18.11.1968
Efri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

53. mál, frjáls umferð Íslendinga á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Á þskj. nr. 60 flyt ég till. til þál. um frjálsa umferð Íslendinga að og frá aðalflugstöð íslenzka ríkisins á Keflavíkurflugvelli. Till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Efri deild Alþingis ályktar að skora á utanríkisráðherra að hlutast til um, að sérstakur vegur, afgirtur ef þess er talin þörf, verði lagður að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli og tryggður frjáls aðgangur Íslendinga sem annarra að og frá flugstöðinni. Þannig verði gengið frá málum, að tryggt verði, að þeir menn, sem erindi eiga í flugstöðvarbygginguna, þurfi ekki að hlíta eftirliti og leyfi bandarískra herlögreglumanna við aðalflugstöð íslenzka ríkisins.“

Herra forseti. Ég tel óþarfa að fara mörgum orðum um þessa till. Hún skýrir sig sjálf. Ég tel víst, að hv. þdm. hafi allir margoft komið í flugstöð ríkisins á Keflavíkurflugvelli og hafi því kynnzt aðstæðum af eigin raun. Í till. er reyndar kveðið á um, að lagður verði sérstakur vegur og þá væntanlega afgirtur að flugstöðvarbyggingunni. Auðveldara væri að sjálfsögðu að girða þann veg, sem fyrir er að flugstöðinni og fela varnarliðinu að leggja nýjan veg fyrir sig. Hvor leiðin yrði valin, skiptir hér engu höfuðmáli, ef málið verður leyst með viðunandi hætti. Framhjá því verður auðvitað ekki horft, að afgirtur vegur mundi sneiða í sundur varnarsvæði Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Þar ætti þó að vera auðvelt úr að bæta með því að hafa göng undir hinn afgirta veg til afnota fyrir varnarliðið eða þá hafa brýr yfir þann veg. Þá mætti einnig hugsa sér, að umferð varnarliðsins milli hinna sundurskornu svæða færi þannig fram, að farið yrði út fyrir aðalflugvallargirðinguna til að komast á milli svæðanna, en þar yrði ekki um ýkjamikla vegalengd að ræða.

Þessu máli hefur áður verið hreyft opinberlega. Ég ritaði t.d. í mitt blað um þetta mál sumarið 1966 og aftur vorið 1967, þar sem bent var á nauðsyn þess að leysa þetta mál og hve það mætti gera með auðveldum hætti. Hinn 9. ágúst 1967 var svo tekið undir þessar skoðanir í forustugrein Alþýðublaðsins, málgagns Alþfl. og hæstv. utanrrh., sem þá var formaður flokksins. Komst Alþýðublaðið þá m.a. svo að orði um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks er ófært, að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli sé lokuð af her– og lögregluverði. Hún verður að vera opin öllum.“

Síðan hefur ekkert heyrzt af þessu máli opinberlega, en þar sem hæstv. utanrrh. mun ekki á landi nú og ekki hér í d., getur hann við þessa umr. ekki gefið upplýsingar um, hvort eitthvað hefur verið aðhafzt í þessu máli, en ég vil beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að kanna, hvort eitthvað hafi verið athugað um þetta mál að undanförnu.

Það er auðvelt og kostnaðarlítið að leysa þetta mál með þessum hætti og það ætti að vera eðlilegt þjóðarstolt, sem hér knýr á. Það er vansæmandi að láta þessar eðlilegu og sjálfsögðu ráðstafanir dragast lengur úr hömlu, þar sem hér er um að ræða umferð að og frá aðalflugstöð íslenzka ríkisins.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.