12.12.1968
Efri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Má ég fyrst óska hinum nýja og unga þingmanni, sem nú mun hafa verið að flytja frumræðu sína hér á þingi, til hamingju með þessa ræðu, og hve vel hann leikur hlutverk sitt í þeim leikflokki, þar sem hann hefur kosið sér starfssvið. Fimleikarnir eru ekki litlir, þegar ráðizt er á hæstv. ríkisstj. og stefnu hennar fyrir það að vera „stjórnleysisstefna.“ „Hún er alþekkt undir nafninu stjórnleysisstefnan,“ sagði hv. þm.,en síðan er eiginlega allt það, sem hægt er að finna að þessum stjórnleysingjum, það, að þeir séu með nefið ofan í öllu og skipti sér af öllu, taki ráðin af öllum! Það er hnýflazt við nauðsynjastofnanir eins og Stofnfjársjóð fiskiskipa, og það er talið leitt, að nokkuð af fjármunum skuli fara til að byggja upp stofnanir eins og Fiskveiðasjóð Íslands, að mönnum skuli ekki með stofnlánum til fiskiskipa vera vísað á almenna lánakerfið, eins og það og þess forstöðumenn eru nú skemmtileg viðureignar. Það er ágætt samkv. kenningu hv. þm., að það sé komið á ýmsum nauðsynjastofnunum fyrir fiskiðnaðinn, vísindastofnunum og rannsóknaskipum o.s.frv., o.s.frv., en það má bara ekki taka af aumingja útvegsmönnunum peningana fyrir þessu, framlögin eiga að vera af frjálsum vilja. En ég veit nú ekki, hvor er orðinn stjórnleysinginn, ég eða hv. frsm. minni hl., því að mér finnst hann eiginlega vera búinn að setja af stað ágæta samkeppni við mig og mína líka í þeim efnum. Og við hljótum óhjákvæmilega að vera í nokkrum vafa um, hvort verið sé að tala í alvöru, þegar á annan bóginn er sagt, að gengisfellingin og sú tekjuaukning, sem gegnum þetta frv. komi, sé ekki næg fyrir útgerðarmennina, og svo samtímis sagt, að verið sé að hjálpa ríku útgerðarmönnunum til að ræna sjómennina. Hvernig geta menn farið þannig í kringum sjálfa sig? Eyðslutekjur okkar allra verða að minnka eins og á stendur í bili, og þá er ekki hægt að láta eina stétt hafa ákveðna hundraðstölu af miklu verðhærri afla. Þm. sagði sjálfur, að þetta yrði í mörgum tilfellum upp undir 50% aukning á tekjum, og ættu þá sjómenn fyrir sömu vinnu að hafa allt að 50% tekjuaukningu, eða segjum, að það verði ekki nema 40–50%, en allir aðrir ættu að sitja nokkuð við það sama eins og áður. Þetta er meinloka, sem hefur komizt inn í suma menn, og þeir, sem betur vita, eins og hv. þm., eiga að hjálpa til að uppræta hana, en ekki hjálpa til að hamra þessari vitleysu inn í fólk. Annað dæmi — og það var nú eitt, sem ég var þm. sammála um að nokkru leyti, — það var í sambandi við tryggingagjöldin. Eitt hið þyngsta atriði viðureignar í öllu þessu máli er tryggingagjöldin. En þar er það bara þannig, að þar erum við með gamlan arf, sem við erum að burðast með, gamlan draug, get ég sagt, frá tímum vinstri stjórnarinnar, sem ekki hefur tekizt að kveða niður. En ef hann vill hjálpa mér að kveða niður drauginn, þá skal ég verða fyrstur manna til samstarfs við hann um það að hjálpa til að koma á betra og skynsamlegra kerfi í vátryggingarmálunum. Þetta kerfi, sem myndaðist að frumkvæði vinstri stjórnarinnar á sínum tíma, er ómynd, hefur alltaf verið það, og það hefur ekki enn tekizt að lagfæra það, þrátt fyrir alvarlegar og ítarlegar tilraunir, en þó hygg ég, að nú sé mjög markvisst unnið að þeim málum og nokkur ástæða til að vona, að á næsta ári megi þar sjá nokkurn árangur.

En eitt er það, að rifizt sé um það, hverjir séu stjórnleysingjar og hverjir séu þeir, sem vilji hafa opinber afskipti í öllum hlutum, en hitt er annað, að það er nauðsyn að sigla, navigare necesse est, eins og fornmenn sögðu. Við þurfum að koma flotanum út, við þurfum að koma flotanum á sjó, og ég heyrði ekki eitt einasta orð um það, ekki eitt einasta orð, sem gat verið sagt í fullri alvöru og hefði getað stuðlað að því máli í ræðu hv. frsm. minni hl. n. Það er talað um að athuga eitthvað, athuga vátryggingarnar og athuga, hvort ekki væri hægt að spara þetta eða spara hitt um borð og lækka vexti. Það er ágætt að lækka vexti, en peningarnir streyma út úr hinu almenna lánakerfi í dag í eyðslueyri fólksins. Er það tíminn til að lækka vexti? Ég hefði ekki haldið, að það hvetti fólk til að geyma peningana, ef vextirnir yrðu stórlækkaðir. Eða kannske það eigi að reka bankakerfið á sama hátt eins og útgerðin hefur því miður víða verið rekin á þessu ári, sem nú er að líða, með halla hjá öllum aðilum? Að bankarnir með hallarekstur láni útgerð með hallarekstur, — og hver á þá að borga, hvar endar þetta? Þetta er ekkert annað en ein stór botnleysa.

Eina smáleiðréttingu vil ég gera, — en það veit ég, að þar var ekki viljandi verið að blekkja menn — er hv. frsm. minni hl. nefndi, að það fé, sem væri til ráðstöfunar samkv. 16. gr., væri 750 millj. kr., en eftir viðræður við, — ef ég svo má segja, — feður frv., eða þá, sem bera ábyrgð á tölunum í því, þá mun 550 millj. vera nær lagi; það hefur gleymzt að draga þarna frá vissa hluti, en það er náttúrlega ekki furða. Ég nefndi þetta aðeins til leiðréttingar, en ekki til að væna hv. flutningsmann um, að hann hafi verið að reyna að villa um fyrir mönnum. Þetta er heill frumskógur af tölum allt saman.

Það, sem ég sakna, er það, að þessir menn komi með tillögur um, hvernig við eigum að koma skipunum á vertíðina. Ef ekkert er að gert, ef Alþ. situr auðum höndum, leggur frv. til hliðar, sem þarf að afgreiða til þess að unnt sé að reka útveginn, hvernig eigum við þá að koma útveginum af stað? Það er þetta, sem ég vil fá að vita.