11.11.1968
Neðri deild: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl., varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins, og mun minni hl. skila séráliti. Meiri hl. taldi ekki aðstöðu eða ástæðu til að skrifa langt nál. eða grg. Frv. er að mestu leyti um tæknileg atriði, sem nauðsynlegt er að lögfesta vegna ákvörðunar um breytt gengi íslenzku krónunnar, og gerði hæstv. forsrh. ýtarlega grein fyrir efni frv., þegar hann lagði það fyrir d. hér í dag. Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að staða sjávarútvegsins nú sé þannig, að ekki verði komizt hjá róttækum ráðstöfunum, ef hann á að geta haldið áfram með eðlilegum hætti. Menn greinir á um ástæðuna fyrir þessu, en ég hygg þó, að flestum liggi hún ljós fyrir, þar sem hjá því verður ekki komizt að viðurkenna, að við höfum því miður orðið fyrir verulegu verðfalli á erlendum markaði á framleiðsluvörum sjávarafurða, og einnig hefur verið um minnkandi aflamagn að ræða nú hin tvö síðari ár. Þetta hvort tveggja hlýtur að sjálfsögðu að leiða til þess að skapa þessari atvinnugrein mikla örðugleika, og þegar þannig er komið, hlýtur að koma að því, að allróttækar ráðstafanir verður að gera, ef sjávarútvegur og fiskframleiðsla á að geta haldið áfram með nokkuð eðlilegum hætti. Ég hygg, að um það atriði greini menn ekki mikið á, heldur sé ágreiningurinn aðallega og kannske eingöngu um, hvaða leiðir eigi að fara til úrbóta í þessu sambandi.

Sú ákvörðun, sem nú hefur verið tekin um að breyta gengi íslenzku krónunnar, hefur verið rædd hér ýtarlega á þingi í dag í umr. um það frv., sem hér liggur fyrir, og stjórnarandstaðan hefur talið, að sú leið væri ekki sú heppilegasta eða réttasta, sem átt hefði að fara. Vissulega komu til athugunar fleiri leiðir heldur en gengisfellingin. Var þar um að ræða þá leið, sem oft hefur verið farin áður, þ. e. uppbætur án gengisfellingar. Einnig hygg ég, að athugaðir hafi verið allir milliliðir, uppbætur með minni gengisfellingu, og einnig sú leið, sem nokkuð hefur verið rædd, niðurfærsluleið og uppbætur og bein kaupskerðing. Mönnum getur að sjálfsögðu sýnzt sitt hvað um þessar leiðir. A.m.k. tvær þeirra hafa verið reyndar áður, og ég hygg, að flestir séu nú sammála um það, að uppbætur í jafnstórum stíl og hér hefði þurft með, hefði ekki verið heppilegri leið heldur en gengisfelling. Ég hygg, að margir telji, að sú leið, sem valin hefur verið, muni frekar verða til þess að örva atvinnulífið í landinu heldur en ef farin hefði verið sú leið að halda sjávarútvegi og fiskvinnslu gangandi eftir einhvers konar uppbótakerfi. Það hefur komið hér fram hjá hv. Alþ., og reyndar mun það öllum ljóst, að í framtíðinni hlýtur að koma til þess, að sjá verður því vinnuafli, sem árlega kemur á markaðinn í vaxandi mæli, fyrir atvinnu, og ég hygg, að öllum sé orðið ljóst, að þær tvær aðalatvinnugreinar, sem nú eru í sambandi við útflutning, aðallega sjávarútvegur og landbúnaður einnig að nokkru, þessar tvær atvinnugreinar munu ekki verða til þess að taka við öllu því vinnuafli, sem á markaðinn kemur næstu árin. Ef gengisbreyting sú, sem nú hefur verið ákveðin, getur orðið til þess að örva nýjar atvinnugreinar, hvort heldur er í sambandi við frekari úrvinnslu á sjávarafurðum eða iðnað, þá verður að telja, að þar sé stefnt í rétta átt, því að það eitt getur orðið til þess að forðast atvinnuleysi hér í framtíðinni. Reynslan verður að sjálfsögðu að skera úr um það, hvort þetta tekst eins og til er ætlazt. Ég hygg þó, að allir aðilar, sem þetta hafa skoðað mest og skoðað bezt, séu sammála um það, að sú leið, sem valin hefur verið, sé líklegust til úrbóta fyrir sjávarútveg og fiskvinnslu og líklegust til úrbóta um, að hér verði sköpuð frekari atvinna og að til komi nýjar atvinnugreinar í sambandi við iðnað, sem gætu orðið að einhverju leyti undirstaðan undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í framtíðinni.

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.