20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ræða hv. ráðh. var býsna ruglingsleg og ekki til marks um samfellda hugsun, svo að ég þarf ekki að svara miklu úr henni.

Hann vildi halda því fram, að ég hefði breytt um afstöðu í þessu máli, ég hefði sannfærzt um það, að þessi viðskipti hefðu verið eðlileg með öllu og hagstæð í samanburði við annað. Ég útskýrði í fyrstu ræðu minni, að ég teldi þessi viðskipti algjörlega óeðlileg, þó að hægt væri að færa rök að því, að önnur viðskipti væru jafnóeðlileg. Ég bar sakir á hæstv. ráðh. vegna þeirrar aðstöðu, sem hann setti sig sjálfan í og því atriði svaraði hann ekki einu einasta orði, enda fæ ég ekki séð, að nein málsvörn sé hugsanleg til varnar slíkum vinnubrögðum. Menn eiga að forðast að standa að málum á þennan hátt og ég vænti þess, að þögn hv. ráðh. um það atriði sýni, að hann fallizt á það sjónarmið. Auðvitað er hægt að færa rök að því, að Landssími Íslands muni hagnast ekki síður en aðrir, sem eiga lóðir í miðborginni, á verðbólguþróuninni, þ.e. Landssíminn hagnast á henni, ef hann ætlar að braska með þessar eignir, en ég veit ekki til þess, að það standi til. Hagnaður manna af lóðum í miðborginni er annaðhvort af því, að þeir geta leigt þessar eignir með vaxandi verðlagi eða þeir geta hagnýtt sér verðbólguþróun til þess að græða á henni. Það var það sem Sjálfstfl. gerði, hann komst yfir þessa lóð fyrir lágt verð og seldi hana fyrir margfalt hærra verð, án þess að flokkurinn hefði nokkuð lagt fram þjóðfélaginu til gagns til þess að rökstyðja þau verðmæti, sem hann fékk þarna. En stofnun eins og Landssíminn, sem rekur þjónustustarfsemi, hefur auðvitað engan verðbólgugróða af einhverju hugsanlegu verði, sem er á lóðinni undir húsinu. Slíkt er aðeins bókhaldsatriði. Hins vegar verður Landssíminn að leggja á viðskiptavini sína þær 16 millj. kr., sem Sjálfstfl. fékk í sinn hlut. Það eru viðskiptavinir Landssímans, sem greiða þann kostnað.

Það, sem skiptir meginmáli í þessu sambandi, er auðvitað þessi þjóðfélagsþróun, því að hún hefur leitt til þess, að hundruð millj. kr. hafa flutzt til aðila, sem ekki hafa neinn þjóðfélagslegan rétt á að fá þessar fjárhæðir. Og þessi þróun mun ágerast, ef ekki verður spyrnt á móti og hún mun leiða til vaxandi vandamála hér í höfuðborginni, m.a. í skipulagsmálum borgarinnar.

Að rökstyðja þá afstöðu að fella beri till. minni hl. út af ágreiningi um það, hvort kalla eigi hækkun á lóðum orsök eða afleiðingu yfirgengur minn skilning. Ég held að orsök og afleiðing séu þarna fléttuð saman. Hvort sem menn litu á þetta sem orsök eða afleiðingu, breytir það engu um það, að þessu ástandi verður að breyta. Þarna verða félagsleg sjónarmið að koma í staðinn fyrir gróðasjónarmið og um það fjallar till. okkar.