21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur fjær og nær. Þið hafið nú hlustað á stórorðar fordæmingar stjórnarandstæðinga á þeim efnahagsráðstöfunum, sem nýverið hafa verið gerðar af hálfu ríkisstj. og vafalaust eiga fleiri digurmæli eftir að safnast í þann orðabelg. En stóryrði leysa engan vanda, sízt af öllu í efnahagsmálum og hafið þið ekki veitt því eftirtekt, hve ræður hv. stjórnarandstæðinga, þó ríkar hafi verið af stóryrðum, hafa verið fátækar að till. og ábendingum um aðrar og betri leiðir, er fara megi til þess að leysa efnahagsvandann. Stjórnarandstæðingar tala mikið um nauðsyn stefnubreytingar, sem þeir nefna svo. En um hitt segja þeir minna, í hverju hin nýja stefna, sem þeir telja nauðsynlegt, að upp verði tekin, eigi að vera fólgin. Það ætti þó að vera vandalítið, ef stefna og úrræði ríkisstj. eru svo fráleit, sem þeir láta í veðri vaka, að benda á eitthvað annað betra. En það gera stjórnarandstæðingar ekki og hvers vegna ekki? Af því að þeir vita, að önnur úrræði en þau, sem gripið hefur verið til, eru annað hvort ekki líkleg til þess að leysa vandann eða þau mundu koma enn verr við hag almennings, en þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið. Það hafa að vísu verið tilburðir til þess af hálfu stjórnarandstöðunnar að benda á það, sem þeir kalla aðrar leiðir. En allt er þetta með því marki brennt, sbr. ræður formanns Framsfl. og formanns þingflokks Alþb., sem fluttar voru hér áðan, að séu slíkar till., - ef því nafni skyldi nefna, — skoðaðar ofan í kjölinn, er þar ekki um að ræða nein úrræði til lausnar efnahagsvandanum, heldur aðeins frómar óskir um hitt og annað, sem æskilegt sé að gera til lausnar fjárhagsvanda atvinnurekstrarins. Það er réttilega á það bent að útvega þurfi fé til eins og annars, en hvergi að því vikið, hvernig féð skuli útvegað, en það er í því, sem hið raunverulega vandamál er fólgið. Það eina, sem stjórnarandstaðan hefur ymprað á og hægt er að skoða sem till. um það, að efnahagsvandamálin eigi að taka öðrum tökum, en nú er gert, er það, sem þeir kalla stjórn á innflutnings– og gjaldeyrismálum, en með því eiga þeir við, að hverfa skuli aftur til hafta fyrirkomulagsins, sem hér ríkti um 30 ára skeið, — fram að þeim tíma, sem núverandi stjórnarsamstarf hófst. –Hefur þetta komið skýrt fram í ræðum allra þeirra stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað til þessa, að stefnubreytingin þýðir, að innleiða verði höftin að nýju. Og þessi till. er að því leyti sú málefnalegasta, sem fram hefur verið borin af hálfu stjórnarandstöðunnar, að þar er um að ræða einu leiðina, sem til er, ef hverfa á frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið. Ef talið um stefnubreytingu er annað en glamuryrði, þá er það þetta, sem átt er við og vissulega væri það mikil stefnubreyting að hverfa aftur að leyfa úthlutuninni og höftunum.

Þriðja leiðin, sem framsóknarmenn töluðu svo mikið um fyrir fáum árum og átti að vera allt annað en sú stefna, sem ríkisstj. hefur fylgt og haftastefnan, týndist fljótt og hefur ekki fundizt síðan, því að s.l. 2 ár hafa ekki einu sinni framsóknarmenn minnzt á hana.

Við Íslendingar höfum nú, sem kunnugt er, langa reynslu af þessari nýju stefnu, sem svo er nefnd. Og e.t.v. lætur það ekki illa í eyrum, þegar gjaldeyrir er af skornum skammti, að gera beri ráðstafanir til þess að stöðva óþarfan innflutning, eins og það er kallað. En hvað er þarft og hvað er óþarft? Skoðanir á því eru sennilega jafnmargar og borgararnir í þjóðfélaginu. Og hvernig var framkvæmd innflutningshaftanna og annarra leyfaúthlutana? Ætli það hafi farið fram eitthvert vísindalegt mat á því, fyrir hverju ætti að úthluta leyfum og fyrir hverju ekki? Engum dettur í hug, að svo hafi verið, enda engar slíkar vísindalegar reglur til, sem hægt sé að fara eftir við úthlutun leyfa. Þeir, sem úthlutanirnar önnuðust, voru líka fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka, sem með völd fóru hverju sinni og töldu það trúnaðarstarf sitt að sjá til þess, að sem mest af leyfunum kæmi í hlut einstaklinga og fyrirtækja, er flokkinn studdu með fjárframlögum eða á annan hátt. Það er að vísu sjaldnast hægt að sanna það með tölum, hvernig þeir, sem leyfaúthlutanir hafa haft með höndum, hafa hyglað fyrirtækjum, er tengd voru flokkum þeirra. En þó gefur það athyglisverða vísbendingu í þessa átt, að samkvæmt reikningum Sambands ísl. samvinnufélaga, sem birtir eru m.a. í 40 ára afmælisriti sambandsins eftir Gísla Guðmundsson alþm., kemur í ljós, að á kreppuárunum 1933–1937 óx vörusala SÍS úr 4.8 millj. kr. í 11.3 millj. eða meira en tvöfaldaðist á tímabili, þegar almennur samdráttur var í öllum viðskiptum. SÍS er samt ekki eina fyrirtækið, sem notið hefur þannig forréttinda í skjóli pólitískrar aðstöðu og framsóknarmenn eru ekki þeir einu, sem notað hafa aðstöðu sína í úthlutunarn. til framdráttar hagsmunum fyrirtækja og einstaklinga, er flokkinn studdu. Hér var um leikreglu að ræða, sem allir flokkar fylgdu, og held ég, að allur metingur milli flokkanna um það, hver hafi verið skeleggastur að skara ar eld að sinni köku, mundi enda í bræðrabyltu. Í því liggur skýringin á því, að ekki hefur fyrr verið kveðið upp úr með það, á hvern hátt framkvæmd leyfaúthlutananna var. A.m.k. hafa svonefndir ábyrgir stjórnmálamenn ekki gert það. Nú mega orð mín ekki misskiljast svo, að ég sé að deila á þá menn persónulega, sem voru fulltrúar hinna ýmsu flokka á hverjum tíma í þessum nefndum, né heldur, að ég sé að deila á stjórnmálamenn almennt og saka þá um spillingu. Með slíku mundi ég líka höggva nærri sjálfum mér svo lengi sem ég er búinn að vera við þau riðinn. Mergur málsins er að mínu áliti sá, að framkvæmd haftastefnu hér í landi kunningsskaparins getur varla hugsazt öðruvísi, heldur en hún hefur verið, hverjir svo sem með leyfaúthlutun fara og eru við völd. Þegar opinber leyfi þarf til alls, svo sem að kaupa gjaldeyri, byggja sér bílskúr eða kaupa bíl eða jeppa, taka menn það gjarnan til bragðs að leita til fulltrúa síns flokks í n., sem leyfum úthlutar, og biðja hann ásjár. Ef það gekk ekki, t.d. vegna þess að borið var við einhverjum reglum, sem fylgja ætti við úthlutunina, þá leitaði maðurinn í öngum sínum til ráðh. flokks síns eða annarra forustumanna, tíundaði afrek sín í þágu flokksins og mæltist til þess, að forustumaðurinn beitti áhrifum sínum við piltana í úthlutunarnefndinni, til þess að leyfið fengist. Þannig togaði Þríbjörn í Tvíbjörn og Tvíbjörn í Einbjörn og gagnstætt því, sem var í þjóðsögunni, gekk rófan stundum, — leyfið fékkst. Óþekktur almúgamaður, sem ekki átti sér aðstöðu í neinum flokki, fékk hins vegar ekki leyfi til neins. Hann hafði engan til að toga í rófuna. Ég býst við, að hinir rosknari stjórnmálaleiðtogar a.m.k. þekki þessa sögu vel. Mér kæmi á óvart, ef einhver þeirra fyndi hvöt hjá sér til þess að andmæla þessu og ef sá ólíklegi hlutur skeði, þá mundi mig gruna, að stjórnmálaklókindin hefðu borið sannleiksástina ofurliði hjá þeim hinum sama. En mundi stefnubreyting í þá átt að taka upp haftafyrirkomulagið að nýju, sem stjórnarandstaðan telur svo aðkallandi, að hún heitir á öfl utan þings til að knýja slíka stefnubreytingu fram, vera líkleg til þess að forða þjóðinni frá kjaraskerðingu af völdum þeirra áfalla, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna stórfelldrar verðlækkunar útfluttra afurða og aflabrests? Þeirri spurningu ber að svara afdráttarlaust neitandi. Stefnubreytingin mundi engan vanda efnahagsmálanna leysa, heldur þvert á móti auka hann. Vissulega var gjaldeyris úthlutunarn. Búkolla fyrir þá flokka, sem þar áttu fulltrúa. Hún og aðrar úthlutunarn. veittu mönnum aðhald til að greiða sín gjöld til flokkanna og sýna þeim hollustu á annan hátt, því að annars gátu menn ekki búizt við fyrirgreiðslu af hálfu þeirra, er sækja þurftu um leyfi. En haftan. mjólkuðu ekki þjóðarbúinu jafnvel og flokkunum. Þetta fyrirkomulag kollvarpaði í rauninni allri hagsýni í efnahagsmálum. Það var ekki spurt um það, hvort fyrirtæki gerðu hagkvæm innkaup, þegar innflutningsleyfi voru veitt, heldur hvaða flokk fyrirtækið styrkti. Fyrir stríðið var spurt, hvar framsóknarmaðurinn væri, þegar um var að ræða nauðsynlegar leyfaveitingar til stofnunar iðnfyrirtækja og sennilegt má telja, að á nýsköpunarárunum hafi á sama hátt verið spurt: Hvar er sjálfstæðismaðurinn eða komminn? Hins vegar var ekki spurt um það, hvort iðnrekstur sá, sem um var að ræða, væri hagkvæmur þjóðhagslega séð.

Þá mundi haftafyrirkomulagið gera Íslendinga óhæfa til þátttöku í allri alþjóðlegri samvinnu á sviði efnahagsmála, svo sem innan GATT, EFTA og fleiri slíkra samtaka, en slík þátttaka er að mínum dómi nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að við Íslendingar getum notið lífskjara sambærilegra við þau, sem nágrannaþjóðir okkar njóta. Hin svonefnda stefnubreyting stjórnarandstæðinga er því engin lausn á vandanum, sem við er að etja. Á hinn bóginn verður kjaraskerðing um stundarsakir ekki umflúin, hvað sem gert verður. Hvorki ríkisstj. eða nein hagsmunasamtök, launþegasamtök eða önnur, hafa yfir neinum tekjum að ráða, er forðað geti því, að áföllin, sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa orðið fyrir, leiði til nokkurrar almennrar kjaraskerðingar um stundarsakir.

Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, eru nauðsynleg skilyrði þess, að þjóðarskútan geti á sem skemmstum tíma komizt úr þeim öldudal, sem hún nú er í. Það er nauðsynlegt að sveigja verðmyndunarkerfið útflutningsframleiðslunni í vil, svo sem gert hefur verið með gengislækkuninni. Frá sjónarmiði launafólks er spurningin því miður ekki um það, hvort kjaraskerðingu skuli una eða ekki, heldur um hitt, í hvaða mynd hún komi fram. Þar verður um það að velja, hvort meiri áherzlu beri að leggja á atvinnuöryggi eða hitt, að kaupmáttur launa verði á pappírnum skertur sem minnst, þannig að lögð sé áherzla á kröfur um sem mestar vísitölubætur. Það er álit okkar stuðningsmanna ríkisstj., að atvinnuöryggi skipti mestu máli fyrir velferð verkalýðsins, þannig að fyrir það megi fórna einhverjum vísitölubótum um stundarsakir. Sú óþægilega staðreynd verður nú einu sinni ekki umflúin, að þjóðin hefur minni fjármuni til ráðstöfunar, en áður og sömu fjármunirnir verða ekki notaðir nema einu sinni, þannig að þeir peningar, sem nota verður til greiðslu vísitölubóta, verða ekki notaðir líka til tryggingar atvinnunni. Í venjulegu árferði er eðlilegt, að launþegar leggi mikla áherzlu á, að kaupmáttur launa rýrni ekki, en í óvenju slæmu árferði, svo sem nú er, getur það verið launafólki í hag að slaka nokkuð til í því efni um stundarsakir. Og sú lagfæring verðlagsmála, sem gerð hefur verið með gengisbreytingunni, gæti á skemmri tíma en nokkur þorir e.t.v. að vona leitt til þeirrar aukningar framleiðsluafkasta, ef gætt er hófs í kröfum á hendur atvinnurekstrinum á þeim þrengingatímum, sem nú eru, að hægt verði að taka upp þráðinn að nýju í sókn þjóðarinnar til betri lífskjara. — Góða nótt.