12.12.1968
Efri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er aðeins ein fyrirspurn, sem tilefni gefur til þess, að ég stend hér upp nú. Það var hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Austf., sem beindi þeirri fsp. til mín, hvernig þær reglur mundu verða, sem gert er ráð fyrir, að rn. setji samkv. frv. því, sem hér er nú til umræðu. Ég hélt nú sannast sagna, að þessi hv. og hófsami þm., sem er búinn að vera hér mun lengur á þingi en ég, hann hafi þekkt þá reglu betur en ég, hvernig reglugerðir eru samdar. Venjulega eru þær ekki samdar fyrr en frv. er afgreitt. Þetta veit hv. þm. Hins vegar skal ég honum til frekari stuðnings, eða fsp. hans til fullnægingar, benda á það, að hér á síðasta Alþ. voru mjög hliðstæðar heimildir eða réttara sagt kvaðir settar á sjútvmrn. um útdeilingu gengisfjár, og það hefur gengið alveg snurðulaust að koma því fyrir í samræmi við þær heimildir, sem þau lög veittu. Aðferðin til þess að móta þessar reglur hefur verið sú, að haft hefur verið samband við hlutaðeigandi aðila um þann gengiságóða og þá útdeilingu fjármuna, sem lögin gera ráð fyrir, og ég hygg, að frá þeirri reglu verði ekki vikið nú. Það muni gert nú eins og á undanförnum árum, og ferskasta dæmið er frá síðasta Alþ. Það er að minnsta kosti ákveðin skoðun mín að breyta ekki frá, enda gáfust þær leiðir vel og hefur ekki verið nein snurða á í framkvæmd.