21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það var mikill siður ríkisstj. á þeim árum, sem hún enn hafði þrek til að kalla sig viðreisnarstjórn, að gorta af íslenzku krónunni og vitna í það, að fyrir viðreisn hefðu erlendir bankar ekkert viljað með krónuna verzla, en nú væri öldin önnur og var helzt á ræðum sumra stjórnarherranna að skilja, að nú þætti bönkunum í útlandinu fremur lítið til annarra peninga koma, en krónunnar okkar. Mætti af þessu marka, hvað viðreisnarstjórnin væri miklum mun merkilegri, en aðrar stjórnir, sem með veikum burðum hefðu fengizt við ráðsmennsku hér uppi á landi á undan henni. Og á þeirri tíð var svo að skilja á stjórnarvöldunum, að mannfólkið væri til þess borið að þjóna undir veg og virðingu krónunnar, en að hugmyndirnar um, að peningarnir væru þjónustutæki mannfólksins væru .nú endanlega úreltar. Og bak við öll ræðuhöldin í þessum dúr mátti svo glöggt skynja, að eins og verkið lofaði meistarann, væri ljómi krónunnar hinn sanni dýrðarbaugur stjórnarinnar. Já, svona ræður heyrast nú ekki lengur úr stjórnarherbúðunum, enda er það sannast mála, að ef stjórnin bæri sig og sitt gengi saman við krónuna nú hin síðustu ár, væri þessi till. til vantrausts á ríkisstj., sem nú er hér til umr., öldungis óþörf, þá væri stjórnin þegar búin að segja af sér.

Við stjórnarandstæðingar viðurkenndum aldrei á góðu árunum og gerum ekki enn, að velgengni þjóðarinnar eða hið aukna álit, sem íslenzki gjaldmiðillinn naut erlendis, væri stjórninni að þakka, heldur töldum við þetta vera afleiðingu af aflasæld á fiskimiðunum og hagstæðri verðlagsþróun á okkar útflutningsvörum á heimsmörkuðunum, hvort tveggja í svo ríkum mæli, að engin óstjórn og ekkert stjórnarkerfi á byggðu bóli væri svo fráleitt, að það megnaði að gera þetta allt að engu. Okkur ber þá auðvitað að játa það nú, að þegar aflinn hefur minnkað og verðlagið breytzt okkur í óhag, þá er ekki hægt að láta eins og ekkert þurfi að færast úr skorðum á Íslandi. Ef það hefði verið rétt, sem stjórnin hélt fram, að hinn bætti hagur, sem Íslendingar vissulega bjuggu við um skeið, væri fyrst og fremst grundvallaður á hinni góðu stjórnarstefnu, þá mundi hann haldast enn. Þá hefði ekki þurft að grípa til jafn harkalegra ráðstafana og nýafstaðin gengisfelling er.

Í fyrra reyndi stj. að réttlæta nóvembergengisfellinguna með verðfellingu, sem orðin var á sterlingspundi. Nú var stjórnin óheppnari, lokaðar kauphallir og gjaldeyrisbankar úti í löndum verða henni engin réttlæting nú, krónan okkar var áður fallin, en ef stjórnin héldi enn sínum gamla og fráleita hroka og oftrú á veldi sitt og krónunnar, þá gæti hún sem bezt haldið því fram, að gengisbreytingin okkar valdi þeirri ringulreið á heimsviðskiptum, sem nú er upp kominn, en þá mundi nú margur brosa að einfeldni hennar, sem áður tók alvarlega ámóta raunhæft hjal hennar um dýrð og veldi krónunnar.

Gengið var fellt í fyrra og rétt í kjölfar þess, var tekið upp nýtt uppbótakerfi, sem nam hundrað milljónum. Enn er gengið fellt. Og nú hrikalegar, en nokkru sinni fyrr. Hliðarráðstafanir, sem ekki hafa þó enn séð dagsins ljós, eiga að verða til þess, að launþegar landsins fái að nokkru uppi borið þá dýrtíðaröldu, sem yfir mun skella vegna þessa, eða upp á það hljóðar boðskapur stjórnarinnar a.m.k. Er þó á allra vitorði, að af lægstu launum er þegar ókleift fyrir fjölskyldumenn að lifa jafnvel í lágmarki hinna frumstæðustu þarfa. Hér er því alveg óumflýjanlegt að jafna að einhverju afkomumöguleika milli þeirra sem geta og hinna sem alls ekki geta axlað byrðar, þannig að skerðing hins blásnauða þurfi ekki að vera hin sama og bjargálna eða velstæða mannsins.

Eðli gengisfellingar er að draga fjármuni til í þjóðfélaginu. Sparifjáreigandinn fær minni verðmæti út úr bankanum, en hann lagði þar inn. Innlendur skuldari getur borgað skuld sína með smærri krónum, en hann fékk hjá lánardrottni sínum, m.ö.o. sparifjáreigandinn er nauðugur látinn greiða lán hins skulduga. Gengisfelling ár eftir ár hlýtur því að hafa mjög slæmar þjóðfélagslegar afleiðingar. Atvinnuvegirnir okkar og uppbygging grundvallast að mestu á sparifjármyndun landsmanna, en hverjar afleiðingar hljótast svo af því, að sparifjáreigendur eru rændir árlega? Skyldi það hafa örvandi áhrif á sparifjármyndunina? Nei, um slíkt þarf raunar ekki að spyrja. Við höfum enn við síðustu aðgerðir fjarlægzt það að ná festu í atvinnulífi okkar og uppbyggingu. En því verður ekki með sanngirni neitað, að aðgerða var þörf í efnahagsmálum okkar, og þrátt fyrir alla ókosti gengisfellingarinnar var hún þó eitt af því sem til mála kom, vegna þess að útflutningsatvinnuvegirnir verða að fá fyrir afurðir sínar álíka margar krónur og kostar að framleiða þær. Og þó að ég hafi hér gagnrýnt þessa ráðstöfun og aðrir stjórnarandstæðingar einnig réttilega, þá tel ég ráðstöfunina þó ekki aðaládeiluefnið á stjórnina, heldur hitt, hvernig hún hefur staðið að framkvæmdum hennar, en það er með meiri endemum, en með nokkru móti er réttlætanlegt og ærið efni til vantrausts á stjórnina eitt fyrir sig.

Engin stjórn má vera svo sljó, að hún fylgist ekki með því, í hverja átt stefnir um þjóðarhagi langtímum saman og hafi þá jafnan uppi viðleitni til að gera viðeigandi ráðstafanir til að afstýra stóráföllum, ef til þeirra virðist draga. Ekki vil ég heldur ætla hæstv. ríkisstj. það, að hún sé ekki löngu búin að sjá, að hér stefndi í hreinan voða. Hitt hefur hún trassað lengur en afsakanlegt er að ráðast gegn háskanum. Forsenda þess, að hinn jákvæði árangur verði í átt við það, sem ætlazt er til af gengisfellingu eins og þeirri, sem nú er orðin, er umfram allt sú, að aðgerðin komi í tíma, en ekki í ótíma, að hún valdi ekki óróa í viðskiptalífinu eða framleiðslutruflunum. Einskis þessa hefur hér verið gætt. Mánuðum saman fyrir gengisfellinguna voru ýmist stjórnarherrarnir sjálfir eða blöð þeirra talandi um það beint og óbeint, að aðgerða af þessu tagi væri von á næstunni. Eftirspurnin eftir gjaldeyri varð alveg óeðlilega mikil í bönkum landsins. Þá greip stjórnin til ýmiss konar kákráðstafana, sem voru tilbrigði í afgreiðslu, en ekkert stoðuðu til þess að spara hinn þverrandi gjaldeyri, sem þjóðin átti þá enn yfir að ráða, heldur þvert á móti varð með öllu þessu æst upp kaupæði í landinu, ekki bara eitt innkaupaæði, heldur mörg, hvert á fætur öðru, uns vörubirgðir margra verzlana voru til þurrðar gengnar og gjaldeyrissjóðurinn, stolt stjórnarinnar, orðinn neikvæð stærð. Þá hefði nú mátt ætla, að mælirinn væri fullur og skekinn og lengra væri ekki komizt á þessarri braut. En stjórnin átti samt enn eftir að vinna eitt afrekið, versta óhæfuverkið í fráleitum undirbúningsráðstöfunum sínum að því, sem að fór.

Á góðu tímunum hafði stjórnin heimilað innflytjendum að taka sér lán erlendis til skamms tíma fyrir vörukaupum sínum. Þessi kaup gátu haldið áfram, þrátt fyrir versnandi gjaldeyrisstöðu og gerðu það líka. En fyrir lausmælgi stjórnarinnar og blaður um það, hvað til stæði, fannst sumum innflytjendanna ekki ráðlegt að selja vöru sína á gildandi verðlagi í landinu, heldur vildu þeir fá fyrir hana það verð, sem koma mundi, þegar stjórnin væri búin að gera bragð úr sínum boðorðum. Kaffiheildsalar og einhverjir fleiri úr þeirri stétt hófu því verkfall á alla kaffisölu og a.m.k. tvær eða þrjár aðrar vörutegundir drógust inn í þetta fyrsta verkfall, sem gert var vegna ráðstafananna þá ókominna. Og stjórnin, sem hefur það að sinni sérgrein að lunka landsmenn til þess að taka þessum árlegu ráðstöfunum sínum af þegnskap og án verkfalla, hún tók heildsalaverkfallinu af þess háttar höfðingsskap, að engin dæmi eru þekkt um annað eins. Hún gaf þeim út tryggingu fyrir því, að ekki skyldu þeir bíða tjón af væntanlegum stjórnarráðstöfunum í efnahagsmálum. Ekki er að efa, að á þeim tíma, sem þetta furðulega tryggingarskírteini var út gefið, hefði margur viljað fá slíka tryggingu fyrir sig eða sitt fyrirtæki. Verkalýðshreyfingin hefði ábyggilega þegið tryggingu fyrir óbreyttu raungildi kaups, opinberir starfsmenn sömuleiðis. Rafmagnsveitur ríkisins hefðu þegið tryggingu fyrir því, að erlendar skuldir þeirra stæðu óbreyttar í íslenzkum kr. talið. Það hefði Flugfélag Íslands vafalaust þegið líka og svo mætti lengi telja. En enginn þessara aðila hóf verkfall og allir urðu þeir fyrir barðinu á ráðstöfunum. Hins vegar hefur stjórnin nú lagt fyrir verðlagsn. að leyfa kaffikaupmönnum og þeim félögum úr heildsalaverkfallinu að verðleggja varning sinn samkvæmt tryggingunni góðu og njóta þeir um þetta sérréttinda umfram þá, sem engan strækinn gerðu.

Herra forseti. Ég hef hér sýnt fram á, að stjórninni hefur ekki tekizt að framkvæma gengisbreytinguna síðustu með þeim hætti, að sæmilegt sé á nokkurn hátt, þrátt fyrir meiri æfingu, sem hún hefur og reynslu í slíkum athöfnum, en nokkur önnur íslenzk stjórn. Hún er búin að fella gengið fjórum sinnum á ferli sínum og er það saga sér á parti, að skaplegast tókst henni framkvæmdin úr hendi í fyrsta skiptið, en síðan alltaf með endemum. Minni ég þar á, að í annarri gengisfellingarlotunni hafði stjórnin það af að brjóta stjórnarskrána í leiðinni. Sú gengisfelling var framkvæmd með bráðabirgðalögum og gengisskráningarvaldið jafnframt tekið af Alþ. og fengið Seðlabankanum. Þess háttar tilfærsla á valdi er greinilegt stjórnarskrárbrot, þegar hún er gerð með bráðabirgðalögum, því til hennar gat enga brýna nauðsyn borið. Við þriðju gengisfellinguna í nóv. í fyrra var gjaldeyrisviðskiptum bankanna haldið lokuðum á aðra viku, sem mun óþekkt fyrirbæri úr öðrum stöðum. En aðdraganda hinnar fjórðu og nýjustu hef ég áður rakið og er augljóst, að hún er stjórninni til einskis sóma. Vegna slíkra mistaka hefði hver ærukær stjórn sagt af sér og ekki beðið vantrausts, en þessi hæstv. ríkisstj. verður aldrei flokkuð undir það. Það er því nauðsyn að leysa hana, með vantrausti, frá því að fremja fleiri slík afglöp. — Góða nótt.