21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá að heyra það rétt undir miðnætti frá síðasta ræðumanni Alþb., Karli Guðjónssyni, að hann virðist alls ekki vera á móti gengislækkun. Hann er einungis á móti því, hvernig hún er framkvæmd. Hann flutti í ræðu sinni lýsingar á því, hvernig sumar gengislækkanir hafa verið vel og dásamlega framkvæmdar og sumar illa, sumar eru fögur blóm, aðrar ekki eins fögur. En hann virðist ekki vera sammála ýmsum flokksbræðrum sínum í þessu máli, og er ekki nýtt að heyra um nýjan ágreining í Alþb.

Nálega hver ræðumaður stjórnarandstöðunnar í þessum umr. hefur hneykslazt á því, hve skuldir þjóðarinnar erlendis hafi aukizt mikið við gengislækkunina. Sannleikurinn er sá, að Íslendingar gætu í dag greitt allar skuldir sínar erlendis með nákvæmlega jafnmörgum fiskum og fyrir gengislækkun. Breyting á verði fiskarins í íslenzkum kr. er í rauninni heimilismál okkar, tilfærsla innanlands, en þjóðin stendur sízt verr að vígi, en áður gagnvart öðrum þjóðum.

Ungur framsóknarmaður talaði hér fyrir skömmu síðan og gerði sér tíðrætt um skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis. Hann talaði um tvö þúsund millj., sem núv. stjórn hefði velt yfir á unga fólkið og meira að segja börn þess og kallaði þetta drápsklyfjar.

Hverjar eru þessar drápsklyfjar, sem stjórnin hefur verið að leggja á unga fólkið? Hvað höfum við fengið fyrir þá peninga, sem við skuldum erlendis? Ætli það séu ekki 150 nýtízku vélbátar eða eitthvað þar um bil? Þetta kallar ungur framsóknarmaður drápsklyfjar. Ætli það séu ekki flugvélar Loftleiða og Flugfélagsins? Þær kallar ungur framsóknarmaður drápsklyfjar. Ætli það séu ekki nýjustu kaupskipin, hvort sem þau heita fossar eða fell? Þau kallar ungur framsóknarmaður drápsklyfjar? Ætli það sé ekki Búrfellsvirkjun? Hana kallar ungur framsóknarmaður drápsklyfjar. Nei, mér sýnist þessi ungi maður vera að sligast undan drápsklyfjum blekkinga, sem hann hefur hlotið við veizluborð Framsóknarflokksins, og verð ég að segja, að hann verður laglegur, þegar hann nær fertugu, orðinn svona slæmur strax.

Karl Guðjónsson og ýmsir fleiri ræðumenn stjórnarandstöðunnar hafa sýnt mikla umhyggju fyrir sparifjáreigendum og hafa sagt okkur, að ríkisstj. sé að ræna sparifjáreigendur með gengislækkuninni. Það er rétt hjá þeim, að sparifjáreigendur verða fyrir slæmum skakkaföllum og það er einn versti gallinn á gengislækkun. En hafa ekki bæði Alþb.–menn og framsóknarmenn barizt fyrir því leynt og ljóst árum saman, að vextir í landinu yrðu lækkaðir stórkostlega? En það er víst ekki að ræna sparifjáreigendur.

Þegar formaður Framsfl. flytur till. um vantraust á ríkisstj., rifjast ósjálfrátt upp eitt furðulegasta atvik úr stjórnmálasögu Íslands á síðari áratugum. Það gerðist á árinu 1950. Þá voru mikil efnahagsvandræði og stjórnarkreppa að auki. Sjálfstfl. fór með minnihlutastjórn og lagði fyrir Alþ. frv. um gengislækkun. Framsóknarmenn tóku því víðs fjarri og svöruðu alveg eins og nú með till. um vantraust. Þessi till. var samþykkt og minnihlutastjórn Sjálfstfl. féll, en strax á eftir gátu Sjálfstæðismenn náð samningum við Framsókn um nýja ríkisstj., sem hafði gengislækkun að aðalstefnumáli sínu. Nú vitum við af reynslu, að maddama Framsókn hefur ekki breytzt mikið með árunum. Þess vegna sækir sú hugmynd á, að það væri í raun og veru enginn vandi að fá framsóknarmenn til að samþykkja þá gengislækkun, sem þegar hefur verið gerð. Til þess verða stjórnarþingmenn aðeins að samþykkja fyrst vantraust á sjálfa sig og bjóða síðan framsóknarmönnum ráðherrastóla. Þá verður allt klappað og klárt. Það þarf raunar ekki að leita aftur til ársins 1950 til að sanna þetta, heldur hefur mátt skilja þetta á blaðaskrifum og ummælum forustumanna Framsfl. nú undanfarið.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, hvað stjórnarandstaðan hefur aðhafzt í sambandi við lausn efnahags– og atvinnumálanna á þessu hausti. Ríkisstj. bauð bæði Framsfl. og Alþb. til viðræðna um þessi mál. Þar fengu fulltrúar þeirra allar þær upplýsingar, sem þeir óskuðu eftir og þeir hljóta að hafa gert sér grein fyrir, hve vandamálið var mikið og erfitt. Það var og er vitað mál, að hefðu stjórnarandstöðuflokkarnir viljað taka þátt í lausn þessa vanda, þá var hægt að mynda um það mál sérstaka ríkisstj., svo að þeir hefðu fengið tækifæri til að fylgja málum sínum eftir. Þetta vildu framsóknarmenn og Alþb.–menn ekki. Þeir fengust ekki til að segja, hvaða heildarleið þeir studdu til lausnar vandanum. Þeir töldu ekki ómaksins vert fyrir kjósendur sína að gæta hagsmuna þeirra með ábyrgri þátttöku í lausn vandamálanna. Til hvers taka þessir menn þátt í íslenzkum stjórnmálum? Finnst ykkur, hlustendur góðir, að framsóknarmenn og kommúnistar hafi sterka aðstöðu til að gagnrýna efnahagsráðstafanir, er þeir neituðu fyrir hálfum mánuði að taka þátt í lausn vandans og hafa áhrif á stefnuna? Það er erfitt að komast að því, hvað þeir vilja. Einu sinni var það „hin leiðin“, nú er hún gleymd. Nú virðist það vera einhvers konar hulduleið. Lúðvík Jósefsson þykist að vísu geta aflað þús. millj. án þess að koma við neinn. En ég er hræddur um, að slík kraftaverk gerist aðeins í hugarórum stjórnarandstæðinga. Þegar Lúðvík var ráðh. og vantaði peninga til að halda sjávarútvegi gangandi, þá voru þeir ekki teknir úr lausu lofti.

Af hverju segja ekki stjórnarandstæðingar okkur, hvaða heildarleiðir þeir hefðu farið, ef þeir réðu einir? Þeir virðast vera á móti gengislækkun sumir hverjir, sumir þó ekki. Það er augljóst, en eru þeir fylgjandi stórfelldri uppbótaleið með hækkun söluskatts upp í 15—20%? Ekki er svo að heyra. Eða eru þeir fylgjandi niðurfærsluleið með stórfelldri lækkun á kaupgjaldi? Ekki virðist það vera. Framkoma þessara flokka á erfiðum tímum, sem þjóðin nú lifir, er næsta furðuleg. Þeir vilja ekki taka þátt í stjórn landsins og lausn vandans. Þeir vilja ekki segja þjóðinni, hvaða heildarleið þeir mundu fara, ef þeir réðu einir. Samt vilja þeir ekki una því, að ríkisstj. hefur gert það, sem gera varð. Eina framlag þeirra er sú neikvæða till., sem hér er til umr., vantraust á þá ríkisstj., sem axlaði byrðarnar ein, eftir að framsóknarmenn og kommúnistar hlupu frá.

Gengisbreytingin sjálf hefur þegar verið gerð. Henni er ætlað að flytja stórfelldar fjárhæðir frá landsfólkinu til atvinnuveganna til að tryggja áframhaldandi atvinnu og framleiðslu. Við Alþfl–menn samþykktum þessa leið, af því að við teljum hana skársta af þeim slæmu kostum, sem völ er á, sérstaklega af því hún virðist muni örva atvinnu meir en aðrar leiðir.

Nú bíður þjóðin eftir hliðarráðstöfunum. Er þá rétt að gera sér fyllilega grein fyrir, að þær ráðstafanir geta ekki eytt álögum gengisbreytingarinnar á allan þorra landsmanna. Hins vegar geta hliðarráðstafanir létt byrðar einstakra hópa innan þjóðfélagsins, sem sérstök ástæða er til að vernda, svo sem láglaunafólks, barn margra fjölskyldna, gamla fólksins og öryrkja.

Í næstu viku verður haldið í Reykjavík Alþýðusambandsþing. Þar munu launþegar kjósa sér nýja forustu. Þegar það hefur gerzt munu væntanlega hefjast viðræður milli leiðtoga Alþýðusambandsins, hverjir sem þeir verða og ríkisstj. Er einlæg von Alþfl., að úr þeim viðræðum komi samkomulag, þar sem verkalýðshreyfingin tryggir sínu fólki eins góðan hlut og framast er kostur á, en þó svo að megin tilgangur þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið, náist eftir sem áður. Þar verður rætt um ýmsar hliðarráðstafanir og Alþfl. hefur þegar á þingi sínu talið fram ýmsar þeirra, sem hann mun leggja sérstaka áherzlu á. Þar er atvinnan í fyrirrúmi. Þar er óskað eftir sérstöku tilliti til hagsmuna láglaunafólks, barnafjölskyldna og bótaþega almannatrygginga. Þar er talað um ákvörðun um stofnun lífeyrissjóðs allra landsmanna eftir tiltekinn tíma og aukningu á almannatryggingum. Þar er óskað eftir endurskoðun skattal. til að gera skattakerfið einfaldara og réttlátara. Þar er talað um aukið eftirlit með skattframtölum og tollgreiðslum til að koma í veg fyrir skattsvik og tollsvik. Þar er talað um nýja tekjustofna til íbúðabygginga og margvíslega aukna aðstoð á því sviði og loks er talað um breytingar á lögunum um ákvörðun búvöruverðs. Þetta eru nokkur þeirra atriða, sem Alþfl. væntir, að komi til umræðu milli verkalýðshreyfingar og ríkisstj., þótt þau geti að sjálfsögðu orðið fleiri. Ríkisstj. hefur látið fram fara athuganir á flestum þessum málum og undirbúið þau á ýmsa lund, en hún hefur ekki talið rétt að taka um þau ákvarðanir, fyrr en hún hefur haft samráð við verkalýðshreyfinguna.

Það eru alvarlegir tímar framundan hjá þjóðinni. Skiptir miklu máli, að fundin verði lausn vandamálanna með friði, svo að ekki komi til ófriðar, sem gæti leitt til upplausnar í þjóðfélaginu og aukið vandann í stað þess að minnka hann. Takmarkið er að hefja nú nýja sókn til að vinna það upp, sem við höfum tapað á síðustu tveim árum. Þjóðin í heild hefur orðið fyrir kauplækkun á erlendum mörkuðum og ýmsum öðrum erfiðleikum og þeirri lækkun skiptum við á milli okkar þessa dagana, en jafnframt verðum við að hefja kröftuga uppbyggingu, sérstaklega á sviði iðnaðar, útvega okkur fjármagn, efla fyrirtækin, koma á fót nýjum iðngreinum og tryggja þannig betur, en hingað til undirstöðuafkomu okkar. Ekkert af þessu mun takast, ef við eyðum næstu misserum í innbyrðis deilur og bræðravíg.

Nú er að ljúka umræðum um till. til vantrausts á ríkisstj., sem framsóknarmenn og kommúnistar flytja. Þessi till. er vanhugsuð, óraunhæf og óþjóðholl. Till. er óþjóðholl af því, að það er þegar búið að leita ráða hjá stjórnarandstöðunni og bjóða henni þátttöku í lausn vandans. Það boð var ekki þegið. Till. er óþjóðholl af því, að með samþykkt hennar mundi leiða til stjórnleysis í marga mánuði og stóraukinna erfiðleika. Till. er óþjóðholl af því, að hún mundi stofna afkomu og atvinnu fólksins í nýja óvissu og kosta þjóðina stórkostleg verðmæti. Þess vegna samþykkjum við ekki þetta vantraust. Ríkisstj. hefur árangurslaust leitað samstarfs stjórnarandstöðuflokkanna. Fyrir það á ekki að samþykkja vantraust á hana. Ríkisstj. hefur gert það, sem gera varð og ekki hlaupið af hólmi. Fyrir það á ekki að samþykkja vantraust. Ríkisstj. ætlar nú að hefja viðræður við verkalýðshreyfinguna um hliðarráðstafanir og framvindu málsins. Fyrir það á ekki að samþykkja vantraust á hana. Þess vegna fellum við þessa vantrauststill. - Góða nótt.