23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

18. mál, lækkun tolla á vélum til iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi till., sem er flutt af okkur 7 þm. Framsfl., er á þá leið, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta nú þegar endurskoða tollal. með það fyrir augum, að innflutningstollar á efnum og vélum til iðnaðarins verði hinir sömu og nú eru á efni og vélum til fiskveiða. Strax og þessari endurskoðun er lokið, skal ríkisstj. leggja fyrir Alþ. frv. um breytingar á tollal. í samræmi við hana.

Ég tel, að það sé ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum um þessa till., því að hún skýrir sig nokkurn veginn sjálf. Það er mjög talað um það nú, að atvinnuleysi kunni að vera framundan og sérstakar ráðstafanir þurfi að gera til að koma í veg fyrir það. Það liggur í augum uppi af hverju þessi ótti stafar fyrst og fremst. Hann stafar fyrst og fremst af því, að við búum við mjög fábreytta atvinnuvegi, höfum veika undirstöðu, þar sem þeir eru, til þess að tryggja næga atvinnu. Þess vegna þurfum við að kappkosta að auka fjölbreytni atvinnuvega okkar sem allra mest og það verður ekki gert svo vel sé á annan hátt en að efla iðnaðinn, koma upp nýjum iðngreinum og styrkja þær, sem fyrir eru.

En aukinn iðnaður rís að sjálfsögðu ekki upp af sjálfu sér. Það verður að gera margháttaðar ráðstafanir til þess að það takmark náist, að hér verði starfandi fjölbreyttari iðnaður, en nú er og þær iðngreinar eflist, sem fyrir eru.

Þessi till. fjallar um eina af þeim ráðstöfunum, sem mundi stuðla að því, að iðnaður gæti aukizt og eflzt. Í þessari till. er gert ráð fyrir, að tollar á vélum og efni til iðnaðarins verði að mestu eða öllu felldir niður. Mér finnst rétt að geta þess í þessu sambandi, að iðnaður í nágrannalöndunum, sem við þurfum að keppa við, þarf yfirleitt enga slíka tolla að greiða, þ.e.a.s. tolla af vélum og efni, sem hann þarf að nota. Það gerir líka enn nauðsynlegra en ella, að lækka þessa tolla, að vegna hinnar öru tækniþróunar, sem nú á sér stað, þarf endurnýjun á vélum að gerast miklu hraðar en áður. Það er alltaf að koma ný og ný tækni til sögunnar og breytingar verða á vélum og við þurfum að geta fylgzt með því. Þess vegna er endurnýjun á vélakostinum miklu nauðsynlegri og þarf að verða hraðari en áður átti sér stað. En það kunna einhverjir að segja, að ef sú breyting yrði gerð á tollal., sem þessi till. fjallar um, mundi það verða til þess að rýra tekjur ríkissjóðs. Það er rétt, þær kunna eitthvað að skerðast við þessa breytingu, en það ber að athuga, að ef þetta yrði til þess, að atvinna ykist, þá mundu tekjustofnar ríkisins aukast og þannig kynni hann að fá það bætt aftur, sem hann tapaði um skeið, vegna þess að þessir tollar væru felldir niður.

Ég vil svo að síðustu nefna, að ríkisstj. og hennar flokkar munu hafa tekið ákvörðun um, að Ísland gerist aðili að EFTA, ef innganga fæst þar. Það liggur í augum uppi, að aðild að EFTA mun þrengja að iðnaðinum á margan hátt og þess vegna er nauðsynlegt nú þegar að hefjast handa um að undirbúa hann undir að verða færan um að mæta þeirri auknu samkeppni, sem þessu hlýtur að fylgja. Einmitt sú till., sem hér liggur fyrir, væri nokkur þáttur í því að gera íslenzkan iðnað hæfari til að mæta þeirri samkeppni, sem af aðild að EFTA mundi leiða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.