20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3152)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þessi þáltill. var flutt af okkur 6. landsk. þm. í þríþættum tilgangi.

Í fyrsta lagi vildum við koma á framfæri hér á Alþ. gagnrýni á vinnubrögð hæstv. símamálarh. Sú gagnrýni hafði verið borin fram í blöðum og manna á milli. Hún var svo alvarlegs eðlis, að okkur þótti óhjákvæmilegt, að sú gagnrýni væri einnig flutt hér á hinu háa Alþ. Ég rakti þessa gagnrýni ýtarlega við 1. umr. málsins, en kjarni hennar er sá, að hæstv. ráðh. setti sig í þá aðstöðu að verða að taka ákvörðun, þar sem hann hafði hagsmuna að gæta beggja vegna. Hann tók lokaákvörðun um það fyrir hönd ríkisstofnunar, Landssímans, að kaupa tiltekna fasteign fyrir mjög hátt verð, yfir 16 millj. kr. og sá, sem seldi fasteignina, var Sjálfstfl., þar sem þessi hæstv. ráðh. er í forustu. Þannig var hæstv. ráðh. með nokkrum hætti bæði kaupandi og seljandi í þessum viðskiptum. Slíkur háttur er auðviltað ósæmilegur með öllu, og það er regla, að menn forðast að koma sér í aðstöðu sem þessa. Ef dómarar eiga t.d. að kveða upp dóma í málum, sem þeir eru tengdir á einhvern hátt, er það föst regla, að þeir úrskurða sig frá slíkum dómi. Þetta bar hæstv. ráðh. að sjálfsögðu að gera og þessari reglu ber að fylgja alveg án tillits til þess, hvort menn meta niðurstöður á einn hátt eða annan. Þetta er aðferð, sem sómakærir embættismenn eiga að fylgja og þeim ber að fylgja. Ég ræddi um þetta ýtarlega við 1. umr. Ég vil ítreka það hér nú og ég vil láta í ljós þá eindregnu von mína, að hæstv. ráðh. geri sér þessa staðreynd ljósa og það komi ekki fyrir hann framar að afgreiða mál á þennan hátt. Og slíkt hið sama tel ég, að aðrir ráðh. eigi að hafa í minni.

Annað atriði, sem við vildum vekja athygli á í sambandi við flutning þessarar þáltill. er, að hér á þingi er hafður einkennilegur háttur á annars vegar í sambandi við sölu fasteigna ríkisins og hins vegar við kaup. Ef seld er fasteign, verður að fjalla um það hér í frumvarpsformi við 6 umr. í báðum deildum. Hins vegar geta ráðh. tekið ákvarðanir um að kaupa eignir fyrir mjög hátt verð, án þess að það sé nokkuð borið undir Alþ., ef þeir hafa aðeins til þess rammaheimild. Í þessu sambandi má t.d. minna á, að undanfarna daga hefur Alþ. verið að fjalla um frv., sem heimilar að selja dálítinn blett, 230 – 400 m2 úr prestssetursjörðinni Hálsi í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Um þetta er rætt við þrjár umr. í hvorri þd., um þetta er fjallað á nefndarfundum, það er leitað álits margra manna og biskupinn yfir Íslandi sendi sérstakt bréf, þar sem hann fer fram á, að sóknarpresturinn fái að vera með í ráðum um það, hver upphæðin verði og hvernig hún verði notuð. Svona nákvæmni er viðhöfð í sambandi við slík mál og jafnvel slíka smámuni. En hæstv. símamálarh. getur keypt örlítinn blett hér í miðri Reykjavík fyrir 16 millj. kr., án þess að það sé borið undir Alþ. Og slíkt hið sama geta aðrir ráðh. gert að því leyti, sem slík mál heyra undir þá. Þetta eru vinnubrögð, sem eru gersamlega ótæk. Ég tel algerlega nauðsynlegt, að úr þessu verði bætt. Þarna verður að vera eitthvert samræmi á milli. Það verða að gilda hliðstæðar reglur um kaup og sölu á fasteignum og á þetta vildum við benda með flutningi þessa frv.

Í þriðja lagi var tilgangur till. sá að vekja athygli á þróun, sem hefur verið að gerast hér í Reykjavík og hefur haft mikil áhrif á mörgum sviðum, en þar á ég við þær óhemju verðhækkanir, sem orðið hafa á lóðum og fasteignum í miðborg Reykjavíkur. Þarna er um að ræða mjög stórfellda tilfærslu á fjármunum í þjóðfélaginu. Hv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að það væri rangt að orða þetta svo, eins og gert er í nál. minni hl., að hækkun á lóðaverði í miðborg Reykjavíkur hafi stuðlað að verðbólguþróun. Hann vildi meina, að þar væri einvörðungu um afleiðingu að ræða. En málið er ekki svona einfalt. Verðhækkanir á lóðum og fasteignum í miðborg Reykjavíkur hafa mjög mikil verðbólguáhrif og leiða m.a. til þess, að leiga fyrir verzlunarhúsnæði hefur hækkað óheyrilega og slík hækkun hefur auðvitað bein áhrif á verzlunar tilkostnaðinn. Einmitt þessi hækkun á lóðum í miðbiki Reykjavíkur hefur stuðlað ótvírætt að verðbólguþróun, jafnvel einstök húsakaup. Allir hv. þm. vita, að þegar Seðlabankinn keypti hér lóð fyrir verð, sem var mun hærra, en tíðkazt hafði fram að þeim tíma, leiddi það til snöggrar verðbreytingar á öðrum lóðum í miðborginni. Það stökk varð orsök að nýrri verðbólguþróun. Þarna fléttast saman orsakir og afleiðingar í sífellu og ég held, að engin ástæða sé til þess að telja þetta einvörðungu afleiðingu. Hins vegar eru áhrifin af þessu mjög alvarleg. Þau stuðla m.a. að því, að alls konar breytingar á skipulagi Reykjavíkur verða örðugri og örðugri. Það er ekki hægt að hagnýta slíkar lóðir, nema fyrir ákaflega fjársterka aðila og þá helzt til einhvers atvinnureksturs, sem skilar miklum arði. Ég geri ráð fyrir því, að hv. borgarstjóri Reykjavikur, sem nú er kominn til okkar, mundi geta greint rækilega frá þessu vandamáli, því að þetta er mikið og alvarlegt vandamál. Og þetta er að sjálfsögðu bakgrunnur kaupanna á Sjálfstæðishúsinu.

Á það hefur verið bent, að hægt sé að tilfæra dæmi um hlíðstætt verð og greitt var fyrir lóð Sjálfstæðishússins. Og það er alveg ótvírætt, að hægt er að benda á slík dæmi. En það breytir engu um það, að verðhækkunin á lóð Sjálfstæðishússins er algerlega óeðlileg, þó að hún sé í samræmi við hækkanir, sem orðið hafa á öðrum hliðstæðum eignum. Öll þessi þróun er óeðlileg og öll þessi þróun er andfélagsleg. Þessir aðilar, sem eiga þessar lóðir, hafa margir tekið þær í arf, þeir hafa ekki skilað þjóðfélaginu neinni félagslegri þjónustu. Þeir hirða aðeins afleiðingar af verkum annarra. Margir þeirra eru hreinir þiggjendur, hreinar, þjóðfélagslegar afætur. Þetta er sú tegund gróðasöfnunar, sem er einna ógeðfelldust af öllum. Og þetta vandamál er svo stórfellt, að það hefur lengi verið mikil nauðsyn, að það verði tekið föstum tökum og sett sérstök löggjöf um þessi efni. Slík löggjöf gæti verið á marga lund. Þar gæti verið um að ræða eignaupptöku, eignarnám. Þar gæti einnig verið um að ræða eftirlit með sölu á slíkum eignum, þar sem óeðlileg eignaaukning væri tekin til einhverra annarra þarfa, einhverra félagslegra þarfa. Það væri einnig hægt að hugsa sér, að lagður verði sérstakur verðbólguskattur á slíkar eignir.

Ég er ekki einn um að hafa þessa skoðun. Þessa skoðun hafa einnig menn í stjórnarflokkunum. Ég vil t.d. minna á, að Alþýðublaðið, annað aðalmálgagn hæstv. ríkisstj., birti forystugrein 16. ágúst í fyrra í tilefni af kaupunum á lóð Sjálfstæðishússins. Og þar komst Alþýðublaðið svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar er ástæða til að hafa gætur á þessum húsa– og lóðakaupum. Ár eftir ár hefur verð eignanna hækkað hröðum skrefum og verður því gróði þeirra, sem eiga gömlu húsin, meiri og meiri. Þetta er að sjálfsögðu óeðlilegur gróði, þar sem húseigendur þessir hafa ekkert til þess gert að auka svo verðmæti eignanna, heldur hefur vöxtur og skipulag borgarinnar valdið þar mestu um. Þjóðfélagið ætti að taka þennan óeðlilega gróða í sína vörzlu.“

Þetta var sú stefna, sem mörkuð var í Alþýðublaðinu. Og einmitt þess vegna lagði ég til í allshn., að málið yrði tekið upp á þessum grundvelli, vegna þess að ég gerði mér vonir um, að unnt mundi vera að ná samstöðu í n. um þetta sjónarmið. Það skiptir mestu máli, ef við þm. vekjum máls á vandamálum, að við getum þokað þeim áleiðis. Svo illa tókst til í n., að um þetta varð ekki samkomulag, en ég vil engu að síður gera mér vonir um, að samstaða um þessa aðgerð geti tekizt hér í hv. þd. og þdm. komi sér saman um að ákveða þessa könnun. Hún er ekki eins umfangsmikil og menn kunna að ímynda sér, vegna þess að þessi gögn eru tiltæk. Það er ekki neitt fjarskalega mikið verk að gera yfirlit yfir þessa þróun og síðan væri hægt að hagnýta það yfirlit til nýrrar lagasetningar, eins og t.d. þeirrar, sem ég var að geta um hér áðan.

Ég vil einnig minna þm. á, að þetta vandamál er tengt öðru vandamáli, sem mönnum er nú ofarlega í huga og það er sú stórfellda breyting, sem nú er verið að framkvæma í þjóðfélaginu á högum manna. Hæstv. ríkisstj. er að gera ráðstafanir, sem eru mjög nærgöngular við alla launamenn. Hún kveður það vera ætlun sína að skerða umsamið dagkaup launamanna, verkafólks, með 10 þús. kr. mánaðartekjur um allt að 20%. Þetta eru mjög alvarlegar efnahagsaðgerðir og það er gersamlega ósæmilegt að orða aðgerðir af þessu tagi, án þess að gerðar séu á sama tíma ráðstafanir til þess að láta þá, sem mest megna, bera sinn hluta af byrðunum í þjóðfélaginu.

Ég minntist á þetta í síðustu viku í sambandi við till., sem ég flyt um eignakönnun. Og ég minnti þá á ummæli, sem hæstv. forsrh. hafði hér á þingi fyrir rúmum tveimur árum, en þar sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt segi ég og við það skal ég standa, að ég skal aldrei verða með gengislækkun framar, nema því aðeins, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni, fái að borga sinn brúsa fyllilega.“

Þetta var fyrirheit hæstv. forsrh. Ég hef ekki séð neinar slíkar ráðstafanir. Hitt veit ég, að ef ekki verður að gert, munu þessar eignir í miðborg Reykjavíkur hækka mjög verulega í verði af völdum gengislækkunarinnar. Gengislækkunin, sem var framkvæmd núna síðast, mun færa eigendum þessara eigna milljónatugi án nokkurs tilverknaðar þeirra, án þess að þeir hafi lagt fram nokkuð til þjóðfélagsins. Slíkri þróun mega alþm. ekki una og því vil ég vænta þess, að samstaða takist hér í hv. þd. um að fallast á þann hátt, sem minni hl. allshn. leggur til, að þetta vandamál verði rannsakað.