21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3128)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hv. stjórnarandstæðingar hafa legið ríkisstj. á hálsi fyrir aðgerðarleysi í efnahagsmálum og fyrir ófyrirgefanlegan drátt á því að ráðast gegn vandanum. Málgögn þeirra og málflutningur allur hefur mótazt af hnútuköstum út af því, að ríkisstj. hafi hvorki vit né kjark til að beita sér fyrir úrlausn í efnahagsmálum. Um 7 vikna skeið stóðu yfir viðræður við þessa ágætu menn og geysimikil vinna innan stjórnarráðs og utan var í það lögð að útvega þeim allar þær upplýsingar, sem þeir báðu um varðandi ástand atvinnu– og efnahagsmála. Eftir að allar þessar upplýsingar lágu fyrir, gátu þeir stjórnarandstæðingar samt ekki mótað afstöðu sína til lausnar efnahagsvandanum og leggja þess í stað fram till. um vantraust á ríkisstj. Það er þeirra framlag til lausnar vandanum.

Þessi frammistaða getur e.t.v. talizt mannleg, en stórmannleg verður hún aldrei talin. Það er vitanlega léttara og í alla staði auðveldara að finna að og gagnrýna, en þurfa að framkvæma ráðstafanir, sem vitað er fyrirfram, að hljóta um sinn a.m.k. að verða óvinsælar meðal almennings. Ástæða væri því til að ætla, að nú hefði skapazt skilningur á því, að ráðizt verði til lausnar vandanum. Að mjög vel athuguðu máli varð niðurstaðan sú að framkvæma gengisbreytingu. Um engan kost góðan var að velja. Allar mögulegar leiðir leiddu til kjaraskerðingar um sinn í einu eða öðru formi. Hjá því varð ekki komizt.

Ástæðurnar til þess, að gengisbreyting var valin, eru einkum fólgnar í eftirfarandi: Hún á í fyrsta lagi að skapa útflutningsatvinnuvegunum á ný viðunandi rekstrargrundvöll, sem er skilyrði þess, að tækifæri til framleiðsluaukningar, betri nýtni og fjölbreyttari framleiðslu verði notuð til hins ýtrasta. Gengisbreytingin hefur hins vegar ekki eingöngu áhrif á útflutningsatvinnuvegina, heldur mun hún hafa örvandi áhrif á aðrar framleiðslugreinar, einkum í iðnaði, þar sem ný tækifæri í framleiðslu án tollverndar til útflutnings ættu að geta skapazt í vaxandi mæli í skjóli hagstæðara gengis. Yfirleitt má segja, að áhrifamáttur gengisbreytingar sé í því fólginn, að hún hefur áhrif á hlutföllin milli erlends og innlends kostnaðar í öllum greinum þjóðarbúskaparins, jafnt í framleiðslu sem neyzlu. Hvarvetna hvetur hún til meiri gjaldeyrisöflunar jafnframt því, sem öll verðhlutföll færast íslenzkri vöru og þjónustu í hag. Það er einmitt slíkur tilflutningur eftirspurnar frá erlendum til innlendra framleiðsluþátta, sem er nauðsynlegur til þess að jafnvægi geti náðst að nýju í greiðsluviðskiptum við útlönd eftir hina stórfelldu lækkun útflutningstekna, sem átt hefur sér stað undanfarin 2 ár. Gengisbreytinguna nú þarf sérstaklega að miða við nauðsyn þess, að ný tækifæri skapist til að auka fjölbreytni útflutningsatvinnuveganna og koma á fót nýjum, sterkum og vaxandi framleiðslugreinum við hlið sjávarútvegsins. Eigi Íslendingar ekki vegna lækkunar útflutningsteknanna að bíða varnalegan hnekki í baráttu sinni fyrir bættum lífskjörum, verður á næstu árum að eiga sér stað stórkostleg aukning útflutningsframleiðslu og hvers konar gjaldeyrisöflunar, þótt margvísleg tækifæri séu tvímælalaust enn ónotuð í sjávarútveginum, og þau verður að fullnýta, er engu að síður jóst, að treysta verður í framtíðinni mjög á auknar gjaldeyristekjur af annarri starfsemi. Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á ekki að hvíla svo að segja eingöngu á einum atvinnuvegi, sjávarútveginum og flestar aðrar greinar geti notið verndar og góðra lífskjara í skjóli hans.

Íslendingar standa nú frammi fyrir því mikla verkefni að gera iðnaðarframleiðslu landsins samkeppnishæfa, ekki aðeins á innanlandsmarkaði, heldur einnig í vaxandi mæli á erlendum mörkuðum. Þetta verður hins vegar aldrei gert nema á grundvelli gengis, sem er hagstætt innlendri framleiðslu jafnframt því, sem afnema þarf það verndarkerfi, sem hér á landi hefur byggzt upp í skjóli hinna miklu yfirburða sjávarútvegsins. Loks er það mikilvægt markmið gengisbreytingarinnar, eins og nú er komið efnahagsmálum, að hún nægi til þess að skapa efnahagslegt svigrúm til þess að auka atvinnu og tryggja eðlilegt atvinnustig á komandi árum. Takist okkur hins vegar að koma greiðslujöfnuðinum í viðunanlegt horf ásamt því að ná viðráðanlegum erlendum lántökum, á að geta skapazt nýtt tækifæri til að örva efnahagsstarfsemina með innlendum aðgerðum á sviði peninga– og fjármála, sem aftur er undirstaða alls atvinnuöryggis í landinu.

Í þessum umr. verður þó að segja hv. stjórnarandstæðingum eitt til hróss, en það er, að síðan þeim var gefinn kostur á að fá allar umbeðnar upplýsingar, hafa þeir stórlega dregið úr þeim áróðri sínum, að vandinn, sem nú steðjar að, væri að langmestu leyti heimatilbúinn. Það sannast hér, að jafnvel áróðri og blekkingum fluttum gegn betri vitund eru þó nokkur takmörk sett. Síldaraflinn á yfirstandandi ári er einungis 1/4 hluti eða 25% þess síldarafla, sem veiddist á s.l. ári og þótti hann þá nægjanlega lítill og verðlag á afurðum þess hluta, sem veiddur er til bræðslu, hefur lækkað um 30% frá árinu 1966. Nokkur aukning hefur hins vegar orðið á þorskafla vélbáta og togara. Verðlækkun þessara afurða erlendis hefur hins vegar gert mun meira, en að éta þessa aflaaukningu upp, en verðlækkun frystra fiskafurða einna síðan 1966 mun hafa numið því sem næst 20–30%. En frá árinu 1966 til þessa árs hefur tekjutapið alls orðið 2.400 millj. kr. Þegar tillit er til þess tekið, að hér er um helztu útflutningsvörur okkar að ræða, sem námu um 15% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarinnar á árinu 1966, sjá allir, sem vilja sjá, hve gífurlegur vandinn er. Hér er þó ótalin verðlækkun á öðrum sjávarafurðum, eins og rækju og mörgum öðrum niðurlögðum og frystum sjávarafurðum. Verðhrun erlendis ásamt mun minni afla verður aldrei hægt að færa á reikning innlendra valdhafa, hverjir, sem þeir eru. Sé það gert, er það ódrengileg leið til að koma ósannri sök á hvern, sem slíkum trúnaðarstörfum gegnir. Alþfl. vó og mat þær leiðir, sem um var að ræða til lausnar þessum gífurlega efnahagsvanda. Hann og ríkisstj. öll hefðu sjálfsagt átt þann kost að hlaupast frá vandanum með því að setja einhver þau skilyrði, sem vitað var, að ekki voru framkvæmanleg. Það hefur verið háttur sumra stjórnmálaflokka hér á landi, þegar horfzt hefur verið í augu við erfiðan vanda. Það hefði verið auðveldasta leiðin, sem mörgum hefði sjálfsagt fallið vel í geð og þá ekki sízt stjórnarandstæðingum, sem eiga þá von æðsta, að ríkisstj. fari frá. Þessa ósk bera þeir fram í hverri ræðunni á fætur annarri ásamt tilheyrandi níðskrifum í málgögnum sínum án þess að boða nokkra ákveðna leið út úr vandanum.

Fólkið í landinu kýs þm. og þá um leið ríkisstj. til þess að fara með umboð sitt á milli kosninga. Reynist hlutaðeigendur ekki færir um að fara með þetta umboð og hljóta dóm að kjörtímabili loknu, eiga þeir að boða til nýrra kosninga. Enn þá er ekkert tilefni til þess. Verði þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera til úrlausnar á efnahagsvandanum, brotnar á bak aftur með utanaðkomandi áhrifum, ber þjóðinni að velja á ný milli ákveðinnar stefnu ríkisstj. annars vegar og þokukennds stefnuleysis og óvissu stjórnarandstöðu hins vegar. Vandinn, sem við er að etja, stæði hins vegar jafn óleystur eftir.

Hinn almenni maður segir í dag: Vitanlega eru þetta þungar klyfjar, sem þið ætlið okkur að bera. Eina leiðin, til að okkur verði mögulegt að bera þær, er að tryggð verði viðunanleg atvinna. Annars verður það varla mögulegt. Þetta var það, sem réði afstöðu Alþfl. Gengisbreytingarleiðin reyndist að vel athuguðu máli gefa mesta möguleika, til að haldið yrði uppi fullnægjandi atvinnu, þótt um kjararýrnun yrði að ræða um sinn. Þess vegna var sú leið valin.

Í síðustu kosningum sagði Alþfl., að hann mundi reynast ábyrgur flokkur, jafnvel þótt það væri ekki ávallt vinsælt. Þess vegna hefur hann stutt og mun styðja ábyrgar tilraunir til lausnar þeim þjóðarvanda, sem að okkur steðjar nú, eins og hann hefur áður ótrauður í starfi sínu gert. — Góða nótt.