07.11.1968
Neðri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) [frh.]:

Herra forseti. Þegar fundi var frestað s.l. þriðjudag, hafði ég minnzt á umsögn Sveinbjörns Jónssonar hrl. og lögfræðings Landssímans. Málið sendi ég honum til umsagnar. Kemur fram í bréfinu, að hann telur verðið eðlilegt, sérstaklega, ef stór hluti eignarinnar fæst með greiðslufresti og með tilliti til þess verðs, sem lóðir og aðrar fasteignir hefðu verið seldar á, á þessu svæði bæjarins. Eigendur lóðarinnar og hússins buðu 6 ára greiðslufrest með jöfnum afborgunum á 12 millj. kr. eða 3/4 verðsins.

Landssímanum var ekki gefin heimild til þess að gera kaupin, fyrr en umsögn Sveinbjörns Jónssonar lá fyrir. Ég las kafla úr því s.l. þriðjudag og sé ekki ástæðu til að endurtaka það né lesa það alveg í heild. Hv. allshn. getur fengið það í hendur, ef hún óskar og lesið það frá orði til orðs. Til viðbótar því, sem áður hefur verið á minnzt, tel ég rétt að geta hér um bréf frá Hauki Þorleifssyni fulltrúa í Búnaðarbanka Íslands, en eftir beiðni Sveinbjörns Jónssonar gaf hann upplýsingar um fyrrnefnda lóð og gerir grein fyrir því í bréfi dags. 20. júní í ár. Í þessu bréfi, sem Haukur kallar „Hugleiðingar um lóðaverð í Reykjavík“, segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Lóðin, sem tekin verður hér til athugunar, er nr. 2 við Thorvaldsensstræti. Hún er 601.8 fermetrar og sennilegt, að byggja megi á henni 500 fermetra hús upp á 5 hæðir og kjallara. Byggingarkostnaður þess húss má telja, að verði sá sami og sams konar húss á lóð í úthverfi borgarinnar. Leigutekjur húss á þessari lóð yrðu hins vegar mun hærri en hins hússins. Sá tekjumismunur er lóðinni tilheyrandi. Til frádráttar verður að reikna kostnað við bílastæði í miðbænum, og væri hægt að hugsa sér að taka til þeirra nota tvær hæðir hússins með lyftu, þannig að ekki fengist nema fjögurra hæða nýting úr húsinu, þ.e. 3 hæðir og kjallari. Í úthverfum borgarinnar er leigan til jafnaðar, hvort heldur er fyrir iðnaðarskrifstofur eða íbúðir, ekki hærri en 70 kr. á fermetra eða í þessu tilfelli 70x500x5, sama sem 175 þús. kr. á mánuði fyrir allt húsið eða 2.1 millj. kr. á ári. Í húsinu við Austurvöll er ekki hægt að reikna með verzlunarhúsnæði, heldur fyrir veitingastað, samkomuhús og skrifstofur og því ekki eins háa leigu og tíðkast við aðal verzlunargötur í miðbænum. Má ætla, að neðsta hæð mundi gefa af sér 250 kr. á fermetra, eins og á 2. hæð í Austurstræti, kjallari 100–150 kr. á fermetra og efri hæðir 150 kr. eða svipað og við Austurstræti. Þetta táknar til jafnaðar, að leigan yrði 160 kr. á fermetra á mánuði, þ.e. 90 kr. hærri en í áður greindu húsi í útjaðrinum. Ef við reiknum með 4 hæðum 500 fermetra, yrðu þær samtals 2.000 fermetrar. Gólfrými á 160 kr. sama sem 320 þús. á mánuði í leigu. Það eru 3 millj. 840 þús. á ári. Mismunur á leigutekjum á ári yrði þá 1 millj. 740 þús., sem eru leigutekjur lóðar, en það svarar til verðmæta frá 18–25 millj. kr. eftir því, hvort reiknað er með 10% eða 7% vöxtum af kapitali. Það eru 30–42 þús. kr. pr. fermetra lóðarinnar miðað við 600 fermetra.“

Ég geri ráð fyrir, að Sveinbjörn Jónsson hafi snúið sér til Hauks Þorleifssonar, þegar hann vildi svara mér um verðmæti lóðarinnar við Thorvaldsensstræti 2, af því að Haukur er kunnugur þessum málum. Hann hefur haft afskipti af lóðasölu og fasteignakaupum hér í bæ og er mörgum mönnum kunnugri, hvað þetta snertir. Og til viðbótar þessu bréfi, sem ég áðan las, sem var dags. 20. júní s.l., er hér enn bréf frá Hauki dags. 1. júlí 1968.

„Hr. hrl. Sveinbjörn Jónsson. Samkvæmt beiðni yðar get ég upplýst, að nokkur hluti lóðarinnar nr. 9 við Aðalstræti var seldur fyrir 2–3 árum við verði, sem svarar kr. 50 þús. pr. fermetri, verðmæti hússins innifalið. Lóðin var keypt með tilliti til nýbyggingar og húsið því ekki metið til neins verðs í þeim viðskiptum.“

Þetta var fyrir 2–3 árum. Eftir að ég hafði fengið umsögn Steingríms Jónssonar, sem er, eins og hann segir, til orðin eftir að hann hafði kynnt sér þetta mál og tók sér góðan tíma til þess að svara, þá gaf ég Landssímastjóra heimild til þess að ganga frá þessum kaupum og heimildin er gefin 31. júlí s.l. Og þessi heimild er gefin með bréfi, sem hljóðar svo:

„Hér með heimilast póst– og símamálastjóra að kaupa húseignina Thorvaldsensstræti 2 í Reykjavík með tilheyrandi eignarlóð fyrir kr. 16 millj. 243 þús. með þeim greiðsluskilmálum og kjörum, sem tilgreint er í kaupsamningi dags. 31. júlí 1968.“

Eigendur Sjálfstæðishússins höfðu gefið kost á því, að 12 millj. kr. yrðu greiddar með jöfnum afborgunum á 6 árum. Ég hins vegar setti það að skilyrði, að það yrði 10 ára greiðslufrestur, en ekki 6 og var á það fallizt. Þetta metur Sveinbjörn Jónsson í bréfi, sem ég áðan nefndi, allt að 33% afslátt 3/4 verðs lóðarinnar, þannig að í staðinn fyrir 16.2 millj. færist verðið raunverulega niður eftir hans orðum í 12.6 millj. Og greiðsluskilmálarnir eru: 2 millj. borgist við undirskrift, 2.6 millj. eftir 6 mánuði, en afgangurinn á 10 árum eða 71% verðsins.

Það er nú svo, að hér í hv. Alþ. er þetta nokkuð gagnrýnt, að verðið sé hátt. Þetta er sett á svið og sumir mundu kalla þetta pólitískt svið og það væri leikinn hér leikur í því skyni að gera einn ráðh. tortryggilegan, láta í það skína, að hann hafi misnotað aðstöðu sína. Það getur vel verið, að sumir segi, að þetta sé mannlegt af andstæðingi að gera svo og skal ég ekkert út í það fara nánar. Hitt er ég sannfærður um, að hv. alþm. fylgjast svo vel með því, sem gerist í þjóðlífinu, að þeir hafa sannfært sig um það, að kaupin á Sjálfstæðishúsinu og lóðinni þar eru hagstæð fyrir Landssímann. Það er enginn hv. alþm., sem efast um það, að póst– og símamálastjóri, að yfirverkfræðingar Landssímans, að ráðunautur Landssímans og lögfræðingur, Sveinbjörn Jónsson, hafi viljað festa kaup á þessari eign, nema það samrýmdist hagsmunum Landssímans. Ég get gjarnan játað það hér, að ýmsir sjálfstæðismenn hafa átalið mig fyrir að hafa heimilað þessa sölu, vegna þess að þessi eign hljóti alltaf að hækka í verði og það hafi ekki verið ástæða fyrir Sjálfstfl. að láta hana af hendi, enda tók það nú heilan vetur eða meira að fá samþykki fyrir því í miðstjórn flokksins að selja þessa eign.

Til viðbótar því, sem hér hefur verið sagt og vitnað hefur verið í bréf og heimildir, tel ég rétt, með leyfi hæstv. forseta, að rifja upp þá grg., sem póst– og símamálastjóri gaf s.l. sumar í tilefni af blaðaskrifum, sem fóru fram um þetta mál. Þessi grg. var send öllum dagblöðunum. Og eitt veit ég, að ýmsir, sem töldu ástæðu til að gagnrýna þessi kaup, áður en þeir höfðu kynnt sér þau, hafa sagt við mig, að eftir að hafa lesið þessa grg., sjái þeir, að Landssíminn hafi gert góð kaup miðað við sölur á lóðum hér í miðbænum áður, þ.e.a.s. ef Landssíminn hafi not fyrir lóðina.

Það kom fram í blaðaskrifum í sumar, að það væri óeðlilegt og það hefði verið óhyggilegt á sínum tíma að setja Landssímastöðina hér niður í miðbænum, sem hlyti að vera dýrasti staðurinn. En ég hygg, að það hafi ekki út af fyrir sig verið af fyrirhyggjuleysi gert, heldur vegna þess, að frá þessum stað var hægast að dreifa Landssímanum, bæjarsímanum, út um bæinn, nú borgina. Í grg. póst– og símamálastjórnarinnar segir m.a. — þetta er þó ekki nema önnur grg. eða ein grg., þær voru víst tvær eða þrjár. Það var svarað því, sem hafði komið fram í blöðunum alveg sérstaklega, en ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hér aðalgrg., sem fram kom til upprifjunar og þá einnig til þess að fá þessa grg. inn í þingtíðindin vegna síðari tíma.:

„Í tilefni af blaðaskrifum, sem orðið hafa út af kaupum póst– og símamálastjórnarinnar á fasteigninni Thorvaldsensstræti 2 í Reykjavík, eruð þér góðfúslega beðnir að birta eftirfarandi grg.:

Núverandi símahús að Thorvaldsensstræti 4 var byggt fyrir 37 árum og var staðsett í miðju Reykjavíkur, þar sem flestir símar voru þá þar í kring. Þetta hús er löngu orðið of lítið og hefur orðið að flytja ýmsar deildir í leiguhúsnæði í aðra staði í bænum, þótt það væri mun óhagkvæmara. Þegar borgin byggðist langt austur á við, var byggð önnur símastöð við Grensás fyrir þá símanotendur, er búa þar í kring og eru rúmir 4 km á milli stöðvanna. Vegna vaxandi viðskipta, svo sem tvöföldun notenda á 10 árum, hefur orðið að auka húsrýmið, og er nú verið að reisa nýbyggingu að Thorvaldsensstræti 6, sem að vísu mátti ekki byggja nærri því eins stóra og áætlað hafði verið. Er nú aðeins um frekari stækkanir að ræða þarna með framtíðarviðbyggingu að norðanverðu á Thorvaldsensstræti 2, því að of dýrt þótti að kljúfa miðbæjarstöðina í tvennt, þ.e.a.s. hafa hana á tveim stöðum í miðbænum. Þar sem fréttir bárust um síhækkandi verð á næstu lóðum Landssímahússins, jafnvel upp í allt að kr. 43 þús. á hvern fermetra, þótti ábyrgðarhluti að draga lengur að reyna að ná viðunandi samningum um fasteignina Thorvaldsensstræti 2, þar sem búast mætti við, að t.d. við eignarnámsmat yrði að hafa hliðsjón af nýjustu fasteignakaupum í næsta nágrenni. Var að sjálfsögðu leitað samþykkis ráðh. um að hefja samningagerð og síðar að samþykkja það verð, er um gat samizt og póst– og símamálastjórnin og ráðunautar hennar töldu hagstætt.

Lóðin er 601.8 fermetrar að stærð, en brunabótamat hússins, sem á henni stendur og er vel við haldið, er rúmlega 12 millj. kr. Stærð lóðar í miðbænum er ekki eina atriðið, sem máli skiptir varðandi verðmætið, heldur m.a., hve mikið má byggja á henni samkvæmt skipulagi borgarinnar eða hve stóran samanlagðan gólfflöt má byggja á henni. Upplýst hefur verið, að á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg keypt ýmsar fasteignir í borginni og hafa hús á lóðunum þá verið keypt fyrir brunabótamatsverð þeirra, ef þau hafa verið í góðu ásigkomulagi, en annars tilsvarandi lægra verði, ef þau hafa verið mjög gömul og viðhaldsfrek. Lóðarverðið hefur farið eftir stað og aðstöðu og farið síhækkandi. Ríkisstj. keypti á síðasta ári fasteignir við Kirkjustræti nr. 8, 8b og 10 að sunnanverðu gegnt Landssímahúsinu. Áður hafði hún látið fara fram mat á þeim og var sá grundvöllur lagður við matið, að hver fermetri lóðar var metinn á kr. 12.150, en timburhúsin á þeim, Kirkjustræti 8, 57 ára gamalt, á 57% af brunabótaverði, en hin, sem voru eldri, á 40% af brunabótaverði. Hluti af verðinu, sem átti að greiðast á 10 árum, var reiknaður 25% hærri. Á fasteignunum við Kirkjustræti var veittur 10 ára gjaldfrestur á helmingi verðsins og var hver fermetri lóðarinnar þá hækkaður úr 12 þús. 150 kr. í 13.700 kr. og húsin tilsvarandi. Sami grundvöllur var notaður við mat fyrir kaup póst– og símamálastjórnarinnar á lóðinni Thorvaldsensstræti 6 og Thorvaldsensstræti 2. Verð lóðar og húss á Thorvaldsensstræti 2 var kr. 16 millj. 243 þús. og er þá miðað við, að 2 millj. kr. greiðist við undirskrift samnings, 2 millj. 619 þús. að 6 mánuðum liðnum, en það, sem eftir er, 71.2% verðsins á 10 árum. Ef um staðgreiðslu hefði verið að ræða, hefði verðið orðið um 13.9 millj. kr., sem má skipta í lóðarverð, 7.3 millj., húsverð 6.6 millj. eða um 55% af brunabótaverði. Meginhluti hússins er steinhús, 21–22 ára gamalt.“

Nú getur hv. 4. þm. Reykv. borið saman Thorvaldsensstræti 2, húseignina þar og Kirkjustræti, 57 ára gamalt timburhús. Þar var miðað við brunabótamatsverð 57%, en 55% í Thorvaldsensstræti 2. Samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar, bls. 146 og 150 má aðeins byggja lág hús, 1–2 hæða, sunnan Kirkjustrætis með samtals gólffleti á hæðunum ofan jarðar 50% meiri en lóðastærðin, þ.e. nýtingarstuðull 1.5 og þar sem lóðir nefndra þriggja húsa eru samtals 1.170 fermetrar að stærð, svarar það til, að byggja megi þar hús með samanlögðum gólffleti 1.755 fermetra ofan jarðar eða minni, en á Thorvaldsensstræti 2, sem er 2.000 fermetrar ofan jarðar. Lóðin, 693.5 fermetrar, sem póst– og símamálastjórnin hafði áður keypt að Thorvaldsensstræti 6, kostaði kr.121.50 hver fermetri og var það verð miðað við lóðakaup ríkisstj. norðan Kirkjustrætis, en þar mátti aðeins byggja á 781 fermetra samanlagðs gólfflatar og verður hver fermetri gólfflatar þar því talsvert dýrari, en í Thorvaldsensstræti 2. Það er því augljóst, að kaup á Thorvaldsensstræti 2 eru mun hagstæðari en á Kirkjustrætiseignunum.

Af framansögðu er ljóst, að miðað við gólfflöt, sem byggja má á, er Thorvaldsensstræti 2, sem nú var keypt, mun ódýrara á samanlagðan gólfflöt ofan jarðar, en á lóðunum sunnan Kirkjustrætis eða miðað við staðgreiðslu Thorvaldsensstræti 2 6.950 kr. á fermetra, en á Kirkjustræti 8 13.000 kr. á fermetra og á Kirkjustræti 8.b og 10 9.834 kr. á fermetra. Fyrir Landssímann er Thorvaldsensstræti 2 þá enn hagstæðara, vegna þess að sú lóð liggur alveg upp að núverandi húsi, sem hefur inngang, stigagang og lyftu við hliðina og þarf því ekki að byggja slíkt í fyrirhuguðu húsi og hafa má beinan aðgang að öllum hæðunum milli húsanna og sameiginlega gæzlu fyrir samliggjandi vélasal. Það má einnig benda á, að í Thorvaldsensstræti 2 þarf ekki að borga gatnagerðargjald, sem meta má 1.6 millj. kr. af svona byggingu. Það er, held ég, óþarfi að taka það fram öðru sinni, en ég geri það þó, að miðað við nýtingu lóðarinnar kostar fermetrinn í Thorvaldsensstræti 2 6.950 kr., í Kirkjustræti 8 13.000 kr. og í Kirkjustræti 8b og 10 9.834 kr. á fermetra. Þrátt fyrir þetta er gefið í skyn, að Landssíminn hafi gert slæm kaup á þeirri lóð, sem hér um ræðir.

Ef nauðsynlegt hefði orðið að leita annars staðar fyrir framtíðaraukningu miðbæjarstöðvarinnar, hefði það valdið miklum aukakostnaði, m.a. vegna aukinna jarðsíma milli stöðva, sjálfvirks búnaðar fyrir millistöðvagreiðsluna, aukins gæzlukostnaðar og margs konar annars óhagræðis. Taka má fram, að áður en kaupin voru gerð, hafði ýtarleg könnun farið fram á fasteignakaupum í miðbænum að undanförnu, og var það sameiginlegt álit allra, sem um málið fjölluðu, að hagkvæmt væri fyrir póst– og símamálastjórnina að gera þessi kaup.

Ég tel ekki þörf á að hafa þessi orð mikið fleiri. Það liggur fyrir, að miðað við kaup á lóðum á þessum reit er lóðin í Thorvaldsensstræti 2 mun ódýrari og þau kaup hafa ekki verið gagnrýnd. Kaupin á lóðunum í Kirkjustræti fóru fram eftir að mat hafði verið gert á þeim og það sögðu að vísu margir, að þetta væri hátt verð, en það vildi enginn gagnrýna það. Lóðin í Thorvaldsensstræti 6, sem Landssímastjórnin keypti á s.l. ári, var miðuð við þetta mat og lóðin í Thorvaldsensstræti 2 var einnig að nokkru leyti miðuð við þetta mat, en kemur síðar í ljós, að miðað við nýtingu hennar verður hún miklu ódýrari, en fyrrnefndar lóðir og við þetta bætist það mikla hagræði, sem Landssíminn hefur af því að geta byggt við gamla húsið.

Eins og segir í bréfi póst– og símamálastjóra er það brýn nauðsyn fyrir Landssímann að fá þessa lóð. Ég hafði ekki búizt við því, að hv. 1. flm. till. segði, að ég hefði metið meira hagsmuni Landssímans, en flokksins. En það eru kannske aðrir, sem segja, að það hefði verið hægt fyrir Sjálfstfl. að fá hærra verð fyrir þessa eign, ef beðið hefði verið með að selja.

Allshn. mun fá þetta mál til meðferðar. Með till. er farið fram á, að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd. Ég held, að það sé nú eðlilegast, að á það reyni, hvort hv. allshn. getur fengið þau gögn í hendur, sem hún óskar og hún telur nauðsynlegt að fá til þess að fá rétta mynd af þessu máli, áður en um rannsóknarnefnd er rætt. En ég er að sjálfsögðu ekki aðeins fús til, heldur er ég feginn því að eiga kost á því að láta allshn. og Alþ. í té allar þær upplýsingar og gögn um þetta mál, sem óskað verður eftir. Og ég tel alveg sjálfsagt, að n. kalli fyrir sig póst– og símamálastjóra, yfirverkfræðinga Landssímans, lögfræðing Landssímans og alla aðra, sem talið er, að geti gefið upplýsingar um þetta mál, til þess að hv. alþm. geti sannfært sig um, hvort Landssíminn hefur gert hér góð kaup eða hvort ég sem ráðh. hef misnotað aðstöðu mína og þvingað þessi kaup fram til hagsbóta fyrir Sjálfstfl.

Ég tel, herra forseti, að það sé ekki ástæða að svo komnu máli að segja öllu meira um þetta mál og bíð þá eftir því að sjá, hvort eitthvað nýtt kemur fram, sem gefur tilefni til þess.