðan rætt málið á samtals 18 fundum. Við athugun sína á till. hefur n. notið góðrar aðstoðar vegamálastjóra, sem hefur veitt n. mikilsverðar upplýsingar, en auk þess hafa verkfræðingar vegagerðarinnar aðstoðað n. við afgreiðslu málsins og þá ekki sízt við lokaafgreiðslu till. í sambandi við leiðbeiningar um skiptingu fjármagns á milli einstakra vegaframkvæmda. Þá átti n. fund með 3 fulltrúum Efnahagsstofnunarinnar, sem unnið höfðu að tillögugerð varðandi tekjubálk vegáætlunarinnar. Gerðu þeir n. grein fyrir vinnubrögðum sínum í sambandi við áætlunargerð um heildartekjur vegasjóðs á áætlunartímabilinu. Með hliðsjón af þeim upplýsingum var n. ljóst, að með tilliti til þess samdráttar, sem nú á sér stað í bifreiðainnflutningi til landsins, getur svo farið, að tekjur, sem miðaðar eru við bifreiðaspár stofnunarinnar, geti raskazt nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Hins vegar telur n., að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um benzín notkunina, megi gera ráð fyrir, að áætlunin standist fullkomlega.

Svo sem lög ákveða eru tekjustofnar vegasjóðs þrír. Í fyrsta lagi innflutningsgjald af benzíni, í öðru lagi þungaskattur af bifreiðum og í þriðja lagi innflutningsgjald bifreiða á gúmmíi. Nettótekjur af þessum þremur tekjustofnum var áætlað, að mundi nema samtals á áætlunartímabilinu 2.136 millj. kr. Við athugun n. á vegáætluninni kom fljótlega í ljós það álit hjá nm., að með þeirri skiptingu, sem till. gerir ráð fyrir á fjárveitingum til hinna ýmsu vegaflokka, færi ekki hjá því, að um verulegan samdrátt yrði að ræða í nýbyggingu þjóðbrauta og landsbrauta. Svo sem venjulegt er leitaði fjvn. frumtill. hjá vegamálastjóra um skiptingu á fé til vegaframkvæmda og brúargerða og þá með hliðsjón af þeirri heildarskiptingu, sem í till. felst. Þann 21. apríl bárust svo n. till. vegamálastjóra um umrædda skiptingu. Kom þar fram, sem n. hafði óttazt, að um verulegan samdrátt á nýbyggingu þjóðbrauta og landsbrauta var að ræða. Er það ekki eingöngu vegna þess, að áætlað sé að verja minna fé til þessara framkvæmda, heldur einnig vegna þess, að miklar áhvílandi skuldir, bráðabirgðalán, voru á þessum vegaframkvæmdum frá síðasta áætlunartímabili, sem að sjálfsögðu verður nú að greiða. Með hlíðsjón af þessari staðreynd taldi n., að einkum tvennt kæmi til greina. Annars vegar að draga úr fjárveitingu til hraðbrauta og flytja þá fjármagn yfir til þjóðbrauta og landsbrauta eða þá að athuga möguleika á aukningu heildartekna vegasjóðs. Að athuguðu máli taldi n. rétt að velja síðari leiðina. Það var því úr, að n. samþykkti einróma að mæla með því, að flutt yrði frv. til l. um breyt. á vegal. nr. 71 30. des. 1963 og hækka innflutningsgjald af benzíni um 1 kr. af hverjum lítra. Umrætt frv. er nú orðið að lögum og er því gert ráð fyrir, að tekjuaukning vegasjóðs á áætlunartímabilinu verði sem hér segir. Árið 1969 — og er þá miðað við, að lögin taki gildi 1. júní — 31,2 millj., árið 1970 73,1 millj., árið 1971 77,4 millj. og árið 1972 83,3 millj. eða samtals á öllu áætlunartímabilinu 265 millj. kr. Auk þessa hefur svo verið fallizt á, að ríkissjóður taki að sér greiðslur afborgana og vaxta af föstum lánum vegna þjóðbrauta og landsbrauta, sem til falla samkvæmt vegáætlun á árunum 1970—1972, umfram það, sem áður hafði verið ákveðið og nemur sú upphæð, sem hér segir: Árið 1970 11 millj., árið 1971 13 millj. og árið 1972 14,6 millj. eða samtals á tímabilinu 38,6 millj. kr. Heildartekjuaukning verður því samtals á öllu tímabilinu 303,6 millj. kr.

Þá hefur verið gerð sú breyting á vegal., að nú falla allir vegir að kirkjustöðum, félagsheimilum, opinberum skólum og heilsuhælum undir sýsluvegi og þótti því rétt að hækka framlag til sýsluvegasjóða um 1 millj. kr. fyrir hvert árið 1970–1972.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjvn., var ekki um ágreining að ræða innan n. um afgreiðslu málsins. N. flytur því allar brtt. sameiginlega, svo sem fram kemur á sérstöku þingskjali. Um skiptingu einstakra fjárveitinga til þjóðbrauta og landsbrauta hafði n. samráð við þm. viðkomandi kjördæma. En þrátt fyrir einróma afgreiðslu n. á öllum brtt. við vegáætlunina og heildarafgreiðslu málsins, skilar minni hl. n. séráliti um málið, þar sem hann skýrir afstöðu sína til vegamála almennt.

Samkvæmt till. fjvn. verða heildartekjur vegasjóðs á áætlunartímabilinu því samtals 2.401 millj. kr. og hækkar því um 265 millj., svo sem fyrr segir, en þar til viðbótar lækka útgjöld sjóðsins um 38,6 millj. frá því, sem ráðgert hafði verið samkvæmt till., en það eru vextir og afborganir af föstum lánum þjóðbrauta og lán landsbrauta, eins og ég áðan sagði. Með hlíðsjón af þessu eru brtt. fjvn. við till. til þál. um vegáætlun fyrir 1969—1972 bornar fram. Við II. kafla, skiptingu útgjalda, eru ekki brtt. frá n. við 1. og 2. tölulið. Það er kostnaður við stjórn og undirbúning annars vegar og viðhald þjóðvega hins vegar. Þar undir koma vegmerkingar, tryggingagjöld, orlof og fleira. Við þessa tvo liði gerir n. ekki brtt. Þó skal það tekið fram, að gjarnan hefði n. viljað verja hærri fjárupphæð til vegaviðhaldsins, þó að hún sjái sér ekki fært að leggja það til miðað við það heildarfjármagn, sem fyrir hendi er að þessu sinni. Við 3. lið ll. kafla eru aðalbreytingartill. n. Þar koma fyrst hraðbrautir. Till. n. um 100 millj. kr. hækkun á lántökuheimild til nýbygginga vega, sem verða ekki að öllu leyti greiddir af fé vegasjóðs á áætlunartímabilinu, er við það miðuð, að Suðurlandsvegur til Selfoss og Vesturlandsvegur frá Miklubraut að vegamótum Þingvallavegar í Mosfellssveit verði fullbyggðir á áætlunartímabilinu. Eins og ég hef áður minnzt á, kom til álita í n., hvort ekki væri rétt að draga úr fjárveitingum til hraðbrauta og fara sér þá hægar í þeim efnum, en lagt er til í till. Það var hins vegar niðurstaða n., að ekki mætti fresta öllu lengur að gera stórátak í þessum efnum og leggur n. því til, að umrædd fjárveiting verði ekki skert og auk þess hækkuð lántökuheimild um 100 millj. kr., eins og fyrr segir. Á það má líka benda, að til þess að réttmætt geti talizt að taka veggjald af umferðinni, sem ætla má, að gert verði, þegar slíkum áfanga verður náð, þarf að ná einhverjum lágmarks áföngum í hverju tilfelli. Ég hygg, að flestir muni sammála um, að stórátak í hraðbrautaframkvæmdum geti því aðeins átt sér stað, að samningar takist um hagstæða lántöku til langs tíma. Fáist ekki slík lán, er einsýnt, að umræddar hraðbrautaframkvæmdir munu takmarkast við það fjármagn, sem vegasjóður er fær um að veita til framkvæmdanna, en það er samkvæmt till. 360 millj. kr.

Á undanförnum árum hafa verið samþ. á Alþ. till. til þál. um rannsóknir á nokkrum vegasamgöngum. Má þar nefna leiðina um Hvalfjörð, hugsanlega brúargerð á Borgarfjörð hjá Borgarnesi og veg yfir Skeiðarársand. Til allra þessara rannsókna eru till. um fjárveitingar, þannig að þeim ljúki að fullu á áætlunartímabilinu.

Við fjárveitingar til þjóðbrauta og landsbrauta eru aðal brtt. n. Í þáltill. er lagt til, að varið verði til þjóðbrauta 127,9 millj. kr., en samkvæmt till. n. er lagt til, að upphæðin verði 223,6 millj. eða hækkun, sem nemur 95,7 millj. Til landsbrauta er samkvæmt till. lagt til að verja 94,3 millj. kr. á áætlunartímabilinu, en samkvæmt till. n. verður upphæðin samtals 208,5 millj. kr. eða hækkun, sem nemur 114,2 millj.

Lagt er til, að framlög til brúargerða verði svipuð og gert er ráð fyrir í þáltill. Þó voru gerðar smávægilegar breytingar, sem fela í sér samtals 3,6 millj. kr. hækkun yfir allt áætlunartímabilið.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúa og fleiri hækkar framlag í beinu sambandi við ákvörðun laga, sem leiðir af hækkun benzíngjaldsins. Samkvæmt því kemur í hlut þéttbýlisins samtals 33,1 millj. kr. á tímabilinu og verður þá samtals fjárupphæðin 255,1 millj.

Til véla– og áhaldakaupa og nýbyggingar áhaldahúsa er samkvæmt till. lagt til að verja samtals 74 millj. kr. N. sér ekki ástæðu til þess að bera fram brtt. við þennan lið og leggur því til, að hann verði samþ. óbreyttur.

Til tilrauna í vegagerð er lagt til að verja nokkurri upphæð árlega. Er það frá 2,6 millj. á yfirstandandi ári til 3,3 millj. á árinu 1972. Augljóst er, að ekki getur verið um miklar tilraunaframkvæmdir að ræða fyrir jafnlítið fjármagn og hér um ræðir. Ég tel, að það sé mikið álitamál, hvort ekki sé rétt að verja meira fé í þessu skyni, því vel getur svo farið, að það borgi sig, þótt síðar verði.

Loks er síðasti liður á gjaldabálki till. 31,8 millj. Er þeirri upphæð ætlað að jafna þann halla, sem eftir stendur sem skuld hjá vegasjóði frá s.l. áætlunartímabili.

Eins og ég hef áður vikið að, verður um nokkra aukningu á sýsluvegum að ræða, þar sem ýmsir styttri vegakaflar, sem áður heyrðu óskiptir undir vegasjóð, flytjast yfir í sýsluvegi. Á síðasta áætlunartímabili reyndust tekjur sýsluvegasjóða nokkru meiri, en áætlað hafði verið. Verður því að taka tillit til þess í þessari áætlun, en auk þess er lagt til, að framlag vegasjóðs hækki um 1 millj. kr. hvert ár 1970–1972. Samtals er gert ráð fyrir, að sýsluvegasjóðir hafi til ráðstöfunar á áætlunartímabilinu 108,9 millj. á móti 68,5 millj. á síðasta áætlunartímabili. Hér er því um hækkun að ræða, sem nemur rúmlega 40 millj. kr.

Um till. n. til einstakra vegaframkvæmda, eins og fram kemur á þingskjali nr. 768, sé ég ekki ástæðu til að gera frekar að umtalsefni, en vísa til þess, sem fram kemur í þskj. Ég vil þó endurtaka, að um fjárveitingar til einstakra vega hafði n. samráð við þingmenn viðkomandi kjördæma um skiptinguna, og er n. ekki kunnugt um annað, en um þær hafi náðst fullkomið samkomulag. Ég vil því vænta þess, að brtt. fjvn. nái fram að ganga og till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1969— 1972, þannig breytt., verði samþ.