26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

48. mál, hagnýting jarðhita til ræktunar

Flm. (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Með flutningi þessarar till. um hagnýtingu jarðhita, sem hér er til umr., hef ég leyft mér að fara þess á leit við hv. Sþ., að það samþykki að skora á ríkisstj. að hefja skipulegar, fræðilegar rannsóknir á því, á hvern hátt jarðhiti verði bezt hagnýttur m.a. til garðyrkju í landinu. Verði þá einkum kannað, hvaða efni reynist bezt til flutnings á heitu vatni og til byggingar gróðurhúsa, svo og verði kannað, hvort unnt er að draga úr kostnaði við byggingu húsanna t.d. með samræmingu í uppbyggingaraðferðum og stærð gróðurhúsa eða smíði einstakra húshluta og alls tæknibúnaðar þeirra. Þá er enn fremur lagt til að auka og hagnýta þekkingu á jarðvegsfræði, áburðarþörf og gróðurvali á sviði þessara þátta landbúnaðar okkar.

Það er Ijóst, að vatnsorkan og jarðhitinn eru kol okkar og olía. Þessi náttúruauðæfi eru enn að litlu leyti hagnýtt, einkum þó jarðhitinn, en stórátök eru nú gerð til virkjunar vatnsfalla. Hins vegar er ljóst og ekkert sýnir okkur það betur, en þróunin í atvinnu– og efnahagsmálum, hve lífsnauðsynlegt það er fyrir þjóðina að fjölga og efla þær atvinnugreinar, sem eru árvissar. Til þess að því marki verði náð, verður að byggja á tveimur algerum grundvallaratriðum, tækniþekkingu og fjármagni. Mikið átak hefur verið gert til þess að efla tækni og verkþekkingu í landinu og sérstaklega nú síðustu árin. Enn fremur hefur þeirri skoðun mjög vaxið fylgi, að stórstígum framförum til virkjana vatnsfallanna verði enn ekki komið á, án þess að til fáist erlent fjármagn. En þótt stórvirkjanir og kostnaðarsöm stóriðja verði vissulega forsenda bættrar efnahagsafkomu, eru þó þær ráðstafanir ekki einhlítar til þess að tryggja nauðsynlega fjölbreytni í atvinnuháttum okkar, a.m.k. ekki um öll byggðarlög.

Jarðhitinn finnst víða um landið sem laus orka, þ.e.a.s. það er ekki þörf verulegra mannvirkja eða mikils kostnaðar til þess að hagnýta hann til upphitunar húsa eða til gróðurhúsa og ylræktar. Sem stendur er hann einkum hagnýttur til slíkra þarfa og er öllum ljóst, hversu stórkostlegur gjaldeyrissparnaður er þegar orðinn við að hagnýta jarðhitann til upphitunar og vissulega fjölgar stöðugt því fólki, sem atvinnu sína byggir á garðrækt og hagnýtir þannig jarðhitann. Flatarmál þess gróðurlendis, sem er undir gleri, fer einnig vaxandi og neyzla gróðurhúsaafurða vex jafnt og þétt nú síðustu árin.

Þótt jarðhitinn renni víða sjálfkrafa upp á yfirborðið og verði því auðveldlega hagnýttur, er auðvitað jarðhiti víðar fyrir hendi neðanjarðar, en finnst ekki eða nýtist, nema með borunum eða vísindalegum mælingum. Slíka jarðhitaleit þarf að stórefla. Í Borgarfjarðarhéraði hafa sýslunefndirnar látið slíka jarðfræðilega leit fara fram nú um 5 ára skeið með tilstyrk raforkumálastjórnarinnar. Þær eru almenns eðlis, en geta síðar orðið forsenda raunhæfra borana, en þá þarf að sjálfsögðu meira fé að koma til en þeir fjármunir, sem sýslunefndir hafa yfir að búa. Jarðhitaleit mun áreiðanlega skila góðum vöxtum af því fé, sem til hennar verður varið og það mun áreiðanlega mörgum bóndanum og öðrum landsmönnum þykja vænkast hagur sinn, þegar hann fær og ef hann fær heitt vatn í nágrenni sitt. En erfið aðstaða þessarar atvinnugreinar er þó vissulega ekki öllum ljós. Má í því efni benda á þá staðreynd, að einatt er handahófskennt, hvernig gróðurhús eru byggð, bæði að stærð og gerð, enda liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar um, hvaða byggingarefni séu haldbezt og veiti ákjósanlegasta einangrun. Kunnugt er, að nú eru gerðar tilraunir erlendis með ný gerviefni, sem bæði munu bera meiri birtu og þola betur átök veðra en þau efni, sem tíðast eru notuð hér. Þá er mikilvægt að rannsaka verðlag slíkra byggingarefna, sem allra víðast.

Þótt margir einstaklingar, svo og Garðyrkjuskólinn, hafi að megni reynt að kanna suma þeirra þátta, sem að framan greinir, brestur þó mjög á, að glögg fræðileg og fjárhagsleg yfirsýn, sem þennan atvinnuveg varðar, fáist. Úr því virðist einsýnt að bæta með því að fela það tveimur rannsóknastofnunum atvinnuveganna, sem nú þegar eru starfandi. Það er ekki þörf nokkurs nýs aðila í þessum efnum, en þeim, sem fyrir eru, verða fengin verðug viðfangsefni.

En fleira þarf að kanna í þágu þessa vaxandi atvinnuvegar. Það er m.a. dreifing afurðanna og varanleg geymsla þeirra, þegar uppskera er mest. Kemur þar til bæði athugun á niðursuðu og frystingu. Mér er kunnugt um eina gróðrarstöð, sem hefur látið sjóða talsvert magn af tiltekinni uppskeru niður og hefur reynslan sýnt, að þær afurðir hafa jafnan selzt upp og ekki verið unnt að anna eftirspurninni, þar sem þeir aðilar, sem í hlut eiga og kaupa þessar afurðir, telja þær jafngóða vöru og erlenda eða betri og verðið samkeppnisfært. Þá er sennilegt, að unnt sé að koma upp frystingu í öskjum eða öðrum umbúðum, t.d. á afurðum úr tómötum. Sú litla reynsla, sem fengizt hefur í þeim efnum, bendir til þess, að þar megi finna leiðir til margvíslegrar hagnýtingar uppskerunnar. Það er áreiðanlega ómaksins vert að kanna þessa hluti vandlega. Við erum stundum nokkuð vanafastir í þessu landi, en megum ekki láta okkur sjást yfir þær líkur, sem eru á því, að hér geti vaxið upp nýr, arðbær og snar þáttur í þjóðarafkomunni.

Samfara þeim athugunum, sem fyrr var bent á, þarf að fara fram mjög nákvæm tæknileg athugun á því, hvernig bezt sé að haga sjálfvirkni um vökvun og loftræstingu í gróðurhúsum. Þau efni ráða miklu um magn og gæði uppskerunnar. Auðvitað eru það margir aðrir þættir, sem þennan atvinnuveg varða og þarf að kanna, þótt ég hafi ekki aðstöðu til að telja þau nánar upp hér. En það má ekki skiljast svo við þennan tillöguflutning, að ekki sé vakin athygli á því, að aukin þekking á þessari atvinnugrein ætti ekki einungis að geta leitt til aukins magns afurða, heldur einnig til lækkaðs afurðaverðs. Að efla þennan atvinnuveg getur einnig haft talsvert félagslegt gildi í för með sér. Fjölbreytni í störfum sveitanna vex og þeir, sem ekki kjósa hinn hefðbundna kvikfjárræktarbúskap, eiga þá völ annarra starfa, nýrrar búgreinar eða vinnslu þeirra afurða, sem gróðrarstöðvarnar leggja til. Það eykur á jafnvægi byggðanna og verður strjálbýlinu til eflingar. Má í því efni benda á, að nýjar félagsheildir, smáþorp, hafa nú þegar myndazt á nokkrum stöðum í landinu, þar sem hagnýting jarðhitans er í senn atvinnugjafinn og forsenda aukinnar byggðar. Það ættu allir að geta séð, hvaða gildi það hefur fyrir búsetu okkar í þessu landi.