21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Ég vona, að það verði ekki talið til þingspjalla, þótt ég geri með örfáum orðum grein fyrir atkv. mínu um vantraust það, sem hér er flutt á ríkisstj.

Svo er mál vaxið, að nú um eins árs skeið hefur okkur þrem þm. Alþb. verið varnað máls hverju sinni, sem umr. frá Alþ. hefur verið útvarpað. Er þar að verki tæpur og tvíræður meiri hl. þess þingflokks, sem við skipuðum okkur í eftir kosningar 1967, en gátum aðeins um skamma hríð átt fulla samleið með vegna tillitslausrar beitingar flokksræðis og ágreinings um starfsháttu og stefnu. Þess er nú hefnt í skjóli úreltra þingskapa með því að varna okkur þess siðferðilega réttar að gera alþjóð grein fyrir okkar skoðunum og túlkun mála. Er hér aðeins eitt dæmi þess, hvernig alræði flokkavaldsins bitnar á hverjum þeim, sem ekki kýs að lúta því í auðmýkt.

Ég veit, að þúsundir kjósenda um land allt krefjast þess af okkur, sem hér eigum hlut að máli, að við brjótumst út úr þeirri herkví, sem flokksræðið reynir að hneppa okkur í. Við heitum því hér og nú að verða við þeim kröfum. Til þess höfum við bæði vilja og möguleika. Ég vona því, að fyrir næstu útvarpsumr. höfum við skipað svo okkar málum, að við getum mætt andstæðingunum á jafnréttisgrundvelli og hið sama, þegar að því kemur, að þjóðin fær tækifæri til þess að kveða upp sinn dóm í kosningum. Við erum enn fáir, sem erum staðráðnir í því að bjóða flokksræðinu byrginn, en við getum orðið margir, ef þjóðin vill.

Um afstöðuna til vantrauststill. get ég tímans vegna aðeins sagt þetta: Öll íslenzka þjóðin stendur nú á örlagaríkum tímamótum. Háskaleg verðbólgustefna, stjórnleysi í utanríkisvíðskiptum, fjárfestingarmálum og atvinnumálum hefur ýtt henni fram á brún gjaldþrots og öngþveitis í efnahagslegu tilliti og ríkisstj. sér engin úrræði önnur, en stórfellda almenna skerðingu lífskjara og miskunnarlausa samdráttarstefnu, sem ógnar atvinnuöryggi og afkomu almennings og er dæmd til að reynast atvinnuvegunum, sem þjóðin byggir efnahag sinn á, haldlaus með öllu. Sú stjórn, sem þannig hefur haldið á málum og lýsir yfir, að hún muni enn halda á málum, á að víkja. Það er þjóðarnauðsyn og þjóðarvilji. Yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar krefst ekki aðeins, að stjórnin víki. Hann krefst einnig nýrra kosninga svo fljótt, sem stjórnarskrá og lög leyfa, í þeim tilgangi, að þess verði freistað að skapa með atkvæðaseðlinum þá þjóðareiningu um lausn höfuðvandamála þjóðfélagsins, sem við þörfnumst nú öllu öðru fremur. Samþykkt vantraustsins er spor í þá átt að skapa þá einingu, einingu, sem byggir á róttækri, framfarasinnaðri og frjálslyndri umbótastefnu, stefnu, sem hefur að markmiði batnandi lífskjör hinna mörgu sem nú sjá hag sínum og framtíð ógnað. Ég samþykki því fyrirliggjandi till. og segi já.